Færsluflokkur: Menning og listir

Bólbeitur og íslensk tunga

james_bond_11Á síðasta krummafundi var rætt um vægi orða, eins og Friðjón nefnir í bláu appelsínunum. Þess vegna er vert að benda á að í tilefni af degi íslenskrar tungu hefur Námsgagnastofnun efnt til samkeppni undir yfirskriftinni „Nýyrði vantar". Andrés Magnússon kemur reyndar með þá ótímabæru athugasemd, sem hann sérhæfir sig raunar í, að engin af þeim enskuslettum sem taldar eru upp feli í sér merkingu sem ekki sé til orð yfir á íslenskri tungu.

Engu að síður er þetta verðugt verkefni fyrir krummafélaga að spreyta sig á, enda bókaverðlaun í boði og er mælst til að tillögu eða tillögum sé skilað fyrir 27. nóvember. Spurt er um casual fatnað, crossover tónlist, að deita, fusion-eldhús, nickið á MSN, outlet-búð, að skeita, trendsetter í tískunni og wannabe rokkstjörnu.

Nýyrðatalið rifjar upp grein um „pick-up"-línur sem undirritaður skrifaði í Morgunblaðið í febrúar árið 1997 undir yfirskriftinni „Bólbeitur". Ég fékk krummann Kristján Leósson til liðs við mig og við bjuggum til nýyrði yfir „pick-up"-línur, enda ekkert íslenskt orð til þeirrar merkingar. Bólbeita varð ofan á og önnur orð sem komu til greina voru ísbrjótur, brókarlykill, tökuorð og rúmmál.

Það er ánægjulegt að sjá orðið skjóta upp kollinum aftur núna. Svo virðist sem íslenskufræðingur hafi grafið það upp og nefnt í útvarpsþætti í apríl í fyrra. Orðinu er síðan hampað á glúbbi stúlku frá Fáskrúðsfirði, notað skýringarlaust í dagbók ritarans Gísla og 16 ára nemi í Hrísey sem lifir lífinu lifandi skrifar:

Vorum að horfa á þátt sem heitir "How I Met Your Mother" .. .SNILLD;D en talandi um það.. hafiði heyrt talað um "Bólbeitu" ?:D hahaha.. þau sögðu þetta í þættinum ..;) Eða þúst, þetta var þýtt þannig, snilld!:D Fyrir ykkur sem fattið ekki, þá átti þetta að þýða "Pick-up lína" :D hahaha! bólbeita. Mér fannst þetta snilld..;)

Nokkur dæmi um bólbeitur voru gefin í fyrrnefndri grein:

  • „Fyrirgefðu, hvaða bólbeita virkar best á þig?" 
  • „Geturðu nokkuð hjálpað mér að finna lyklana að nýja Rollsinum mínum?"
  • „Ég sakna bangsa. Vilt þú sofa hjá mér?"
  • „Það hlýtur að vera eitthvað að augunum í mér. Ég get ekki litið af þér."
  • „Þetta er happadagurinn þinn. Það vill svo vel til að ég er á lausu."
  • „Bond. James Bond."

Af höfundi Lolitu

Ég heimsótti Kristján Karlsson skáld í dag og barst Vladimir Nabokov í tal. Hann var vinsæll fyrirlesari við Cornell þegar Kristján var bókavörður við íslenska safnið í Íþöku, sem kennt er við Fiske. Kristján nefndi að í skáldsögu Nabokovs Pale Fire eða Bleikum eldi láti hann glæpamann flýja inn á safnið.  

Áður en bókin kom út hafði frú Vera Nabokov, sem var mikil fegurðardís, lagt leið sína á safnið. En þá gaf hún bókunum lítinn gaum, var meira að skoða landslagið, gá út í hornin og rýna í króka og kima. Kristján er sannfærður um að hún hafi verið að athuga staðarhætti fyrir manninn sinn, rithöfundinn. Og sýnir þetta vel að bókaskrif eru verk margra, þó að einn sé skrifaður fyrir þeim.

Ennfremur segir Kristján að í sögunni búi Nabokov til konungsríki nyrst í Evrópu "og mér finnst hann stundum vera að tala um Ísland". 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband