Færsluflokkur: Bloggar

Kúgaða kynið?

Eftir að hafa prófð sjálfur að vera í fæðingarorlofi hefur skoðun mín á jafnréttisbaráttunni breyst talsvert.  Hingað til hefur það verið talað um að konur hafi "þurft" að vera heima hjá börnum en karlmennirnir getað verið úti að vinna, að það sé jafnréttismál fyrir konur að karlmenn séu heimavinnandi.

Ég held það hafi verið öfugt.  Konurnar hafa lengi getað haft það gott heima í fæðingarorlofi en karlmönnum hefur verið att út að vinna.  Ætli það hafi ekki verið náðugra verkefni að vera heima að baka í hlýjunni en að berjast við náttúruöflin úti á sjó.

 

 

 


mbl.is Fæðingarorlof feðra lengist og frjósemi eykst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig talarðu um bækur sem þú hefur ekki lesið?

v_9782707319821Franskur bókmenntafræði prófessor gaf út metsölubók í fyrra sem nefnist "Comment Parler des Livers que l´on n´a pas Lus" (Hvernig þú átt að tala um bækur sem þú hefur ekki lesið). Þar skýrir hann út hvernig hann talar viturlega um bækur sem hann hefur ekki klárað, er búinn að gleyma eða hefur ekki svo mikið sem byrjað á. Hann heldur því einnig fram að það minnki ekki bókmenntalegt gildi greininga hans. Mér fannst þetta stórfyndin ósvífni en alveg með ólíkindum glæpsamleg hegðun.

Mér varð aftur á móti hugsað til þessa manns þegar mér varð litið til kommenta sem komu á útlistingar mínar á nýlegum kenningum Gunnars Heinsohnar. Fyrst varð ég hneykslaður þarsem fólk kom með komment um að kenningar þessa Gunnars væru "meira ruglið" og annar sagði þetta staðfesta það að það er hægt að gera kenningar um allt og ekkert. Samt hafði enginn þessara manna lesið bókina? Ég sem hafði þó bögglað mér í gegnum hana treysti mér samt engan veginn til dóma. Stærsti dómurinn sem ég treysti mér til að fella er að hún sé áhugaverð. Enda held ég að það sé rétt að leyfa svona bókum að vera nokkur ár í umferð þannig að aðrir fræðingar geti farið fræðilega í gegnum hana, rifið hana niður eða lofað.

En eftir að hafa komist yfir netta undrun á hversu fólk var með innihald bókarinnar á hreinu án þess að hafa lesið hana að þá hugsaði ég með mér að þetta væri líklegast afskaplega eðlilegt og mannlegt að dæma svo hratt út frá litlum sem engum upplýsingum. Ég, þeir sem komu með kommentin og allt annað fólk er alltaf að taka ákvarðanir út frá litlum sem engum upplýsingum. Allt frá því að ákveða hver sé vinur eða óvinur í frumskóginum til flókinna hluta einsog lífsskoðana eða heimssýnar. Þannig að kannski er Pierre Bayard ekki eins glæpsamlegur og mér fannst er ég heyrði hans getið fyrst. Í það minnsta ætti ég ekki að fullyrða svo fyrr en ég hef lesið bókina hans. Nema ég fylgi hans ráðum þegar hann ráðlagði fólki hvernig það á að gagnrýna bók sem það hefur aldrei lesið:

"Settu bókina fyrir framan þig, lokaðu augunum og reyndu að gera þér í hugarlund hvað þér gæti fundist áhugavert við verkið.  Skrifaðu síðan bara um sjálfan þig."


Út með íslenskuna?

Ekki er ég sammála þessari þróun.  Sjálfur var ég hluta af minni skólagöngu erlendis og á skólaaldri er ekki lengi gert að læra nýtt tungumál.  Einhvern tíma heyrði ég sögu af íslenskum foreldrum sem voru með barn á leikskóla í London og tóku eftir því dag einn að barnið var orðið altalandi á pakistönsku, bara eftir að hafa leikið sér með pakistönskum börnum. 

Hér á landi er orðið ótrúlega almennt að enskumælandi fólk komi og læri aldrei málið, tala bara ensku við alla eftir að hafa búið hér jafnvel áratugum saman.  Það á að vera almenn kurteisi að ef fólk býr árum lengur en örfá ár í landi eigi það að leggja sig fram við að læra málið.   Sérstaklega á það við um börnin, þau eru ekki nema fáeina mánuði að ná tökum á nýju tungumáli. 

Ef stjórnvöld ætla að fara að beita sér fyrir því að hér alist upp börn sem bara tala ensku í íslensku samfélagi hef ég áhyggjur af því að það verði verulegt skref í átt að íslenskan leggist af.

 


mbl.is Hugmyndir um alþjóðlegan skóla á Íslandi þar sem námsefni yrði á ensku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Karlar, konur og bílar

Hjalti velti því fyrir sér í fyrri færslu hvort "sömu heilastöðvar [séu] að verki þegar kemur að því að styðja sína menn, hvort sem um er að ræða stjórnmál eða fótbolta".  Fleiri slíkum tengingum má velta fyrir sér. Góður vinur minn var t.d. á mannamóti um daginn og sat þar til borðs með nokkrum körlum (á besta aldri) sem áttu það sameiginlegt að hafa kynnst eiginkonum sínum á unglingsárum. Þeir áttu líka sameiginlegt að hafa átt fáa bíla og jafnvel endað með að aka þeim útkeyrðum á haugana frekar en að skipta reglulega út fyrir nýjan.  Þóttust þessir mætu menn jafnframt vita að á nærliggjandi borðum sætu aðrir sem alltaf keyrðu á nýjum bílum og héldust jafnframt aldrei lengi í sambandi.

Eftir að hafa heyrt af þessari vísindalegu úttekt veit ég hvaða spurningu ég legg fyrir mína tilvonandi tengdasyni þegar þar að kemur: "Hefur þú mikinn áhuga á bílum?" Og fyrir ykkur hina sem eruð hamingjusamlega giftir, varið ykkur á auglýsingunum um "nýja fjölskyldubílinn."


Ofbeldisöldur þjóða og friðarhreyfingar

Fyrir marga var það ákveðið undrunarefni þegar Ísraelar byggðu sér vegg til að verjast ofbeldinu frá Palestínumönnum, að í stað þess að ofbeldi linnti við það þá fékk það útrás annars staðar, því Palestínumenn fóru að berjast hver gegn öðrum. Rétt einsog ofbeldið væri til staðar fyrst og fremst vegna sjálfs sín en það væri ekki tilkomið vegna málstaðar, óréttlætis eða kúgunar. Gunnar Heinsohn, háskólaprófessor í Bremen, gaf út tímamótaverkið "Söhne und Weltmacht" árið 2003. Samkvæmt rannsóknum Gunnars er það óumflýjanlegt að þjóðfélög lendi í vandræðum ef aldurshópurinn milli 15 og 29 ára verður svo fjölmennur að hann nái að 30% þjóðarinnar. Af þeim 67 löndum í heiminum þarsem svo stór hluti þjóðarinnar er á þessum aldri búa 60 þeirra við borgarastríð eða annarskonar ofbeldisöldur og uppreisnir. Þegar litið er til þeirra átaka- opalestineg óeirðasvæða sem þekktust hafa verið í heiminum undanfarin tuttugu ár virðist sem hægt hafi verið að sjá það fyrir, ekki með því að líta til einhvers óréttlætis, heldur með því að líta til þess hvar of stórar bylgjur ungs fólks eru að koma til vits og ára. Í Írak bjuggu fimm milljónir manna árið 1950 en í dag búa þar 25 milljónir þrátt fyrir endalaus stríð og átök. Síðan 1967 hefur fjöldi íbúa á Gaza og Vesturbakkanum aukist úr 400.000 í 3,3 milljónir, þar af er um helmingur fólksins undir 30 ára aldri. Vandamálið í þessum þjóðfélögum er fyrst og fremst að þau eru ekki viðbúin þessu. Þau hafa ekki störf eða tækifæri fyrir allt þetta unga hæfileikaríka fólk. Öfund, metnaður og aðrar hvatir mannskepnunnar brjótast út í ofbeldi innan þjóðfélags sem hefur ekki nógu margar dyr til að opna fyrir þessum fjölda hæfileikafólks. Gunnar færir kenningar sínar afutr í söguna og skýrir með þeim hvernig velflestar útrásir þjóða og ofbeldisöldur orsakast af þessu.

Áhugaverð er ábending Gunnars um þann mun sem er að verða á þjóðfélögum Vesturlanda og annarra. Hvernig Vesturlönd eru orðin að einbirnisþjóðfélögum þarsem foreldrar eiga venjulega eitt til tvö börn. Fólk sendir ekki barnið sitt í stríð eða aðra hættuför ef það á bara eitt. Foreldrar sem eiga fimmtíu börn eru líklegri til þess. Gunnar vill meina að friðarhreyfingin sem rís eftir seinni heimsstyrjöldina í Evrópu sé tilkomin vegna þessa. Sú hreyfing muni vaxa í samræmi við minnkandi barneignir en minnka í samræmi við auknar barneignir. Ef kenningar Gunnars eru réttar er ástæðan fyrir ofbeldinu á hernumdu svæðum Palestínu ekki kúgun Ísraela, óréttlæti þerirra eða fantaskapur heldur ofbeldi sem ekki er umflúið. Friðarhreyfing Evrópur er þá ekki tilkomin vegna einhverrar skynsemisöldu, réttlætiskenndar eða samkenndar heldur eðlileg viðbrögð einbirnisþjóðfélags, byggt af foreldrum sem eiga fá börn. 

 (Pistillinn birtist einnig í Viðskiptablaðinu í dag)


Hægri - Vinstri, Rauður - Blár, Svartur - Grænn

Stjórnmálamenn allra flokka held ég að séu í raun sammála um markmið - þeir stefna allir að betra þjóðfélagi og auknum lífsgæðum.  Eina sem greinir skoðanir þeirra í sundur eru leiðirnar að þessu sameiginlega markmiði.

Af öllum þeim óteljandi málum sem þarf að taka afstöðu til í þjóðfélaginu skiptast stjórnmálaflokkarnir yfirleitt til hægri eða vinstri, allt eftir því hversu langt á að ganga í samtryggingu og samneyslu.  Þó enn sé verið að rífast eitthvað um hvar þessi mörk eigi að liggja er þetta atriði ekki lengur helsta átakalínan í stjórnmálum.  Flestir virðast vera að hallast að því að farsælast sé að einkaaðilar sjái um að byggja upp öflugt atvinnulíf en að ríkið sjái um að tryggja lágmarksöryggi og samtryggingarnet.  Að minnsta kosti er erfitt að deila um í hvaða samfélögum lífsgæði almennings eru best og draga þann lærdóm að þjóðfélagsskipulagið þar hljóti að vera skynsamlegt.

Helstu deilumálin í nú virðast snúast um hvort menn séu svartir eða grænir, það er, hversu langt menn vilja ganga í að nýta náttúruna í þágu iðnaðarins eða setja takmarkandi reglur á atvinnulíf og einstaklinga til að vernda náttúruna. 

Í raun finnst mér vera hægt að nálgast þessi mál með því að setja upp forgangsröðunarlista sem hafa ég myndi vilja sjá að væri höfð til hliðsjónar við ákvarðanir sem varða okkur öll:

1. Náttúran

2. Mannlífið

3. Hagkerfið

Náttúra jarðarinnar er undirstaða alls lífs, ekki bara okkar heldur allra þeirra kynslóða sem vonandi eiga eftir að búa á jörðinni eftir okkar dag.  Við höfum engan rétt til þess að skila jörðinni í verra ástandi en við tókum við henni og því á hagur náttúrunnar að skipta okkur mestu máli við allar ákvarðanir sem teknar eru.  Lífríki jarðarinnar er alltaf mikilvægara heldur en stundarhagsmunir okkar hvað varðar hagvöxt næsta kjörtímabil.

Hjá mörgum virðist þessi forgangsröðun öfug; aukinn hagvöxtur séður sem æðsta takmark hvers þjóðfélags og þar á eftir kemur almannahagur.  Náttúran er síðan bara afgangsstærð, enn eru ótrúlega margir sem ekki geta hugsað til þess að þrengja hag atvinnulífsins til að vernda náttúruna. 

Þeir bara átta sig ekki á því hvaða afleiðingar gjaldþrot náttúrunnar mun hafa.

 

 

P.s. horfið á Kompás á Sunnudaginn - var að heyra að umfjöllunin þar verði afar áhrifaríkt innlegg í þessa umræðu

 

http://wulffmorgenthaler.com/

evianfiskur


að mynda sér skoðun

Ég veit í sjálfu sér ekki hversvegna þessi skyldurækni er svona djúp í manni að mynda sér skoðun um alla skapaða hluti en hef verið hugsað til þess í hinu flókna Bolludagsmáli. Málið er svo flókið og Hreinn Loftsson svo sannfærandi í skrifum sínum á meðan mér finnst Davíð og Illugi hafa verið það líka að manni getur fallist hendur.

Manni finnst það mikilvægt í lýðræðisríki að leggja skynsömum málum lið og andmæla óskynsömum málum þótt hagur manns tengist ekki málinu á nokkurn hátt. Svo er maður alltaf að meiða einhvern eða særa með skoðunum sínum þannig að maður er tekinn fyrir á pöbbum og stoppaður úti á götu af einhverjum aðilum sem eiga hagsmuna að gæta í málinu.

Störf mín hafa yfirleitt tengst því að hafa skoðun á hlutunum, hvort sem það hefur verið við kvikmyndaleikstjórn, bókaskrif eða blaðamennsku þannig að þetta venst. En það er eiginlega aðeins eitt starf þarsem ég hef fengið að njóta þess að hafa sterkar og skýrar skoðanir án þess að særa nokkurn mann. Það var þegar ég sá um heimsmeistarkeppnina í knattspyrnu árið 1998 fyrir Vísi.is. Ástríðufull skrif mín um boltann vöktu aðeins gleði manna, jafnvel þótt ég dæmdi óhikað suma vinsæla knattspyrnumenn sem fitubollur, litu út einsog bifvélavirkjar, væru óþarfa eyðsla á andrúmslofti, plássi og peningum. Þannig geta jafnvel ósanngjarnar og fordómafullar yfirlýsingar bara verið til gleði á meðan mennirnir sem fá dómana yfir sig eru fjarri. Annað væri uppi á teningnum ef ég hefði staðið fyrir framan þessa menn og dæmt þá með þessum hætti. Maður skilur alveg að leikari geti brugðist illa við þegar maður með ástríðufullum lýsingum segir honum hvað hann hafi staðið sig hörmulega. En maður verður að segja honum það, það er hluti af starfi manns. Aftur á móti verður maður ekki að mynda sér skoðun á Bolludagsmálinu, Brennu Njálssögu, stríðinu í Súdan eða nýjustu plötu Múm. Þá er bara að halla sér aftur á bak í sófanum og kveikja á boltanum.


Hetracil - Lyf við samkynhneigð

time_cover_lgÍ framhaldi af vangaveltum mínum um daginn hvort tala mætti um hvort rannsaka mætti hvort hægt væri að veita meðferð til að hafa áhrif á kynhneigð fann ég síðu um lyfið Hetracil.  Því lyfir er einmitt er ætlað að "lækna" samkynhneigð.  Nánari upplýsingar á:

http://www.hetracil.com/

Hetracilsíðan virðist falla ágætlega í safn svipaðra tengla sem ég hef rekist á á netflakki.   Af síðum um lyf má nefna Panexa, en á síðunni http://www.panexa.com/  er sjúklingnum ráðlagt að biðja lækni sinn um ástæðu til að taka lyfið, enda leiðinda takmarkandi þáttur við lyfjamarkaðssetningu að sjúklingurinn þurfi að finna fyrir vandamáli og leita eftir lækningu.

Mörg okkar hafa heyrt um ADHD - Attention Deficit Hyperactivity Disorder -  athyglisbrest með ofvirknisröskun.  Lyfið Havidol er nú verið að kynna sem langþráða meðferð við DSACDAD - Dysmorphic Social Attention Consuption Deficit Anxiety Disorder.  Þýðing á íslensku gæti verið félagsleg útlitsbrenglunarröskun með neyslukvíðaathyglisbresti.  Taktu prófið og sjáðu hvort þú þurfir ekki að taka lyfið.

Úrelt er orðið skv þessari síðu að fara í LASIK aðgerðir hjá augnlæknum, enda hægt að gera þetta sjálfur heima.

Einnig er sjálfsagt í dag að fólk hafi rétt á að velja sjálft hvaða gen börn þeirra hafi, slík meðferð í boði á: http://www.genochoice.com/

Svo eru til örvélar sem hægt er að senda af stað eftir blóðrásinni til að gera við bilaðar frumur í líkakmanum: http://www.rythospital.com/nanodocs/

Upplýsingar um vinaleg og erfðafræðilega sérhönnuð gæludýr eru á síðunni: http://www.genpets.com/index.php

Sú síða sem virðist vera mest lagt í af þeim sem ég hef séð af þessari tegund er: http://www.malepregnancy.com/

þar sem rakin er sagan af því þegar utanlegsfóstri var komið fyrir í kvið Hr Lee sem síðan gengur með barn með aðstoð hormónameðferðar - fyrsta meðganga karlmanns.  Það segir nokkuð um hversu vönduð síðan er að fyrir nokkru sýndi ég hana og fjallaði um málið á morgunfundi lækna á LSH.  Margir hlógu, en þó nokkrir virtust ekki sjá í gegnum brandarann.

Allt eru þetta áhugaverðar síður, læknisfræðin má vel við umræðu í samfélaginu um hversu langt eigi að ganga.  Oft er fljótlegt að sjá í gegnum hvort alvara sé að baki í þessum síðum með því að leita að sölumennskunni, ef menn eru að reyna að græða með sölu á stuttermabolum segir það talsvert.  Svo má alltaf googla og sjá hvað hægt er að finna fjallað um efnið á öðrum síðum.

Man einhver eftir fleiri sambærilegum síðum?


Eignaflensufaraldur

Fyrir ekki svo löngu voru fréttir af því í Morgunblaðinu að hópur kennara við Laugarnesskóla ákvað að kaupa enga nýja hluti í tvo mánuði. Lesendur blaðsins fengu af því greinargóða lýsingu hvaða erfiðleika kennararnir hefðu nú gengið í gegnum við að neita sér um nýja hluti í svo langan tíma, þeir komust af því að tilgangurinn væri í senn göfugur og hversdagslegur, að draga úr ásókn í auðlindir jarðar og um leið bæta hag buddunnar, og eins að þeir hafi verið haldnir ósjálfráðu kaupæði.

"Léttir að vera laus við innkaup" var ein fyrirsögnin, sem er þvílík firring að það hálfa væri nóg. Eru næst á dagskrá viðtöl við þá sem ekki hafa efni á að kaupa sé neitt nýtt í fjórar vikur eða jafnvel lengur. Verður sama fyrirsögn valin? Það er nefnilega ekki fréttnæmt að fólk sem á allt neitar sér um eitthvað.

Hitt þótti mér merkilegt að þessir kennarar, sem eru svo þungt haldnir sjúkdómnum nýja, eignaflensu, affluenza, eru svo lausir við jarðsamband að halda að þeir bjargi heiminum eð því að hætta að kaupa nýja hluti. Allt þeirra umhverfi, bílarnir, fartölvurnar, upphituðu húsin, angórapeysurnar, steinanuddið, kaffihúsin, bíóferðirnar, eru afrakstur neysluþjóðfélagsins sem þeir eru að andæfa. "Við erum að draga úr eftirspurn með þessu" segja þeir og eru þá um leið að minnka lífsgæði þeirra sem starfa við framleiðslu á varningnum, fátækum bræðrum okkar og systrum í þriðja heiminum sem langar mest af öllu að geta tekið þátt í lífsgæðakapphlaupinu.

Í framhaldi af eignaflensufréttum kom svo önnur fréttaskýring þar sem tveir verkefnisstjórar tala um tilfinningar sínar; "mér finnst eitthvað vera að gerast," segir annar og hinn segir hafa orðið var við að "fólk hugsi meira um neyslu sína en áður". "Áður", í þessu sambandi á þá væntanlega fyrir jól, áður en fólk eyddi meira en það hefur nokkru sinni gert ef marka má fréttir í upphafi ársins; "Jólaverslun aldrei meiri og eykst um 4,4% milli ára" sagði til að mynda í frétt í Morgunbaðinu 11. janúar sl. Kannski fór fólk að hugsa "meira um neyslu sína en áður" þegar það fékk kortareikninginn og þá fór kannski "eitthvað" að gerast.


You´ll never walk alone

_40637914_footballcoffin203Að einu leyti er ég líklega aðeins óvenjulegur maður - ég held nefnilega ekki með neinu fótboltaliði.  Fyrir kom á uppvaxtarárunum að ég velti fyrir mér hvort ég ætti ekki að halda með einu slíku, en eiginlega skildi ég aldrei af hverju ég ætti frekar að halda með þessu eða hinu liðinu.  Skildi bara ekki af hverju það gæti varðað mig hvort ungir menn frá þessari eða hinni borginni í Bretlandi sendu bolta oftar í eitthvað net.  Ég næ alveg ánægjunni við að horfa á snilldar íþróttir en þessu með að velja sér lið skil ég enn ekkert í.   

Tenging manna við fótboltalið virðist hins vegar stundum ævintýralega sterk hjá þeim sem ánetjast.  Menn fara að skilgreina sig út frá liðinu, merkja sig í bak og fyrir, bílinn sinn, börnin og jafn vel líkkistuna.  Nú þegar farið er að líta á íþróttafélög sem fyrirtæki sem eru m.a. rekin í hagnaðarskyni er farið að spila skipulega á þessa þörf, eins og sjá má í slagorðinu ”You´ll never walk alone”. 

Vonandi móðga ég engan þó ég velti aðeins fyrir mér hvaðan þessi þörf kemur, að skilgreina sig sem hluta af einhverjum stórum hópi.  Þetta virðist liggja djúpt í mannlegu eðli, enda allir tengdir einhverjum hópi hvort sem það er íþróttafélag, stjórnmálaflokkur, bræðralagsregla, saumaklúbbur eða þjóð.  Oft verða síðan deilur milli þessara hópa hvort sem það eru áflog milli fylgismanna íþróttaklúbba eða stríð þjóða.Kannski þetta sé óbreytanlegur þáttur í mannlegu eðli og það geri heiminn friðsælli ef menn geta fengið útrás í áhorfendastúku fótboltans.  Það má hins vegar einnig vera, að það sé lærð hegðun að fara í átök við aðra hópa, þannig að uppeldi íþróttanna leiði óbeint til aukins ofbeldis.  Ekki veit ég svarið við þessum spurningum.

Það merkilega við stuðningsmenn íþróttafélags hefur mér stundum fundist að sumir þeirra hafa tilhneigingu til þess að tengjast stjórnmálaflokknum sínum á sama hátt og íþróttafélaginu.  Þeir styðja bara sitt fólk í baráttunni býsna skilyrðislaust. 

Nýlegt dæmi um þetta gæti verið álit einhverra á málskotsrétti forseta.  Þó ég sé ekki stjórnmálafræðingur var það tilfinning mín að flestir hér á landi hafi hér á árum áður verið á þeirri skoðun að málskotsréttur forseta væri í gildi og væri skynsamlegur, enda kennt um hann í skólum.  Eftir að málskotsréttinum var síðan beitt hafa skoðanir manna á þessu afmarkaða stjórnsýslutæknilega atriði skipst mjög eftir flokkslínum.  Þeir, sem hafa litið á forsetann sem hluta af hinu liðinu í stjórnmálum, virðast margir ákveðnir um að málskotsréttinn þurfi að afnema, þrátt fyrir að þetta atriði sé svo afmarkað að vart sé hægt að búast við að afstaða manna til þess fylgi skoðunum manna til hægri eða vinstri.  Eru einhverjir að fylgja hópnum sínum án þess að taka málefnalega afstöðu sjálfir?  Upplifðu menn að málskotsréttinum hefði verið beitt gegn ”sínum mönnum” og voru því allt í einu á móti réttinum?

Tryggð manna við fótboltafélögin er yfirleitt ævilöng og menn skipta sjaldan um skoðun.  Það sama virðist merkilega oft eiga við um stjórnmálin.  Þó stjórnmálaflokkarnir skipti út fólki í framboði og verulegar breytingar geti orðið á málefnum flokkanna virðast margir aldrei skipta um flokk sem þeir kjósa. 

Getur verið að hjá einhverjum séu sömu heilastöðvar að verki þegar kemur að því að styðja sína menn, hvort sem um er að ræða stjórnmál eða fótbolta?  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband