Færsluflokkur: Bloggar
27.3.2007 | 17:20
Ný kynslóð lítur á sig sem Evrópubúa ... en ekki hvað?
Íslendingar, rétt eins og aðrar þjóðir innan EES, njóta þeirra forréttinda að geta sest að og ákveðið að vinna nánast hvar sem þeir kjósa innan Evrópu. Norðurlöndin hafa haft slíkt samstarf sín á milli í yfir 50 ár og hefur það samstarf gengið áfallalaust fyrir sig. En að halda að í framtíðinni muni ný kynslóð horfa til allrar Evrópu þegar kemur að atvinnuleit er frekar langsótt. Frjálst flæði vinnuafls hefur verið reglan hjá Evrópusambandinu en samt er bara brotabrot af vinnuaflinu að nýta sér þennan rétt. Það eru ekki bara efnahagslegir þættir sem ráða því hvar fólk sest að og vinnur heldur einnig félagslegir þættir eins og nálægð við skyldmenni og vini og tungumálakunnátta. Þessir þættir spila stórt hlutverk og í Evrópu er t.d. mikið atvinnuleysi meðal ungs fólks á Spáni en samt eiga sér ekki stað neinir þjóðflutningar milli landa. Það þýðir heldur ekki að einblína eingöngu á háskólamenntaða í þessu samhengi því að ný kynslóð verður ekki öll háskólamenntuð frekar en eldri kynslóðir.
En það mikilvægasta er að standa vörð um réttinn til þess að búa og starfa annarsstaðar í Evrópu líkt og gert er með aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu. Þannig er búið að tryggja að ný kynslóð, og reyndar sú gamla líka, getur allavegna valið hvort hún kýs að búa og starfa annarsstaðar í Evrópu, hvort sem hún nýtir sér þann rétt eður ei.
Svafa: Ný kynslóð Íslendinga lítur á sig sem Evrópubúa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.3.2007 | 21:51
íslandshreyfingin komin af stað
Þegar ég heyrði að Íslandshreyfingin hefði fengið fimm prósent fylgi í fyrstu skoðanakönnuninni fannst mér það nokkuð gott. En síðan var mér bent á að svona ný framboð fá yfirleitt miklu meira fylgi í fyrstu könnunum heldur verður raunin í kosningunum. Þegar ég fór að athuga það mál kom í ljós að meira að segja Þjóðvakinn hafði mælst með 26% fylgi þegar hann kom fyrst fram en endaði í 7% fylgi í kosningunum sjálfum. Þá er þetta kannski ekki svo gott hjá Íslandshreyfingunni?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
26.3.2007 | 13:25
Sálmur er óhæfur sem þjóðsöngur
Mikið er búið að ræða um þjóðsönginn í dag, ég held ég geti ekki annað en verið sammála áliti Sigmars að öll viðkvæmni þegar kemur að þjóðsöng okkar er hættulega nálægt trúarofstæki.
Þjóðsöngur hlýtur annars að eiga að vera sameiningartákn þjóðar. Allir eiga að geta sætt sig við texta hans og helst að geta sungið lagið. Því miður á hvorugt við núverandi þjóðsöng lýðveldisins Íslands.
Hvað kvæðið varðar er Lofsöngur Matthíasar Jochumssonar er vissulega fallegur sálmur og það er einmitt vandamálið. Kvæðið kemur Íslandi mest litið við, það er lofsöngur til Guðs en ekki til Íslands.
Ó, guð vors lands! Ó, lands vors guð!
Vér lofum þitt heilaga, heilaga nafn!
Úr sólkerfum himnanna hnýta þér krans
þínir herskarar, tímanna safn.
Fyrir þér er einn dagur sem þúsund ár
og þúsund ár dagur, ei meir:
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.
Íslands þúsund ár,
Íslands þúsund ár,
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.
Annað erindi lofsöngsins hefst svo á línunum:
Ó, guð, ó, guð! Vér föllum fram
og fórnum þér brennandi, brennandi sál.
Persónulega vil ég ekki að í þjóðsöng íslands sé blandað slíkum trúarhita. Án þess að ég hafi nokkuð á móti kristninni þá finnst mér trú vera meira einkamál hvers og eins og ekki eiga erindi í málefni Íslands eða þjóðsönginn.
Samtals hef ég sungið í kórum í hátt í áratug og get því bjargað mér þegar kemur að því að syngja lag Sveinbjörns Sveinbjörnssonar við Lofsöng Matthíasar. Það sem einkennir lagið sönglega séð er að það spannar breitt tónsvið þannig að ef ekki er byrjað á réttum tóni er lagið fljótt komið upp eða niður fyrir raddsvið söngvaranna. Það er enn einn þátturinn sem veldur því að Íslendingar syngja ekki og kunna margir ekki þjóðsöng sinn.
Meðal annara valkosta sem þjóðsöng hefur lagið "Ísland er land þitt" oft verið nefnt, en það er eiginlega ótækt vegna þess hversu erfitt er að leggja slíkt kvæði á minnið, sjálfum hefur mér amk ekki tekist það.
Nei, það sem ég vil að verði þjóðsöngur Íslands er "Hver á sér fegra föðurland", ljóð Huldu við lag Emils Thoroddsens. Sennilega er ég bara svona uppfullur af sveitarómantík í anda sjálfstæðisbaráttunnar, en það segir það sem ég vil að komi fram í þjóðsöng. Lagið er auðsungið og fallegt, án þess að vera heræsingarmars eins og margir þjóðsöngvar eru.
Hver á sér fegra föðurland,
með fjöll og dal og bláan sand,
með norðurljósa bjarmaband
og björk og lind í hlíð?
Með friðsæl býli, ljós og ljóð,
svo langt frá heimsins vígaslóð.
Geym, drottinn, okkar dýra land
er duna jarðarstríð.
Hver á sér meðal þjóða þjóð,
er þekkir hvorki sverð né blóð
en lifir sæl við ást og óð
og auð, sem friðsæld gaf?
Við heita brunna, hreinan blæ
og hátign jökla, bláan sæ,
hún uni grandvör, farsæl, fróð
og frjáls - við ysta haf.
Ó, Ísland, fagra ættarbyggð,
um eilífð sé þín gæfa tryggð,
öll grimmd frá þinni ströndu styggð
og stöðugt allt þitt ráð.
Hver dagur liti dáð á ný,
hver draumur rætist verkum í
svo verði Íslands ástkær byggð
ei öðrum þjóðum háð
Svo aldrei framar Íslands byggð
sé öðrum þjóðum háð.
Emil Thoroddsen / Hulda
Reyndar þyrfti aðeins að breyta kvæðinu ef það yrði gert að þjóðsöng. Þökk sé einleik Davíðs og Halldórs yrði líklega að syngja: "er þekkti hvorki sverð né blóð", fyrst búið er í fyrsta skipti í sögu Íslands að fara í stríð í okkar nafni. Svei þeim fyrir þá ákvörðun.
Spaugstofumenn brutu lög um þjóðsönginn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
25.3.2007 | 14:56
Hvaða samfélagi tilheyrir þú?
Ég fór að velta því nýlega fyrir mér hvaða þjóðfélagshópi ég tilheyri og hverja ég umgengst. Lengi vel stóð ég í þeirri trú að ég þekkti vel til aðstæðna allra þjóðfélagshópa. Það er sennilega ekki alveg rétt.
Þegar ég fór yfir í huganum fjölskyldu og vini, þá sem ég umgengst í lífinu, áttaði ég mig á því að nánast hver einasti er háskólamenntaður. Ég kannast við nokkra sem ekki eru með háskólamenntun, en af þeim sem ég hef held reglulegu sambandi við eru eiginlega allir háskólamenntaðir og ég á enga vini sem eru ómenntaðir. Mig minnir að um helmingur þjóðarinnar hafi lokið stúdentsprófi og eitthvað um 15-20% hafi háskólamenntun. Það er því augljóst út frá þessum tölum að ég hef ekki sérlega góða innsýn á hvernig þjóðin lifir, heldur bara tengsl við afmarkaðan þjóðfélagshóp.
Bloggið hefur möguleika á að brjóta niður þessa múra, að því tilskyldu að fólk lesi ekki bara blogg þeirra sem tilheyra sama þjóðfélagshópi og eru með samhljóða skoðanir. Umræður verða fyrst áhugaverðar ef menn færa rök fyrir mismunandi skoðunum og hafi ólík sjónarhorn.
Í gegnum vinnuna við bráðalækningar hef ég þó ekki komist hjá því að kynnast nokkum aðstæðum allra þjóðfélagshópa, einkum er augljóst eftir nokkur ár í útköllum á neyðarbíl hvílíka eymd margir búa við hér í þessu þjóðfélagi okkar. Svo virðast engin takmörk vera á því hversu skrautlegir furðufuglar fyrirfinnast inn á milli meðalmennanna.
Það er nokkur sama hvar maður er staddur og hvenær, nánast alltaf þegar hópur fólks kemur saman þá veljast saman einstaklingar út frá ákveðnum forsendum. Mér hefur eiginlega alltaf fundist áhugavert við að fara og kjósa að horfa í leiðinni á mannlífið á kjörstað, þar kemur þjóðin saman án þess að úr séu valdir ákveðnir hópar. Þar má sjá þjóðina sjálfa.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.3.2007 | 15:43
Víkverji skrifar um hrafnasparkið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.3.2007 | 15:14
freakonomics
Kláraði bráðskemmtilega bók um daginn, sem heitir Freakonomics. Ég þrumaði á hana thumbs up, thumbs down dómi sem ég læt fylgja:
(Thumbs up)
Bráðskemmtileg, frumleg og fyndin bók sem ræðst gegn fjöldanum öllum af þeim fordómum sem lifa góðu lífi hjá manni. Sú staðreynd ein og sér að tveir hagfræðingar geti skrifað svona skemmtilega og fyndna bók um þjóðfélagsmál er með ólíkindum. Klisjan um að menn geti keypt sér sæti í kosningum er brotin niður með tölfræðilegum rökum. Þá er velt upp kostnaðinum við lýðræðið í Bandaríkjunum sem allir hneykslast á. Þegar upphæðin er tekin saman þá er hún verulega há, yfir hundrað milljarðar króna, en það er samt ekki hærri upphæð en það sem Bandaríkjamenn eyða í tyggjókaup á ári og er ekki lýðræðið þess virði? Þeir taka uppeldismál, skólamál, nafnagiftir og sýna tölfræðilegar rannsóknir sem eru oft á skjön við það sem við höfum gengið út frá fram að þessu. Sem dæmi um hæfileika þeirra til að vera spaugsamir á meðan þeir koma fræðilegum rannsóknum sínum á framfæri eru nöfnin á köflunum hjá þeim. "Hvað eiga skólakennarar og Sumo glímumenn sameiginlegt?", "Hversvegna búa dópsalarnir ennþá hjá mömmu sinni?" og "Hvernig Ku Klux Klan er einsog félag fasteignasala" eru nokkur dæmi um sjónarhornið sem þeir koma með á efni sem til umfjöllunar er hverju sinni..
(Thumbs down)
Þótt Freakonomics sé fyndin og áhugaverð hvað varðar bandarískt þjóðfélag þá er varhugavert að heimfæra hana á íslenskt þjóðfélag. Í fyrsta lagi þá eru mörg umfjöllunarefnin, eins og um Ku Klux Klan, þess eðlis að ekkert í samfélagi okkar er sambærilegt. Auk þess eru öll rök þessara hagfræðinga tölfræðileg - eins og við er að búast af þeirri starfsstétt. Tölfræðirannsóknir geta gefið mjög takmarkaðar upplýsingar. Ofan á það viðurkenna höfundarnir og taka það skýrt fram í bókinni að sumar rannsóknirnar eru unnar út frá takmörkuðum upplýsingum. Þótt rannsókn þeirra sýni til dæmis að það að lesa fyrir börnin á hverju kvöldi sýni engin tengsl við betri námsgetu í skólanum, þá eru margar aðrar rannsóknir sem sýna annað. Það er eins og oft áður þegar fræðingar koma saman, þá hafa allir rannsóknir sem styðja mál þeirra, en samt er enginn sammála og skoðanirnar ganga hverjar á aðra þvera. Bókin er engu að síður skemmtileg lesning en absúrd samlíkingar einsog með Súmo glímumenn og kennara og fleira í þeim dúr gefur einnig þá tilfinningu að þetta séu svolitlir almannatengslasérfræðingar, sem eykur líkurnar á því að staðreyndirnar séu svolítið poppaðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.3.2007 | 13:09
þrjú hundruð
Eftir að hafa talað margt slæmt um myndina þrjú hundruð þá þegar kom að því að ég skrifaði dóm um hana í Viðstkiptablaðið, þá varð hann miklu jákvæðari en upp var lagt með. Það var líka farið að pirra mig þessar árásir á myndina, einsog skrifað var í fyrirsögnina í Fréttablaðinu: "Viðbjóðsleg sögufölsun".
(Thumbs up) - Bjánahrollur fór um mig allan tímann sem ég horfði á þessa mynd, en ef þú kemst yfir hann, þá er hægt að njóta hennar. Ef þú ert aðdáandi teiknimynda gæti þetta verið myndin fyrir þig. Hún er byggð á teiknimyndasögu Franks Miller og er hrottaleg frásögn af hinum fræga bardaga við Laugaskörð þegar 300 Spartverjar vörðust her Persa sem taldi nokkur hundruð þúsund manns. Þótt Spartverjar væru sjálfir undir stjórn konunga, voru þeir einnig að verja grísk lýðræðisborgríki einsog aþenu með fórn sinni og geta því réttilega verið kallaðir verjendur þess stjórnarfyrirkomulags. Þeirra hetjulega vörn varð grísku borgríkjunum mikil h vatning og gersigruðu Grikkirnir Persa í tveimur mikilvægum orrustum við Salamis og síðan Plataea. Magnaður teiknimyndastíllinn gefur myndinni ljóðrænan óraunveruleikablæ. Leikstjórinn styðst ekki mikið við staðreyndir í frásögn sinni þótt margir frægir díalógar, heróp og setningar sem sagðar eru í myndinni séu úr frásögn Herodotusar af bardaganum en hann var krakki þegar orrustan átti sér stað árið 480 fyrir krists burð. Myndin er ekki bundin á klafa pólitískrar rétthugsunar. Þarna eru Spartverjar sýndir drepa særða Persa á meðan þeir spjalla um daginn og veginn. Persum er vissulega ekki lýst með þeim hætti að rétt sé en þetta er bíómynd ekki sagnfræðikennsla eða kynningarmynd fyrir ferðamálaráð klerkastjórnarinnar í Íran. Bardagaatriðin eru áhrifarík og á köflum sadísk og hrottaleg. Kannski ekki stelpumynd þótt margar þeirra ættu að geta notið þess að horfa á 300 glæsilega karlmenn striplast um í kallaleikjum, urrandi, öskrandi og sýnandi á sér vöðvana. Strákarnir verða ekki sviknir af af blóðkarnegíunni þarsem persneskir pervertar eru skornir í tætlur, hauslausir líkamar lympast niður og limlestingar ná áður óþekktum stærðum.
(Thumbs down) Bjánahrollur fór um mig allan tímann sem ég horfði á þessa mynd. Fasísk hugmyndafræði sem Herodotus og Thucydides hafa sagt að Spartverjar hafi lifað við er hvergi dregin undan. Sú hugmyndafræði var hafin upp til skýjanna í ríkjum Þýskalands og Ítalíu í seinni heimsstyrjöldinni en vekur aðeins bjánahroll og hlátursköst í dag. Hermenn Spörtu eru einsog Sólskinsbörn Adolfs Hitlers, 300 arísk kraftatröll sem sýna enga miskunn, hafa ekkert hjarta, aðeins aga og líkamlega yfirburði. Í einu af fyndnum atriðum myndarinnar getur Leonídas ekki einu sinni sagt konunni sinni að hann elski hana, því hann er ekki slíkur ræfill og aumingi að hann sýni tilfinningar sínar segir sögumaður í bakgrunninum með aðdáun og virðingu. Sögulegt samhengi myndarinnar er lítið sem ekkert. Persarnir eru engin menningarþjóð heldur pervertískir aumingjar, lævísar lyddur, frík, fitubollur og hommar. Þannig eru skilin skörp á milli góðs og ills. Hið góða eru gagnkynhneigðir, heilbrigðir, arískir karlmenn sem sýna enga miskunn. Hið illa eru karlmenn með kvenlega tendensa, litað fólk, fatlað, feitt og ófrítt. Hægt er að sjá líkingar við Bandaríkin og yfirvofandi innrás í Persíu, þarsem Leonídas þarf að fá blessun frá prestum véfréttarinnar (einsog Sameinuðu þjóðirnar) en fær ekki þarsem prestarnir þar eru spilltir og viðbjóðslegir nautnaseggir sem búið er að múta. Hann fær ekki heldur aðstoð frá spartneska þinginu, því helvítis demókratarnir þar hugsa bara um eigin hag og svíkja konung sinn. En að leita að slíkum samlíkingum og halda því fram að myndin sé áróðursmynd til að undirbúa innrás Bandaríkjanna í Íran er kannski eitthvað sem á að láta múslímska klerka í Íran eina um. Enda virðast þeir trúa því að öll ríki séu einsog þeirra þarsem kvikmyndafyrirtæki geri áróðursmyndir að skipan ríkisstjórnarinnar. En sagan er slöpp og leiðinleg, þótt stíllinn sé flottur og bardagaatriðin oft kúl.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.3.2007 | 00:37
Segir hver?
Netið og bloggið er ótrúlega öflug leið til skoðanaskipta. Í stað þess að tuða á kaffistofunni yfir þeim þremur sem þar eru staddir getur fólk komið skoðunum sínum á framfæri við hundruðir, þúsundir og jafnvel tugþúsundir lesenda sem síðan geta komið með gagnrök þannig að úr verði áhugaverðar umræður. Eða það skyldu maður amk ætla.
Eftir að hafa lýst skoðunum mínum á hvaða fyrirkomulag ég persónulega vil sjá á sölu áfengis hér á landi fer ég satt að segja aðeins að efast um þennan ágæta miðil sem umræðuvettvang. Ég bjóst svo sem aldrei við öðru en að frjálshyggjujarmarar myndu kalla þetta forræðishyggju og vera ósammála mér, enda eru það vissulega fullgild rök að einkasala og skattlagning ríkisins feli í sér skerðingu á frelsi einstaklingsins til að drekka að vild. Þetta eru bara ólík sjónarmið og svo veljum við í kosningum hvernig við viljum reka þjóðfélagið, á lýðræðislegan hátt.
Þó ég hafi búist við að menn væru ósammála mér kom mér á óvart hvernig umræðan hefur þróast. Í framhaldinu af pistli mínum skrifar maður sem heldur því fram að bílbelti auki slys á fólki. Annar segir áfengi eingöngu vera genetískan sjúkdóm og að aðgengi að áfengi hafi ekkert með áfengissýki að gera. Eiginlega bjóst ég við umræðu á hærra plani. Hvort tveggja eru svo kolrangar og órökstuddar fullyrðingar að manni fallast hendur, nema gert ráð fyrir að þær séu brandari í ætt við The Flat Earth Society. Hefur fólk ekkert fyrir því að athuga hvort það sem það heldur fram á bloggi sé rétt? Tjá netverjar sig um hluti sem þeir hafa ekki þekkingu á?
Enginn hefur nokkurn tíma efast um að erfðir eigi þátt í áfengissýki, líkt og sennilega öllum sjúkdómum. Þess vegna hefur verið bent á hversu mikilvægt það er að velja sér rétta foreldra. Þó sumir séu ef til vill örlagaalkar af frá hendi náttúrunnar er mikilvægt að gera sér grein fyrir því varðandi áfengið að flest okkar geta ánetjast ef nægilega mikið er af því, óháð genum. Takmarkað aðgengi er því miður það eina sem hefur marktæk áhrif á umfang áfengisvandamálsins.
Þekktasta dæmið um áhrif þess að losa um höft á sölu áfengis á síðari árum koma frá Finlandi, þó sömu sögur komi einnig frá öðrum löndum. Hafi einhver áhuga á tölulegum staðreyndum vil ég benda á þessar síður hér, hér, hér, hér, hér og hér.
Þó mér virðist athugasemdirnar við áfengisumfjöllunina vera byggðar á mismikilli þekkingu er ég ekki að segja að það eigi við um umfjöllun Barkar. Hann virðist hins vegar aðeins rugla saman fordómum gegn minnihlutahópum s.s. útlendingum eða sígaunum við reglur samfélagsins sem öllum er gert að fylgja. Ég er hlynntur forræðishyggju þegar hún dregur úr skaða sem einstaklingar valda öðrum, eins og skýrt á við reglur um sölu áfengis og hörð umferðarlög sem ganga jafnt yfir alla. Ákveðnar reglur um vissa þjóðfélagshópa er eitthvað allt annað.
Þó ég sjálfur geti ekki skilið fólk sem ekki notar bílbelti finnast mér lög sem skylda fólk til bílbeltanotkunnar vera á gráu svæði, á meðan ökumaður er einn í bíl er það hans einkamál hvort hann kjósi að lifa eða deyja hann lendir í bílslysi. Þeir aðilar sem standa á bak við Darwin Awards eru meira að segja á því að það geti haft sína kosti að fólk sem ekki vill nota bílbelti sé ekki skyldað til þess.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.3.2007 | 20:32
er einhver til sem lætur sig íraka skipta einhverju máli?
Murtha segir með tárin í augunum að það sé kominn tími til að fá bandarísku hermennina heim. hann saknar strákanna sinna og hefur áhyggjur af þeim. Íslenskir andstæðingar stríðsins ræða á mótmælendafundum um hversu hrikalegt það hafi verið fyrir ímynd íslands að við skyldum hafa verið á lista staðfastra þjóða.
Þegar Bandaríkjamenn drulluðu sér frá Víetnam, þá var það góð pólitísk ákvörðun fyrir bandarísku stjórnina. Efasemdir eru um að það hafi verið gott fyrir Víetnamana, enda fjöldamorðin sem tóku við þar í landi talin hafa skipt mörg hundruð þúsundum mannslífa, sem enginn frétta- eða fjölmiðlamaður nennti að segja frá þarsem Vesturveldin voru ekki lengur þar.
Samþykkt að kalla Bandaríkjaher frá Írak 1. september 2008 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.3.2007 | 11:46
vinstri menn til varnar saddam hussein
Fjögur ár eru liðin síðan Bandalagsþjóðirnar réðust inní Írak og steyptu einræðisherranum Saddam Hussein. Á Íslandi sem og í öðrum löndum Evrópu var meirihluti manna á móti þessari innrás. Stærstu og mestu mótmælagöngur sögunnar voru gengnar vegna þessarar innrásar. Um milljón manns gengu um götur Lundúna til að andmæla henni. Það hefði komist í heimsmetabók Guinness ef mótmæli gegn þessu sama stríði hefðu ekki verið enn öflugri í Róm þarsem talið er að um þrjár milljónir manna hafa marserað gegn stríðinu. Í Róm. Höfuðborg fasistaveldis Mussolinis fyrir rúmum sextíu árum. Fyrir hverju voru þessar mestu mótmælagöngur gengnar? Þær voru farnar til að koma í veg fyrir fall eins frægasta einræðisherra og fjöldamorðingja sögunnar.
Núna, fjórum árum seinna, virðist flest benda til þess að innrásin hafi heppnast, uppbyggingin hafi misheppnast illilega og einnig að margar forsendur fyrir innrásinni hafi verið rangar. Um það hafa verið skrifaðar margar greinar og verða skrifaðar enn fleiri, þannig að það verður ekki tekið til umfjöllunar hér. Það sem er merkilegt er að þessi stærsta bylgja mótmæla og andmæla kom til varnar einræðisherranum og fjöldamorðingjanum Saddam Hussein.
Vinstrimaðurinn Nick Cohen gaf út bókina "What is left of the left?" fyrir skömmu í Bretlandi sem tekur þetta til umfjöllunar. Hann bendir á að þegar vesturveldin hölluðust frekar að Saddam Hussein á meðan hann var í stríði við klerkastjórnina í Íran brugðust vinstri menn illa við. Hann minnist þess hvernig reiðir sósíalistar og þingmenn Verkamannaflokksins fórnuðu höndum vegna illsku Saddams á meðan skáld og listamenn rituðu af samúð með fórnarlömbum þessa hryllilega harðstjóra. Íraskur útlagi að nafni Kanan Makiya var upphafinn sem hetja og ræður hans um illsku einræðisherrans voru vinsælar. Þessi samúð vinstri manna með fórnarlömbum Saddams og sú andúð sem þeir höfðu á honum snerist við í ágúst 1991 þegar hann réðist inní Kuwait og varð óvinur Bandaríkjanna. Á einni nóttu snerust vinstri menn Saddam til varnar. Cohen minnist þess að hafa verið fær um að benda á hræsnina hjá vesturveldunum í því að styðja Saddam í stríðinu við Íran en að kalla hann svo allt í einu hinn "nýja Hitler". En á þeim tíma var hann ófær um að horfast í augu við hræsnina hjá sjálfum sér og félögum hans sem höfðu kallað hann einræðisherra á borð við Hitler en á einni nóttu höfðu þeir snúist honum til varnar.
Þegar seinna Persaflóastríðið hófst 2003 komu vinstri menn einræðisherranum til varnar af enn meiri krafti. Íraskir útlagar einsog Kanan Makiya sem beittu sömu röksemdum gegn Saddam og þeir höfðu gert alla tíð náðu skyndilega ekki eyrum neins þeirra. Kanan Makiya hafði ekki breyst né breytt skoðunum sínum en pólitíska umhverfið hafði snúist á hvolf. Cohen segist hafa haft þá trú að þótt vinstrimenn væru á móti innrásinni að þá myndu þeir þó styðja uppbygginguna í Írak en orðið fyrir vonbrigðum þegar það varð ekki raunin. Ef Bandaríkin vilja eitt, þá verða vinstrimennirnir að vilja annað. Hann bendir með hryllingi á þá þróun að hann sem hafi alist upp í því að trúa að vinstimenn væru verjendur mannréttinda og lýðræðis horfi uppá þá ná sífellt betur saman við öfgafulla múslima og hryðjuverkamenn. Hann spyr hvernig það hafi gerst að vinstrimenn haldi fyrirlestra sem verja misrétti gagnvart konum í löndum múslima? Hann færir þessa hræsni sem vinstrimenn hafa sýnt gagnvart Írak víðar. Hann spyr af hverju er frelsi Palestínu og mannréttindamál í því landi jafn mikilvægur málstaður fyrir vinstrimenn og raun ber vitni en ekki mál Zimbabwe, Súdan, Norður-Kóreu eða Kína?
Bók Nicks Cohen um vinstrimenn í Bretlandi á jafn mikið við um vinstrimenn á Íslandi. Þeir hötuðu Saddam þangað til Bandaríkin snerust gegn honum og þá var hann tekinn upp á arma þeirra. Nýtilkominn áhugi þeirra á þjáningum Íraka og langur og djúpur áhugi á því óréttlæti sem Palestínumenn upplifa hefur lítið með þessar þjóðir að gera. Það hefur allt með Bandaríkin að gera. Blaðamaðurinn Davíð Logi Sigurðsson benti á það í pistli sínum hvað það væri sjálfhverft að í tilefni þess að fjögur ár eru liðin frá innrásinni í Írak snerust mótmæli vinstri manna á Íslandi um lista staðfastra þjóða. Í stað þess að hugsa til þeirra hörmunga sem Írakar eru að upplifa, hugsa til uppbyggingarinnar eða hvað megi gera til að aðstoða þá, snýst umræðan um pólitísk innanlandsmál. Það verður að teljast sorglegt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
krummi
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- annapala
- arnih
- arnljotur
- begga
- birgitta
- bjarnihardar
- bleikaeldingin
- davidlogi
- don
- ea
- fararstjorinn
- feministi
- gattin
- geislinn
- grettir
- halldorbaldursson
- hallkri
- handsprengja
- handtoskuserian
- hannibalskvida
- herdis
- hlynurh
- hof
- hoskuldur
- hrollvekjur
- hugsadu
- hux
- ingibjorgelsa
- jonasantonsson
- kaffi
- kiddirokk
- kjarninn
- kjoneden
- kolgrima
- listasumar
- ljonas
- lostintime
- maggaelin
- magnusb
- malacai
- maple123
- nosejob
- pallvil
- ragnhildur
- reni
- ruthasdisar
- seth
- sigurgeirorri
- stebbifr
- steinibriem
- theld
- tulugaq
- vefritid
- vglilja
- vinursolons
- vitinn
- arniarna
- gisliblondal
- skak
- athena
... ... ... ... ... ... ... ... ...