Hvað lærir maður af því að láta pissa á sig?

Í gær skrifaði Börkur fínan pistil hér á vefinn um uppákomu sem átti sér stað í Listaháskóla Íslands fyrr í vetur. Þegar ég velti þessari uppákomu fyrir mér kemst ég að þeirri niðurstöðu að það hlýtur að vera hluti af vangaveltunum að uppákoman var hluti af skólaverkefni á fyrsta ári í LHÍ. Börkur kallar verkið gjörning en nær lagi væri að kalla það leikþátt, þar sem umræddir nemendur er að læra leiklist.

Nemar á fyrsta ári, í hvaða háskólanámi sem er, eru venjulega eða ættu að vara að læra grunnþætti í viðkomandi fagi. Undirstöðu sem þeir byggja síðan ofan á þar til öllu saman lýkur með útskriftarverkefni. Það að pissa á fólk í einhverju námsverkefni á fyrsta ári er ekki list heldur bara kjánalegt. Ættu nemendur á fyrra misseri fyrsta árs ekki að vera að fást við eitthvað annað en að pissa hver á annan? Hvað nákvæmlega lærir maður af því að pissa á fólk eða með því að láta pissa á sig? Ég hef ekki leitað nákvæmlega en ég er nokkuð viss um að pissukúrsinn er ekki að finna í námsskránni.

Þetta verkefni gefur þá mynd af kennslunni að hún virðist vera nokkuð stjórnlaus og snúast um að nemendur geri það sem þeim sýnist. Kennarinn hefði átt að grípa inni í og til að svara því strax þá er það ekki ritskoðun. Hlutverk kennara í listaskóla er að leiðbeina og kenna, þannig að nemendurnir geti að námi loknu orðið einhverskonar listamenn. Ef við jöfnum þessu við annað háskólanám þá er það ekki talin ritskoðun hjá kennara þegar hann leiðbeinir nemendum um efnistök í ritgerðum, eða gerir athugasemdir við ritgerðir eða verkefni. Það er t.d. ekki boðlegt að skila heimildaritgerð sem byrjar á orðunum “í þessari ritgerð ætla ég ekki að byggja á heimildum, heldur eigin hyggjuviti”. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér fannst þessi gjörningur með ólíkindum á sínum tíma. Verri, þegar ung stúlka í LÍ kom fram og sagði að við hin gætum bara ekki haft skoðun því við skildum ekki móralinn í leikaradeildinni, hann væri svo sérstakur og svo mikil nánd. Nánd?! Í afkimum opinbers skólastarfs? Svo kemur Börkur og segir að stúlkan hafi þróast úr fársjúkum anorexíusjúklingi í mikinn listamann??? Þetta verður æ óhugnanlegra.

 

Það getur vel verið að stúlkan sé mikill listamaður, drengirnir skapaháralistaklipparar og fagurfræðilegir áfólkpissarar. Og allt eins líklegt að gjörningurinn hafi verið frábær, fullur af dásamlegum, bókmenntafræðilegum táknum og sagnfræðilegum vísunum í Gúlagið,  Helförina, Brúðuleikhúsið og Twiggy, svo augljós og yfirborðsleg dæmi séu tekin, dýpkaður með sálfræðilegu og þerapísku ívafi til að vera settur í sammannlegt samhengi á nýrri öld…

 

En skóli er skóli og nemendur eru nemendur og skólastúlkur eiga ekki að vera allsberar í kennslustundum. Það er ekki faglegt.

StS (IP-tala skráð) 7.12.2006 kl. 12:10

2 Smámynd: Hjalti Már Björnsson

Ég veit samt ekki hvað var asnalegra, vitleysan í nemendunum eða að enginn sem rætt var við af starfsfólki skólans treysti sér til að lýsa því yfir að svona ætti ekki að gera.  Enginn þorði að eiga á hættu að vera stimplaður þröngsýnn og hafa ekki skilning á háþróaðri nútímalist.

Það versta við þetta að nú þegar enn er verið að ræða málið eru eflaust margir til sem flokka þetta sem list, bara af því að það vakti athygli og umræður. 

Hjalti Már Björnsson, 7.12.2006 kl. 19:37

3 Smámynd: Börkur Gunnarsson

mig langar til að æla þegar ég les þetta - "flokka þetta sem list, bara af því að það vakti athygli og umræður", ef gjörningurinn er framkvæmdur þannig að hann sé að vitna til sjálfshaturs og niðurlægingu eigin líkama og þannig verið að færa okkur til hryllings anorexíunar þá er hann með stoð í viðbjóð nútímans en ekki í því að hafa vakið athygli.  og hvað er að því að gjörningurinn hafi verið með ólíkindum einsog sts skrifar?  það er margt með ólíkindum í þessum heimi.  ég skil vel að fólki sé illa við að fá viðbjóðinn framan í sig - ég er meira fyrir það að fólk haldi pisseríi og kúkadæmum inni á klósettinu en ég skil að einhverjum finnist mikilvægt að draga það útaf klósettinu til að tjá heim sem ég hvorki þekki né hef skilning á.  ég á aldrei eftir að skilja anorexíu og þær þjáningar sem það fólk gengur í gegnum.  ég á aldrei eftir að skilja það fólk sem hatar líkama sinn og sker sig fyrir framan spegilinn eða níðist á sér, því mér líkar bara best við að einhver klappi mér og strjúki.  en það að einhver vilji tjá þann ömurleika finnst mér skiljanlegt.

Börkur Gunnarsson, 8.12.2006 kl. 15:46

4 Smámynd: Hjalti Már Björnsson

Ja, af hverju nauðguðu þeir ekki bara stúlkunni.  Með hennar "samþykki".  Fyrst þeir voru að tjá þjáningu hennar og leyfa heiminum að skilja hvernig vanlíðan er og hugarheimur sjúklinga virkar.

Það er hluti náttúru okkar að sumir hlutir snerti okkur djúpt og það hefur líklega þróunarlegan tilgang.  Það að skítalykt þyki almennt vond og flestir kjósa að forðast skít er þróað í mannin til þess að hann verði síður fyrir sýkingum.  Á sama hátt vekur það sterk viðbrögð ef höfuð er sprengt af manni eða eitthvað annað sýnt sem felur í sér hættu.  Náttúran hefur byggt í okkur að verða hrædd og bregðast við.

 List á að snúast um að vekja áhrif og tilfinningar, að vekja til umhugsunar og fá okkur til að skilja nýja hluti.  Það á að vera hægt að gera með öðrum leiðum en að höfða eingöngu til frumstæðustu hræðsluviðbragða.  Vissulega geta listamenn oft notað óhugnað til að koma áhrifum til skila, en hjá mörgum þeirra er ekkert á bak við verkið annað en ógeðið.  Persónulega finnst mér þá ekki lengur vera hægt að kalla málið list.  

Berki er frjálst að æla að vild.  Ég túlka það bara sem að honum sé óglatt en ekki sem listrænan gjörning sem tjáir ógleðitilfinningar listamannsins.

 Hvort pissumálið hafi verið útpæld tjáning á þjáningu listamannsins eða bara skólakrakkar að leggja nemanda í óvenju háþróað einelti er eitthvað sem skólayfirvöld verða að finna út úr sjálf.

Hjalti Már Björnsson, 8.12.2006 kl. 23:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband