Færsluflokkur: Bloggar
22.3.2007 | 20:52
ótrúlegt að ekki sé enn farið að selja áfengið í matvöruverslunum
Félagi Krummi, hann Hjalti, var með umfjöllun um hversvegna ekki ætti að leyfa sölu á áfengi í matvörubúðum. Ég er honum svo hjartanlega ósammála að manni fallast hendur en ekki það hitamál fyrir mér að ég nenni að fara í eitthvað debat þarsem rökin fyrir því og rökin á móti því mýmörg og hrafnasparks síðan yrði pestuð af ritgerðum um það efni.
Mér varð aftur á móti hugsað til þess, afþví að það hefur vakið áhuga minn, að af kynnum mínum af læknum þá eru langflestir raunsæir menn einsog algengt er með fólk sem þarf daglega að taka erfiðar ákvarðanir í starfi sínu. Svo eru sumir sem starfa við þann hrylling sem er hluti af læknastarfinu (sérstaklega hjá þeim erlendu læknum sem ég þekki, þá er hryllingurinn daglegt brauð) sem byrja að gera tengingar einsog: ef við lækkuðum hámarkshraðann niður í fimmtíu þá myndi verða minna um slys, ef við bönnuðum áfengi eða minnkuðum möguleikann á því að fólk komist í það, þá verða færri fullir, minni horror osfrv. Það er voðalega erfitt að rökræða við lækna sem sjá þetta með þessum gleraugum með öðru en að hvetja þá til að vera aðeins meiri manneskja.
Sömuleiðis hafa flestir lögreglumenn sem ég hef hitt og þekki (þeir eru reyndar mun færri en læknarnir) verið heilbrigt og raunsætt fólk. En samt hafa kannanir sýnt að þeir eru mun líklegri til þess að vera fylgjandi fasískum hugmyndum varðandi útlendinga. Líklegri til að styðja öfgaflokka sem vilja banna aðgang útlendinga að þjóðfélaginu og reka þá út úr því sem þegar hafa komist inn (þetta á einnig aðallega við útlönd þarsem ég veit ekki til þess að slík könnun hafi verið gerð hér á Íslandi). Einn tékkneskur lögreglumaður sem ég þekkti var mjög harður á þessu. Hann notaði svona rök einsog: "þú hefur ekki unnið sem lögreglumaður og skilur ekki að það eru útlendingar sem stjórna glæpastarfseminni hérna. Þú skilur ekki hvað það er að koma sí og æ á vettvang þarsem búið er að nauðga saklausri tékkneskri stelpu í helming tilvika er það alltaf einhver útlendingur, þú skilur ekki hvað það er að vinna við að leysa þjófnað og þar eru sígaunar í helmings tilvika að verki þótt þeir séu ekki nema þrjú prósent þjóðarinnar, þú veist ekki hvað það er að koma alltaf á vettvang á ráni eða morði þarsem einhver fjölskyldufaðirinn hefur verið skotinn í hausinn og heilinn hans er útum allt gólf og líklegast er þar einhver úkraínumaður að verki!" Nei, ég veit það ekki. Og átti erfitt með að rökræða við þennan kunningja minn með öðrum rökum en að benda honum á að hann ætti að reyna að vera aðeins meiri manneskja.
Auðvitað hefur lögreglumaðurinn rétt fyrir sér, auðvitað verður eitthvað minna um glæpi ef útlendingum er bannað að koma til landsins eða það takmarkað með öflugum aðgerðum. Útlendingar eru líklegastir til þess að verða utanveltu í þjóðfélagi sem þeir ekki þekkja og þessvegna líklegri en aðrir til að verða agressívari. Ég hef verið útlendingur mestan part fullorðinsára minna og þekki það af eigin raun.
En engu að síður er ég fylgjandi frjálsu flæði milli sem flestra landa, því það er svo margt annað sem vinnst. Ef við lítum á þetta frá mannúðarsjónarmiðum þá er það margfalt mikilvægara heldur en þróunaraðstoð, sem vinstri menn vilja alltaf leggja áherslu á en gerir afskaplega lítið fyrir þjóðir þróunarlandanna. Vinstri mönnum er bara betur við þróunaraðstoðina því þá geta þeir barið sér á brjóst og sagt: "við gáfum þessar milljónir eða milljarða til þjóunarlandanna!" En frjálst flæði vinnuafls hefur fram að þessu sýnt að peningarnir sem fólkið vinnur sér inn og sendir heim er miklu meira en sem nemur þróunaraðstoð Vesturlanda.
Ef við lítum á menningarlegan gróða þá er þar efni í margar ritgerðir.
Ef við lítum á efnahagslegan gróða fyrir landið sem vill fleiri útlendinga til að vinna hjá sér, þá er þar líka efni í margar ritgerðir sem sýna hvað það er gott fyrir efnahagskerfið.
Best er bara að hvetja svona fólk, sem sér alltaf stjórnsemina og bönnin sem bestu lausnina um að einbeita sér að því að vera manneskja. Það fylgja því ansi margir slæmir hlutir að vera manneskja en á heildina litið er þetta bara ágætt.
Bloggar | Breytt 23.3.2007 kl. 10:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.3.2007 | 12:14
Þarf að auka á áfengisvandann á Íslandi?
Nú er í þriðja skipti verið að ræða frumvarp á alþingi um að leyfa sölu á áfengi í matvöruverslunun. Þráhyggja þeirra sem leggja frumvarpið fram virðist benda til þess að þetta sé þeirra mati eitthvert mikilvægasta mál samtímans og að þetta bara verði að fást í gegn.
Vissulega er óhagræði af því að þurfa að fara í ríkið til kaupa sér áfengi og sannarlega mun þessi breyting, ef málið fer í gegn, bara verða til að auka þægindi flestra við áfengisinnkaup. Áfengi er hins vegar ekki venjuleg neysluvara.
Áfengi veldur tugum dauðfalla á Íslandi á hverju ári. Tugþúsundir einstaklinga verða fyrir skaðlegum áhrifum af völdum áfengis í formi heimilisofbeldi, lifrarskemmda, bílslysa, þunglyndi, sjálfsvíga, illri meðferð á börnum og fleira og fleira. Ef einhver lifir í svo vernduðum heimi að hann hefur ekki sjálfur orðið vitni af þessum hamförum vil ég benda fólki á að líta í heimsókn á biðstofu slysa- og bráðadeildar LSH að næturlagi um helgar.
Vissulega eru til ákveðin rök um frelsi einstaklingsins til að kaupa sér áfengi þar sem honum hentar, notuð eru ljót orð eins og forræðishyggja þegar rætt er um vilja til að takmarka aðgengi að áfengi. Þessi mál verður hins vegar alltaf að skoða í samhengi allra þátta.
Það er hafið yfir allan vafa að áfengisvandamál munu aukast ef sala á áfengi verður leyfð í matvöruverslunum. Þetta var gert í Finnlandi fyrir nokkrum árum með skelfilegum afleiðingum. Alltaf munu einhverjir, kannski 10-20%, vera með tilhneigingu til áfengisfíknar í sér og úr þeim hópi munu án nokkurs vafa fleiri fara að drekka skaðlega. Fleiri munu slasa eða drepa sjálfan sig og aðra, fleiri munu nefbrotna í áflogum, fleiri börn munu alast upp við áfengisvandamál foreldra. Er það virkilega það sem við viljum? Ábyrgð þeirra sem sitja á þingi er mikil, ætla þeir að taka ábyrgð á því að auka á þessi vandamál í þjóðfélaginu?
Meira að segja í samfélögum þar sem frelsi einstaklingsins gengur hvað lengst eins og í BNA er í mörgum fylkjum ekki leyft að selja áfengi í matvöruverslunum, þar þarf að fara í sérstakar áfengisbúðir. Þar er skilningur á því hversu geigvænlegum skaða áfengi getur valdið og að því þurfi að takmarka aðgengið, þó það gangi gegn frelsi einstaklingsins.
Sjálfur tel ég mig ekki eiga við áfengisvandamál að stríða og hef litlar áhyggjur af því að neysla mín á áfengi verði til vandræða, þó það verði selt í matvöruverslunum. Samt vil mjög eindregið viðhalda núverandi kerfi, að aðgengi að áfengi sé takmarkað með einföldum hætti og að ríkið innheimti háa skatta af áfenginu til að fjármagna m.a. heilbrigðiskerfi og skóla. Út frá mínum eigin persónulegu hagsmunum, þó það sé ekki til annars en að auka ekki á álagið á næturvöktum á slysadeildinni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.3.2007 | 13:43
hvað er að mogganum?
Forsíðan á mogganum í dag var "Of feitar konur líklegri til að vera án atvinnu". Hvaða frétt er þetta? Forsíðufrétt? Má búast við því að það verði forsíðufrétt hjá mogganum á næstu dögum að "Fólk með anorexíu líður oftar illa en heilbrigðu fólki".
Svo var skemmtilegt að sjá myndirnar af konunni sem gerði doktorsritgerðina sem leiddi til þessarar forsíðufréttar. Augun í henni lýstu orku og ofursjálfstrausti. Krafturinn geislaði úr augunum, hún var sæt, stolt, og inní blaðinu var hún stílíseruð einsog módel með doktorspróf, manneskja sem er líkleg til að meika það í hvaða bransa sem er var forsíðu ljósmyndarefni um of feitar konur sem eru vanmetnar, með lítið sjálfstraust og fá minna en þær eiga skilið í lífinu. Svona er lífið alltaf með fallega og skemmtilega kontrasta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
21.3.2007 | 09:53
með ólíkindum auðvelt
![]() |
"Klám er úti um allt á Netinu" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.3.2007 | 11:25
nasísk mynd í Háskólabíói
Sá myndina 300 í gær. Var svolítið sjokk. Ég hef mikinn áhuga á Forn-Grikkjum en myndin hafði ekkert með þá að gera nema nöfnin, grísk nöfn og persnesk.
Aftur á móti var hetjumyndin sem dregin var upp nasísk. Hvítir harðnaglar sem sýndu enga miskunn, aldir upp einsog sólskinsbörn Hitlers.
Óvinurinn var asískur her kvenlegra perverta, skrímsla og lævísra aumingja sem gátu aðeins haft sigur á hinum arísku ofurhetjum með undirferli og hommaskap.
Til að spartverska hetjan fengi að fara með her sinn til að berjast þurfti hann að fá samþykki prestanna hjá véfréttinni - einsog Bush þarf að fá blessun frá Sameinuðu þjóðunum. En þeir hjá véfréttinni eru spilltir og viðbjóðslegir og banna honum að fara í stríð eftir að hafa þegið mútur frá Persum. Þessvegna kemst Leonídas með fáa hermenn í stríðið. Þegar reynt er að kalla eftir hjálp frá spartverska þinginu þá eru þingmennirnir þar spilltir og svikulir einsog demókratarnir á bandaríska þinginu.
Það var bjánahrollur í manni mestan hluta myndarinnar þótt mörg bardagaatriðin væru kúl.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
18.3.2007 | 23:33
Lágtækniþjónusta á hátæknisjúkrahúsi
Af einhverjum ástæðum hefur umræðan í þjóðfélaginu um byggingu á nýju húsnæði fyrir Landspítala Háskólasjúkrahús farið í undarlegan farveg. Iðulega er orðið hátæknisjúkrahús notað þegar málið er rætt og í framhaldi af því hefur umræðan þróast í að fjalla um hvort þjóðin þurfi yfir höfuð meiri hátæknilækningar, hvort ekki sé betra að verja fjármunum í að bæta grunnþjónustu. Málið snýst hins vegar ekki um það.
Margt af þeirri þjónustu við sjúklinga sem fram fer á LSH byggir vissulega á háþróaðri tækni. Til að hátæknileg læknisfræði skili árangri þarf hins vegar að skapa sjúklingnum tækifæri til að ná heilsu aftur með því að tryggja svefnfrið á næturna, næringarríkan mat og vandaða umönnun.
Háþróuð læknisfræði er einnig stunduð víða utan veggja LSH. Umræðan um hvort hún sé æskileg eða hvort leggja skuli áherslu á grunnþjónustu er áhugaverð, en hún á ekkert erindi inn í umræðuna um byggingu nýs húsnæðis fyrir starfsemi LSH. Að sjálfsögðu er nauðsynlegt að tryggja rekstur hjúkrunarheimila, heimahlynningar og heilsugæslu, en það á ekki að þurfa að koma í veg fyrir að staðið sé þolanlega að því að sinna slösuðum og bráðveikum.Mér vitanlega stendur ekki til að bæta við nokkurri nýrri hátækniþjónustu í hinni nýju byggingu, hins vegar á að stórbæta aðstöðu sjúklinga og aðstandenda. Útrýma á gangainnlögnum og koma á þeirri sjálfsögðu reglu að veikir enstaklingar vistist á einbýli. Til stendur að fjárfesta í byggingu sem mun gera kleift að færa alla starfsemina á einn stað, en með því verður hægt að auka verulega hagkvæmni í rekstri sjúkrahússins og spara stórfé til lengri tíma.
Íslenska þjóðin býr almennt í ágætu húsnæði. Þegar Íslendingar ferðast láta þeir ekki bjóða sér að búa á hótelherbergi með þremur ókunnugum, hvað þá að sofa dögum saman í rúmi á gangi hótelsins. Við öll sem búum í þessu landi þurfum hins vegar að liggja á stofu með öðrum sjúklingum eða frammi á gangi ef það á fyrir okkur að liggja að lærbrotna eða fá lungnabólgu. Sjálfur vil ég ekki búa við slíkt ástand.
Má ég biðja þá sem leggjast gegn byggingu á nýju húsnæði fyrir LSH að prófa að reyna að sofa eina nótt á gangi sjúkrahússins. Sjáum hvort þeir skipti um skoðun.Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.3.2007 | 17:49
Unga stúlkan sem er augljóslega eldri kona
Krummar leggja rækt við bloggvini sína. Við erum eins og húshrafninn, tyllum okkur á mæninn, vökum yfir mannaferðum, þiggjum það ætilegt sem við komumst í, en erum almennt til lítils gagns, raunar mestu óþurftar, - ef undan er skilið krúnkið. Þótti sumir flokki það sem garg.
Okkur krummum er umhugað um bloggvini okkar. Það ber kostulegur pistill krummans Barkar Gunnarssonar í Viðskiptablaðinu með sér um Kolgrímu, sem hefst á setningunni: "Kolgríma er ein af skemmtilegum bloggurum landsins". Í pistlinum upplýsist margt um bloggvinkonuna okkar, s.s. að hún er augljóslega ung stúlka sem er eldri kona. Og vitnað er í færslu á síðunni um hvernig fólk flokkar bloggið sitt:
"Sumir virðast líta svo á að spjall um köttinn þeirra sé ljóð og að nývakinn áhugi amerískra fjöldamorðingja á framsóknarmönnum eigi best heima með öðrum litteratúr. Aðrir flokka klám með íþróttum, hóli um Jón Sigurðsson, framsóknarmann, sem tónlist og uppáhaldið mitt; svitastorkna, skoppandi punka á lifandi karlmönnum undir mat og drykk."
Annars er athyglisvert að Kolgríma gefur nú fyllri upplýsingar en fyrr um persónulega hagi sína. Það kemur nefnilega fram undir mynd af Snæfellsjökli að hún heitir Ragnhildur Halldórsdóttir og býr í Norðvesturkjördæmi.
Hinn hagmælti Már Högnason er annar bloggvinur Krumma, sem kýs að fara huldu höfði, eða hvað? Í höfundarupplýsingum kemur fram að hann hafi verið drykkfelldur og morgunsvæfur námsmaður í félagsfræði í Lundi, en gefist upp á því og farið í meinatækni, því meira hafa verið upp úr því að hafa. Hann hafi ekki lokið prófi í því heldur, en þar sem samanlagður punktafjöldi samsvari fjögurra ára námi kalli hann sig "félagsmeinafræðing".
Þá segist hann reka "hjáfræðaþjónustu", veita hugsanaráðgjöf, aðstoða við skoðanamyndun, standa fyrir skyggnilýsingum, framleiða orkusteina og gælusteina á heimili sínu, leggja hendur á fólk, ásamt því að lesa í kaffibolla, vambir, spil, ský, lófa, augnbotna og fleira. Og hann yrkir:
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.3.2007 | 12:21
Munn við munn?
Birting greinarinnar í Lancet sem MBL vísar í er vissulega stórfrétt úr endurlífgunarfræðunum. Hins vegar þarf að stíga varlega til jarðar þegar kemur að ráðleggingum til allra og aldrei hægt að byggja þær á einni rannsókn. Mér finnst samt líklegt að þetta atriði verði staðfest með frekari rannsóknum og því verði næstu alþjóðlegu leiðbeiningum um endurlífgun breytt þannig að enn minni áhersla verði lögð á blástur.
Það er rétt að til eru sterk rök fyrir því að munn við munn blástur skipti litlu máli og sé etv skaðlegur við hjartastopp. Þegar blásið er eykst þrýstingur í lungunum og við það minnkar blóðflæði til hjartans. Einnig tekur nokkur hnoð að koma blóðflæðinu af stað þannig að öll hlé á hjartahnoði minnka verulega líkur á að endurlífgun takist. Ef öndunarvegur er opinn á meðan hjartahnoð er framkvæmt verður einnig talsverð hreyfing á loftinu sem geta verið nægileg loftskipti.
Í ljósi þessa hefur undanfarin ár verið lögð mun minni áhersla á blástur og meiri á hjartahnoðið, samanber slagorðin "Hringja Hnoða" sem kynnt voru fyrir nokkrum árum. Frá 2003 hefur verið í leiðbeiningum hér á landi að fólk geti í þéttbýli, þar sem læknir og sjúkraflutningamenn eru komnir eftir fáeinar mínútur, hjartahnoðað eingöngu ef það getur ekki eða treystir sér ekki til að blása. Lifun fer mest eftir því hversu vel hjartahnoðað er og hversu fljótt hægt er að beita rafstuði.
Grein MBL þarnast hins vegar nokkurra útskýringa, fyrst farið er að fjalla um málið í fjölmiðlum. Í fyrsta lagi verður að taka fram að þessar hugmyndir um að hætta að kenna blástur eiga bara við um skyndilegt meðvitundarleysi hjá fullorðnum. Hjá börnum er líklegra að hætt verði að kenna hjartahnoð þar sem hjartastopp eru gríðarlega sjaldgæf í þeim aldurshópi en mun líklegra að um öndunarvandamál sé að ræða. Það sama á við um þá sem eru líflausir af öðrum ástæðum, s.s. vegna drukknunar, eitrunar, hengingar, áverka eða aðskotahlutar í öndunarvegi, þá skiptir öndunaraðstoð verulegu máli.
Einnig er rétt að benda á að þó vissulega séu margir hræddir við að fá smitsjúkdóm við munn-við-munn blástur hefur aldrei verið skráð að einstaklingur hafi smitast af HIV eða lifrarbólgu við að blása munn við munn. Þetta er því líklega ekki hættulegt.
Hér á landi er þessi hræðsla til staðar, í þeim endurlífgunartilvikum sem við sinnum á neyðarbíl reyna nærstaddir ekki að beita hjartahnoði nema í um helmingi tilvika og það hlutfall þarf að auka.
Þessar endurlífugnartölur frá Japan eru frekar slakar, í rannsókninni tekst þeim einungis að endurlífga fáein prósent þeirra sem "falla saman" eins og það er orðað í MBL greinninni. Hér á höfuðborgarsvæðinu eru 41% þeirra sem hníga niður í hjartastoppi endurlífgaðir en 19% útskrifast lifandi. Því er ekki víst að tölur þeirra eigi við með sama hætti hér.
Lancet greinin er áhugavert innlegg í áralanga umræðu, ekki nýjar leiðbeiningar.
![]() |
Læknar hvetja til þess að hætt verði að beita munn við munn aðferðinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
11.3.2007 | 17:03
Jafnrétti á byrjunarreit
Mikið er rætt og rifist um hvort Gini-stuðullinn hafi hækkað á Íslandi eða ekki, og svo hvort það sé góð eða slæm þróun.
Eitt hefur þó enn ekki breyst á Íslandi, öll börn eru jöfn á byrjunarreit. Hér á landi fæðast flest börn á sömu fæðingardeildinni og öll eru þau klædd í sömu fötin, rækilega merkt sem eign þvottahúss spítalanna. Óháð stétt eða fjárhagsstöðu foreldra sitja öll börn við sama borð fyrsta sólarhringinn.
Svo tekur lífið við.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.3.2007 | 23:00
Frumvarp til samkeppnislaga og mál olíuforstjóra
Í fréttum Stöðvar 2 í kvöld var vikið að fyrirliggjandi frumvarpi til breytinga á samkeppnislögum með svofelldum hætti (tekið af visir.is):
Frumvarp til breytinga á samkeppnislögum sem nú er til meðferðar hjá efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis gæti haft bein áhrif á niðurstöðu dómstóla í málinu gegn forstjórum olíufélaganna. Sjálfstæðismenn og framsóknarmenn eru þó ekki á eitt sáttir en frumvarpið kveður á um skýrari refsiábyrgð einstaklinga í samkeppnismálum.
Samkvæmt heimildum fréttastofu vilja Sjálfstæðismenn breyta frumvarpinu þannig að refsiábyrgð verði eingöngu hjá einstaklingum ef um skýran ásetning er að ræða eða stórfellt gáleysi. Saksóknari efnahagsbrota hefur komið fyrir nefndina lýst áhyggjum sínum af þeirri breytingu en slíkt myndi auka sönnunarbyrði og gera ákæruvaldinu þar með erfiðara að sanna sök á einstaklinga í slíkum málum.
Héraðsdómur vísaði máli gegn olíuforstjórunum þremur frá fyrir skemmstu meðal annars á þeim forsendum að ekki væri hægt að sækja einstaklinga til saka í samráðsmálum. Málið er nú hjá Hæstarétti sem getur valið að vísa málinu aftur heim í hérað. Frumvarpið kveður á um að lögfest verði nýtt ákvæði um refsiábyrgð allra starfsmanna, stjórnarmanna og samtaka, sem hvetja til eða hafa með sér ólöglegt samráð.Verði það lögfest fyrir þinglok þurfa dómstólar að taka tillit til þess enda kveða hegningarlögin á um það að ef lög breytast frá því verknaður er framinn þar til dómur fellur skuli ávallt hafa nýrri lögin til hliðsjónar.
Ég hef í framhaldi af þessari frétt, og þá einkum síðasta hlutanum, verið spurður að því hvort þetta þýði að Alþingi geti nú með því að lögfesta nýtt ákvæði í samkeppnislög, sem mæli fyrir um refsiábyrgð starfsmanna fyrirtækja vegna ólögmæts verðsamráðs, haft áhrif á niðurstöðu þess máls sem gert er að umtalsefni í fréttinni.
Af þessu tilefni er mikilvægt að fram komi til nánari skýringar að í 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 segir efnislega að skylt sé að dæma eftir nýrri lögum, bæði um háttsemi og refsingu, ef refsilöggjöf hefur breyst frá því verknaður var framinn og til þess er dómur gengur. Í samræmi við stjórnskipulegt bann við afturvirkni refsilaga í 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar er þó einnig kveðið skýrt á um það í hegningarlagaákvæðinu að aldrei megi "dæma refsingu, nema heimild hafi verið til þess í lögum, þegar verk var framið, og ekki þyngri refsingu en orðið hefði eftir þeim lögum".
Ef Hæstiréttur fellst á það með héraðsdómi í umræddu máli að gildandi samkeppnislög lýsi ekki refsiverðri háttsemi starfsmanna fyrirtækis, þótt ólögmætt verðsamráð kunni að hafa átt sér stað í rekstri þess, þýðir þetta með öðrum orðum að nýtt ákvæði um það efni, sem lögfest yrði á næstu dögum eða vikum, gæti ekki haft efnisleg áhrif á niðurstöðu þess máls. Telji Hæstiréttur á hinn bóginn að núgildandi samkeppnislög séu skýr um það efni þá virðist nægjanlegt samkvæmt gildandi lögum að ákæruvaldið sanni að starfsmaður fyrirtækis hafi sýnt af sér almennt (einfalt) gáleysi til að refsiábyrgð stofnist. Í frétt Stöðvar 2 er lýst hugmyndum þingmanna Sjálfstæðisflokksins um að ákvæðið í frumvarpinu verði bundið við þau tilvik þegar starfsmaður fyrirtækis hefur sýnt ásetning í verki eða a.m.k. stórfellt gáleysi. Fréttin gengur því aðeins út á það að verði slíkt ákvæði að lögum, áður en dómur gengur í umræddu máli, þá verði dómstólar í ljósi áðurnefndrar 1. mgr. 2. gr. hegningarlaga að áskilja að ákæruvaldið sýni a.m.k. fram á stórfellt gáleysi hjá ákærðu til að skilyrði séu til sakfellingar. Ákæruvaldið kynni þá að standa frammi fyrir erfiðara viðfangsefni en leiðir af gildandi ákvæðum samkeppnislaga.
Róbert R. Spanó
Bloggar | Breytt 11.3.2007 kl. 11:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
krummi
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (16.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
annapala
-
arnih
-
arnljotur
-
begga
-
birgitta
-
bjarnihardar
-
bleikaeldingin
-
davidlogi
-
don
-
ea
-
fararstjorinn
-
feministi
-
gattin
-
geislinn
-
grettir
-
halldorbaldursson
-
hallkri
-
handsprengja
-
handtoskuserian
-
hannibalskvida
-
herdis
-
hlynurh
-
hof
-
hoskuldur
-
hrollvekjur
-
hugsadu
-
hux
-
ingibjorgelsa
-
jonasantonsson
-
kaffi
-
kiddirokk
-
kjarninn
-
kjoneden
-
kolgrima
-
listasumar
-
ljonas
-
lostintime
-
maggaelin
-
magnusb
-
malacai
-
maple123
-
nosejob
-
pallvil
-
ragnhildur
-
reni
-
ruthasdisar
-
seth
-
sigurgeirorri
-
stebbifr
-
steinibriem
-
theld
-
tulugaq
-
vefritid
-
vglilja
-
vinursolons
-
vitinn
-
arniarna
-
gisliblondal
-
skak
-
athena
... ... ... ... ... ... ... ... ...