Færsluflokkur: Bækur
6.12.2006 | 02:14
Hrafn á leikinn
Skákgyðjan á marga góða vini en einn maður hefur gengið henni í föðurstað undanfarinn áratug og það er Hrafn Jökulsson. Hann heimsótti krumma sællar minningar, flutti stórfróðlegt erindi um Flugur Jóns Thoroddsens, sem hann sá um endurútgáfu á, og gaf lestrarfélaginu fyrstu bók í bókasafn félagsins.
Hrafn hefur haldið úti vinsælu bloggi og tilkynnti lesendum sínum í dag að hann væri á leið yfir lönd og höf til að leita sér lækninga í pistli undir yfirskriftinni "Bless í bili". Og skrifaði: Eftir það mun ég vonandi snúa tvíefldur, til að geta sinnt vinum, fjölskyldu og köllun minni."
Krummar styðja hann í baráttu sinni og hann má vita að hann mun alltaf aufúsugestur í hreiður þeirra. Þá munu liðsmenn skákarms Ufsans ávallt fylkja sér að baki foringjans. Vert er að rifja upp ljóð Hrafns úr bókinni Húsinu fylgdu tveir kettir: istanbúl er borgin mín":
istanbúl er borgin mín
ég hef aldrei komið þangað en oft verið þar
á götuhorni stendur auðvitað hvítkalkað kaffihús
með röndóttu skyggni yfir dyrunum
í horninu eru einhverjir að tefla
ég er stundum á þessu kaffihúsi
einkum þegar snjóar einsog núna
þá reyki ég rammar sígarettur drekk
sterkt kaffi tek skák við kallana
brosi kurteislega til einu konunnar
og hún brosir til mín án allra skuldbindinga
já istanbúl er borgin mín
og ég er þar stundum
þegar þú spyrð um þetta fjarræna augnaráð
mundu bara
það er ekki af áhugaleysi
sem ég virðist annars hugar
ég er að tefla skák í istanbúl
og ég á leikinn
Bækur | Breytt s.d. kl. 02:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.12.2006 | 11:44
Örlög gælusvíns Clooneys
Það berast sorgarfréttir utan úr heimi. Gælusvín Clooneys er fallið frá átján ára gamalt og var þetta lengsta sambúð Clooneys. Nefýlan flautar:
Clooney áður veitt var vín
og vífin ófá kyssti,
svo gekk að eiga gælusvín
- gölt sem lífið missti.
Á því hafði mikið mætt,
missti lífs af glaumnum,
er í gegnum súrt og sætt
synti á móti straumnum.
Undir bíl beið eitt sinn tjón
oft í háska statt var
með liðagigt og litla sjón
lífdaga það satt var.
Æmti svínið "aldrei meir,
elsku vinur hlýi".
En kannski aftur eiga þeir
ástarfund á skýi?
![]() |
Clooney missir gælugöltinn sinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bækur | Breytt s.d. kl. 11:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.12.2006 | 23:55
Jesúbarn í jötu með ljósum
Fyrsti sunnudagur í aðventu er í dag, sú tíð er maður dregur fram úr geymslu táknmyndir þeirra hátíðar sem fer í hönd, ýmist sýnilega gripi eða ósýnilega, það sem manni er innrætt og síðan það sem maður býr til sjálfur smám saman um ævina.
Lútersk-evangelísk kirkja hefur mótað helgihald okkar flestra og byggir á sérkennilegum siðum og sérkennilegri hegðan manna sem sveipa sig pelli og purpura og fara með töfraþulur, særingar. Fjólublátt er litur aðventunnar, litur yfirbótar og föstu, þrautar og pínu. Þriðja sunnudaginn í aðventu sláum við aðeins í, gaudete sunnudaginn, skiptum út föstunni og þjáningunni fyrir gleði, fjólubláu fyrir bleikt og rautt, nú eða blátt, konunglega blátt eða dimmblátt.
Grænt er líka litur aðventunnar, litur greninála sem halda lit sínum í frosti og snjó, vísbending. loforð, um að það vori á ný. Og svo rautt, rautt er líka jólalitur nútildags, rauðar húfur og feitur karl með hvítt skegg, heilagur Nikulás, Sinterklaas.
Jólasveinninn mótaðist á löngum tíma, föt skegg og húfa. Í jólaævintýri Charles Dickens sem kom út 1843 er anda þessara jóla, The Ghost of Christmas Present, lýst svo í íslenskri þýðingu Karls Ísfelds frá 1942:
... Hann var í óbrotnum, dökkgrænum kyrtli eða möttli einum klæða, bryddum hvítu loðskinni. Þessi kyrtill féll svo laust að honum, að brjóst hans var bert, eins og hann hefði fyrirlitningu á að hylja það með nokkru aðfengnu. Fætur hans, er komu fram undan hinum víða kyrtilfaldi, voru líka berir og á höfðinu hafði hann ekki annað en sveig úr kristsþyrni, sem blikandi klakanjólar héngu í á víð og dreif.
Grænt og rautt, ber kristþyrnisins, Ilex aquifolium, og græn blöð hans voru kjarni í miðsvetrarhátíð fyrri tíma, tíma fyrir Krists hingaðkomu, en eftir að trúin breiddist út, hinn nýi siður, var sagt að kristsþyrnir hefði sprottið upp í fótspor hans, þyrnótt blöðin og rauð berin eins og blóðdropar. Enskir kölluðu runnann heilagt tré, holy tree, og kalla í dag Holly.
Andi þessara jóla er dökkhærður og bjartur yfirlitum með tindrandi augu, en er dagur kemur að kveldi verður hann hærugrár. Í honum er að finna þætti sem síðar urðu að jólasveini okkar tíma, samtíningur úr öllum áttum og ekki uppfinning Coca Cola Company eins og svo margir halda. Þaðan er þó líklega komin rauða álfahúfan sem allmargir starfsmenn Morgunblaðsins settu upp fyrir ljósmyndara eins og sjá mátti í jólablaði Morgunblaðsins fyrir skemmstu, kókkynslóðirnar (kláraðu kókið þitt, heyrði ég móður segja höst við barnið sitt á Hressó fyrir löngu).
Ég ljóstra kannski upp um aldur þegar ég rifja upp að með fyrstu jólaminningum er eplakassi sem keyptur var til landsins í gegnum sambönd hjá Eimskipum. Epli eru löngu hætt að vekja jólastemmningu, nú eru það mandarínurnar, citrus reticulata, eða mandarínuafbrigðið klementína. Lýsandi þegar rauðum eplum var kippt útaf forsíðu jólablaðs eins blaðauka Morgunblaðsins og appelsínugular klementínur settar í staðinn. Kannski ætti maður að kaupa sér klementínutré í fötu fyrir næstu jól. Kaupa sér jólastemmningu.
Undir lok hvers árs byrja menn einmitt að auglýsa jólastemmningu til sölu (og eins byrja menn að kvarta yfir því að hún sé auglýst of snemma).
Á rölti um jólamarkaði í ýmsum löndum rekst maður á mismunandi jólasiði - í Kristinaníu var hass í pönnukökunum í pönnukökuhúsinu, í Brussel drekka menn kryddaðan sénever að létta sér jólagjafaleitina, og í Barcelona kaupir maður styttur af kúkakarlinum, caganer, til að stilla upp með Jósep, Maríu og Jesúbarninu.
Kúkakarlinn er ekki í aðalhlutverki, hann er gjarnan til hliðar, jafnvel bak við fjárhúsið. Siðurinn er líklega frá sautjándu öld - hann gat ekki verið með við jötuna, segja katalónsk börn mér, hann þurfti að kúka. Þannig er manni kippt út úr glansmyndinni - það er eiginlega ekki hægt að vera jarðbundnari en að sitja á hægðum sér og skíta aftan við fjárhúsið þegar kóngarnir (í spænsku helgihaldi) eru að heiðra Jesúbarnið. Þó maður sé með rauða skotthúfu. Menja bé, caga fort! sögðu katalónskir bændur við upphaf borðhalds.
Siðirnir breytast og ekki ástæða til að amast við siðaskiptum. Sumt er þó erfiðara að sætta sig við en annað - er til viðurstyggilegra fyrirbæri en kókbílalest niður Laugarveginn? Kannski á maður bara að sætta sig við það og sækja sér huggun í Jesúbarni í jötu með ljósum frá Rúmfatalagernum. Á aðeins 2.990 kr.
Bækur | Breytt 4.12.2006 kl. 12:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.12.2006 | 16:07
Þar skall hurð nærri hælum
Þar skall hurð nærri hælum. Brotist var inn í stigagang forseta lestrarfélagsins, eflaust í þeim tilgangi að stela krumma. Fyrst hringdu þrjótarnir dyrabjöllunni og þar sem forsetinn var í baði, þá hleypti hann þeim inn og kallaði niður: "Hver er þar?". "Er Palli heima?" heyrðist að neðan. "Hann á ekki heima hér," svaraði forsetinn og fylgdist með því að fyrirspyrjendur hyrfu örugglega af vettvangi. Sem þeir og gerðu. Fór þá forsetinn aftur í bað, alsæll yfir því að truflunin væri ekki meiri, en hrökk upp aftur við mikinn skarkala í kjallaranum. Þá höfðu pörupiltarnir tekið útidyrnar úr lás og laumað sér inn, farið niður í geymslu og brotið þar upp dyr, - eflaust voru þeir að leita að krumma. Nágranni forsetans kom hinsvegar að þeim og hrakti þá tómhenta brott, meðal annars með því að kasta að þeim bókahillu. Ekki fylgir sögunni hvort hún var full af bókum. Í fyrstu var forsetinn uggandi um að krummi hefði horfið með þjófunum, en létti þegar:
Heyrði' eg orð úr hægum sessi
hann ei mæla fleiri' en þessi,
eins og hefði hinzta andvarp
hrafnsins verið: "Aldrei meir."
Hljóður sat hann, hreyfðist varla, -
í hljóði mælti eg þá, að kalla:
"Sá ég víkja vini alla
vonir svíkja eins og þeir;
þessi fugl, hann fer á morgun
frá mér burtu, eins og þeir."
Enn kvað hrafninn: "Aldrei meir."
Reyndar sagði krummi ekki neitt, enda uppstoppaður í plastpoka. En einhvern veginn tengi ég hann við innbrotið; óheillafugl eins og ráða má af kvæði Edgar Allan Poe í þýðingu Einars Benediktssonar.
Bækur | Breytt 4.12.2006 kl. 12:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.12.2006 | 17:42
Umhyggja formannsins
Þetta er afskaplega elskulegt af Guðjóni A. Kristjánssyni að hugsa svona vel um hana Margréti Sverrisdóttur. Það má finna á orðum hans að hann ber hag hennar sér fyrir brjósti. Sólskríkjan syngur:
Vífið rækti vel sitt starf
var hún Margrét oft til svara;
nú tíma í framboð taka þarf
af tillitssemi var látin fara!
![]() |
Guðjón segir Margréti þurfa tíma í aðdraganda kosninga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bækur | Breytt s.d. kl. 20:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.12.2006 | 14:22
Stysta ljóðið?
Var að lesa bókina Believe it or Not! sem Robert L. Ripley sendi frá sér árið 1929 og fann þar nokkuð sem hann segir "stysta ljóð í heiminum":
Hired.
Tired?
Fired!
Þetta er auðvitað mjög merkingarþrungið, mannlegur harmleikur. En ég hef heyrt styttra ljóð, raunar eftir krummafélaga, Breka Karlsson, sem er enn harmþrungnara:
Dodi dó
Di dó
Það rifjast líka upp örljóð Davíðs Þórs Jónssonar eða Radíusbræðra um Ísbjörninn á Seltjarnarnesi:
Hér var íshús,
hvað næst?
Djísús
Kræst!
Kunna menn fleiri slík?
Bækur | Breytt s.d. kl. 14:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
30.11.2006 | 17:43
Ný heimsendaspá
Þar kom ný heimsendaspá sem ég hef ekki heyrt áður, "andrúmsloftstímasprengja". Nú tíðkast víst að tala um hlýnunina og gróðurhúsaáhrifin út frá hagfræðilegu sjónarmiði. Sólskríkjan syngur:
Hefst nú bráðum hrunadans
að hagvexti mun þrengja;
alla sendir til andskotans
andrúmsloftstímasprengja.
![]() |
Hækkandi sjávarhiti í N-Atlantshafi myndar andrúmsloftstímasprengju |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.11.2006 | 09:18
Eggert eignast barn
Þetta eru sælustundir í lífi Eggerts Magnússonar, sem segir West Ham vera barnið sitt. Sólskríkjan syngur:
Lyftist brá og léttist sporið
ljúf er stund með vini;
Eggert hefur barnið borið
Björgólfi Guðmundssyni.
![]() |
Þetta er barnið mitt," segir Eggert Magnússon |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.11.2006 | 13:54
Af skyldleika bókartitla
Það kennir ýmissa grasa hjá útgáfunni Sögur fyrir jólin, enda mikill bóka- og tónlistaráhugamaður sem heldur um taumana, Tómas Hermannsson. Hann er svo rausnarlegur að bjóða allri þjóðinni á Bessastaði um jólin, því hann gefur út Matreiðslubók íslenska lýðveldisins. Þar er úrval rétta sem bornir hafa verið fram í boði íslenska lýðveldisins, veislum til heiðurs konungsfjölskyldum, forsetum, ráðherrum og fleiri stórmennum.
En það er athyglisvert að á meðal bóka sem Tómas gefur út er Draumalandið. Reyndar ekki eftir Andra Snæ Magnason heldur Örnu Skúladóttur, sem leiðir lesendur inn í heim barnsins og skoðar hann í ljósi svefnsins. Bækurnar tvær komu út á sama tíma, sem ætti ekki að koma Andra Snæ á óvart miðað við hugleiðingar hans um hugmyndir sem fæðast á sama tíma á ólíkum stöðum - liggja í loftinu.
Aftur urðu Sögur fyrir þessu í jólabókaflóðinu. Fyrir síðustu jól gáfu Sögur út Fánýtan fróðleik og gefa nú út bókina Meiri fánýtur fróðleikur. Þá vill svo til að forlagið Bjartur gefur út Fánýtan fróðleik um fótbolta. Tilviljun?
Og dæmin eru fleiri. Hrafnasparkið hlýtur að fagna því að á fyrsta sígaunadjassdiski Íslands stígur tríóið Hrafnaspark fram í sviðsljósið. Í kynningu á disknum segir að síðustu fimm ár hafi tríóið verið að fylgja því eftir sem Django Reinhardt byrjaði á í kjölfar fyrri heimstyrjaldarinnar, Sígaunadjassinum: "Hér er einstaklega skemmtileg spilamennska á ferðinni spiluð eins og henni hentar best, live."
Alltaf fjölgar góðvinum Krumma!
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.11.2006 | 19:38
Enn af kynlífsmyndböndum
Ekki er hægt að þverfóta á Netinu fyrir fréttum af kynlífsmyndböndum. Eina leiðin til að fá panda-birni til að fjölga sér er að sýna þeim myndbönd af slíku háttalagi, eins og fjallað hefur verið um hér á síðunni, og nú á að dreifa myndbandi með Jessicu Simpson. Það er ljóst hvað verður í jólapökkum til þeirra karlmanna sem hafa verið tregir til barneigna. Sólskríkjan syngur:
Konan sínum karli vongóð gefur
kynlífsmynd með stjörnum;
ef til vill það áhrif sömu hefur
og hjá panda-björnum!
![]() |
Jessica Simpson miður sín vegna sögusagna um kynlífsmyndband á Netinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bækur | Breytt s.d. kl. 20:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
krummi
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
annapala
-
arnih
-
arnljotur
-
begga
-
birgitta
-
bjarnihardar
-
bleikaeldingin
-
davidlogi
-
don
-
ea
-
fararstjorinn
-
feministi
-
gattin
-
geislinn
-
grettir
-
halldorbaldursson
-
hallkri
-
handsprengja
-
handtoskuserian
-
hannibalskvida
-
herdis
-
hlynurh
-
hof
-
hoskuldur
-
hrollvekjur
-
hugsadu
-
hux
-
ingibjorgelsa
-
jonasantonsson
-
kaffi
-
kiddirokk
-
kjarninn
-
kjoneden
-
kolgrima
-
listasumar
-
ljonas
-
lostintime
-
maggaelin
-
magnusb
-
malacai
-
maple123
-
nosejob
-
pallvil
-
ragnhildur
-
reni
-
ruthasdisar
-
seth
-
sigurgeirorri
-
stebbifr
-
steinibriem
-
theld
-
tulugaq
-
vefritid
-
vglilja
-
vinursolons
-
vitinn
-
arniarna
-
gisliblondal
-
skak
-
athena
... ... ... ... ... ... ... ... ...