Vísindi eða vitleysa

Eitt það fyrsta sem nemum í mínu fagi er kennt í náminu er að það skiptir ekki öllu máli hvað þú veist eða kannt.  Til að geta starfað farsællega skiptir öllu máli að vita alltaf nákvæmlega hvað það er sem þú veist ekki, hvenær þinni þekkingu sleppir og þú átt að spyrja einhvern annan sem veit betur.  Þessi regla gildir um alla, 1. árs nemi sem gerir hluti sem hann kann ekki er jafn hættulegur og prófessor í sérhæfðu viðfangsefni sem gerir hluti sem hann kann ekki. 

Því miður virðist þessi regla ekki vera virt í öllum fögum.  Undanfarið hefur Hannes nokkur Hólmsteinn prófessor í stjórnmálafræði við HÍ skrifað pistla þar sem hann dregur í efa allar kenningar um að við þurfum að endurskoða græðgiskapphlaup nútímans og hugsa meira um náttúruna.  Ljómandi af sjálfumgleði segir hann frá því hvernig hann innprentar nemendum sínum að vera ekkert að hlusta á spár um að losun kolvtísýrings geti leitt til hækkunar hitastigs á jörðinni.  Hann hvetur fólk til að taka ekki mark á kenningum vísindamanna um að flest bendi til stórkostlegra hamfara á næstu áratugum vegna loftslagsbreytinga, hamfara sem setja allt vistkerfi jarðarbúa í hættu.   

Hægt er að fullyrða að langflestir þeirra vísindamanna, sem hafa eitthvað raunverulegt vit á þeim flóknu reiknilíkönum sem gera þarf til að spá fyrir um þróun vistkerfis jarðarinnar, séu sammála um hættuna af gróðurhúsaáhrifunum.  Samt veit prófessorinn betur.  Ekki af því að hann hafi kynnt sér málið.  Ekki af því að hann byggi niðurstöðuna á eigin rannsóknum eða með því að hrekja efnislega ályktanir vísindamanna. 

Nei, Hannes veit bara betur.  Hann hefur spáð aðeins í málinu, komist að þeirri niðurstöðu að þetta sé kannski bara bull og er ekkert að liggja á þeirri skoðun sinni.  Að áður hafi orðið miklar náttúrulegar sveiflur í veðurfarinu og því sé allt eins líklegt að þær sveiflur sem við sjáum nú hafi ekkert með hegðun okkar að gera. 

Hannes, hvort finnst þér eigi að nota suxamethonium eða rocuronium fyrir barkaþræðingu eftir höfuðáverka?  Viltu tjá þig um burðarþolsútreikninga í nýja tónlistarhúsinu?  Hvernig verður veðrið í næstu viku og hvenær gýs Katla?   

Allt eru þetta góðar og gildar spurningar sem skipta máli í þjóðfélaginu og sem betur fer eigum við sérfræðinga á öllum sviðum sem við getum leitað til þegar við þurfum svör.  Þeir vita ekkert endilega með vissu hvað gerist næst, en við leitum til þeirra af því að þeir hafa meira vit á vandamálinu en nokkur annar.

Látum vera að almennur starfsmaður lýsi skoðunum sínum á ýmsum málefnum á kaffistofu vörulagersins, en ef prófessor við virta menntastofnun lýsir áliti sínu þá á að vera hægt að gera kröfu til þess að vísindi séu á bak við orð hans.  Ef það er ekki, ef prófessor er í nafni embættis síns farinn að tjá sig um hluti sem hann líklega hefur ekki nokkurt minnsta vit á, er það alvarlegt mál.  Í greininni kemur fram að í háskólaheimi Hannesar virðist allt snúast um að sinna því sem eftirspurn er eftir en ekki leita sannleikans.  Er prófessorinn að gefa í skyn að gjörvallur Kyotosamningurinn og allt starf sem unnið er að í loftslagsmálum sé til komið vegna athyglissýki háskólamanna?   

Einu eðlilegu viðbrögðin þegar einstaklingur er farinn að brjóta grundvallarreglu allra vísindamanna og tjá sig um hluti sem hann hefur ekkert vit á er að hætta einfaldlega að taka mark á nokkru sem frá honum kemur.  Það er orðið nokkuð langt síðan Hannes komst í þann flokk hjá mér.  Vistkerfi jarðarinnar er að minnsta kosti allt of mikilvægt til að láta það stjórnmálafræðingi eftir.


Rithöfundar á blogginu

Bloggið er löngu orðið bókmenntagrein. Ótal rithöfundar að gefa sjálfir út efni á hverjum degi. Einn þeirra sem ég hef fylgst með í gegnum tíðina er Ívar Páll Jónsson blaðamaður sem heldur úti vefnum Eddie Murphy loads his own gun. Hann iðkar stílbrögð sem ég hef séð fleiri beita á Netinu, stuttar athugasemdir, stundum í einni setningu, sem bregða skemmtilegu ljósi á tilveruna. Hann skrifar 19. nóvember:

"Það er auðvelt að gera sér í hugarlund hvað á sér stað í Sogskálanum í Hveradölum."

Þannig leikur hann sér oft að margræðni orða, svo sem í færslu 11. nóvember:

"Ég spurði Konráð bróður minn áðan hvort hann notaði ekki alveg örugglega konþráð. Hann svaraði með orðinu já, sem þýðir að hann hlýtur að hafa verið með konþráðinn í eyrunum þegar spurningin var borin upp."

Og hann getur líka verið beittur, eins og í tilkynningu 15. nóvember:

"Bein útsending verður á vef umhverfisráðuneytisins frá ræðu Jónínu Bjartmarz umhverfisráðherra á ráðherrafundi Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í Kenýa kl. 8 í fyrramálið. Í tilefni af því hefur verið skipulagt fjöldasjálfsvíg á Players í Kópavogi, þar sem ræða ráðherra verður sýnd á skjánum á meðan viðstaddir skera sig á háls."

Auðvitað er Ívar Páll aðeins einn af mörgum hugmyndaríkum pennum á vefnum og gaman væri að fá ábendingar um fleiri. En það er spurning hvenær farið verður að skrifa ritdóma og gera fræðilegar úttektir á bloggsíðum, jafnvel einstökum færslum. Það væri verðugt verkefni að gera brautryðjendum skil á þeim vettvangi en einnig að hampa þeim höfundum sem rísa hæst.  


Umhyggja formannsins

Þetta er afskaplega elskulegt af Guðjóni A. Kristjánssyni að hugsa svona vel um hana Margréti Sverrisdóttur. Það má finna á orðum hans að hann ber hag hennar sér fyrir brjósti. Sólskríkjan syngur:  

Vífið rækti vel sitt starf

var hún Margrét oft til svara;

nú tíma í framboð taka þarf

– af tillitssemi var látin fara!


mbl.is Guðjón segir Margréti þurfa tíma í aðdraganda kosninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stysta ljóðið?

Var að lesa bókina Believe it or Not! sem Robert L. Ripley sendi frá sér árið 1929 og fann þar nokkuð sem hann segir "stysta ljóð í heiminum":

Hired.

Tired?

Fired!

Þetta er auðvitað mjög merkingarþrungið, mannlegur harmleikur. En ég hef heyrt styttra ljóð, raunar eftir krummafélaga, Breka Karlsson, sem er enn harmþrungnara:

Dodi dó

Di dó

Það rifjast líka upp örljóð Davíðs Þórs Jónssonar eða Radíusbræðra um Ísbjörninn á Seltjarnarnesi:

Hér var íshús,

hvað næst?

Djísús

Kræst!

Kunna menn fleiri slík?


Ný heimsendaspá

Þar kom ný heimsendaspá sem ég hef ekki heyrt áður, "andrúmsloftstímasprengja". Nú tíðkast víst að tala um hlýnunina og gróðurhúsaáhrifin út frá hagfræðilegu sjónarmiði. Sólskríkjan syngur: 

Hefst nú bráðum hrunadans

að hagvexti mun þrengja;

alla sendir til andskotans

andrúmsloftstímasprengja.  


mbl.is Hækkandi sjávarhiti í N-Atlantshafi myndar „andrúmsloftstímasprengju“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fantaskapur fréttamanna?

Þegar ég sá vinnueftirlitið vera að gera athugasemdir um að pólskir verkamenn byggju í ósamþykktu húsnæði og lýstu illum aðbúnaði verkamannana varð mér hugsað til þess þegar ég var námsmaður í Tékklandi og bjó á stúdentagörðunum þar.   Við vorum sex saman í 16 fm. húsnæði og prísuðu flestir sig sæla með að hafa komist inná stúdentagarðana.
Þeir Pólverjar sem ég þekki eru himinlifandi með aðstöðuna sem og vinnuna.   Flestir tékkneskir vinir mínir væru ánægðir með þetta húsnæði sem fréttamönnunum fannst vera fyrir neðan virðingu sína.  Ég hef í flestum tilvikum búið í verra húsnæði síðastliðin sex ár.   En ég hef verið þeim þakklátur sem hafa boðið uppá það á lágu verði.
Á öðru tímabili í Tékklandi átti ég engan pening og hafði engan veginn efni á því að leigja íbúðir eða herbergi sem voru yfirleitt leigðar út á bilinu 20 – 50 þúsund.  En á endanum fann ég ósamþykkta rottuholu á 5 þúsund kall.   Leigusalinn var augljóslega drullusokkur en líklegast er hann sá sem ég á mest að þakka það að ég ílengdist í Tékkó.   Ég gæti líklegast leitað hann uppi í dag og gefið honum gjafir og kossa, en ég held að hann muni ekki eftir mér, ég var líklegast bara peningur í hans augum.   Hálfviti sem lét bjóða mér svona viðbjóðslega rottuholu fyrir fimm þúsund kall – kannski átti hann ekki einu sinni þessa holu?  En hvað kemur mér það við?   Hann bjargaði lífi mínu í Tékkó og í raun var hann aðalvaldur þess að ég fór að vinna fyrir tékkneska ríkissjónvarpið og gerði bíómynd og það var bara allt saman helvíti gaman.   Án hans hefði ég líklegast gefist upp þarna í miðju náminu og farið heim í fría súpu hjá mömmu (eða farið að vinna í heildsölunni hjá pabba).  Þannig að eigendur ósamþykktra íbúða eiga samúð mína alla en ekki fréttamenn.

Karíókí í Höllinni

Nú um helgina fer fram í Laugardagshöllinni stærsta karíókí sýning allra tíma. Að vísu fá ekki allir að grípa í míkrófóninn, líkt og í Glæsibæ, heldur fá aðeins Magni og vinir hans að syngja. Nú þegar er uppselt á eina sýningu og gengur vel að selja á þá næstu. Hvað er eiginlega í gangi? Þættirnir Rock Star Supernova voru ágæt skemmtun og vitanlega hélt maður með Magna og hafði gaman af því að taka þátt í fárinu í kringum net og símkosningar langt fram á nótt. En hversu lengi á eiginlega að halda áfram? Öllum er sama um hljómsveitna Rock Star Supernova og í raun veit enginn hvað varð um hana og vinningshafa þáttanna eða þá bara alla hina keppendurnar. Magni er kannski flottur fír og fínn söngvari en hversu lengi ætlar hann að syngja þekkta slagara í karíókí með vinum sínum.

Sennilega er svarið; á meðan einhver er tilbúinn að borga sig inn á sýninguna!


Eggert eignast barn

Þetta eru sælustundir í lífi Eggerts Magnússonar, sem segir West Ham vera barnið sitt. Sólskríkjan syngur:

Lyftist brá og léttist sporið
ljúf er stund með vini;
Eggert hefur barnið borið
Björgólfi Guðmundssyni.


mbl.is „Þetta er barnið mitt," segir Eggert Magnússon
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af skyldleika bókartitla

HrafnasparkÞað kennir ýmissa grasa hjá útgáfunni Sögur fyrir jólin, enda mikill bóka- og tónlistaráhugamaður sem heldur um taumana, Tómas Hermannsson. Hann er svo rausnarlegur að bjóða allri þjóðinni á Bessastaði um jólin, því hann gefur út Matreiðslubók íslenska lýðveldisins. Þar er úrval rétta sem bornir hafa verið fram í boði íslenska lýðveldisins, veislum til heiðurs konungsfjölskyldum, forsetum, ráðherrum og fleiri stórmennum.  

En það er athyglisvert að á meðal bóka sem Tómas gefur út er Draumalandið. Reyndar ekki eftir Andra Snæ Magnason heldur Örnu Skúladóttur, sem leiðir lesendur inn í heim barnsins og skoðar hann í ljósi svefnsins. Bækurnar tvær komu út á sama tíma, sem ætti ekki að koma Andra Snæ á óvart miðað við hugleiðingar hans um hugmyndir sem fæðast á sama tíma á ólíkum stöðum - liggja í loftinu.

Aftur urðu Sögur fyrir þessu í jólabókaflóðinu. Fyrir síðustu jól gáfu Sögur út Fánýtan fróðleik og gefa nú út bókina Meiri fánýtur fróðleikur. Þá vill svo til að forlagið Bjartur gefur út Fánýtan fróðleik um fótbolta. Tilviljun?  

Og dæmin eru fleiri. Hrafnasparkið hlýtur að fagna því að á fyrsta sígaunadjassdiski Íslands stígur tríóið Hrafnaspark fram í sviðsljósið. Í kynningu á disknum segir að síðustu fimm ár hafi tríóið verið að fylgja því eftir sem Django Reinhardt byrjaði á í kjölfar fyrri heimstyrjaldarinnar, Sígaunadjassinum: "Hér er einstaklega skemmtileg spilamennska á ferðinni spiluð eins og henni hentar best, live."

Alltaf fjölgar góðvinum Krumma!


Íslenskur Bond?

Það eru ekki aðeins dansandi mörgæsir sem slá Daniel Craig við sem James Bond. Íslenskt hreystimenni hafði samband við Hrafnasparkið rétt í þessu og lýsti áhyggjum sínum af Bond í Casino Royale. 

Raunar gekk hann lengra og sagði að þetta væri enginn Bond. Í fyrsta lagi æki hann um á Ford Focus. Í öðru lagi sæti hann við pókerborðið og pantaði tvöfaldan romm í kók, en ekki Martini, "shaken, not stirred". Í þriðja lagi vélaði hann upplýsingar út úr íðilfagurri stúlku "sem síðan bauð honum að sofa hjá sér, en hann neitaði!"

"Það var aðeins einn Bond í bíósalnum," sagði þetta annálaða hreystimenni, sem klæðist stuttermabol í öllum veðrum. "Og það var ég. Ég sat með skvísuna í fanginu í salnum; hún strauk á mér bringuhárið og kyssti á mér hálsinn. Síðan gengum við út og þar beið gljáfægður Landcruiser. Það hugsuðu allir sem sáu okkur: "Já, þarna fer hinn eini sanni Bond." Þetta var engin keppni."


mbl.is Dansandi mörgæsir vinsælar í kvikmyndahúsum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband