7.12.2006 | 16:11
Er þetta ekki svolítið klént, Jón Viðar?
Jón Viðar Jónsson leikhúsgagnrýnandi fer mikinn í nýju tölublaði Ísafoldar. Þar skrifar hann ritdóm um leikritið Amadeus undir yfirskriftinni Afturganga í Borgarleikhúsinu. Hann gefur leikritinu eina stjörnu og svo sem ekkert nema gott um það að segja. Um að gera að menn lýsi skoðunum sínum á þeim uppfærslum sem færðar eru á fjalir; leikhúsið þrífst á slíkri umræðu.
En Jón Viðar gengur lengra en það, rífur niður leikstjórann sjálfan og mælir með því að Hilmir Snær svipist næst um eftir "öðrum leikstjóra en Stefáni Baldurssyni. Sem stendur hefur Stefán því miður ekkert að gefa íslensku leikhúsi."
Jón Viðar segir einnig um Stefán að hann hafi í fyrri daga gert "mjög þokkalega hluti" en enginn lifi endalaust á fornri frægð. Og raunar vísar fyrirsögn greinarinnar til þess að Stefán sé afturgangan í Borgarleikhúsinu. Jón Viðar spyr: "Afturganga hvers? Sem þjóðleikhússtjóri var Stefán Baldursson oft - og alveg réttilega - gagnrýndur fyrir að reka einhvers konar stjörnupólitík á sviði leikhússins"
Þetta eru kaldar kveðjur frá leikhússunnanda til manns sem hefur fært íslensku leikhúsi margt spennandi í gegnum tíðina, bæði sem leikhússtjóri og leikstjóri. En látum það vera.
Undarlegt og nánast sögufölsun er hinsvegar að halda því fram að Stefán hafi ekkert að gefa íslensku leikhúsi, Hilmir Snær eigi því að snúa sér annað. Svo vill nefnilega til að síðast þegar þeir félagar unnu saman héldu gagnrýnendur vart vatni og Íslendingar flykktust í Iðnó á yfir 50 sýningar á Ég er mín eigin kona. Og sú sýning var á fjölunum síðastliðið vor, ekki er lengra síðan. Varla reyndist það yfirsjón hjá Hilmi Snæ að leika undir stjórn Stefáns sem Charlotte von Mahlsdorf og 34 aðrar persónur í leikritinu; hann fékk grímuverðlaun fyrir besta leik í aðalhlutverki.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 16:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.12.2006 | 09:21
Hvað lærir maður af því að láta pissa á sig?
Í gær skrifaði Börkur fínan pistil hér á vefinn um uppákomu sem átti sér stað í Listaháskóla Íslands fyrr í vetur. Þegar ég velti þessari uppákomu fyrir mér kemst ég að þeirri niðurstöðu að það hlýtur að vera hluti af vangaveltunum að uppákoman var hluti af skólaverkefni á fyrsta ári í LHÍ. Börkur kallar verkið gjörning en nær lagi væri að kalla það leikþátt, þar sem umræddir nemendur er að læra leiklist.
Nemar á fyrsta ári, í hvaða háskólanámi sem er, eru venjulega eða ættu að vara að læra grunnþætti í viðkomandi fagi. Undirstöðu sem þeir byggja síðan ofan á þar til öllu saman lýkur með útskriftarverkefni. Það að pissa á fólk í einhverju námsverkefni á fyrsta ári er ekki list heldur bara kjánalegt. Ættu nemendur á fyrra misseri fyrsta árs ekki að vera að fást við eitthvað annað en að pissa hver á annan? Hvað nákvæmlega lærir maður af því að pissa á fólk eða með því að láta pissa á sig? Ég hef ekki leitað nákvæmlega en ég er nokkuð viss um að pissukúrsinn er ekki að finna í námsskránni.
Þetta verkefni gefur þá mynd af kennslunni að hún virðist vera nokkuð stjórnlaus og snúast um að nemendur geri það sem þeim sýnist. Kennarinn hefði átt að grípa inni í og til að svara því strax þá er það ekki ritskoðun. Hlutverk kennara í listaskóla er að leiðbeina og kenna, þannig að nemendurnir geti að námi loknu orðið einhverskonar listamenn. Ef við jöfnum þessu við annað háskólanám þá er það ekki talin ritskoðun hjá kennara þegar hann leiðbeinir nemendum um efnistök í ritgerðum, eða gerir athugasemdir við ritgerðir eða verkefni. Það er t.d. ekki boðlegt að skila heimildaritgerð sem byrjar á orðunum í þessari ritgerð ætla ég ekki að byggja á heimildum, heldur eigin hyggjuviti.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 09:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.12.2006 | 15:53
Skaðleg réttlætiskennd?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.12.2006 | 15:04
Af afmæli og kviksetningu
Leiðin til hnignunar og glötunar er vörðuð bautasteinum. Einn þeirra varð á leið minni í dag þegar ég varð 35 ára. Renata frænka mín segir að ég sé orðinn "ógeðslega gamall maður". Og umræðan sem spannst við matarborðið í vikunni var á þessum nótum, nefnilega um kviksetningar.
Einn forfeðra minna og fleiri krumma lét nefnilega skera á úlnliðina áður en hann var jarðsettur af ótta við kviksetningu. Það kveikti fleiri sögur. Gömul kona vildi láta sprauta í sig blásýru áður en hún yrði borin til grafar og ung kona vildi láta jarða sig með vasaljós og farsíma, - með góðum batteríum. Henni var bent á að líklega væri ekki farsímasamband í iðrum jarðar og hún yrði því líklega að hafa fastlínutengingu.
Gamall maður fyrir austan vildi að líkið af sér yrði látið standa í nokkrar vikur áður en hann yrði jarðaður. Hann lést að sumri til og lá örendur í risherbergi í þrjár vikur. Þegar líkið var flutt niður þröngan stigann var varla kjötið héldist á beinunum. Ekki þurfti frekari vitnanna við; maðurinn var allur.
Svo eru þeir sem láta brenna sig. Enginn af þessum valkostum virðist neitt sérlega spennandi. En ég þarf líklega að fara að velta þessum hlutum fyrir mér, orðinn svona ógeðslega gamall. Kannski maður fari bara eins að og Bertrand Russell?
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 16:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.12.2006 | 02:14
Hrafn á leikinn
Skákgyðjan á marga góða vini en einn maður hefur gengið henni í föðurstað undanfarinn áratug og það er Hrafn Jökulsson. Hann heimsótti krumma sællar minningar, flutti stórfróðlegt erindi um Flugur Jóns Thoroddsens, sem hann sá um endurútgáfu á, og gaf lestrarfélaginu fyrstu bók í bókasafn félagsins.
Hrafn hefur haldið úti vinsælu bloggi og tilkynnti lesendum sínum í dag að hann væri á leið yfir lönd og höf til að leita sér lækninga í pistli undir yfirskriftinni "Bless í bili". Og skrifaði: Eftir það mun ég vonandi snúa tvíefldur, til að geta sinnt vinum, fjölskyldu og köllun minni."
Krummar styðja hann í baráttu sinni og hann má vita að hann mun alltaf aufúsugestur í hreiður þeirra. Þá munu liðsmenn skákarms Ufsans ávallt fylkja sér að baki foringjans. Vert er að rifja upp ljóð Hrafns úr bókinni Húsinu fylgdu tveir kettir: istanbúl er borgin mín":
istanbúl er borgin mín
ég hef aldrei komið þangað en oft verið þar
á götuhorni stendur auðvitað hvítkalkað kaffihús
með röndóttu skyggni yfir dyrunum
í horninu eru einhverjir að tefla
ég er stundum á þessu kaffihúsi
einkum þegar snjóar einsog núna
þá reyki ég rammar sígarettur drekk
sterkt kaffi tek skák við kallana
brosi kurteislega til einu konunnar
og hún brosir til mín án allra skuldbindinga
já istanbúl er borgin mín
og ég er þar stundum
þegar þú spyrð um þetta fjarræna augnaráð
mundu bara
það er ekki af áhugaleysi
sem ég virðist annars hugar
ég er að tefla skák í istanbúl
og ég á leikinn
Bækur | Breytt s.d. kl. 02:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.12.2006 | 11:44
Örlög gælusvíns Clooneys
Það berast sorgarfréttir utan úr heimi. Gælusvín Clooneys er fallið frá átján ára gamalt og var þetta lengsta sambúð Clooneys. Nefýlan flautar:
Clooney áður veitt var vín
og vífin ófá kyssti,
svo gekk að eiga gælusvín
- gölt sem lífið missti.
Á því hafði mikið mætt,
missti lífs af glaumnum,
er í gegnum súrt og sætt
synti á móti straumnum.
Undir bíl beið eitt sinn tjón
oft í háska statt var
með liðagigt og litla sjón
lífdaga það satt var.
Æmti svínið "aldrei meir,
elsku vinur hlýi".
En kannski aftur eiga þeir
ástarfund á skýi?
![]() |
Clooney missir gælugöltinn sinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bækur | Breytt s.d. kl. 11:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.12.2006 | 09:38
Afsökun hvað?
Nú er talsvert karpað á Íslandi um réttmæti innrásarinnar í Írak. Formaður framsóknar talar um mistök og formaður Samfylkingar um að menn eigi að opinbera iðrun sína. Það er ávallt auðvelt að vera vitur eftir á, stíga á pall og vera stóryrtur. Ég mun seint taka undir að rangt hafi verið að ryðja manni eins og Saddam Hussein úr vegi þótt efalaust hafi mátt gera margt betur í ferlinu sem við tók.
Þegar menn stunda það að vera vitrir eftir á takmarka þeir sig við núið. Meðal þeirra sem hæst bylur í er enginn vilji til að greina þær ástæður sem liggja að baki þeim ákvörðunum sem teknar voru og framtíðarsýnin er bjöguð í hlutfalli við nálægð kosninga.
Þeim sem vilja kynna sér nánar við hvaða vanda var við að eiga árið 2003 og hvaða forsendur menn höfðu fyrir innrásinni í Írak má benda á grein í tímaritinu Foreign Affairs fra því í júní á þessu ári. Þar er farið ofan í kjölinn á ýmsum skjölum sem ógnarstjórn Saddams skildi eftir sig og rýnt í það sem yfirmenn i her Saddams sögðu í yfirheyrslum. Menn vissu að Saddam hafði reynt að komast yfir gereyðingarvopn. Menn vissu að Saddam hafði beitt efnavopnum gegn eigin þegnum. Greinin i Foreign Affairs leiðir í ljós að fjölmargir yfirmanna í her Saddams trúðu því að Írak hefði yfir gereyðingarvopnum að ráða.
Í greininni er bent á að Saddam trúði ávallt að her hans myndi hafa í fullu tré við innrásarliðið. Menn voru skotnir ef þeir sögðu honum annað. Upphafin orðræða er mjög tíðkuð í arabaheiminum og undirmenn Saddams létu hann heyra það sem hann vildi með mikilli skrúðmælgi. Hann áleit sjálfur að flugher sinn stæðist ekki innrásarliðinu snúning og lét því grafa MIG-vélar sínar í sandinn og fela þær til að geta notað þær til að tryggja stöðu sína í þessum heimshluta eftir að hafa unnið sigur á innrásarliðinu. Saddam sagði ekki afdráttarlaust að hann ætti ekki gereyðingarvopn. Honum var mjög umhugað um að nágrannar hans, þ.á m. Íranar sem hann hafði staðið í 8 ára stríði við á 9. áratugnum, tryðu því að hann ætti þau og óttuðust hann. Saddam var í fyrsta lagi sannfærður um að Frakkar og Rússar, vegna viðskiptahagsmuna, kæmu í veg fyrir innrás og í öðru lagi fullviss um að hann gæti hrundið slíkri árás. Honum var því umhugað um stöðu sína eftir slíka innrásartilraun.
Upplýsingar sem bárust til Bandaríkjamanna og Breta voru því mjög misvísandi. Fjölmargir Írakar, og margir hverjir háttsettir, trúðu því að Saddam réði yfir gereyðingarvopnum. I nýútkominni bók, Inside the Jihad, kemur fram að Al Queda-liðar vildu að ráðist yrði á Írak. Stríð þeirra tengist ekki beint löndum heldur battlespace" og innrás í Írak gæfi þeim vígvöll til að berjast á. Í Inside the Jihad kemur fram að Al Queda-liðum var gert að segja að samtökin væru við það að kaupa gereyðingarvopn af Saddam ef þeir næðust og yrðu yfirheyrðir. Ein hliðin á teningnum var að ekki fundust gereyðingarvopn í Írak, og allir voru sammála um að það væri eins og að leita að nál i heystakki. Hin hliðin var sú sem menn sannarlega þekktu á Saddam og þær upplýsingar sem njósnarar fengu frá hans eigin háttsettu herforingjum, sem trúðu að hann ætti gereyðingarvopn, og handteknum Al Queða-liðum sem sögðu að samtökin væru við það að kaupa slík vopn af honum.
Hvaða gera menn við slíkar upplýsingar? Hefði verið rétt að láta Saddam njóta vafans? Hvað ef hann hefði átt gereyðingarvopn?
Fjölmargar þjóðir studdu innrásina í Írak. Stórþjóðir líkt og Frakkland, Rússland og Þýskaland lögðust gegn henni af ástæðum sem rekja má til undarlegs samblands af hnignandi stórveldis"-komplexum, dularfullum viðskiptasamningum (m.a. vopnasamningum) og pólitískrar tækifærismennsku heima fyrir. Þurfa Íslendingar að skammast sin fyrir að hafa að gefnum þessum forsendum, í samvinnu við þær þjóðir sem studdu innrásina, heimilað yfirflug og lendingar og gefið fyrirheit um 300 milljóna króna framlag til enduruppbyggingar Írak? Ég held ekki.
(Erindi sem barst Hrafnasparki frá félaga krumma ytra, Steinari Þór Sveinssyni).
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.12.2006 | 23:45
Svínið af Snæfellsnesi?
Það eru vandfundnari skemmtilegri lagatextar en í Svíninu með Ríó tríói. Textinn er bráðvel gerður og ég áleit alltaf að hann væri íslenskur, enda á þjóðlegum nótum. Hefði getað verið saminn undir jökli á Snæfellsnesi, fallegustu sveit á Íslandi, þar sem rík hefð er fyrir samgangi manna og svína. Ef grísinn á Malarrifi hefði ekki veirð étinn hefði hann ef til vill ratað í kvæði?
Svo rakst ég á frumútgáfuna rétt í þessu í enskri ljóðabók, en þar er það eignað hinum stórtæka höfundi "Anonymous":
It was an evening in November,
As I very well remember,
I was strolling down the street in drunken pride,
But my knees were all a-flutter,
And I landed in the gutter
And a pig came up and lay down by my side.
Yes, I lay there in the gutter
Thinking thoughts I could not utter,
When a colleen passing by did softly say:
"You can tell a man who boozes
By the company he chooses" -
And the pig got up and slowly walked away.
Textinn var á þessa leið með Ríó tríói og er eignaður Helga Péturssyni á Sittlítið af hvurju:
"Það var snemma í september/ að ég staulaðist heim - hálfber/ því að mikinn mjöð ég lét í maga mér. /Að lokum kylliflatur ég féll/ ofan í forarpoll með skell,/ þá kom syfjað svín og lagði sig hjá mér." Og seinna erindið, að slepptum millikafla: "Tvær fínar frúr þar gengu hjá/ og með furðu mig litu á/ og svo skömmuðu mig svo mig í skinnið sveið:/ "Það má þekkja þá sem drekka/ á þeim félögum sem þeir þekkja."/ - Þá stóð svínið upp og labbaði heim á leið!"
Tónlist | Breytt 5.12.2006 kl. 10:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.12.2006 | 23:55
Jesúbarn í jötu með ljósum
Fyrsti sunnudagur í aðventu er í dag, sú tíð er maður dregur fram úr geymslu táknmyndir þeirra hátíðar sem fer í hönd, ýmist sýnilega gripi eða ósýnilega, það sem manni er innrætt og síðan það sem maður býr til sjálfur smám saman um ævina.
Lútersk-evangelísk kirkja hefur mótað helgihald okkar flestra og byggir á sérkennilegum siðum og sérkennilegri hegðan manna sem sveipa sig pelli og purpura og fara með töfraþulur, særingar. Fjólublátt er litur aðventunnar, litur yfirbótar og föstu, þrautar og pínu. Þriðja sunnudaginn í aðventu sláum við aðeins í, gaudete sunnudaginn, skiptum út föstunni og þjáningunni fyrir gleði, fjólubláu fyrir bleikt og rautt, nú eða blátt, konunglega blátt eða dimmblátt.
Grænt er líka litur aðventunnar, litur greninála sem halda lit sínum í frosti og snjó, vísbending. loforð, um að það vori á ný. Og svo rautt, rautt er líka jólalitur nútildags, rauðar húfur og feitur karl með hvítt skegg, heilagur Nikulás, Sinterklaas.
Jólasveinninn mótaðist á löngum tíma, föt skegg og húfa. Í jólaævintýri Charles Dickens sem kom út 1843 er anda þessara jóla, The Ghost of Christmas Present, lýst svo í íslenskri þýðingu Karls Ísfelds frá 1942:
... Hann var í óbrotnum, dökkgrænum kyrtli eða möttli einum klæða, bryddum hvítu loðskinni. Þessi kyrtill féll svo laust að honum, að brjóst hans var bert, eins og hann hefði fyrirlitningu á að hylja það með nokkru aðfengnu. Fætur hans, er komu fram undan hinum víða kyrtilfaldi, voru líka berir og á höfðinu hafði hann ekki annað en sveig úr kristsþyrni, sem blikandi klakanjólar héngu í á víð og dreif.
Grænt og rautt, ber kristþyrnisins, Ilex aquifolium, og græn blöð hans voru kjarni í miðsvetrarhátíð fyrri tíma, tíma fyrir Krists hingaðkomu, en eftir að trúin breiddist út, hinn nýi siður, var sagt að kristsþyrnir hefði sprottið upp í fótspor hans, þyrnótt blöðin og rauð berin eins og blóðdropar. Enskir kölluðu runnann heilagt tré, holy tree, og kalla í dag Holly.
Andi þessara jóla er dökkhærður og bjartur yfirlitum með tindrandi augu, en er dagur kemur að kveldi verður hann hærugrár. Í honum er að finna þætti sem síðar urðu að jólasveini okkar tíma, samtíningur úr öllum áttum og ekki uppfinning Coca Cola Company eins og svo margir halda. Þaðan er þó líklega komin rauða álfahúfan sem allmargir starfsmenn Morgunblaðsins settu upp fyrir ljósmyndara eins og sjá mátti í jólablaði Morgunblaðsins fyrir skemmstu, kókkynslóðirnar (kláraðu kókið þitt, heyrði ég móður segja höst við barnið sitt á Hressó fyrir löngu).
Ég ljóstra kannski upp um aldur þegar ég rifja upp að með fyrstu jólaminningum er eplakassi sem keyptur var til landsins í gegnum sambönd hjá Eimskipum. Epli eru löngu hætt að vekja jólastemmningu, nú eru það mandarínurnar, citrus reticulata, eða mandarínuafbrigðið klementína. Lýsandi þegar rauðum eplum var kippt útaf forsíðu jólablaðs eins blaðauka Morgunblaðsins og appelsínugular klementínur settar í staðinn. Kannski ætti maður að kaupa sér klementínutré í fötu fyrir næstu jól. Kaupa sér jólastemmningu.
Undir lok hvers árs byrja menn einmitt að auglýsa jólastemmningu til sölu (og eins byrja menn að kvarta yfir því að hún sé auglýst of snemma).
Á rölti um jólamarkaði í ýmsum löndum rekst maður á mismunandi jólasiði - í Kristinaníu var hass í pönnukökunum í pönnukökuhúsinu, í Brussel drekka menn kryddaðan sénever að létta sér jólagjafaleitina, og í Barcelona kaupir maður styttur af kúkakarlinum, caganer, til að stilla upp með Jósep, Maríu og Jesúbarninu.
Kúkakarlinn er ekki í aðalhlutverki, hann er gjarnan til hliðar, jafnvel bak við fjárhúsið. Siðurinn er líklega frá sautjándu öld - hann gat ekki verið með við jötuna, segja katalónsk börn mér, hann þurfti að kúka. Þannig er manni kippt út úr glansmyndinni - það er eiginlega ekki hægt að vera jarðbundnari en að sitja á hægðum sér og skíta aftan við fjárhúsið þegar kóngarnir (í spænsku helgihaldi) eru að heiðra Jesúbarnið. Þó maður sé með rauða skotthúfu. Menja bé, caga fort! sögðu katalónskir bændur við upphaf borðhalds.
Siðirnir breytast og ekki ástæða til að amast við siðaskiptum. Sumt er þó erfiðara að sætta sig við en annað - er til viðurstyggilegra fyrirbæri en kókbílalest niður Laugarveginn? Kannski á maður bara að sætta sig við það og sækja sér huggun í Jesúbarni í jötu með ljósum frá Rúmfatalagernum. Á aðeins 2.990 kr.
Trúmál og siðferði | Breytt 4.12.2006 kl. 12:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.12.2006 | 16:07
Þar skall hurð nærri hælum
Þar skall hurð nærri hælum. Brotist var inn í stigagang forseta lestrarfélagsins, eflaust í þeim tilgangi að stela krumma. Fyrst hringdu þrjótarnir dyrabjöllunni og þar sem forsetinn var í baði, þá hleypti hann þeim inn og kallaði niður: "Hver er þar?". "Er Palli heima?" heyrðist að neðan. "Hann á ekki heima hér," svaraði forsetinn og fylgdist með því að fyrirspyrjendur hyrfu örugglega af vettvangi. Sem þeir og gerðu. Fór þá forsetinn aftur í bað, alsæll yfir því að truflunin væri ekki meiri, en hrökk upp aftur við mikinn skarkala í kjallaranum. Þá höfðu pörupiltarnir tekið útidyrnar úr lás og laumað sér inn, farið niður í geymslu og brotið þar upp dyr, - eflaust voru þeir að leita að krumma. Nágranni forsetans kom hinsvegar að þeim og hrakti þá tómhenta brott, meðal annars með því að kasta að þeim bókahillu. Ekki fylgir sögunni hvort hún var full af bókum. Í fyrstu var forsetinn uggandi um að krummi hefði horfið með þjófunum, en létti þegar:
Heyrði' eg orð úr hægum sessi
hann ei mæla fleiri' en þessi,
eins og hefði hinzta andvarp
hrafnsins verið: "Aldrei meir."
Hljóður sat hann, hreyfðist varla, -
í hljóði mælti eg þá, að kalla:
"Sá ég víkja vini alla
vonir svíkja eins og þeir;
þessi fugl, hann fer á morgun
frá mér burtu, eins og þeir."
Enn kvað hrafninn: "Aldrei meir."
Reyndar sagði krummi ekki neitt, enda uppstoppaður í plastpoka. En einhvern veginn tengi ég hann við innbrotið; óheillafugl eins og ráða má af kvæði Edgar Allan Poe í þýðingu Einars Benediktssonar.
Bækur | Breytt 4.12.2006 kl. 12:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
krummi
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (6.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
annapala
-
arnih
-
arnljotur
-
begga
-
birgitta
-
bjarnihardar
-
bleikaeldingin
-
davidlogi
-
don
-
ea
-
fararstjorinn
-
feministi
-
gattin
-
geislinn
-
grettir
-
halldorbaldursson
-
hallkri
-
handsprengja
-
handtoskuserian
-
hannibalskvida
-
herdis
-
hlynurh
-
hof
-
hoskuldur
-
hrollvekjur
-
hugsadu
-
hux
-
ingibjorgelsa
-
jonasantonsson
-
kaffi
-
kiddirokk
-
kjarninn
-
kjoneden
-
kolgrima
-
listasumar
-
ljonas
-
lostintime
-
maggaelin
-
magnusb
-
malacai
-
maple123
-
nosejob
-
pallvil
-
ragnhildur
-
reni
-
ruthasdisar
-
seth
-
sigurgeirorri
-
stebbifr
-
steinibriem
-
theld
-
tulugaq
-
vefritid
-
vglilja
-
vinursolons
-
vitinn
-
arniarna
-
gisliblondal
-
skak
-
athena
... ... ... ... ... ... ... ... ...