Færsluflokkur: Bloggar

Upplýsingatækni og framþróun samfélagsins

Það er auðvitað æðislegt að átta ára börn geti sent sms-skilaboð til sessunautar í stærfræðitíma. Að unglingar sitji heilu og hálfu dagana við tölvuskjáinn að skipuleggja líf fabríkekaðrar tölvufígúru. Skelfileg er sú minning þegar fólk þurfti að tjá meiningu sína munnlega, auglitis til auglitis. Guð blessi GSM, MSN, Skype og EVE-Online, skammstafanir framtíðarinnar. Það liggur því í hlutarins eðli að upplýsingatæknin endurpegli FRAMþróun hjá okkur mannfólkinu. Því fleiri tæki, því minni samskipti, því meiri hamingja. Er það ekki annars? Svar óskast með sms eða á msn!!!


Leynifundir í eldhúsinu

Það er absúrd að lesa frétt eftir frétt þar sem kemur til stympinga milli barna og foreldra á heimilum vegna tölvunotkunar og lögreglan er kölluð til. "Foreldrar unglingspilts voru orðnir fullsaddir á óhóflegri tölvunotkun hans og gripu til aðgerða."

Maður sér þetta alveg fyrir sér, þar sem foreldrarnir hittast á leynifundum í eldhúsinu og tala í lágum hljóðum dögum og jafnvel mánuðum saman. Þau ákveða síðan einn daginn að láta til skarar skríða, læðast í átt að lokuðu unglingaherberginu, ryðjast inn á unglinginn sem á sér einskis ills von og taka beinirinn (routerinn) úr sambandi. Veröld unglingsins hrynur og til að forðast heimsendi bregst hann af offorsi við þessari óvæntu hryðjuverkaógn úr raunheimum, sem ekki var skrifuð inn í forritið.

Þetta minnir dálítið í Tortímandann, fyrir utan að í þeim myndum kemur ógnin úr framtíðinni. Eru tölvur kannski framtíðin? Í báðum tilfellum eru það vélarnar sem eru að taka yfir heiminn og aðeins nokkrar hugrakkar manneskjur standa í veginum.

En þetta er ekkert gamanmál og foreldrar eiga að láta sig málið varða. Ég talaði við Snæfríði Njálsdóttur, sem rekur meðferðarheimili fyrir unglinga að Árbót, fyrir sunnudagsblað Morgunblaðsins 21. janúar síðastliðinn og þar sagði hún: "Mér finnst synd að horfa upp á krakka, sem eru varla komnir inn um dyrnar áður en þeir eru sestir við tölvuna og búnir að einangra sig frá fjölskyldunni. Tölvan er jafnvel eini vinur þeirra."

Ég spurði í síðustu færslu hvort bloggvinir væru vinir í alvörunni. Er ekki ákjósanlegt að eiga einhverja vini í raunheimum líka?


mbl.is Stympingar vegna tölvunotkunar unglingspilts á höfuðborgarsvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

af hrímþursum

nú hefur gunnar birgisson í kópavoginum vakið mikla athygli með nýjasta útspili sínu er hann sendi jarðýturnar á trén og skógræktarsvæðin í landi sínu.  í umræðunni sem hefur skapast standa allir á öndinni af hneykslan, sama úr hvaða flokki það kemur eða hvaða þjóðfélagsviðhorf það hefur.  nú er aðför gunnars að trjám að sjálfsögðu hneykslanleg, virðingarleysið gagnvart þeirri ástríðu sem fólk hefur gagnvart gróðri og gróðursetningu skelfileg og hörð viðbrögð þess fólks skiljanleg.  en ég get ekki annað en viðurkennt að einhver púki sem býr í manni finnst þetta líka svolítið fyndið.  þetta er eitthvað svo brútal, eitthvað svo á skjön við allan pólitískan rétttrúnað að gera svona að púkar fara að glotta.  ég veit ekki hver hefur fóðrað þennan púka, kannski var það sjö þúsundasta ræða vigdísar finnbogadóttur í sjö þúsundasta skiptið sem hún gróðusetti eitthvað jólatré uppi á öræfum og flutti svo hjartnæma ræðu um atvikið að fólki fannst sem gróðursetning hennar jafnaðist á við það stærsta sem mannsvitið hefur afrekað.

en ljóst er að maður má ekki fóðra svona púka.  maður verður að svelta þá.  því ástríðan sem fólk hefur lagt í trjágróður er sambærileg við hvaða aðra ástríðu, hvort sem það er við vinnu sína, hjónaband, fjölskyldulíf eða áhugamál.  og að senda jarðýtur og skurðgrafir á afrakstur slíkrar ástríðu er náttúrulega algjörlega ótækt.


Hálfvitar

Það er sjaldan sem viðeigandi er að nota orðið “hálfvitar” í opinberri umræðu.  Það á þó vel við þegar rætt er um einstaklinga frá ELF - Earth Liberation Front sem heimsóttu Ísland nýlega. 

Samkvæmt því sem stendur á heimasíðunni: http://www.savingiceland.org/taxonomy/term/41 voru framkvæmd skemmdaverk hér á landi í janúar.  ELF menn stæra sig að því að hafa valdið umtalsverðu tjóni á framkvæmdum sem þegar væru hafnar við stækkun álvers ALCAN. 

 

Skemmdirnar voru hins vegar unnar á byggingarsvæði Ístaks sem er að vinna að því að minnka mengum við fjörur landsins með því að byggja skólpdælustöð.  Framkvæmdirnar koma ALCAN alls ekkert við, enda ekki byrjað að byggja við álverið og verður vonandi aldrei.

Hér hefur ekki bara verið valdið tjóni á eignum verktakans, heldur einnig tjóni á mikilvægum málstað verndunarsinna.  Allir eiga að hafa rétt til að mótmæla, en skemmdarverk eru ekki mótmæli. Ég vona að Hafnfirðingar beri gæfu til að stoppa þreföldun á álverinu sem kjósa á um á næstunni.  Á Íslandi vantar ekki fleiri störf og sannarlega ekki meiri mengun.  Frekari útþenslu í þungaiðnaði þarf að mótmæla, en það þarf að gerast samkvæmt lögum og reglum samfélagsins.    

 

Svona aðgerðir eru bara hreinræktaður glæpur.

Má rannsaka hvort hægt sé að breyta kynhneigð?

Loksins má segja að réttindabaráttu samkynhneigðra á Íslandi sé að mestu lokið.  Allir eru jafn réttháir hvort sem þeir eru gagnkynhneigðir, samkynhneigðir, tvíkynhneigðir eða hverjar sem hneigðirnar eru.  Þeir eru fáir eftir sem ekki er sama hvað aðrir aðhafast í sínum svefnherbergjum eða hvar sem þeir kjósa að stunda kynlíf.   

Skurðaðgerðir til að breyta líkamlegu útliti þykja sjálfsagðar og sem betur fer er meira að segja orðinn almennur skilningur á nauðsyn þess að bjóða upp á kynskiptaaðgerðir fyrir þá einstaklinga sem líður eins og þeir hafi fæðst í líkama af röngu kyni.   Slíkt er óumdeilanlega vandamál sem þörf er á að veita meðferð við, enda á fólk á að vera frjálst til að lifa sínu lífi og fara með sinn eigin líkama að vild.

Til að fyrirbyggja allan misskilning við umræðu um þetta mál vil ég taka skýrt fram að ég hef nákvæmlega ekkert á móti samkynhneigðum og styð alla réttindabaráttu þeirra heilshugar, enda sjálfsögð mannréttindi að hver geti hagað sínu kynlífi að eigin óskum á meðan aðrir hljóta ekki skaða af.

Ég vil samt velta upp þeirri fræðilegri spurningu hvort eitt atriði í réttindabaráttu varðandi kynferðismál hafi ef til vill orðið útundan: Hvað ef einhver er samkynhneigður en vill ekki vera það?  Eða hvað ef einhver er gagnkynhneigður en vill vera samkynhneigður?   Eða tvíkynhneigður?  Getur verið að það þyki réttlætismál að bjóða upp á meðferð til að breyta líkamlegu kynferði en tabú að bjóða upp á meðferð til að breyta kynhneigð?

Ef eitthvað hefur verið opnað inn á að meðhöndla kynhneigð hefur það yfirleitt verið gert af siðblindum trúarofstækismönnum og byggt á fordómum.  Nú ber hins vegar svo til að í BNA er búið að vinna að rannsóknum á að draga úr samkynhneigð meðal hrúta.  Í sauðfrjárræktinni þar vestra mun um 10. hver hrútur vera samkynhneigður og hefur verið fundin upp leið til þess að meðhöndla ærnar á meðgöngu til að draga úr líkum á því.  Í framhaldi af því er farið að hugsa um hvort svipaðri meðferð sé tæknilega hægt að beita hjá mannfólkinu þó svo sannarlega sé ljóst að engin slík meðferð sé til í dag, þrátt fyrir að einstaka trúblindir hræsnarar haldi því fram.    Eins og búast mátti við ekki eru allir sáttir við þessa þróun. 

Reyndar er það óendanlega langt frá áhugasviði mínu innan læknisfræðinnar, en sem læknir á ég erfitt með að sjá af hverju ekki á að vera hægt að skoða með opnum huga möguleikann að veita meðferð sem hefur áhrif á kynhneigð.  Þó það sé sannarlega ekki hægt í dag er aldrei að vita hvaða leiðir vísindin opna.  Fólk hlýtur alltaf að eiga rétt á að vera eins og það vill.  Hvað ef einhver er gagnkynhneigður en vill undirgangast meðferð til að vera tvíkynhneigður og tvöfalda þannig líkur sínar á að ganga út?  Ég bara get ekki séð réttlætið í að banna einhverjum sem hugsanlega gæti viljað undirgangast slíka meðferð að gera það.  Ef einhver getur útskýrt fyrir mér af hverju þjóðfélagið ætti að banna eða fordæma slíka meðferð óska ég vinsamlegast eftir útskýringum á því á athugasemdakerfinu.

Vissulega er sá möguleiki fyrir hendi að meðferð við samkynhneigð geti aukið á fordóma gegn samkynhneigð, að fleiri verði haldnir þeim misskilningi að hér sé um sjúkdóm að ræða fyrst hægt væri að meðhöndla.  En, sú skoðun væri þá fordómar, ekki upplýst álit, og fordómar eru eitthvað sem samkynhneigðir hafa verið allra einstaklinga öflugastir við að berjast gegn.

 

 


aðeins of mörg spillingarmál...

...í gangi þarna. forsetinn sakaður um kynferðisglæpi, forsætisráðherrann um spillingu, yfirmaður hersins var rekinn fyrir klúður í líbanon og núna yfirmaður ísraelsku lögreglunnar vegna tengsla sinna við glæpahringi? hvað er að gerast þarna? 

það verður fróðlegt að fylgjast með framgangi allra þessa mála en í huga mér hef ég tengt ísrael við flest annað en svona spillingu. frekar við eldheitan hugsjónaeld, baráttuanda en jafnframt misnotkun á stöðu sinni í samfélagi þjóða í mið-austurlöndum og fantaskap og mannréttindabrot gagnvart palestínumönnum auk þess sem þeir eru þolendur reglulegra hryðjuverka og eru lýðræðisríki sem lifir við það að nágrannar þeirra vilja þurrka þá út af yfirborði jarðar.

en hvað sem framgangur þessara mála leiðir í ljós að þá má ekki gleyma því að þetta er lýðræðisríki sem beinir ljósinu að meinsemdum sínum. rétt einsog þeir sem ólust upp í kalda stríðinu upplifðu að þá komu nánast aldrei fréttir af glæpum, morðum, nauðgunum eða pyntingum frá sovétríkjunum en þær voru stanslausar frá lýðræðisríkinu bandaríki norður ameríku. staðreyndin var náttúrulega á hinn vegin að glæpirnir voru jafnvel meiri í sovét - bara þaggaðir niður. 


mbl.is Yfirmaður ísraelsku lögreglunnar segir af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

firring nútímans

_41927736_bear_france_416_afpÍ gömlum ritum eru víða fjálglegar lýsingar af fegurð hernaðarmannvirkja einsog hárra borgarmúra eða kastala. En óvarin þorp eða borgir fá iðulega slæmar lýsingar. Ástæðan er augljós þarsem háir borgarmúrar táknuðu vernd og öryggi fyrir fjölskyldurnar. Þegar innfyrir múrana var komið með fjölskylduna var fyrst hægt að anda léttar, hættan á árásum frá bandíttum og bófaflokkum var liðin hjá. Fegurðarskyn fólks var fyrst og fremst tengt öryggistilfinningu, velferð, heilbrigði eða mat, enda lítill tími til að njóta umhverfis síns þegar maður er stöðugt að leita að ógninni í því.

Hið ótrúlega langa friðartímabil á vesturlöndum hefur haft þau áhrif að upp eru komnar kynslóðir sem líta á öryggið sem sjálfsagt. Aðallega vegna þess að hinir gríðarlegu hernaðaryfirburðir vesturlanda veita okkur algjört öryggi. Öryggið er sjálfsagt við núverandi aðstæður. Þau örfáu þúsund manna sem hafa fallið á vesturlöndum vegna hryðjuverka er bara smáprósenta í samanburði við þá sem falla í bílslysum, morðum eða veikindum. Hryðjuverk ógna ekki lífi vesturlandabúa sem stendur og engin hernaðarógn steðjar að þeim. Sem stendur ógna hryðjuverk fyrst og fremst hagsmunum efnahagslífsins. Þetta hefur leitt til mikilla breytinga í hvernig fólk horfir til hers og hermanna á vesturlöndum. Áður var horft með lotningu á hermennina ganga hjá, því nálægð fólks við hættur heimsins var mikil og öryggið sem hermennirnir veittu var áþreifanlegt. Fegurð herflokka var mærð. Í dag horfir maður forviða á smástráka í heimskulegum búningum og skilur ekkert hversvegna í ósköpunum þessi grey hafa valið jafn asnalegt starf. Byssurnar sem þeir hengja um axlir sér virka einsog heimskuleg leikföng. Gegndarlausir hernaðarlegir yfirburðir vesturlanda hafa búið okkur svo öruggt samfélag að í raun þýðir nálægð vopna alltaf frekar hættu en öryggi í samfélagi okkar. Sú upplifun fólks í öruggu samfélagi hefur leitt til þeirrar firringar að vera á móti hermönnum og hernaðaryfirburðum eigin samfélags (samfélagi vesturlanda) sem veitir í raun þetta öryggi. Sú firring mun aðeins aukast með árunum.

Þegar ég var með stjúpdóttur mína í dýragarðinum í Kaupmannahöfn og hún teygði hendur sínar í gegnum grindina í átt að sæta ísbirninum sem var í tveggja metra fjarlægð frá henni varð mér hugsað til þess að hún mun aldrei kynnast þeirri náttúrulegu grimmd sem býr í villidýrum. Hún teygði smáar hendur sínar í átt til dýrsins. Hún er ekki nema nokkur kíló, þegar hún er reið og slær mann þá finnur maður varla fyrir því, hún gæti ekki varist ketti eða mús sem myndi ráðast á hana. Í tveggja metra fjarlægð var hundrað kílóa ísbjörn, með beinsterkar klær, tennur sem gætu rifið menn í sundur og styrkleika til að brjóta hvert bein í líkama manna. Á fjórtándu öld eyddi einn ísbjörn nánast allri byggð í dal á ströndum, það var á annan tug karlmanna, kvenna og barna. Stjúpdóttir mín mun aldrei kynnast því afþví að hún þarf það ekki. Hún mun aldrei kynnast ísbirninum á annan hátt en sem sætum og skemmtilegum í dýragarðinum eða sem syngjandi og dansandi í teiknimyndum Disneys. Við höfum byggt okkur það öruggt samfélag hér á vesturlöndum að við þurfum ekki að óttast þau. Aftur á móti eru samfélög úti í heimi sem eru ekki svo örugg og missa menn við árásir dýra og drepa dýr sér til varnar. Það verður alltaf algengara og algengara að fólk á vesturlöndum finni frekar til með dýrunum sem fólk í þessum samfélögum drepa því það skynjar ekki ógnina sem fólk í óöruggari samfélögum lifir við. Sú firring mun bara aukast með árunum.

Public affairs hetjur og almannatengsla sérfræðingar víkinganna á 9. öld sem fundu þetta land og fóru aftur til Noregs til að fá fólk til að koma til Íslands voru með sín slagorð. Öflugasta auglýsinga slagorðið var "þar drýpur smjör af hverju strái!" Mörg önnur voru öflug einsog að landið væri skógi vaxið (nóg af byggingarefni) og nóg að bíta og brenna. Augu Norðmanna opnuðust fyrir fegurðinni í smjörinni sem draup af stráum hér og fólk streymdi til landsins. Auglýsingasérfræðingar nútímans reyna líka sitt til að fá fólk til landsins. Nú eru slagorðin "Fire and ice!", hér spúa fjöll eldi og brennisteini sem leggur jarðir í eyði, hér er frost og snjór svo mikill að ekki sést í stingandi strá tíu mánuði ársins! Það er skemmtilegt að hugsa til þess hvernig það hefði virkað fyrir víkingana að segja fólkinu í Noregi að koma til Íslands með loforði um eldgos, brennandi hrauneðjur og svo gegndarlausan kulda að aðeins sé sambærilegur við hel. Norðmenn hefðu hryllt sig við og ekki getað séð fegurðina í því. Bleik tún fengu Gunnar á Hlíðarenda til að snúa við og fara hvergi. Hann sagði ekkert um Kárahnjúka, hann sagði ekki: "Hér eru hamrar, melar og móar, hér vil ég deyja úr hungri og horfa á fjölskyldu mína veslast upp eða deyja í eldi, brennisteini eða kulda". Auðvitað duga þessi slagorð betur í dag, þarsem allir geta bara keypt smjör útí næstu búð fyrir hundrað kall og nenna ekki að þvælast á milli landa til að horfa á smjör leka af stráum.Við höfum búið okkur svo öruggt samfélag að eitthvað fólk sem við ekki þekkjum kemur bygginu í brauðið okkar og smjörinu fyrir í búðinni þannig að við getum alltaf gengið að því vísu. Þannig hefur fegurðarskynið okkar breyst í þessum lúxus. Sama gildir um virkjanir. Þegar Íslendingar voru molbúar og lifðu við eymd í myrkri Íslands mestan hluta ársins við veikan yl af eldi, dýrum og mönnum - en mest þó bara í skítakulda - þá var magnað að sjá menn byggja virkjanir. Menn störðu í aðdáun á byggingarnar og mærðu fegurð mannvitsins og hamingjunnar sem þessi mannvirki færðu þeim. Ljós komu í bæinn, hiti og hlýja. Við höfum byggt okkur svo öruggt samfélag að sérhver manneskja hér á landi býr í hlýju húsi með ljósi. Bæði ljós og hiti er mögulegur allan sólarhringinn. Þá fengu þeir orður, hrós og voru hugsjónamenn sem færðu ljós og hita inní hús - byggðu virkjanir. Í dag plana hugsjónamenn árásir sínar gegn sjónmengun og hljóðmengun í vel hituðum húsum sínum, með ljósin kveikt og eru sæmdir orðum og hrósi. Nýta ævi sína í ljósi og hita í baráttu gegn sjónmengun og hljóðmengun. Ef einhver afturgengin forfeðra okkar skyldi rekast á þennan texta þá ætla ég mér og honum til gamans að endurtaka þessi orð fyrir hann: sjónmengun og hljóðmengun. Ég veit að honum þættu þau svo fyndin. Firring samfélags sem færist sífellt fjær skítalyktinni í beljunum, taðinu í túnunum, svitanum og tárunum sem virkjanir kosta, tengslunum milli þess lúxus sem við lifum við og hvernig hann er tilkominn er eðlileg. Fólki er vorkun. Rétt einsog Mariu Antoinette var vorkunn þegar hann sagði um hungraðann almenninginn að fyrst hann gæti ekki fengið brauð ætti hann þá bara að borða kökur. Við lifum í Mariu Antoinette þjóðfélagi. Firringin er eðlileg, því það er ekki hægt að skýra út fyrir manneskju sem fær alltaf kökurnar sínar og brauðið sitt uppí hendurnar að það hafi reyndar kostað svita og tár annarra manna að koma þessu uppí hendurnar á henni. Það er ekki hægt að skýra út fyrir henni að þótt hún fái alltaf bæði kökur og brauð að þá fá flestir bara brauð og ef brauðið er ekki til eru tæpast kökur til. Það er ekki hægt að skýra út fyrir henni hvernig samfélagið virkar því hún lítur á öryggi sitt sem sjálfsagt, en skilur ekki að það eru hermenn sem veita henni þetta öryggi, hún skilur ekki að það er fólk í ljótum bakaríum, sveittir og ógeðslegir sem baka brauðið hennar og kökurnar, Maria Antoinette skilur ekki að þegar hún fer uppá fjall til að mótmæla virkjun eða stíflu þá notar hún álsúlur til að koma tjaldinu sínu upp, hún er vernduð af lögreglunni og hjálparsveitir bíða í viðbragðsstöðu ef hún skyldi slasa sig sem er allt borgað af vinnandi fólki, góðu efnahagsástandi. Í dag er fólk orðið svo firrt að það kallar það firringu að finnast virkjun eða stífla falleg. Sú firring mun aðeins aukast með árunum.

 

 


Falleg vopn

bb64faNýlega var ég staddur í Norfolk í Virginíufylki í BNA, um 300 km suður af Washington á austurströndinni.  Það var ekki fyrr en ég kom þangað sem ég áttaði mig á því að staðurinn er kallaður Norfuck af innfæddum, enda nokkur suðurríkjahreimur á þessu svæði.  Eitt af því fáa sem ég vissi um staðinn var að þarna væri flotastöð, sem reyndar mun vera ein sú stærsta á jörðinni. 

Þegar ég fletti ferðamannabæklingum um borgina sá ég að mikið var fjallað um starfsemi hersins og þetta var augljóslega ein af skrautfjöðrum svæðisins.  Meðal þess vinsælasta er að skoða stríðsskipið Wisconsin og safn um dásemdir ameríska flotans. 

Það fyrsta sem ég sá eftir að ég var kominn upp landganginn og inn í flugstöðina var í þessum stíl, myndin sem er hér til hliðar.  Íbúar Norfolk eru augljóslega stoltir af öflugum vopnum sínum og finnst þetta vera falleg leið til þess að bjóða fólk velkomið til borgarinnar.

Einhverra hluta vegna er greinilega ekki hugsað mjög langt þegar myndin var hengd upp.  Ef verið er að skjóta úr fallbyssum hlýtur sprengjunni að vera beint að einhverju og líklegast er henni ætlað að eyðileggja mannvirki og sprengja sundur fólk.  Í flugstöðinni var engin mynd af eyðileggingunni þar sem sprengjur lenda. 

Frá sjónarmiði læknis er enginn munur á sundursprengdum líkama hvort um er að ræða fallinn óvin í stríði eða fórnarlamb umferðarslyss.   Mér finnst álíka smekklegt að vera stoltur af stórvirkum morðvélum sínum eins og að hengja upp stórar myndir af vettvangi umferðarslyss í flugstöðinni.  Ekki falleg leið til að bjóða fólk velkomið og skapa réttu stemninguna.

Þetta er gott dæmi um hvernig allt verður að menningu ef því er haldið að fólki.  Til eru þeir sem sjá fegurðina í stórvirkum vinnuvélum og meira að segja til fólk sem er svo firrt að því þykir stór stífla úti í náttúrunni falleg.  Ég vann einn sinn hjá Landsvirkjun og kynntist ófáum slíkum þar. 

Hermennska byggir á að hugsa ekki sjálfstætt heldur hlýða yfirboðurum skilyrðislaust.  Í menningarheimi hermannsins þykir sjálfsagt að beita ofbeldi til að leysa vandamál og réttlætanlegt að drepa til þess að vinna að markmiðum ríkisins.  Ef hér verður tekin upp herskylda má gera ráð fyrir því að þjóðin breytist þannig að þessi gildi verði meira áberandi í þjóðarsálinni.  Sjálfstæð hugsun og sköpunargáfa hlýtur að líða fyrir.

Íslendingar hafa hingað til borið gæfu til þess að vera nánast alveg lausir við menningu hermennskunnar.  Vonandi verður svo áfram.  


er dómarinn algjörlega orðinn snar?

það er hægt að hafa vorkunn með þessum dómurum sem útskrifuðust úr lögfræðinni einhverntímann á sjöunda áratug síðustu aldar að þeir hafi ekki vit á nútíma viðskiptum, en að þeir stöðvi yfirheyrslur í miðri spurningu saksóknarans er algjör bilun. þeir hefðu verið góðir í að fara yfir enron málið - "já, nei, þetta er of mikið, of langt, of flókið - hættum þessu!"
mbl.is Dómari stöðvaði skýrslutöku saksóknara í Baugsmálinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Týpískt nútíma próblem...

...að þegar ég las fréttina fyrst var ég í sjokki yfir því hvernig nútíma þjóðfélag getur gert manneskju það að vera í fangelsi í 24 ár af ævi sinni. það var eiginlega það eina sem komst að við fyrsta lestur þessarar fréttar um þennan gamla terrorista sem hugsanlega var ekki að framkvæma sín illvirki af tómri illsku heldur útaf vanhugsaðri góðvild sem leiddi til illsku.

síðan las ég þessa frétt aftur en varð hugsað til þess saklausa fólks sem var myrt af þeirra völdum og jafnvel þeirra höndum og allt í einu varð ég pirraður yfir því að þessir morðingjar myndu fá sín ár til að anda að sér því ferska lofti sem er hér, horfa á fólkið í kringum sig og njóta lífsins - einmitt það sem þeir neituðu sínum fórnarlömbum um.

þetta er svolítið erfitt. svolítið flókið. 

ég held manneskjan sé oft einsog ég. ég vil fyrirgefa þessu fólki og veita því frelsi, skilja og fyrirgefa. það er eitt af mikilvægustu dyggðum samfélagsins. En ég verð að viðurkenna að ef þetta fólk hefði drepið foreldra mína eða börnin mín, þá myndi ég líklega ekki fyrirgefa neitt.  


mbl.is Baader-Meinhof meðlimi veitt reynslulausn eftir 24 ár á bak við lás og slá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband