Út með íslenskuna?

Ekki er ég sammála þessari þróun.  Sjálfur var ég hluta af minni skólagöngu erlendis og á skólaaldri er ekki lengi gert að læra nýtt tungumál.  Einhvern tíma heyrði ég sögu af íslenskum foreldrum sem voru með barn á leikskóla í London og tóku eftir því dag einn að barnið var orðið altalandi á pakistönsku, bara eftir að hafa leikið sér með pakistönskum börnum. 

Hér á landi er orðið ótrúlega almennt að enskumælandi fólk komi og læri aldrei málið, tala bara ensku við alla eftir að hafa búið hér jafnvel áratugum saman.  Það á að vera almenn kurteisi að ef fólk býr árum lengur en örfá ár í landi eigi það að leggja sig fram við að læra málið.   Sérstaklega á það við um börnin, þau eru ekki nema fáeina mánuði að ná tökum á nýju tungumáli. 

Ef stjórnvöld ætla að fara að beita sér fyrir því að hér alist upp börn sem bara tala ensku í íslensku samfélagi hef ég áhyggjur af því að það verði verulegt skref í átt að íslenskan leggist af.

 


mbl.is Hugmyndir um alþjóðlegan skóla á Íslandi þar sem námsefni yrði á ensku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Púkinn

Púkanum finnst reyndar að Valgerður ætti að byrja á að læra almennilega ensku fyrst sjálf.

Kennsla á ensku er æskilegur kostur fyrir einn hóp - fólk sem er hér á landi í stuttan tíma, t.d. einn vetur og kemur hingað með börn.

Ætli fólk hins vegar að dvelja hér í lengri tíma er púkinn sammála - íslenskan er nauðsyn.

Púkinn, 6.3.2007 kl. 18:49

2 identicon

Bara sanngjarnt. Íslendingar geta farið erlendis í nám án þess að læra tungumálið. Þú getur t.d. farið til Danmerkur og lært eingöngu á ensku.

Þegar við erum að ræða um alþjóðlegan skóla þá finnst mér þetta vera mjög eðlilegt. Held að þú sért að rugla þessu saman við innflytjendaskóla, sem er allt annað fyrirbæri. Þetta hentar vel fólki sem býr hér í nokkur ár og ætlar sér ekki að verða ríkisborgarar.

Geiri (IP-tala skráð) 6.3.2007 kl. 18:55

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég er sammála Krummanum. Kennum öllum íslenzku. Snobbumst ekki til að stofna "alþjóðlegan skóla" sjálf. Hér hefur hins vegar lengi verið amerískur sendiráðsskóli. Sumir diplómatar eru hér mjög takmarkaðan tíma og vilja eðlilega, að skólaferli barna þeirra raskist ekki.

Jón Valur Jensson, 6.3.2007 kl. 19:02

4 Smámynd: Ísdrottningin

Virkilega sammála Púkanum, sendum Valgerði í nám í ensku.

Hvet alla til að standa vörð um okkar ástkæra ylhýra sérstaka mál. 

Ísdrottningin, 6.3.2007 kl. 19:09

5 Smámynd: Sigfús Sigurþórsson.

Tek undir hvert orð hér, ég minntist einmitt á í einni færslu hjá mér. sjá: http://partners.blog.is/blog/partners/entry/125865/

Kv. SigfúsSig.

Sigfús Sigurþórsson., 6.3.2007 kl. 19:14

6 identicon

Krummi, þú ert að rugla saman tímabundinni búsetu við það fólk sem sest hér endanlega að. Auk þess snúast alþjóðaskólar um skólagjöld meðan ríkisskólarnir gera það ekki.

Eins og þú veist þá ganga alþjóðlegir skólar út á það að þú getir hætt námi hvenær sem er í árinu og nánast tekið upp sama námsefni í nýju landi ef því er að skipta. Þetta er mjög skilvirkt og gott kerfi fyrir börn sem búa á Íslandi í stuttan tíma - svo ekki verði rof eða óþarfa erfiðleikar á námsferli þessara barna enda alger óþarfi að barn þurfi að þjást í námi vegna starfsvals foreldra sinna.

Því er ekki að neita að vegna sérstöðu þessara alþjóðaskóla þá skila þeir góðum nemendum allra þjóða og ala á fordómaleysi - það væri óskandi að það væri einnig gert í íslenskum ríkisskólum þó ekki væri nema til að kenna íslenskum börnum að bera virðingu fyrir og bjóða velkomið það fólk sem kýs að búa á Íslandi til frambúðar.

Mér finnst stórkostlegt að við sýnum loksins vilja til að stofna til alþjóðaskóla og gefa þannig fleira barnafólki út í heimi kost á því að starfa á Íslandi.

Góð kveðja frá einni sem hefur reynslu og samanburð á skólum frá Íslandi, Belgíu, Kína, Frakklandi og Þýskalandi.

Guðrún Margrét Þrastardóttir (IP-tala skráð) 6.3.2007 kl. 19:18

7 identicon

Já þetta er eitt af þessum fáránlegu hugdettum hjá Valgerði. Þessir útlendingar geta bara sjálfir stofnað skóla ef þeim vantar einn slíkan. Það á ekki að eyða þessum gríðarlegu fjármunum ríkissjóðs í vitleysu og fáránleg gæluverkefni.

Pétur Guðmundur Ingimarsson (IP-tala skráð) 6.3.2007 kl. 19:18

8 Smámynd: Pétur Tyrfingsson

Ég held að við ættm að hafa hagsmuni krakkanna í huga og láta þau ekki gjalda þess ef þau þurfa að elta foreldra sína hingað til að læra. Eins og bent hefur verið á er skóli af þessu tagi fyrir börn þeirra sem dvelja hér tímabundið. Þetta ættu allir að vita.

Það er rétt að krakkar sem enn eru á næmiskeiði að læra tungumál tala reiprennandi áður en maður veit af. Ég man þegar ég var við nám í Svíþjóð þá fór ég eitt sinn út á tröppur til að kalla í son minn sem þá var á sjöunda ári í mat. Við höfðum dvalið á Skáni í Svíþjóð í þrjá eða fjóra mánuði. Sem ég kem út á tröppurnar heyri ég hann og jafnaldra hans frá Úrúgvæ standa í þjarki og báðir töluðu rennandi skánsku með öllum helstu fúkyrðum sem nauðsynleg eru drengjum á þessum aldri. Algerlega óaðfinnanlega. Þeir sem eru kunnugir sænsku vita að það er ekki á hvers manns færi að tala skánsku svo vel fari.

Ég hef nokkrar áhyggjur af krökkum sem koma hingað með foreldrum sínum á fermingaraldri og þaðan af eldri. Þá er þetta óttalegt vesen að fara að læra íslensku og þurfa jafnramt að nota hana til að skila af sér öllu öðru námi hér. Hlífið greyjunum við þessu og leyfum Valgerði að stofna skóla.

Ég get ekki séð að þetta ógni íslenskunni. Þeir sem ógna henni mest eru Íslendingar sjálfir. Alþjóðlegur skóli mun ekki hafa nein áhrif á þróun hennar eða viðgang.

Pétur Tyrfingsson, 6.3.2007 kl. 22:29

9 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Ég er sammála Krumma og finnst eiginlega að Pétur T. hér að ofan sé það líka, samanber söguna frá Svíþjóð. Ég veit ekki betur en hægt sé að taka framhaldsskóla hér á ensku. Yngri börnum yrði hollt að læra íslensku, rétt eins og börn Íslendinga sem dvelja erlendis við nám og störf læra mál innfæddra.

Páll Vilhjálmsson, 6.3.2007 kl. 23:37

10 identicon

Mun Páll Vilhjálmsson sjálfur aðstoða börn sín við heimanámið ef þau t.d. stunduðu nám í kínverskum ríkisskóla ?

Xuexi Hanyu shi tai nan !

xiexie.

Guðrún Margrét Þrastardóttir (IP-tala skráð) 6.3.2007 kl. 23:58

11 Smámynd: Pétur Tyrfingsson

Skratti góður nagli hjá þér Guðrún! Ég held að þetta sé verkurinn og við verðum að virða þessa viðleitni Valgerðar (þó ég hafi enga trú að að hugmyndin hafi komið frá henni). Eins og Palli segir þá er í reynd óþarfi að búa til framhaldsskólastig á ensku. Grunnskóli á ensku nýtist aðeins börnum ef hún er þeirra móðurmál eða þau hafi hana á valdi sínu í nógu ríkum mæli. Og öllu jöfnu gera börn það ekki fyrr en þau eru 10-11 ára og jafnvel 12 ef enskan er annað mál þeirra. Krakkar sem eru 5-8 ára hefðu gott af því að vera innan um íslensk börn og mundu ekki lenda í minnstu vandræðum. Alþjóðaskólinn þarf þá að vera fyrir 9-15 ára ef það er eitthvað vit í því sem ég er að segja að teknu tilliti til athugasemda.

Pétur Tyrfingsson, 7.3.2007 kl. 01:16

12 Smámynd: Karl Pétur Jónsson

Það er heimóttaskapur að amast við þessari löngu tímabæru hugmynd Valgerðar. Ég veit til þess að það hefur þegar stöðvað eitt erlent stórfyrirtæki í að setja upp þróunarsetur á Íslandi að hér er enginn alþjóðlegur skóli fyrir börnin þeirra, eins og allstaðar ananrstaðar.  Eins og einhver bendir á hérna þjónar skóli sem þessi fólki sem stoppar það stutt að ekki tekur því fyrir börnin að læra nýtt tungumál.

Það yrði stórt stökk framávið að fá erlendan skóla, sem gerir fjölda fólks sem mun auðga mannlíf okkar og menningu mögulegt að flytjast hingað.

Það eina sem er athugavert við tillögu Valgerðar er að auðvitað eiga einkaaðilar að reka þennan skóla, ekki ríkið. Hinsvegar er ekkert að því að stjórnmálamenn hafi frumkvæði að stofnun hans.

Karl Pétur Jónsson, 7.3.2007 kl. 02:51

13 Smámynd: Karl Pétur Jónsson

Það er heimóttaskapur að amast við þessari löngu tímabæru hugmynd Valgerðar. Ég veit til þess að það hefur þegar stöðvað eitt erlent stórfyrirtæki í að setja upp þróunarsetur á Íslandi að hér er enginn alþjóðlegur skóli fyrir börnin þeirra, eins og allstaðar ananrstaðar.  Eins og einhver bendir á hérna þjónar skóli sem þessi fólki sem stoppar það stutt að ekki tekur því fyrir börnin að læra nýtt tungumál.

Það yrði stórt stökk framávið að fá erlendan skóla, sem gerir fjölda fólks sem mun auðga mannlíf okkar og menningu mögulegt að flytjast hingað.

Það eina sem er athugavert við tillögu Valgerðar er að auðvitað eiga einkaaðilar að reka þennan skóla, ekki ríkið. Hinsvegar er ekkert að því að stjórnmálamenn hafi frumkvæði að stofnun hans.

Karl Pétur Jónsson, 7.3.2007 kl. 02:54

14 identicon

Ég hef svo sterkar skoðanir á þessu máli öllu að ég held best sé fyrir mig að þegja. Í staðinn sendi ég ykkur link eins stórkostlegasta skóla í heimi, staðsettur í Peking, en ég hef 3ja ára reynslu af því að hafa barn þar.

http://www.wab.edu/

kveðja,

Guðrún Mar.

Guðrún Margrét Þrastardóttir (IP-tala skráð) 7.3.2007 kl. 13:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband