Karíus, Baktus og heilbrigðisráðherra

Karius2Nýlega kynnti Lýðheilsustofnun niðurstöður MUNNÍS rannsóknarinnar. Megintilgangur rannsóknarinnar var að kanna tannátu og glerungseyðingu hjá 1. 7. og 10 bekk og náði rannsóknin til 20% slembiúrtaks þessara árganga árið 2005.

Í stuttu máli sýnir þessi rannsókn að tannheilsa barna og unglinga er ansi bágborin og hefur farið versnandi síðustu ár. Eins og segir í útdrætti rannsóknarinnar á vef Lýðheilsustofunar: ,,Í norrænum samanburði lætur nærri að íslensk börn og ungmenni séu að meðaltali með tvöfalt fleiri skemmdar tennur en samanburðarhópar í Svíþjóð (2005) og er staðan verri en á hinum Norðurlöndunum. Hjá 15 ára unglingi eru að meðaltali rúmlega 4 fullorðinstennur skemmdar og þarfnast viðgerðar eða hafa þegar verið fylltar. Hjá þeim 33% sem verst eru settir innan þessa hóps eru að meðaltali 9 tennur skemmdar. Glerungseyðing greinist í einhverri fullorðinstönn hjá 15% 12 ára barna og hjá 30% 15 ára unglinga.Tíðni tannskemmda fer vaxandi og áhyggjuefni hversu algengt það er að ekki er gert við tannskemmdir. Um 17% barna og ungmenna (4-18 ára) mæta ekki í reglubundið eftirlit hjá tannlækni."

Í útdrætti MUNNÍS rannsóknarinnar kemur einnig fram að Tryggingastofnun ríkisins (TR) greiði umtalsvert minna vegna forvarna í tannheilbrigðismálum barna nú en árið 1998. TR veitir styrki vegna tannlækinga barna og unglinga, öryrkja og aldraðra.   Þegar Siv Friðleifsdóttir heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra tók við embætti sínu lagði hún upp með tvö aðaláhersluefni: Forvarnir og aldraða. Þess ber þó ekki merki hvað tannlækningar varðar; samkvæmt fjárlögum 2007 er einungis gert ráð fyrir 2.7% hækkun á framlögum til skjólstæðinga TR vegna tannlækninga. Þessi prósentuhækkun nær engan veginn að halda í við verðbólgu síðasta árs, hvað þá að vega upp á móti fjölgun í þeim hópum sem njóta styrkja frá TR vegna tannlækninga eða rétta af þá lækkun sem orðið hefur á framlögum hins opinbera til þessa málaflokks hin síðari ár.

Hvers vegna skyldu heilbrigðisyfirvöld hafa komist upp með að skerða smátt og smátt framlög til tannlækninga síðustu ár? Jú, eins og kunnugt er rann árið 1998 út samningur Tannlæknafélags Íslands og TR og var hann ekki endurnýjaður. Samningurinn hafði verið við lýði í fjöldamörg ár og snerist um að tannlæknar sömdu við TR um fast verð fyrir tannlæknaþjónustu við skjólstæðinga stofnunarinnar. Tannlæknar sömdu þá um verð sem þeir töldu að væri ásættanlegt fyrir viðkomandi þjónustu. Þetta kom svo aftur skjólstæðingum TR til góða þar sem innifalið var í samingunum að þeir fengju stærstan hluta tannlæknakostnaðarins endurgreiddan. Þegar samningurinn rann út var ekki lengur þrýstingur á heilbrigðisyfirvöld að láta styrkina fylgja almennri verðlagsþróun og því fór sem fór. Þeir þrýstihópar sem hefðu átt að láta málið sig varða svo sem ASÍ, foreldrasamtök, samtök eldri borgara og Öryrkjabandalagið hafa því miður sofið á verðinum hvað þetta varðar.  

Hver skyldu nú vera viðbrögð ráðherra þegar allt stefnir í óefni í tannheilbrigðismálum barna og unglinga? Jú, það er að semja við tannlækna um ,,ókeypis skoðun og eftirlit hjá ákveðnum hópum barna" svo sem haft hefur verið eftir henni í fjölmiðlum síðustu daga. Það á sem sagt að semja við tannlækna um samræmda gjaldskrá fyrir þessa þjónustu. Og ef tannlæknum hugnast ekki slíkur samningur ,,þá munum við auglýsa eftir tannlæknum sem vilja koma á svona samningi" (Siv Friðleifsdóttir í samtali við Blaðið, 8. febrúar 2007). Þessi skilaboð hljóma óneitanlega undarlega; allt í einu er það tannlækna að bjarga margra ára svelti í framlögum hins opinbera til tannlækninga með því að koma á fastri ríkisgjaldskrá í tannlækningum. Það virðist ekki hafa hvarflað að heilbrigðisyfirvöldum að tannlæknar séu ef til vill alls ekki í aðstöðu til að semja um fasta gjaldskrá fyrir tannlækningar ákveðinna hópa í þjóðfélaginu. Tannlækningar, eins og önnur þjónusta, falla undir samkeppnislög. Það þýðir að tannlæknum er óheimilt að hafa samráð um gjaldskrár sínar og verða að hafa útdrátt með helstu aðgerðarliðum sínum hangandi á biðstofum skjólstæðingum sínum til glöggvunar.

En er þetta ekki bara í lagi, að veita ákveðnum árgöngum skoðun og forvarnir á sama verði - væri ekki líka í lagi að stórmarkaðirnir kæmu sér saman um verð á nautalundum og handsápu ef þeir kepptu hver við annan í verði á Maggisúpum og kaffi? Það væri fróðlegt að heyra hvaða augum samkeppniseftirlitið lítur þessar hugmyndir ráðherra.

Einvern veginn hljómar þessi boðskapur ráðherra eins og það eigi að finna sem fyrst blóraböggla fyrir lélegri tannheilsu barna og unglinga annars staðar en innan heilbrigðisráðuneytisins. Niðurstöður MUNNÍS rannsóknarinnar koma tannlæknum ekki á óvart, enda hafa þeir tekið eftir versnandi tannheilsu barna og unglinga síðustu ár. Þeir fagna því svo sannarlega að heilbrigðisráðherra hefur lýst yfir vilja til að gera eitthvað í þeim málum. En að stilla því þannig upp að málið standi og falli með samningi við tannlækna er hin mesta firra. Heilbrigðisráðherra verður einfaldlega að veita meiri peningum til málaflokksins og hækka verulega tannlækningastyrki til barna og unglinga. Verði það gert er ekki ósennilegt að einver hluti tannlæknastéttarinnar bjóði upp á þá "ókeypis skoðun og forvarnir" sem ráðherra er svo tíðrætt um út frá lögmálum hins frjálsa markaðar. Ekki hefur enn reynt á hvort tannlæknar hafa vilja til samninga við TR en vafasamt verður að teljast að landslög leyfi þeim að ganga til slíkra samninga. Og hver skyldi svo vera sýn ráðherra á styrki TR til eftirlits og forvarna meðal aldraðra og öryrkja? Þörf þeirra fyrir slíka þjónustu er síst minni en yngri aldurshópa ef ekki á að stefna í sömu átt og hjá börnum og unglingum.

Magnús Björnsson


aðeins of mörg spillingarmál...

...í gangi þarna. forsetinn sakaður um kynferðisglæpi, forsætisráðherrann um spillingu, yfirmaður hersins var rekinn fyrir klúður í líbanon og núna yfirmaður ísraelsku lögreglunnar vegna tengsla sinna við glæpahringi? hvað er að gerast þarna? 

það verður fróðlegt að fylgjast með framgangi allra þessa mála en í huga mér hef ég tengt ísrael við flest annað en svona spillingu. frekar við eldheitan hugsjónaeld, baráttuanda en jafnframt misnotkun á stöðu sinni í samfélagi þjóða í mið-austurlöndum og fantaskap og mannréttindabrot gagnvart palestínumönnum auk þess sem þeir eru þolendur reglulegra hryðjuverka og eru lýðræðisríki sem lifir við það að nágrannar þeirra vilja þurrka þá út af yfirborði jarðar.

en hvað sem framgangur þessara mála leiðir í ljós að þá má ekki gleyma því að þetta er lýðræðisríki sem beinir ljósinu að meinsemdum sínum. rétt einsog þeir sem ólust upp í kalda stríðinu upplifðu að þá komu nánast aldrei fréttir af glæpum, morðum, nauðgunum eða pyntingum frá sovétríkjunum en þær voru stanslausar frá lýðræðisríkinu bandaríki norður ameríku. staðreyndin var náttúrulega á hinn vegin að glæpirnir voru jafnvel meiri í sovét - bara þaggaðir niður. 


mbl.is Yfirmaður ísraelsku lögreglunnar segir af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blaðamenn, ástríða og ótroðnar slóðir

Það var ánægjulegt að heyra hverjir uppskáru verðlaun Blaðamannafélags Íslands í ár. Mér fannst dómnefndin hitta naglann á höfuðið.

Davíð Logi Sigurðsson kollegi minn af Morgunblaðinu er einkar vel að Blaðamannaverðlaununum kominn fyrir skrif um alþjóðamál, enda skynjar maður á skrifum hans að fyrir honum er það áhugamál og ástríða, ekki aðeins brauðstrit. Eflaust eru þeir til sem eru ósammála honum, til dæmis um íslensku friðargæsluna, en það hreyfir þá við umræðunni og yfirleitt þegar slíkt gerist er það í átt til upplýsingar. Með því að gefa svo mikið af sjálfum sér í fréttir og fréttaskýringar um alþjóðamál, svo sem Guantanamo, fá þær svipmót hans.

Það sama á við um Auðunn Arnórsson blaðamann Fréttablaðsins, sem ég vann raunar með á Morgunblaðinu á sínum tíma. Hann hefur löngum verið flestum fróðari um málefni Evrópusambandsins. Það er afar mikilvægt fjölmiðlum að blaðamenn hafi djúpa þekkingu á viðfangsefnum sínum og fái tækifæri til að miðla þeirri þekkingu til lesenda.

Það kemur varla neinum á óvart sem fylgist með þjóðmálaumræðunni að Jóhannes Kr. Kristjánsson ritstjóri Kompáss hafi verið verðlaunaður fyrir rannsóknarblaðamennsku. Hann hefur stýrt Kompási inn á ótroðnar slóðir í íslenskri fjölmiðlun og beitt aðferðum sem hingað til hafa aðeins tíðkast í fréttaskýringarþáttum erlendis. Með því hefur honum og samstarfsfólki hans tekist að vekja umræðu í þjóðfélaginu og rúmlega það, - umfjöllunin hefur kallað á aðgerðir.

Það verður forvitnilegt að sjá hvaða áhrif það hefur á rannsóknarblaðamennsku sem stunduð er á öðrum fjölmiðlum.

firring nútímans

_41927736_bear_france_416_afpÍ gömlum ritum eru víða fjálglegar lýsingar af fegurð hernaðarmannvirkja einsog hárra borgarmúra eða kastala. En óvarin þorp eða borgir fá iðulega slæmar lýsingar. Ástæðan er augljós þarsem háir borgarmúrar táknuðu vernd og öryggi fyrir fjölskyldurnar. Þegar innfyrir múrana var komið með fjölskylduna var fyrst hægt að anda léttar, hættan á árásum frá bandíttum og bófaflokkum var liðin hjá. Fegurðarskyn fólks var fyrst og fremst tengt öryggistilfinningu, velferð, heilbrigði eða mat, enda lítill tími til að njóta umhverfis síns þegar maður er stöðugt að leita að ógninni í því.

Hið ótrúlega langa friðartímabil á vesturlöndum hefur haft þau áhrif að upp eru komnar kynslóðir sem líta á öryggið sem sjálfsagt. Aðallega vegna þess að hinir gríðarlegu hernaðaryfirburðir vesturlanda veita okkur algjört öryggi. Öryggið er sjálfsagt við núverandi aðstæður. Þau örfáu þúsund manna sem hafa fallið á vesturlöndum vegna hryðjuverka er bara smáprósenta í samanburði við þá sem falla í bílslysum, morðum eða veikindum. Hryðjuverk ógna ekki lífi vesturlandabúa sem stendur og engin hernaðarógn steðjar að þeim. Sem stendur ógna hryðjuverk fyrst og fremst hagsmunum efnahagslífsins. Þetta hefur leitt til mikilla breytinga í hvernig fólk horfir til hers og hermanna á vesturlöndum. Áður var horft með lotningu á hermennina ganga hjá, því nálægð fólks við hættur heimsins var mikil og öryggið sem hermennirnir veittu var áþreifanlegt. Fegurð herflokka var mærð. Í dag horfir maður forviða á smástráka í heimskulegum búningum og skilur ekkert hversvegna í ósköpunum þessi grey hafa valið jafn asnalegt starf. Byssurnar sem þeir hengja um axlir sér virka einsog heimskuleg leikföng. Gegndarlausir hernaðarlegir yfirburðir vesturlanda hafa búið okkur svo öruggt samfélag að í raun þýðir nálægð vopna alltaf frekar hættu en öryggi í samfélagi okkar. Sú upplifun fólks í öruggu samfélagi hefur leitt til þeirrar firringar að vera á móti hermönnum og hernaðaryfirburðum eigin samfélags (samfélagi vesturlanda) sem veitir í raun þetta öryggi. Sú firring mun aðeins aukast með árunum.

Þegar ég var með stjúpdóttur mína í dýragarðinum í Kaupmannahöfn og hún teygði hendur sínar í gegnum grindina í átt að sæta ísbirninum sem var í tveggja metra fjarlægð frá henni varð mér hugsað til þess að hún mun aldrei kynnast þeirri náttúrulegu grimmd sem býr í villidýrum. Hún teygði smáar hendur sínar í átt til dýrsins. Hún er ekki nema nokkur kíló, þegar hún er reið og slær mann þá finnur maður varla fyrir því, hún gæti ekki varist ketti eða mús sem myndi ráðast á hana. Í tveggja metra fjarlægð var hundrað kílóa ísbjörn, með beinsterkar klær, tennur sem gætu rifið menn í sundur og styrkleika til að brjóta hvert bein í líkama manna. Á fjórtándu öld eyddi einn ísbjörn nánast allri byggð í dal á ströndum, það var á annan tug karlmanna, kvenna og barna. Stjúpdóttir mín mun aldrei kynnast því afþví að hún þarf það ekki. Hún mun aldrei kynnast ísbirninum á annan hátt en sem sætum og skemmtilegum í dýragarðinum eða sem syngjandi og dansandi í teiknimyndum Disneys. Við höfum byggt okkur það öruggt samfélag hér á vesturlöndum að við þurfum ekki að óttast þau. Aftur á móti eru samfélög úti í heimi sem eru ekki svo örugg og missa menn við árásir dýra og drepa dýr sér til varnar. Það verður alltaf algengara og algengara að fólk á vesturlöndum finni frekar til með dýrunum sem fólk í þessum samfélögum drepa því það skynjar ekki ógnina sem fólk í óöruggari samfélögum lifir við. Sú firring mun bara aukast með árunum.

Public affairs hetjur og almannatengsla sérfræðingar víkinganna á 9. öld sem fundu þetta land og fóru aftur til Noregs til að fá fólk til að koma til Íslands voru með sín slagorð. Öflugasta auglýsinga slagorðið var "þar drýpur smjör af hverju strái!" Mörg önnur voru öflug einsog að landið væri skógi vaxið (nóg af byggingarefni) og nóg að bíta og brenna. Augu Norðmanna opnuðust fyrir fegurðinni í smjörinni sem draup af stráum hér og fólk streymdi til landsins. Auglýsingasérfræðingar nútímans reyna líka sitt til að fá fólk til landsins. Nú eru slagorðin "Fire and ice!", hér spúa fjöll eldi og brennisteini sem leggur jarðir í eyði, hér er frost og snjór svo mikill að ekki sést í stingandi strá tíu mánuði ársins! Það er skemmtilegt að hugsa til þess hvernig það hefði virkað fyrir víkingana að segja fólkinu í Noregi að koma til Íslands með loforði um eldgos, brennandi hrauneðjur og svo gegndarlausan kulda að aðeins sé sambærilegur við hel. Norðmenn hefðu hryllt sig við og ekki getað séð fegurðina í því. Bleik tún fengu Gunnar á Hlíðarenda til að snúa við og fara hvergi. Hann sagði ekkert um Kárahnjúka, hann sagði ekki: "Hér eru hamrar, melar og móar, hér vil ég deyja úr hungri og horfa á fjölskyldu mína veslast upp eða deyja í eldi, brennisteini eða kulda". Auðvitað duga þessi slagorð betur í dag, þarsem allir geta bara keypt smjör útí næstu búð fyrir hundrað kall og nenna ekki að þvælast á milli landa til að horfa á smjör leka af stráum.Við höfum búið okkur svo öruggt samfélag að eitthvað fólk sem við ekki þekkjum kemur bygginu í brauðið okkar og smjörinu fyrir í búðinni þannig að við getum alltaf gengið að því vísu. Þannig hefur fegurðarskynið okkar breyst í þessum lúxus. Sama gildir um virkjanir. Þegar Íslendingar voru molbúar og lifðu við eymd í myrkri Íslands mestan hluta ársins við veikan yl af eldi, dýrum og mönnum - en mest þó bara í skítakulda - þá var magnað að sjá menn byggja virkjanir. Menn störðu í aðdáun á byggingarnar og mærðu fegurð mannvitsins og hamingjunnar sem þessi mannvirki færðu þeim. Ljós komu í bæinn, hiti og hlýja. Við höfum byggt okkur svo öruggt samfélag að sérhver manneskja hér á landi býr í hlýju húsi með ljósi. Bæði ljós og hiti er mögulegur allan sólarhringinn. Þá fengu þeir orður, hrós og voru hugsjónamenn sem færðu ljós og hita inní hús - byggðu virkjanir. Í dag plana hugsjónamenn árásir sínar gegn sjónmengun og hljóðmengun í vel hituðum húsum sínum, með ljósin kveikt og eru sæmdir orðum og hrósi. Nýta ævi sína í ljósi og hita í baráttu gegn sjónmengun og hljóðmengun. Ef einhver afturgengin forfeðra okkar skyldi rekast á þennan texta þá ætla ég mér og honum til gamans að endurtaka þessi orð fyrir hann: sjónmengun og hljóðmengun. Ég veit að honum þættu þau svo fyndin. Firring samfélags sem færist sífellt fjær skítalyktinni í beljunum, taðinu í túnunum, svitanum og tárunum sem virkjanir kosta, tengslunum milli þess lúxus sem við lifum við og hvernig hann er tilkominn er eðlileg. Fólki er vorkun. Rétt einsog Mariu Antoinette var vorkunn þegar hann sagði um hungraðann almenninginn að fyrst hann gæti ekki fengið brauð ætti hann þá bara að borða kökur. Við lifum í Mariu Antoinette þjóðfélagi. Firringin er eðlileg, því það er ekki hægt að skýra út fyrir manneskju sem fær alltaf kökurnar sínar og brauðið sitt uppí hendurnar að það hafi reyndar kostað svita og tár annarra manna að koma þessu uppí hendurnar á henni. Það er ekki hægt að skýra út fyrir henni að þótt hún fái alltaf bæði kökur og brauð að þá fá flestir bara brauð og ef brauðið er ekki til eru tæpast kökur til. Það er ekki hægt að skýra út fyrir henni hvernig samfélagið virkar því hún lítur á öryggi sitt sem sjálfsagt, en skilur ekki að það eru hermenn sem veita henni þetta öryggi, hún skilur ekki að það er fólk í ljótum bakaríum, sveittir og ógeðslegir sem baka brauðið hennar og kökurnar, Maria Antoinette skilur ekki að þegar hún fer uppá fjall til að mótmæla virkjun eða stíflu þá notar hún álsúlur til að koma tjaldinu sínu upp, hún er vernduð af lögreglunni og hjálparsveitir bíða í viðbragðsstöðu ef hún skyldi slasa sig sem er allt borgað af vinnandi fólki, góðu efnahagsástandi. Í dag er fólk orðið svo firrt að það kallar það firringu að finnast virkjun eða stífla falleg. Sú firring mun aðeins aukast með árunum.

 

 


Falleg vopn

bb64faNýlega var ég staddur í Norfolk í Virginíufylki í BNA, um 300 km suður af Washington á austurströndinni.  Það var ekki fyrr en ég kom þangað sem ég áttaði mig á því að staðurinn er kallaður Norfuck af innfæddum, enda nokkur suðurríkjahreimur á þessu svæði.  Eitt af því fáa sem ég vissi um staðinn var að þarna væri flotastöð, sem reyndar mun vera ein sú stærsta á jörðinni. 

Þegar ég fletti ferðamannabæklingum um borgina sá ég að mikið var fjallað um starfsemi hersins og þetta var augljóslega ein af skrautfjöðrum svæðisins.  Meðal þess vinsælasta er að skoða stríðsskipið Wisconsin og safn um dásemdir ameríska flotans. 

Það fyrsta sem ég sá eftir að ég var kominn upp landganginn og inn í flugstöðina var í þessum stíl, myndin sem er hér til hliðar.  Íbúar Norfolk eru augljóslega stoltir af öflugum vopnum sínum og finnst þetta vera falleg leið til þess að bjóða fólk velkomið til borgarinnar.

Einhverra hluta vegna er greinilega ekki hugsað mjög langt þegar myndin var hengd upp.  Ef verið er að skjóta úr fallbyssum hlýtur sprengjunni að vera beint að einhverju og líklegast er henni ætlað að eyðileggja mannvirki og sprengja sundur fólk.  Í flugstöðinni var engin mynd af eyðileggingunni þar sem sprengjur lenda. 

Frá sjónarmiði læknis er enginn munur á sundursprengdum líkama hvort um er að ræða fallinn óvin í stríði eða fórnarlamb umferðarslyss.   Mér finnst álíka smekklegt að vera stoltur af stórvirkum morðvélum sínum eins og að hengja upp stórar myndir af vettvangi umferðarslyss í flugstöðinni.  Ekki falleg leið til að bjóða fólk velkomið og skapa réttu stemninguna.

Þetta er gott dæmi um hvernig allt verður að menningu ef því er haldið að fólki.  Til eru þeir sem sjá fegurðina í stórvirkum vinnuvélum og meira að segja til fólk sem er svo firrt að því þykir stór stífla úti í náttúrunni falleg.  Ég vann einn sinn hjá Landsvirkjun og kynntist ófáum slíkum þar. 

Hermennska byggir á að hugsa ekki sjálfstætt heldur hlýða yfirboðurum skilyrðislaust.  Í menningarheimi hermannsins þykir sjálfsagt að beita ofbeldi til að leysa vandamál og réttlætanlegt að drepa til þess að vinna að markmiðum ríkisins.  Ef hér verður tekin upp herskylda má gera ráð fyrir því að þjóðin breytist þannig að þessi gildi verði meira áberandi í þjóðarsálinni.  Sjálfstæð hugsun og sköpunargáfa hlýtur að líða fyrir.

Íslendingar hafa hingað til borið gæfu til þess að vera nánast alveg lausir við menningu hermennskunnar.  Vonandi verður svo áfram.  


er dómarinn algjörlega orðinn snar?

það er hægt að hafa vorkunn með þessum dómurum sem útskrifuðust úr lögfræðinni einhverntímann á sjöunda áratug síðustu aldar að þeir hafi ekki vit á nútíma viðskiptum, en að þeir stöðvi yfirheyrslur í miðri spurningu saksóknarans er algjör bilun. þeir hefðu verið góðir í að fara yfir enron málið - "já, nei, þetta er of mikið, of langt, of flókið - hættum þessu!"
mbl.is Dómari stöðvaði skýrslutöku saksóknara í Baugsmálinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grínfréttaþáttur með hægrislagsíðu

newsNú er kominn í gang grínfréttaþáttur með hægrislagsíðu í Bandaríkjunum. Framleiðendurnir segja að það sé miklu meira en nóg af samskonar þáttum sem geri stanslaust grín að hægrimönnum; það sé alltaf hægt að kveikja á sjónvarpinu og sjá einhverja berja á Bush foresta. Framleiðendurnir telja þeir áhorfendur sem vilji sjá gert grín að vinstraliðinu hafir algerlega gleymst og því sé kjörið að senda út þátt með hægrislagsíðu.

Þátturinn heitir "The 1/2 Hour News Hour" og er (vitanlega) sendur út á Fox fréttarásinni. Þátturinn er byggður upp eins og fréttatími og var í fyrsta þættinum meðal annars gert grín að frambjóðandanum Barack Obama. Fox fréttarásin ætlar í byrjun aðeins að senda út tvo þætti og sjá svo til með framhaldið. Það er því ekki ljóst hversu langlífir þættirnir verða en nú þegar er hægt að sjá hraustleg skoðanaskipti um fyrsta þáttinn á netinu.

Einn segir: "Just when you think this station can't sink any lower, it does." og honum er svarað: "Sink any lower in the eyes of a left-wing nut?" Annar segir: "Another blatant attempt to appeal to the bias of rightwing extremists in America." Og enn einn athugasemdin: "I love seeing all the posts about the "right wing" bias Fox news.....yet, I never see these people post about the "left wing" bias of...ohh...let's seeeeee.....CBS, NBC, CNN, MSNBC, New York Times, and so on and so on."


Konan sem breyttist í brjóst?

Einhver óvæntasti fréttaviðburður ársins hófst á símtali frá hóteli í Los Angeles þegar lögreglukona hringdi eftir læknisaðstoð og sagði:

„She's not breathing, and she's not responsive. She's, um, actually Anna Nicole Smith."

Þá hófst fjölmiðlasirkusinn sem ekki sér fyrir endann á. Núna klukkan 22 á þriðjudegi eru þrjár mest lesnu fréttirnar á Mbl.is um Önnu Nicole Smith. Og manneskja sem var flestum gleymd fyrir viku síðan er skyndilega orðin brjóstumkennanlegasta fréttaefni ársins.

Ég fékk mikil viðbrögð þegar ég skrifaði frétt um hana í Morgunblaðið í ársbyrjun 1995. Þá var ég að byrja í blaðamennsku. Hún hafði gifst níræða auðkýfingnum J. Howard Marshall um sumarið, aldursmunurinn hvorki meira né minna en 62 ár. Þau fögnuðu jólunum saman og fjölmiðlar náðu af því mynd þegar hann fékk jólagjöfina sína. Hún klæddi sig nefnilega úr nærbuxunum og afhenti gamla manninum. Það leyndi sér ekki á svipnum hvað hann varð spenntur og glaður.

Og það er forvitnilegt í ljósi mögulegrar dánarorsakar Önnu Nicole Smith, sem kann að hafa dáið vegna fylgikvilla brjóstaaðgerðar, að Morgunblaðið greinir frá því fyrir um áratug að Anna Nicole Smith haft sagt um brjóstin á sér: "Ég á þeim allt mitt að þakka". Þetta minnir óneitanlega á Litlu hryllingsbúðina, þar sem blómið endar á því að éta velgjörðarmenn sína.

Með skemmtilegri skáldsögum er The Breast eða Brjóstið. Það er paródía af Hamskiptunum og í stað þess að vakna upp sem bjalla eða „skelfilegt skorkvikindi" eins og Gregor Samsa, þá breytist maður í brjóst með öllum þeim ógnum, furðum og unaði sem því fylgir. 

Það getur auðvitað ekki endað vel, ekki frekar en hjá Önnu Nicole Smith.  


mbl.is Upptaka af símtali hjúkrunarkonu Smith við neyðarlínu gerð opinber
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grátbroslegur eftirmáli og vinsældir slúðursins

AnnanicoleÞað er grátbroslegt að fylgjast með eftirmála fráfalls Önnu Nicole Smith. Það hreinlega dembast yfir okkur fréttirnar af því að „heitar" deilur séu um setrið sem hún bjó á, aðdáendur Önnu Nicole tjái tilfinningar sínar á Netinu, að hún hafi notað fryst sæði eiginmannsins, þrír segist vera feður dóttur hennar, myndband sé til á netinu af því þegar hún er flutt á sjúkrahús, hennar sé ekki allsstaðar hlýlega minnst og ástmaðurinn hafi íhugað að ættleiða Önnu Nicole.

Þetta er með því reyfarakenndara sem maður hefur lesið og þetta er bara það sem birst hefur á Mbl.is. Og nú bætist við að fylgikvillar brjóstaaðgerðar kunni að hafa dregið hana til dauða.

Það sem er athyglisvert fyrir áhugamenn um fjölmiðla er að þetta eru jafnan mest lesnu fréttirnar á Mbl.is, þannig að fólk hefur raunverulegan áhuga og rúmlega það á að lesa um líf Önnu Nicole eftir dauðann. Þegar þetta er skrifað er næstvinsælasta fréttin á Mbl.is sú að birtar hafi verið myndir af Önnu Nicole Smith í faðmlögum við Shane Gibson, ráðherra innflytjendamála á Bahamaeyjum!

Auðvitað eru þessar miklu vinsældir slúðurfrétta ekkert einsdæmi; Íslendingar skera sig ekkert frá öðrum þjóðum hvað það varðar, þó að það sé nýbreytni hjá Mbl.is að mæla lesturinn með svo gagnvirkum hætti. En þetta hlýtur að vekja spurningar um forgangsröðun frétta í íslenskum fjölmiðlum, að minnsta kosti á vefnum. Þar virðast viðskiptafréttir til dæmis ekki mikið lesnar.

En sem betur fer fyrir geðheilsu landans sýnir hann öðrum "merkilegri" fréttum áhuga, þá helst skúbbfréttum eða forvitnilegum fréttum af innlendum og erlendum vettvangi. Þá var handboltinn afar vinsæll meðan HM stóð yfir. Og kannski er ég að oftúlka þennan áhuga á slúðrinu. Ef til vill sýnir þetta bara hversu víðsýnir Íslendingar eru orðnir í alþjóðavæðingunni; þeir eru meira að segja farnir að fylgjast grannt með stjórnmálum á Bahamaeyjum!

Pétur Blöndal


mbl.is Fylgikvillar brjóstaaðgerðar kunna að hafa leitt Önnu Nicole til dauða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Týpískt nútíma próblem...

...að þegar ég las fréttina fyrst var ég í sjokki yfir því hvernig nútíma þjóðfélag getur gert manneskju það að vera í fangelsi í 24 ár af ævi sinni. það var eiginlega það eina sem komst að við fyrsta lestur þessarar fréttar um þennan gamla terrorista sem hugsanlega var ekki að framkvæma sín illvirki af tómri illsku heldur útaf vanhugsaðri góðvild sem leiddi til illsku.

síðan las ég þessa frétt aftur en varð hugsað til þess saklausa fólks sem var myrt af þeirra völdum og jafnvel þeirra höndum og allt í einu varð ég pirraður yfir því að þessir morðingjar myndu fá sín ár til að anda að sér því ferska lofti sem er hér, horfa á fólkið í kringum sig og njóta lífsins - einmitt það sem þeir neituðu sínum fórnarlömbum um.

þetta er svolítið erfitt. svolítið flókið. 

ég held manneskjan sé oft einsog ég. ég vil fyrirgefa þessu fólki og veita því frelsi, skilja og fyrirgefa. það er eitt af mikilvægustu dyggðum samfélagsins. En ég verð að viðurkenna að ef þetta fólk hefði drepið foreldra mína eða börnin mín, þá myndi ég líklega ekki fyrirgefa neitt.  


mbl.is Baader-Meinhof meðlimi veitt reynslulausn eftir 24 ár á bak við lás og slá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband