Færsluflokkur: Menning og listir
20.4.2007 | 17:41
Eru U2 menn að tapa sér?
Það er erfitt að ímynda sér syngjandi Kóngulóarmann. Hvert ætla menn sér eiginlega með þessari vitleysu? Myndirnar um Kóngulóarmanninn eru vel heppnaðar og í raun mun betur heppnaðar en flestar myndir sem byggja á ofurhetjum. Sennilega er ástæðan sú að stór hluti myndanna snýst um vandamál Peter Parkers í daglegu lífi, en ekki bara um slagsmál við vondu mennina. Höfundar myndanna fylgdu þannig blöðunum um Kóngulóarmanninn í stað þess að tapa sér í endalausu ofbeldi. Nú ætla einhverjir sér greinilega að reyna að græða á vinsældum Kóngulóarmannsins og setja á svið sögnleik. Það er erfitt að átta sig á því hvers vegna U2, sem hingað til hafa varla misstigið sig á tónlistarferlinum, ætla að semja tónlist við svona vitleysu.
U2 sagðir semja tónlist fyrir söngleik um Kóngulóarmanninn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.3.2007 | 02:46
Grettir loksins aftur
Hinn frábæri söngleikur Grettir, eftir Ólaf Hauk Símonarson, Egil Ólafsson og Þórarin Eldjárn verður loksins aftur á fjölunum síðar í þessum mánuði. Verkið sló rækilega í gegn þegar það var sýnt fyrir 26 árum og fékk frábæra dóma gagnrýnenda.
Mér er það sérlega minnisstætt þegar ég fór á generalprufuna á þessum sterka og heilsteypta söngleik í Austurbæjarbíói í nóvember 1980, þá ellefu ára gamall. Ekki síður er mér minnisstætt þegar ég nuðaði í foreldrum mínum að fá að fara aftur á sýninguna nokkrum dögum síðar, með þeim í það skiptið.
Kjartan Ragnarsson náði að kveikja mikla samúð með þessari ólíkindahetju og Egill Ólafsson var mikill skelfir í hlutverki Gláms, íklæddur grænum níðþröngum satínbuxum með gaddabelti og axlabönd.
Það merkilega við Gretti er að efni verksins, skyndifrægð og afbökun raunveruleikans í fjölmiðlum, hefur sennilega varla átt við þegar söngleikurinn var frumsýndur fyrir 26 árum, en á sérlega vel við í dag. Því má eiginlega segja að hann eigi betur við í dag en þá.
Það varð mér því afskaplega mikið ánægjuefni að Rúnar Freyr leikstjóri og Guðjón Petersen leikhússtjóri skuli hafa haft samband við mig og óskað eftir aðstoð minni við að koma verkinu á framfæri við fjölmiðla á lokasprettinum. Þar sem ég hafði tíma til mánaðamóta er ég byrja í nýju starfi þáði ég þetta tilboð og starfa þessa dagana í Borgarleikhúsinu með Grettis-hópnum. Ég held að ég hafi bara aldrei verið í skemmtilegri vinnu.
Hér má finna lög úr uppfærslunni 1980, myndir og fleira gott.
Myndin er af Grettis leikskránni minni sem ég hef alltaf geymt.
Karl Pétur Jónsson
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 10:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.3.2007 | 14:39
Samviskubit og rödd guðs í manninum
Fátt er hvimleiðara og ónotalegra en samviskubit. Í vikunni var samviskubiti smeygt in um lúguna hjá mér. Þannig kemur samviskubitið stundum aftan að manni. En að þessu sinni var samviskubitið saklaust, - boðskort á opnun sýningar Ragnars Kjartanssonar sem ber einmitt þessa yfirskrift.
Útleggingin á orðinu samviska er afar skáldleg í Íslenskri orðabók Máls og menningar (1992): "Siðgæðisvörður vitundarinnar; rödd guðs í manninum..."
Ég er reyndar ekki viss um að guð komi málinu mikið við, að minnsta kosti ekki þegar ég iðrast einhvers. En kannski hefur rödd guðs ómað í huga þess manns sem samdi orðskýringuna.
Það væri einna helst að Ragnar Kjartansson væri guðinn sem talaði til mín. Eða Hannes Pétursson. Hann orti áleitið kvæði sem ber yfirskriftina Samvizka:
Ég hélt til skógar
undir há hvelfd þök
langt inn í söng
og sumar.
Gekk einstig og rjóður
undir rísandi sól
unz bar mig á slóð
blóðferil manns inn í þykknið...Nú líður á dag.
Ég hef leitað hins særða
sem á undan mér fer.
Ó fann ég of seint
sporaslóð hans?
Yrði hjálp mín til einskis?Nú líður á dag
og ég leita þessa manns.
Þorsteinn frá Hamri setti líka upp hatt Samvizkunnar:
Að vísu lýsir oss sólin
og sálirnar hjala
í svikulu trausti um skóginn
og villast um skóginn;
dagurinn líður
unz drýpur af trjánum blóðið
við götuna inní svefninn
og gegnum svefninn.
Ég myndi iðrast þess stórum ef ég færi ekki á sýningu Ragnar Kjartanssonar; samviskan myndi ekki þola það. Fyrir þá sem fylgja sporaslóðinni í leit að honum, þá er sýningin í galleríi i8.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 15:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.2.2007 | 14:20
Grátbroslegur eftirmáli og vinsældir slúðursins
Það er grátbroslegt að fylgjast með eftirmála fráfalls Önnu Nicole Smith. Það hreinlega dembast yfir okkur fréttirnar af því að heitar" deilur séu um setrið sem hún bjó á, aðdáendur Önnu Nicole tjái tilfinningar sínar á Netinu, að hún hafi notað fryst sæði eiginmannsins, þrír segist vera feður dóttur hennar, myndband sé til á netinu af því þegar hún er flutt á sjúkrahús, hennar sé ekki allsstaðar hlýlega minnst og ástmaðurinn hafi íhugað að ættleiða Önnu Nicole.
Þetta er með því reyfarakenndara sem maður hefur lesið og þetta er bara það sem birst hefur á Mbl.is. Og nú bætist við að fylgikvillar brjóstaaðgerðar kunni að hafa dregið hana til dauða.
Það sem er athyglisvert fyrir áhugamenn um fjölmiðla er að þetta eru jafnan mest lesnu fréttirnar á Mbl.is, þannig að fólk hefur raunverulegan áhuga og rúmlega það á að lesa um líf Önnu Nicole eftir dauðann. Þegar þetta er skrifað er næstvinsælasta fréttin á Mbl.is sú að birtar hafi verið myndir af Önnu Nicole Smith í faðmlögum við Shane Gibson, ráðherra innflytjendamála á Bahamaeyjum!
Auðvitað eru þessar miklu vinsældir slúðurfrétta ekkert einsdæmi; Íslendingar skera sig ekkert frá öðrum þjóðum hvað það varðar, þó að það sé nýbreytni hjá Mbl.is að mæla lesturinn með svo gagnvirkum hætti. En þetta hlýtur að vekja spurningar um forgangsröðun frétta í íslenskum fjölmiðlum, að minnsta kosti á vefnum. Þar virðast viðskiptafréttir til dæmis ekki mikið lesnar.
En sem betur fer fyrir geðheilsu landans sýnir hann öðrum "merkilegri" fréttum áhuga, þá helst skúbbfréttum eða forvitnilegum fréttum af innlendum og erlendum vettvangi. Þá var handboltinn afar vinsæll meðan HM stóð yfir. Og kannski er ég að oftúlka þennan áhuga á slúðrinu. Ef til vill sýnir þetta bara hversu víðsýnir Íslendingar eru orðnir í alþjóðavæðingunni; þeir eru meira að segja farnir að fylgjast grannt með stjórnmálum á Bahamaeyjum!
Pétur Blöndal
Fylgikvillar brjóstaaðgerðar kunna að hafa leitt Önnu Nicole til dauða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 14:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.1.2007 | 13:11
Skáld og forsætisráðherrar um áramót
Maður bíður alltaf eftir því með mestri óþreyju þegar nýr forsætisráðherra tekur við stjórnartaumum landsins hvaða skáldi hann tekur ástfóstri við í áramótaávörpum sínum. Og auðvitað er það þannig að skáld velja ekki forsætisráðherra heldur forsætisráðherrar skáld.
Löng hefð er fyrir því í Sjálfstæðisflokknum að vitnað sé í Hannes Hafstein skáld og fyrsta ráðherra þjóðarinnar. Það liðu varla áramót án þess að Davíð Oddsson kallaði hann til samfylgdar inn í nýtt ár.
En Geir H. Haarde mælti þjóðinni mót við nýtt skáld í gærkvöldi þegar hann sagði: Áramót boða birtu og nýjar vonir framundan. Í nýrri bók sinni túlkar Hannes Pétursson þessa tilfinningu með glæstri ljóðmynd:
Seint gleymist sólarkoma
eftir svartasta skammdegi:
gulir eldar
við efstu fjöll!
Í niðurlagi ræðu sinnar talaði Geir um skáldið Jónas Hallgrímsson: Töfrar málsins í ljóðum Jónasar snerta strengi í brjósti sérhvers Íslendings. Segja má að hvar sem lokið er upp í ljóðasafni Jónasar glitri á perlur. Margt af skáldskap hans er lifandi á vörum okkar, hvort sem við höfum lært hann í barnaskóla eða síðar á ævinni. Kvæðið alkunna, Ég bið að heilsa, er gott dæmi um þetta:
Nú andar suðrið sæla vindum þýðum,
á sjónum allar bárur smáar rísa
og flykkjast heim að fögru landi Ísa
að fósturjarðar minnar strönd og hlíðum.
Þetta fallega kvæði, sem yljað hefur mörgum um hjartarætur, tvinnar saman íslenska arfleifð og evrópska menningu. Það er óður til fósturjarðarinnar en undir erlendum bragarhætti, fyrsta sonnettan sem ort er á íslensku."
Geir er maður tónlistarinnar og þess vegna lætur hann ekki hjá líða að geta tónskáldsins: Mörgum áratugum eftir andlát Jónasar Hallgrímssonar fæddist sá maður sem átti eftir að gefa þessu kvæði annað líf, tónskáldið góða, Ingi T. Lárusson. Lag Inga T. hefur greypt kveðju Jónasar heim til Íslands í hug og hjörtu okkar Íslendinga. Þessara tveggja listamanna er gott að minnast í kvöld."
Davíð Oddsson minntist Jónasar Hallgrímssonar raunar í áramótaávarpi sínu árið 2002. Þá sagði hann að Jónas hefði ort margt og yrkisefnin verið ólík. En þegar vel er að gáð glittir í ást hans á ættjörðinni í nánast hverju kvæði. Og það er hvergi úr stíl. Það er ekki merki um þjóðrembing og mont, þótt við látum, eins og Jónas, eftir okkur að það glitti í ást okkar á landi og þjóð í nær sérhverju verki sem við tökum að okkur og hvað sem við annars höfum fyrir stafni á nýja árinu. Fyrir rúmum hundrað árum orti 18 ára gamall piltur á þessa leið til landsins síns:
Ef verð ég að manni, og veiti það sá,
sem vald hefur tíða og þjóða,
að eitthvað ég megni, sem lið má þér ljá,
þótt lítið ég hafi að bjóða,
þá legg ég að föngum mitt líf við þitt mál,
hvern ljóðstaf, hvern blóðdropa, hjarta
og sál.
Halldór Ásgrímsson gerði Einar Benediktsson að skáldi Framsóknarflokksins í sínum tveimur ávörpum. Og Matthías Jochumsson kemur við sögu í ávarpi Davíðs árið 2004: Hvað boðar nýárs blessuð sól?" spurði sr. Matthías forðum, og sama hugsun býr nú með okkur, hverju og einu.
Hún boðar náttúrunnar jól,
hún flytur líf og líknarráð,
hún ljómar heit af Drottins náð.
Þannig svaraði skáldið sjálfu sér. Matthías þurfti enga spádómsgáfu til þess að gefa þetta svar. Þetta var ekki spá, heldur vissa. Sr. Matthías hafði, þegar þarna var komið, sigrað efann sem ásótti hann stundum forðum. Hann var kominn fyrir þann vind. Honum var borgið, í öruggri vissu þess að:
Í hendi Guðs er hver ein tíð
í hendi Guðs er allt vort stríð
hið minnsta happ, hið mesta fár
hið milda djúp, hið litla tár
Í almáttugri hendi hans
er hagur þessa kalda lands,
vor vagga, braut, vor byggð og gröf,
þótt búum við hin ystu höf.
En það er ekki hægt að fjalla um áramótaávörp án þess að Hannes Hafstein fái að njóta sín í orðum Davíðs og mörg áramót sem koma til greina. Höldum áfram með árslok 2004, þar sem Matthías hefur þegar arkað fram á sviðið í upphafi ræðunnar. Síðar slæst Hannes Hafstein í för með honum, sem kom vígreifur til starfa í gamla Landshöfðingjahúsinu við Bakarabrekku:
En þegar Hannes Hafstein horfði út um gluggann sinn í hinu nýja stjórnarráði vissi hann ekki aðeins, rétt eins og við nú, að margt var ógert. Við honum blasti, hvert sem litið varð um landið, að það var nánast allt ógert. Samt ljómaði hann í sál og sinni þennan febrúarmorgun árið 1904. Af hverju? Af því að hann skynjaði að loksins var fengin forsendan fyrir framförum í því landi, sem svo lengi hafði staðið í stað. Og hver var hún forsendan sú? Frelsið. Frelsið var aflgjafinn sem svo lengi hafði vantað. Daufar vonir höfðu vissulega blundað með þjóðinni og hún átt drauma og þrár, en frumkvæðisrétturinn og framkvæmdaskyldan hvíldu ekki á réttum herðum fyrr en með heimastjórninni. Eignir þjóðarinnar voru ekki miklar og aflið virtist ekki beysið en það dró ekki móð úr fyrsta ráðherranum sem vissi í hjarta sínu að nú voru vatnaskil. Þetta skynjaði gamli skáldmæringurinn fyrir norðan líka, þar sem hann sat í Sigurhæðum. Úr bréfum hans til Hannesar Hafsteins má lesa væntingar hans - jafnvel sigurvissu, nú þegar þau lögðust á eitt, forsjónin, frelsið og hinn stórhuga skarpgreindi skáldbróðir hans, sem falið hafði verið að hlaupa fyrsta spottann í langhlaupi hennar úr örbirgð til betra lífs. Forskot annarra þjóða á Íslendinga mældist ekki í metrum, heldur í áratugum eða öldum, en það gilti einu, því nú var Ísland komið af stað og hljóp loks með kyndil sinn á eigin forsendum.
Hannes mat hvatningarbréf sr. Matthíasar mikils. Hann var ekki orðinn ráðherra Íslands er hann svarar einu bréfanna meðal annars með þessum orðum.
Við þurfum trú á mátt og megin,
á manndóm, framtíð, starfsins guð,
þurfum að hleypa hratt á veginn,
hætta við óláns víl og suð,
þurfum að minnast margra nauða,
svo móður svelli drótt af því,
þurfum að gleyma gömlum dauða,
og glæsta framtíð seilast í.
Og Davíð klykkir út með: Forystuhæfileikar Hannesar Hafsteins, óbilandi kjarkur hans og bjartsýni, sefjandi sigurvissa gagnvart hvers kyns erfiðleikum var orkugjafi þjóðarinnar í upphafi nýrrar aldar. En meira að segja slíkir eiginleikar hefðu dugað skammt ef viðspyrnan, sem frelsið gaf, hefði ekki fengist. Þess er okkur hollt að minnast á þessum tímamótum. Því baráttunni um frelsið er ekki lokið og lýkur aldrei, þótt hún hafi breyst. Og nú er vandinn við að varðveita það og efla flóknari en nokkru sinni fyrr. Því nú er ekki lengur við fjarlægan, óbilgjarnan, erlendan andstæðing að eiga sem sameinar þjóðina til átaka. Nú snýr baráttan inn á við. Nú er við okkur sjálf að eiga og það er snúnara. Við þurfum sjálf að gæta þess að sá aflvaki og þróttur sem í frelsi manna býr fái að njóta sín. En frelsið verður gagnslítið, ef það er aðeins fárra en ekki fjöldans. Ef við kunnum ekki með það að fara, misnotum það eða misbeitum, þá þrengir smám saman að því, uns svo er komið að það skiptir engu, hvort rót þess er nær eða fjær, í Kvosinni eða Kaupmannahöfn. Þá værum við komin aftur á byrjunarreit."
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 17:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
21.12.2006 | 16:52
Teiknimyndir fyrir börnin - sjúkur heimur
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 16:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.12.2006 | 08:33
Krummi og Kertasníkir
Það er alltaf verið að gera manni auðveldara að styrkja góð málefni og um leið tilveruna skemmtilegri. UNICEF stóð fyrir degi rauða nefsins og með því að kaupa geisladisk með Baggalúti er maður að gera góðverk, - hjálpa börnum í sárri neyð.
Og svo fær maður glaðning eins og þann sem Íslandsbanki, uh Glitnir, sendi viðskiptavinum sínum, gjöf sem er valin og unnin í samráði við Styrktarfélag lamaðra og fatlaðri og allur ágóði rennur til þess. Þar er fléttuð saman íslensk hönnun Siggu Heimis og kvæði eftir Sjón, hvort tveggja gerir skil Kertasníki, sem kemur til byggða á aðfangadag jóla, síðastur jólasveinanna þrettán. Óróinn fæst einnig í Casa og þar rennur ágóðinn einnig til þessa þarfa málefnis.
Sjón hefur eins og flestir málsmetandi höfundar verið gestur lestrarfélagsins Krumma með skáldsögu sína Skugga-Baldur og auðvitað þykir krummum vænt um að vera að einhverju getið í kvæðinu, sem byrjar þannig:
i
lausamjöll leikur um fótspor í snjó
hó! hver var hér?
var það krummi þó með skarðan skó?
var það skollan mjó með veiðikló?
hó! hver var hér?
það var sá sem hljóp í burt og hló
hó!
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 11:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.12.2006 | 16:11
Er þetta ekki svolítið klént, Jón Viðar?
Jón Viðar Jónsson leikhúsgagnrýnandi fer mikinn í nýju tölublaði Ísafoldar. Þar skrifar hann ritdóm um leikritið Amadeus undir yfirskriftinni Afturganga í Borgarleikhúsinu. Hann gefur leikritinu eina stjörnu og svo sem ekkert nema gott um það að segja. Um að gera að menn lýsi skoðunum sínum á þeim uppfærslum sem færðar eru á fjalir; leikhúsið þrífst á slíkri umræðu.
En Jón Viðar gengur lengra en það, rífur niður leikstjórann sjálfan og mælir með því að Hilmir Snær svipist næst um eftir "öðrum leikstjóra en Stefáni Baldurssyni. Sem stendur hefur Stefán því miður ekkert að gefa íslensku leikhúsi."
Jón Viðar segir einnig um Stefán að hann hafi í fyrri daga gert "mjög þokkalega hluti" en enginn lifi endalaust á fornri frægð. Og raunar vísar fyrirsögn greinarinnar til þess að Stefán sé afturgangan í Borgarleikhúsinu. Jón Viðar spyr: "Afturganga hvers? Sem þjóðleikhússtjóri var Stefán Baldursson oft - og alveg réttilega - gagnrýndur fyrir að reka einhvers konar stjörnupólitík á sviði leikhússins"
Þetta eru kaldar kveðjur frá leikhússunnanda til manns sem hefur fært íslensku leikhúsi margt spennandi í gegnum tíðina, bæði sem leikhússtjóri og leikstjóri. En látum það vera.
Undarlegt og nánast sögufölsun er hinsvegar að halda því fram að Stefán hafi ekkert að gefa íslensku leikhúsi, Hilmir Snær eigi því að snúa sér annað. Svo vill nefnilega til að síðast þegar þeir félagar unnu saman héldu gagnrýnendur vart vatni og Íslendingar flykktust í Iðnó á yfir 50 sýningar á Ég er mín eigin kona. Og sú sýning var á fjölunum síðastliðið vor, ekki er lengra síðan. Varla reyndist það yfirsjón hjá Hilmi Snæ að leika undir stjórn Stefáns sem Charlotte von Mahlsdorf og 34 aðrar persónur í leikritinu; hann fékk grímuverðlaun fyrir besta leik í aðalhlutverki.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 16:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.12.2006 | 09:21
Hvað lærir maður af því að láta pissa á sig?
Í gær skrifaði Börkur fínan pistil hér á vefinn um uppákomu sem átti sér stað í Listaháskóla Íslands fyrr í vetur. Þegar ég velti þessari uppákomu fyrir mér kemst ég að þeirri niðurstöðu að það hlýtur að vera hluti af vangaveltunum að uppákoman var hluti af skólaverkefni á fyrsta ári í LHÍ. Börkur kallar verkið gjörning en nær lagi væri að kalla það leikþátt, þar sem umræddir nemendur er að læra leiklist.
Nemar á fyrsta ári, í hvaða háskólanámi sem er, eru venjulega eða ættu að vara að læra grunnþætti í viðkomandi fagi. Undirstöðu sem þeir byggja síðan ofan á þar til öllu saman lýkur með útskriftarverkefni. Það að pissa á fólk í einhverju námsverkefni á fyrsta ári er ekki list heldur bara kjánalegt. Ættu nemendur á fyrra misseri fyrsta árs ekki að vera að fást við eitthvað annað en að pissa hver á annan? Hvað nákvæmlega lærir maður af því að pissa á fólk eða með því að láta pissa á sig? Ég hef ekki leitað nákvæmlega en ég er nokkuð viss um að pissukúrsinn er ekki að finna í námsskránni.
Þetta verkefni gefur þá mynd af kennslunni að hún virðist vera nokkuð stjórnlaus og snúast um að nemendur geri það sem þeim sýnist. Kennarinn hefði átt að grípa inni í og til að svara því strax þá er það ekki ritskoðun. Hlutverk kennara í listaskóla er að leiðbeina og kenna, þannig að nemendurnir geti að námi loknu orðið einhverskonar listamenn. Ef við jöfnum þessu við annað háskólanám þá er það ekki talin ritskoðun hjá kennara þegar hann leiðbeinir nemendum um efnistök í ritgerðum, eða gerir athugasemdir við ritgerðir eða verkefni. Það er t.d. ekki boðlegt að skila heimildaritgerð sem byrjar á orðunum í þessari ritgerð ætla ég ekki að byggja á heimildum, heldur eigin hyggjuviti.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 09:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.12.2006 | 21:10
Rithöfundar á blogginu
Bloggið er löngu orðið bókmenntagrein. Ótal rithöfundar að gefa sjálfir út efni á hverjum degi. Einn þeirra sem ég hef fylgst með í gegnum tíðina er Ívar Páll Jónsson blaðamaður sem heldur úti vefnum Eddie Murphy loads his own gun. Hann iðkar stílbrögð sem ég hef séð fleiri beita á Netinu, stuttar athugasemdir, stundum í einni setningu, sem bregða skemmtilegu ljósi á tilveruna. Hann skrifar 19. nóvember:
"Það er auðvelt að gera sér í hugarlund hvað á sér stað í Sogskálanum í Hveradölum."
Þannig leikur hann sér oft að margræðni orða, svo sem í færslu 11. nóvember:
"Ég spurði Konráð bróður minn áðan hvort hann notaði ekki alveg örugglega konþráð. Hann svaraði með orðinu já, sem þýðir að hann hlýtur að hafa verið með konþráðinn í eyrunum þegar spurningin var borin upp."
Og hann getur líka verið beittur, eins og í tilkynningu 15. nóvember:
"Bein útsending verður á vef umhverfisráðuneytisins frá ræðu Jónínu Bjartmarz umhverfisráðherra á ráðherrafundi Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í Kenýa kl. 8 í fyrramálið. Í tilefni af því hefur verið skipulagt fjöldasjálfsvíg á Players í Kópavogi, þar sem ræða ráðherra verður sýnd á skjánum á meðan viðstaddir skera sig á háls."
Auðvitað er Ívar Páll aðeins einn af mörgum hugmyndaríkum pennum á vefnum og gaman væri að fá ábendingar um fleiri. En það er spurning hvenær farið verður að skrifa ritdóma og gera fræðilegar úttektir á bloggsíðum, jafnvel einstökum færslum. Það væri verðugt verkefni að gera brautryðjendum skil á þeim vettvangi en einnig að hampa þeim höfundum sem rísa hæst.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 21:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
krummi
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (10.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- annapala
- arnih
- arnljotur
- begga
- birgitta
- bjarnihardar
- bleikaeldingin
- davidlogi
- don
- ea
- fararstjorinn
- feministi
- gattin
- geislinn
- grettir
- halldorbaldursson
- hallkri
- handsprengja
- handtoskuserian
- hannibalskvida
- herdis
- hlynurh
- hof
- hoskuldur
- hrollvekjur
- hugsadu
- hux
- ingibjorgelsa
- jonasantonsson
- kaffi
- kiddirokk
- kjarninn
- kjoneden
- kolgrima
- listasumar
- ljonas
- lostintime
- maggaelin
- magnusb
- malacai
- maple123
- nosejob
- pallvil
- ragnhildur
- reni
- ruthasdisar
- seth
- sigurgeirorri
- stebbifr
- steinibriem
- theld
- tulugaq
- vefritid
- vglilja
- vinursolons
- vitinn
- arniarna
- gisliblondal
- skak
- athena
... ... ... ... ... ... ... ... ...