Færsluflokkur: Bækur
11.2.2007 | 15:18
Jörðin hitnar. Er heimsendir í nánd?
Í gegnum tíðina hefur hver heimsendaspáin rakið aðra. Atómsprengjan hékk eins og Damóklesarsverð yfir okkur í gegnum kalda stríðið. Í upphafi níunda áratugarins var ég sem unglingur, viss um að ég myndi deyja úr svokallaðri ónæmistæringu. Síðar átti meirihluti jarðarbúa að farast úr úr sjúkdómum eins og heilkenni alvarlegrar bráðrar lungnabólgu (HABL), fuglaflensu og svo framvegis. Ég vil ekkigera lítið úr þessum faröldrum en sem betur fer hafa áhrif þeirra verið stórlega ofmetin.
Ein er sú heimsendaspá sem fylgt hefur mér síðan í barnæsku og er enn að elta mig. Það eru gróðurhúsaáhrifin. Ég man eftir grafískum sjónvarpsfréttatíma fyrir um 25 árum, þar sem sagt var frá í máli og myndum að sjávarmál myndi hækka um 7 metra innan 50 ára. Það er mér greipt í minni hvernig Öskjuhlíðin smám saman varð að eyju. Ég varð dauðhræddur enda bjó ég á Tómasarhaga, stutt niður í fjöru og við áreiðanlega innan áhrifasvæðis gróðurhúsaáhrifanna. Það var mér því mikill léttir þegar við fluttum hlíðarnar. Með reglulegu millibili hafa síðan birst fréttir af framgangi gróðurhúsaáhrifanna. Mitt í iðu frétta um vorlegt yfirbragð skíðasvæða í Evrópu, þann 2. febrúar s.l., gaf IPCC út skýrsluna Climate Change 2007. Ég fletti að sjálfsögðu strax uppá hækkun sjávarmáls vegna innprentaðrar hræðslu minnar frá barnæsku. Það kemur í ljós að sjávarmál frá 1963 hefur líklega hækkað um að meðaltali 7mm á ári ± 7mm. Það er að segja allt frá 14mm á ári, niðrí núll! Ansi langur vegur frá 7 metrunum sem spáð var. Í skýrslunni kemur ennfremur fram að sjávarmál muni á næstu áratugum hækka um 38 cm ef að líkum lætur. Nú velkist ég ekki í vafa um að gróðurhúsaáhrifin eru mikil (11 af 12 heitustu árum Jarðar frá upphafi mælinga eru á milli 1995 og 2006) og samkvæmt skýrslunni eru 90% líkur á að þau séu af mannavöldum. En mér finnst umræðan samt vera heldur einsleit og dökk. Tilhneigingin er að mála skrattann á vegginn og nefna ekki hitt. Björn Lomberg, fyrrverandi forstjóri Institut for Miljøvurdering og höfundur bókarinnar Verdens sande tilstand, bendir á að árið 2080 munu hitatengd dauðsföll á Bretlandseyjum verða 2.000 fleiri á ári en í dag. Að sama skapi munu 20.000 færri deyja úr kulda. Þannig vinna gróðurhúsaáhrifin upp neikvæðu áhrifin sín og gott betur. Gæti verið að svo eigi við í fleiri tilfellum? Ég er alveg á því að við þurfum öll að menga minna, hjóla í vinnuna og svona, en er ekki alveg spurning hvort upphrópanir og heimsendaspár hjálpa eitthvað til þess?Þess utan er hitaaukning jarðarinnar líkleg til að stórauka möguleika Íslendinga á ferðamálasviðinu. Ég sé fyrir mér slógan eins og: Fancy a cold weekend in Iceland og One night stand in the Reykjavik rain.
Breki Karlsson
Bækur | Breytt 13.2.2007 kl. 14:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.1.2007 | 23:58
Frá Kölska til kynlífs
Krummar geta ekki látið sig vanta þegar Ingibjörg Haraldsdóttir ljóðskáld og þýðandi situr fyrir svörum í Gerðubergi laugardaginn 20. janúar frá 13.30 til 16 á Ritþingi sem hefur hlotið yfirskriftina "Sólin hefur enn ekki sungið sitt síðasta". Þar er kona sem tjaldar svörtum fjöðrum í sólskininu. Stjórnandi þingsins er Silja Aðalsteinsdóttir og í hlutverki spyrla þau Jón Karl Helgason og Áslaug Agnarsdóttir.
Á sunnudeginum 21. janúar frá 13 til 16 verður djöfullegt málþing um þýðingar í Gerðubergi undir yfirskriftinni Frá Kölska til kynlífs í samstarfi við ritstjórn tímaritsins Jón á Bægisá. Þar munu þau Ingibjörg Haraldsdóttir, Ástráður Eysteinsson, Berglind Guðmundsdóttir og Kendra Jean Willson halda fyrirlestra um ýmis efni er varða þýðingar.
Allir ku vera velkomnir meðan húsrúm leyfir.
Og alltaf er rúm í veröldinni fyrir ljóðin hennar Ingibjargar, svo sem Í rithöfundabústað (Schöppingen):
Undir súðinni hér
sitja orðin föst
á tungunni
fingurnir stirðir
á lyklunum
minnið slokknað
augun galtómir skjáir
undir súðinni hér
er blýþung þögnin rofin
af hvískri og nöldri
þeirra sem bjuggu hér forðum
öld eftir öld
stríð eftir stríð
durgslegra bænda
og kvenna með skuplur
- burt með þig hvæsa þau
burt
Bækur | Breytt 18.1.2007 kl. 00:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.1.2007 | 19:39
Hvar heyrist krúnkað í skáldskap?
Ég er sérlegur áhugamaður um krumma í skáldskap. Ætli skáldið frá Fagraskógi hafi ekki kveikt þá ástríðu hjá mér. Og þar sem lestrarfélagið, sem stendur fyrir Hrafnasparki, kennir sig við Krumma fer vel á því að gera skil ferðum krumma í skáldskap.
Mig langar til að nefna tvo staði í nýrri ljóðabók Hannesar Péturssonar skálds, annars vegar í kvæðinu "Á stað sem við þekktum mjög vel frá fornu fari":
Tveir krummar sveimuðu aftur og aftur í hring
um eyðilega klettagjána. Þeir höfðu
lagt niður röddu sjálfra sín, en sungu
sungu nú og sungu
sérlega nefkveðið, eins og í leiðslu.
Og á öðrum stað yrkir Hannes: "Þó svo/ að við sætum einatt/ á hrafnfundnu landi/ hvert sem lífið bar okkur þá og þá." Það er því ljóst að krummi er skáldinu hugstæður. Í viðtali sem ég tók við Hannes og birtist í Morgunblaðinu í desember síðastliðnum spurði ég hann út í hvað það væri við þennan fugl sem hrifi skáldin. Hann svaraði:
"Þetta er fugl Óðins náttúrlega og svo er hann þessi fugl sem fann landið..."
Þetta hrafnfundna land.
"Já, já, eins og ég nefni frá séra Matthíasi Jochumssyni; það er úr skammarkvæði séra Matthíasar um Ísland, sem hann sá svo mikið eftir að hafa ort. Svo er krummi spáfugl mikill og manni nálægur á allan hátt, því þetta er einn af fyrstu fuglunum sem maður fór að gefa gætur og var hluti af umhverfi manns alla tíð. Og já, hrafnarnir eru miklir fuglar landsins, þó að fálkinn yrði kennitákn Íslands vegna þess að hann var fluttur út sem veiðifálki. Hann var kominn í skjaldarmerki höfðingjaætta á Íslandi snemma, en hrafninn hefur verið miklu nákomnari þjóðinni þjóðtrúnni og þjóðlífinu."
Ef menn þekkja fleiri dæmi um krumma í skáldskap, þennan fugl sem er svo nákominn þjóðinni, væri gaman að heyra krúnkað um þau.
Bækur | Breytt s.d. kl. 20:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.1.2007 | 13:56
Lögreglustjórinn og Oliver Twist
Viðtal við Stefán Eiríksson nýskipaðan lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins í Blaðinu í dag er stórfróðlegt og skemmtilegt, eins og maðurinn sjálfur.
Krúnk!
Kolbrún Bergþórsdóttir á heiður skilinn fyrir rannsóknarvinnu og góðan undirbúning fyrir viðtalið, því hún spyr Stefán út í veru hans í lestrarfélaginu Krumma, en aldrei áður hefur heyrst svo mikið sem krúnk um þann félagsskap á síðum dagblaðanna. Svo gripið sé niður í viðtalið:
Mér er sagt að þú sért í lestrarfélagi sem heiti Krummarnir. Í hvaða félagsskap ertu þar?
"Pétur Blöndal blaðamaður er upphafsmaðurinn að þessum félagsskap, mikill áhugamaður um lestur, og vildi fá vini sína og kunningja úr hinum og þessum áttum til að hittast reglulega og ræða um bókmenntir. Við hittumst einu sinni í mánuði, oftar í desember þegar jólabókaflóðið skellur á. Við erum um það bil fimmtán, þar á meðal Huldar Breiðfjörð, Börkur Gunnarsson, Árni Matthíasson, Karl Blöndal, Lárus Blöndal, Róbert Spanó prófessor í lagadeild og fleiri góðir menn."
Ertu mikill bókmenntamaður?
"Uppáhaldsbókin mín þegar ég var drengur var Oliver Twist. Ég hef lesið hana ótrúlega oft og finnst hún alltaf jafn skemmtileg og vel skrifuð. Charles Dickens er þar af leiðandi í miklum hávegum hjá mér. Ég hafði líka mikið dálæti á bókum Ármanns Kr. Einarssonar. Þegar ég var í MH var ég í barnabókaáfanga þar sem var nokkuð talað niður til Ármanns og hans bóka. Ég reyndi í þeim áfanga og ritgerð sem ég skrifaði að taka upp hanskann fyrir hann því hann var vitaskuld að skrifa í sínum stamtíma út frá sínu sjónarhorni. Ég held að hann hafi gert marga góða hluti. Ég hef lesið mikið af bókum Einars Kárasonar og hef náð ágætis tengingu við þær, sérstaklega fyrri bækur hans"
Ég get vel ímyndað mér að þú fáist við skáldskap svona í laumi. Er það rétt?
"Einstaka sinnum set ég saman vísur, en yfirleitt tilneyddur. Ég mér samt þann draum að setjast niður einhvern tíma og skrifa skáldsögu eða eitthvað í þeim dúr. En ég hef ekkert verið að prófa mig áfram af viti í þeim efnum."
Krúnk!
Hrafnasparkið hefur raunar ratað á síður dagblaðanna þegar Morgunblaðið tók viðtal við félaga krumma Börk og Steinar, sem báðir voru viðstaddir réttarhöldin yfir Saddam Hussein, en daginn áður hafði Börkur lýst þeirri reynslu í pistli á Hrafnasparki.
Krá!
Bækur | Breytt s.d. kl. 16:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.12.2006 | 11:37
E.T.
Kannski vegna þess að þau eru að koma, nálgast hratt, stend ég sjálfan mig að því að velta fyrir mér möguleikanum á lífi á öðrum hnöttum. Kannski er það vegna einhvers annars, veit það ekki, þetta er eitthvað sem ég hef aldrei pælt í af alvöru. En núna, þegar ég hef hugsað um líf á öðrum hnöttum - extraterrestrials - í nokkra daga, kemur mér stöðugt oftar til hugar að þetta ágæta viðfangsefni (samsetning alheimsins) sé og verði ávallt ofar skilningi og greind mannsins.
Það er, því lengur sem ég stari út í geim og reyni að komast að einhverri rökréttri niðurstöðu, því meir líður mér eins og hundi sem situr fyrir framan sjónvarpstæki og telur sig vera að koma á raunverulegu sambandi þegar hann geltir á annað dýr á skjánum. Því lengur sem ég stari út í geim og reyni að mynda mér einhverja raunverulega skoðun á lífi á öðrum hnöttum, því meir líður mér eins og páfagauki sem reynir við sjálfan sig í spegli. Það er, því lengur sem ég stari út í geim því sterkar fæ ég á tilfinninguna að við séum á svo rangri braut í hinum svokölluðu heimsfræðum að ekki sé einu sinni hægt að byrja að tala um það. Og þótt vísindin þróist - þótt geimförin komist lengra - þá skipti það hugsanlega jafnmiklu máli í stóra samhenginu og ef hundurinn framan við sjónvarpið næði að stökkva upp og tylla loppunum á skjáinn.
Um daginn birtust tvær fréttir sem báðar tengdust heimsfræðingnum Stephen W. Hawking. Önnur var sú að Hawking hefur komist að því að mannkynið verður að nema aðrar plánetur í framtíðinni. Það muni ekki lifa af útþenslu sólarinnar. Þótt ég læsi fréttina nokkrum sinnum tókst mér ekki að skilja þessa nýju vísindaniðurstöðu Stephen W. Hawking öðruvísi en svo að hann hefði bara aldrei verið í eðlisfræði í Digranesskóla. Þar var okkur kennt í tólf ára bekk að sólin væri að þenjast út og myndi á endanum eyða jörðinni. Hin fréttin var merkilegri. Mér þótti hún reyndar svo stórmerkileg að allan þann dag gekk ég um með algerlega endurnýjaða trú á mannsandanum. Samkvæmt fréttinni átti Stephen W. Hawking í svæsnum málaferlum við eiginkonu sína vegna meints framhjáhalds. Honum hafði tekist, þrátt fyrir að vera svo illa farinn af hreyfitaugungahrörnun að hann getur ekki lengur haldið höfðinu uppréttu, að halda framhjá með ritaranum sínum. Það geta sennilega bara snilllingar. Og hvað segir þetta manni um karlmenn? Í framhaldinu velti ég fyrir mér hvort fréttirnar tvær hefðu verið slitnar úr samhengi. Hugsanlega sá greyið maðurinn ekki fram á annað - nú þegar hann var að ganga í gegnum heiftarlegan skilnað - en að þurfa að koma sér fyrir á annarri plánetu.
Stephen William Hawking; vinur minn sem hefur miklar mætur á vísindamanninum reyndi einu sinni að sannfæra mig um að hann hefði fundið Guð. Hefði hreinlega reiknað hann út. "Nú?" sagði ég. "Já," svaraði vinur minn. "Hann hefur komið auga á hreyfingar og krafta í geimnum sem hann getur ekki staðsett í neinum þekktum kerfum og ekki sett í nein þekkt samhengi og telur því að þetta óþekkta afl hljóti að vera Guð." Þótt mig byrjaði að gruna að vinur minn væri endanlega búinn að rugla þessum tveimur stóru persónum saman man ég líka að mér fannst þetta svolítið falleg hugmynd; Guð sem óskilgreindar bylgjuhreyfingar innan um alla lógík heimsins. Þessi pæling vinar míns (og Stephen W. Hawkings) rifjaðist aftur upp fyrir mér daginn sem ég las fréttina um framhjáhaldið og hugsaði ég þá með mér að líklegast væri heimsfræðingurinn svolítið mikið góður í kjaftinum.
Einhverntíma birtist Stephen W. Hawking líka í sjónvarpinu og tilkynnti okkur hinum með þessari seiðandi tölvurödd - sem ein og sér lætur allt hljóma eins og Sannleik - að tímaflakk, jájá, auðvitað væri það mögulegt, við myndum náttúrlega bara ferðast í gegnum svartholin. Tímaflakk? Svartholin? Daginn eftir var ég búinn að kaupa mér Sögu tímans og byrjaður á þessari bók sem átti að vera bæði "ljós og lifandi" samkvæmt kynningartextanum.
Úr Sögu tímans: "Þegar stjarna hrynur saman og verður að svartholi, eru hreyfingarnar miklu hraðari og orkustraumurinn frá stjörnunni öflugri. Þess vegna myndi ekki líða langur tími þangað til hún kæmist í sístætt ástand. En hvernig myndi það ástand vera? Ætla mætti að það velti á ótalmörgum atriðum í gerð stjörnunnar, ekki aðeins massa hennar og snúningshraða, heldur einnig í þéttleikanum á mismunandi stöðum í stjörnunni og hreyfingum loftkenndra efna í henni - en svo er ekki. Væru svarthol jafn fjölbreytileg og það sem hrunið hefur saman til þess að mynda þau, gæti reynst afar erfitt að spá nokkru um gerð þeirra almennt."
Ég kláraði aldrei bókina. Og kannski er það þessvegna sem ég hef fundið hjá mér þá þörf undanfarið að stara út í geim og fást við hinar ósvöruðu spurningar. En að engri niðurstöðu komist. Að sjálfsögðu. Hinsvegar hefur enn annað byrjað að leita á hugann. Hvað er Guð að gera þegar hann er að færa til þessa orku eða hvað þetta var sem Stephen Hawking kom auga á en gat ekki fundið stað í neinum kerfum? Hverju eiga þessar hreyfingar hans að koma til leiðar? Ég sé mjög eftir að hafa ekki spurt vin minn að því á sínum tíma. Er þessi geimsins stærsta vera að hreyfa sig til að forða þessum bílnum frá árekstri við hinn? Er hann að hafa áhrif á lottóið? Er hann að reyna að halda aftur af Kim Jong-Il? Er hann að hjálpa unglingsstráknum að herða sig upp og hringja bara í hana? Er hann að kalla fram rigningu á Indlandi? Er hann að stýra gengi krónunnar? Hverju eiga þessar óskýranlegu hreyfingar Guðs að ná fram? Veit það ekki, veit bara að því lengur sem ég stari út í geim, því meir hlakka ég til áramótana.
Munið eftir gleraugunum.
Huldar Breiðfjörð
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.12.2006 | 12:11
Þegar stóll varð hóll og sköpunarsagan fúga eftir Bach

Þess vegna gladdist ég við ágæta grein Péturs Gunnarssonar rithöfundar í Morgunblaðinu, þar sem hann benti á að í kvæðinu væri vísað til könnustóls.
Ugglaust er þetta fallega meint og til þess gert að hafa enga vitleysu fyrir blessuðum börnunum, en þá hefur leiðréttingarmönnum yfirsést að könnustóll er raunverulegt fyrirbæri og var hafður í stofum manna hér á öldum áður, einskonar frálagsborð fyrir bjórkönnur.
Raunar benti Halldór Blöndal á þetta í grein í sama blaði um jólin 2004:
Loks er rétt að hafa í huga, að könnustóll er til í gömlu máli og þýðir einfaldlega lítið borð, kollur, sem hægt var að tylla sér á í litlu lágreistu baðstofunni, ef þurfti, eða setja á könnu eða bolla ef svo bar undir.
Hjalti Már Björnsson veltir því upp á Hrafnasparki hvort við höfum verið að syngja forna drykkjuvísu fyrir börnin. Það er ekkert nýtt að vögguvísur séu ekki við hæfi barna. Það þarf ekki annað en að rifja upp dauðadjúpar sprungur kvæðisins Sofðu unga ástin mín eða andlitið sem bíður á glugga í Bíum bíum bambaló.
Þá var gott að fá innlegg Árna Björnssonar sem benti á það í Morgunblaðinu að það væri hundrað ára gamall misskilningur að vísan Upp á stól stendur mín kanna" ætti við um jólasveina. Hún væri úr eldra danskvæði, sem til væri í afbrigðum víða á Norðulöndum, og væri ein gerðin svona:
Upp á stól, stól, stól
stendur mín kanna.
Níu nóttum fyrir jól
kemst ég til manna
og þá dansar hún Anna.
Þekkt afbrigði þess á norsku er:
Upp i lid og ned í strand
stend ei liti kanna.
Nie netter fyre jol
dansar jomfru Anna.
Árni sagði jafnframt að vísunni hefði fyrst verið skeytt saman við Jólasveinar ganga um gólf" þegar Friðrik Bjarnason samdi lagið og birti í Nýju söngvasafni árið 1949.
Einnig telja margir að sungið sé um gildan" staf en ekki gylltan; það bara hljóti að vera þannig. Eins og eitthvað hljóti að vera um lífshætti jólasveina. Í því samhengi skulum við horfa framhjá vangaveltum örfárra efasemdarmanna um að jólasveinar séu í raun ekki til. Gísli Sigurðsson á Árnastofnun rifjar upp í Fréttablaðinu að elsta gerð vísunnar hafi engan höfuðstaf, heldur sé önnur hendingin svohljóðandi: hafa staf í hendi". Gyllti stafurinn sé seinni tíma bragarbót og í engum gerðum vísunnar sé gilds stafs getið.
Svona eftiráskýringar eru stórvarasamar. Þegar ég söng Bí bí og blaka fyrir dóttur mína fannst mér allt í einu undarlegt að börnin þömbuðu" fram á fjallakamba; hlytu þau ekki að ramba? Ég fletti upp orðinu þamba og viti menn, í þessu samhengi getur það ýmist þýtt að þau hafi sótt fast gönguna eða komið á eftir móð og másandi, - þannig er þeim farið sem elta lömb.
Eftirminnilegasta dæmi um eftiráskýringar varð efni einhverrar snjöllustu ritdeilu sem ég hef lesið, milli Þorsteins Gylfasonar heimspekings og séra Gunnars Kristjánssonar. Í fyrstu greininni, Ljósið sem hvarf, sem birt er í nýju ritgerðarsafni Þorsteins, Sál og mál, gagnrýnir Þorsteinn kenningar seinni tíma guðfræðinga; þeir líti á sköpunarsögu Biblíunnar sem einskonar dæmisögu sem sé jafnóskyld náttúrufræði og sonnetta eftir Jónas eða fúga eftir Bach". Þorsteinn segir tvöfeldni þeirra eiga afskaplega lítið skylt við kristna trú.
Og að því marki sem hún þykist vera kristin trú er hún óheilindin uppmáluð: trúleysi í nafni trúar. Að réttu lagi er kristin kirkja ekki kjörbúð þar sem við kaupum rófur og baunir en ekki saltkjöt því okkur finnst það vont og höldum að það sé eitrað. Kristinn maður verður að trúa á allan kristin dóm: á upprisu holdsins og erfðasyndina, á himininn og helvíti og djöfulinn sjálfan og almáttugan Guð og hans einkason. Það er allt eða ekkert, fyrr og síðar.
En auðvitað er rótin að kenningum guðfræðinganna sú að á okkar dögum þykja kraftaverkin svo ótrúleg, meyfæðingin og upprisan. Best að sneiða hjá öllu slíku og líta á það sem dæmisögur. Þannig verður til nýr sannleikur. Og Guði langafa míns séra Árna Þórarinssonar er kastað í brennsluofn sögunnar og einnig samankuðluðu blaði með jólakvæðinu:
Jólasveinar ganga um gólf
með gylltan staf í hendi,
móðir þeirra sópar gólf
og flengir þá með vendi.
Upp á stól
stendur mín kanna,
níu nóttum fyrir jól
þá kem ég til manna.
Bækur | Breytt s.d. kl. 12:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.12.2006 | 14:34
Kynlíf er kannski ekki svo slæmt eftir allt saman?
Það var forvitnilegt að lesa um árlegu Bad Sex in Fiction Prize" eða slæmu kynlífslýsingaverðlaunin, sem stofnað var til af rithöfundinum og ritstjóra Literary Review, Auberon Waugh heitnum, og var ætlunin að sporna við óþarfa kynlífslýsingum í skáldsögum.
Ég leyfi mér að efast um að verðlaunin skili tilætluðum árangri, því óvíst er að verðlaunahafinn í ár, Ian Hollingshead, eigi aftur á rithöfundaferlinum eftir að vekja aðra eins athygli.
Hollingshead er yngsti verðlaunahafinn frá upphafi, 25 ára, og fékk verðlaunin afhent af Courtney Love fyrir sína fyrstu skáldsögu, Twenty Something. Það voru orðin "bulging trousers" sem tryggðu honum þennan vafasama heiður og nú bunga buxur fréttastjóra um allan heim, danskra, þýskra, enskra og jafnvel frá löndum óskiljanlegra hrognamála.
En hvernig hljómar óskapnaðurinn? Svo gripið sé niður í Twenty Something:
I can feel her breasts against her chest. I cup my hands round her face and start to kiss her properly. She slides one of her slender legs in between mine.
"Oh Jack," she was moaning now, her curves pushed up against me, her crotch taut against my bulging trousers, her hands gripping fistfuls of my hair.
She reaches for my belt. I groan too, in expectation. And then I'm inside her, and everything is pure white as we're lost in a commotion of grunts and squeaks, flashing unconnected images and explosions of a million little particles.
Morgunblaðið reið á vaðið með þýðingu á hjartnæmasta augnabliki lýsingarinnar, gauragangi stunda og tísts, blossandi ótengdum myndum og sprengingu milljóna lítilla agna."
En spurning vaknar hvort kynlífið sé nokkuð svo slæmt eftir allt saman. Sjálfur segist höfundurinn í pistli á Telegraph ekki hafa haft áhyggjur af tilnefningunni, þar sem rithöfundar á borð við Melvyn Bragg, Alan Titchmarsh, Tom Wolfe, AA Gill og Giles Coren séu á meðal þeirra sem hafi unnið verðlaunin. Og í gegnum tíðina hafi verið tilnefndir: Gabriel García Márquez, Paul Theroux, John Updike og Salman Rushdie.
Og Hollingshead gefur raunar ekki mikið fyrir listina að skrifa um kynlíf: And, in any case, writing about sex is rather more technical, and less fun, than doing it. Either you descend into flowery metaphor or you indulge in the naming of parts"."
Í raun er þetta enn eitt dæmið um að inngrip í hegðun fólks snúist upp í andhverfu sína. Auðvitað munu verðlaunin hafa þveröfug áhrif og rithöfundar bæta inn í sögur sínar algjörlega tilgangslausum lýsingum af kynlífi í þeirri von að þeir vinni verðlaunin og fái knús frá Courtney Love og hennar líkum. Viðbrögð útgefandans Peter Mayer benda til þess, en hann sagði þegar honum bárust tíðindin: We're bulging with pride at the stand-out quality of our author's libidinal literary efforts. Every part of our international publishing family is standing up and saluting young Iain."
Best að ljúka þessum pistli á úrdrætti úr verkum höfunda sem unnið hafa síðustu árin. Ef menn stúdera stílbrögðin eiga menn kannski séns á að vinna verðlaunin einhvern tíma í framtíðinni, - og meika það?
Sean Thomas árið 2000 fyrir Kissing England:
She is so small and so compact, and yet she has all the necessary features... Shall I compare thee to a Sony Walkman, thou are more compact and more
She is his own Toshiba, his dinky little JVC, his sweet Aiwa.
Aiwa - She says, as he enters her slimy red-peppers-in-olive-oil cunt - Aiwa, aiwa aiwa aiwa aiwa aiwa aiwa aiwa aiwa aiwa aiwaaaaaaaaaaahhhhhhhh
Christopher Hart árið 2001 fyrir Rescue Me
Her hand is moving away from my knee and heading north. Heading unnervingly and with a steely will towards the pole. And, like Sir Ranulph Fiennes, Pamela will not easily be discouraged. I try twitching, and then shaking my leg, but to no avail. At last, disastrously, I try squeezing her hand painfully between my bony thighs, but this only serves to inflame her ardour the more. Ever northward moves her hand, while she smiles languorously at my right ear. And when she reaches the north pole, I think in wonder and terror...she will surely want to pitch her tent.
Wendy Perriam árið 2002 fyrir Tread Softly
She closed her eyes, saw his dark-as-treacle-toffee eyes gazing down at her. Weirdly, he was clad in pin-stripes at the same time as being naked. Pin-stripes were erotic, the uniform of fathers, two-dimensional fathers. Even Mr Hughes's penis had a seductive pin-striped foreskin. Enticingly rough yet soft inside her. The jargon he'd used at the consultation had become bewitching love-talk: '... dislocation of the second MTPJ ... titanium hemi-implant ...'
'Yes!' she whispered back. 'Dorsal subluxation ... flexion deformity of the first metatarsal ...'
They were building up a rhythm, an electrifying rhythm - long, fierce, sliding strokes, interspersed with gasping cries.
'Wait,' Ralph panted. 'let's do it the other way.' Swiftly he withdrew, arranged her on her hands and knees and knelt above her on the bed. It was even better that way - tighter, more exciting. She cupped his pin-striped balls, felt him thrust more urgently in response.
Anruddah Bahal árið 2003 fyrir Bunker 13
She sandwiches your nozzle between her tits, massaging it with a slow rhythm. A trailer to bookmark the events ahead. For now she has taken you in her lovely mouth. Your palms are holding her neck and thumbs are at her ears regulating the speed of her head as she swallows and then sucks up your machinery.
She is topping up your engine oil for the cross-country coming up. Your RPM is hitting a new high. To wait any longer would be to lose prime time...
She picks up a Bugatti's momentum. You want her more at a Volkswagen's steady trot. Squeeze the maximum mileage out of your gallon of gas. But she's eating up the road with all cylinders blazing.
Tom Wolfe árið 2004 fyrir I am Charlotte Simmons:
Slither slither slither slither went the tongue, but the hand that was what she tried to concentrate on, the hand, since it has the entire terrain of her torso to explore and not just the otorhinolaryngological caverns - oh God, it was not just at the border where the flesh of the breast joins the pectoral sheath of the chest - no, the hand was cupping her entire right - Now! She must say 'No, Hoyt' and talk to him like a dog...
Giles Coren árið 2005 fyrir Winkler:
And he came hard in her mouth and his dick jumped around and rattled on her teeth and he blacked out and she took his dick out of her mouth and lifted herself from his face and whipped the pillow away and he gasped and glugged at the air, and he came again so hard that his dick wrenched out of her hand and a shot of it hit him straight in the eye and stung like nothing he'd ever had in there, and he yelled with the pain, but the yell could have been anything, and as she grabbed at his dick, which was leaping around like a shower dropped in an empty bath, she scratched his back deeply with the nails of both hands and he shot three more times, in thick stripes on her chest. Like Zorro.
Má ég þá heldur biðja um Bósa sögu og Herrauðs. Kannski Dr. Sýngmann hafi hitt naglann á höfuðið í Kristnihaldi undir jökli: Að elska, er það ekki undanfari hvílubragða; eitthvað bundið við kynfærin; þegar best gegnir hjónabandstragedía meðal apa."
Bækur | Breytt s.d. kl. 14:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
14.12.2006 | 23:43
Rithöfundur, frakki og Gljúfrasteinn

Þar les einnig Kristín Ómarsdóttir úr ljóðabókinni Jólaljóð, Ingunn Snædal úr ljóðabókinni Guðlausir menn - hugleiðing um jökulvatn og ást, Sigríður Dúna Kristmundsóttir úr ævisögu Ólafíu Jóhannsdóttur og Þórunn Valdimarsdóttir úr ævisögu Matthíasar Jochumssonar, Upp á sigurhæðir.
Þrjár af þessum fimm bókum eru tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, Sendiherrann og Guðlausir menn í flokki fagurbókmennta og Upp á sigurhæðir í flokki fræðirita og bóka almenns eðlis.
Leyfum rithöfundinum að hita upp sem mætti á krummafund fyrir hálfum mánuði í fallegum frakka og lýsir honum best sjálfur í upphafsorðum Sendiherrans, en kaflinn nefnist Bankastræti:
Hann væri úr sérlega endingargóðu efni; hundrað prósent bómull sem gæfi þá tilfinningu við snertingu að hún væri vaxborin. Og saumarnir - þeir dygðu út lífið. Vegna þess að áferðin væri svona eins og á sumum bókarkápum, eins og laminering - þú ættir að kannast við það, sjálft ljóðskáldið" - hrinti hann frá sér allri bleytu, og þess vegna væri hann einmitt kjörinn fyrir veðráttuna í þessu landi, eða hvaða landi sem væri; jafnvel þótt dagurinn heilsaði manni með heiðum himni væri aldrei hægt að útiloka að áður en honum lyki félli eitthvað annað á mann en ryk. Liturinn væri auk þess einn af helstu kostum hans; hann drægi aldrei að sér athygli sem litur en vekti hana hins vegar í formi þögullar aðdáunar, og - án þess auðvitað að við getum leyft okkur að hugsa þannig" - öfundar. Það eitt og sér að hann væri framleiddur á Ítalíu væri síðan trygging fyrir því að upphæðin sem maður greiddi fyrir hann færi beina leið í manns eigin vasa, ef þannig mætti að orði komast. Og talandi um vasa, þá skemmdi ekki fyrir þessi litli, skemmtilegi vasi innan á honum hægra megin, sem væri sérstaklega saumaður í hann til að koma fyrir farsíma. Eða sígarettupakka, það er að segja ef eigandinn notar ekki farsíma en tilheyrir þess í stað þeim fámenna hópi fólk sem þrjóskast við að reykja frá sér heilsuna. Það mætti síðan alveg nefna það að í hinum innanávasanum, þeim sem var hugsaður fyrir seðlaveskið, væri lítill, dökkblár flauelspoki - þetta væri meðal annars það sem gerði þessa sérstöku tegund svo einstaka: poki úr flaueli - og í þessum snotra poka, sem maður lokaði með því að toga í gulan silkispotta, væru tveir aukahnappar, ef svo ólíklega vildi til að einhverjir af upprunalegu hnöppunum losnuðu af og týndust. Hættan á að það gerðist væri auðvitað ekki mikil því eins og þegar var búið að nefna ættu saumarnir að halda þar til yfir lyki.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.12.2006 | 15:55
Happdrættið þar sem allir vinna
Bjartur hefur alltaf farið óhefðbundnar leiðir í markaðsstarfi sínu. Nú stendur til að hafa opið í forlagsversluninni frá 20 til 22 á fimmtudagskvöld, í tilefni af því að þá verða verslanir í miðbænum opnar til 22 um kvöldið.
Boðið verður upp á léttar veitingar og efnt til happdrættis, en í happdrættum Bjarts vinna alltaf allir. Þá verður spurningakeppni meðal gesta: Hvaða lag myndu þeir velja um miðbik þáttarins ef þeir væru kvöldgestir Jónasar Jónassonar á Rás 1. Sú spurning hvílir nefnilega þungt á sögumanni í Undir himninum eftir Eirík Guðmundsson, góðkunninga Krumma. Úrslit verða birt á Bjartsvefnum um helgina. Einnig mun "krónprinsinn" Jón Hallur Stefánsson syngja nokkur jólalög".
Bjartsbækur fást á bestu fáanlegu kjörum, en Krummar eiga þær auðvitað allar. Hinsvegar geta þeir komið á óvart í eldhúsinu með ólívuolíu beint frá ítölskum bónda og spilað svo Möggu Stínu að syngja Megas yfir borðhaldinu. Er þá ekki tilvalið að lesa upp úr Eiríki Guðmundssyni og heilla með því elskuna sína:
Ég þráði krá í þorpi þar sem skósverta er borin fram með bjórnum, ég þráði sveitasælu, að minnsta kosti málverk af sveitasælu eða hrauni, mig langaði að sjá himbrima, dalaliljur eða tötrapelikana með gamlan bréfmiða í gogginum, dánarfregn, ljóð eða reikning fyrir einu glasi af mezcal eða flösku af Bombay Sunset, keypta á strandbar við Kyrrahafið. Mig langaði að sjá tjarnir og stöðuvötn sem horfa til himins. Eftir að hafa gengið inn í lítið herbergi, eins konar afdrep innarlega í íbúðinni, gegnt svefnherberginu, og aftur fram á ganginn, hvarf ég frá hugmyndinni um sveitaferð, auðvitað væri miklu nær að koma sér úr landi, panta flugferð til Torremolinos og koma raun-brúnn til baka.
Bækur | Breytt 14.12.2006 kl. 23:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.12.2006 | 10:23
KALAOKE - MY RIFE
Flestir vita að þegar sungið er í karaoke skiptir öllu málið að velja rétta lagið. Hinsvegar hafa fæstir spurt sig að því hvað sé rétta lagið. Hvernig eitthvað eitt lag geti verið réttara en annað til flutnings í karaoke. Hvernig yfirleitt sé hægt að tala um rétt og rangt þegar kemur að karaoke. En það er hægt - af hverju ætti það ekki að vera hægt - og hafa ber í huga þegar rétta lagið skal valið að valið snýst um flest annað en endilega rétta lagið. Það er nefnilega fjölmargt annað sem ákvarðar hvort lagið getur talist rétt en einkum eru það þó þrjú atriði sem skera úr um hvort svo sé:
Lagið þarf að hæfa rödd flytjandans.
Lagið þarf að hafa eitthvað við sig.
Lagið þarf að henta stemningunni.
Aftur er þetta eitthvað sem flestir telja sig vita en er í raun nokkuð sem afar fáir hafa velt fyrir sér. (Einmitt þessvegna eru þessar karaokeuppákomur svo oft eins og þær eru. Einmitt þessvegna er svo oft talað um uppákomur í samhengi við karaoke.) Lag sem virðist hafa allt við sig - til dæmis Africa með hljómsveitinni Toto - getur hreinlega komið illa út í karaoke vegna þess að söngvarinn ræður ekki við flutninginn. Lag sem í fyrstu virðist uppburðalítið og asnalegt - til dæmis Don't Worry, Be Happy með Bobby McFerrin - getur orðið að sterkri upplifun í karaoke vegna þess að flytjandinn syngur það svo vandlega. Að sama skapi getur vandað lag eins og My Heart Will Go On með Celine Dion - sem flestir þekkja úr kvikmyndinni Titanic - orðið til þess að allir ákveða að fara heim. Vegna þess að það var bara orðið of áliðið þegar það var flutt, það er, stemningin var ekki rétt. Við sama tækifæri hefði flutningur á lagi eins Welcome To The Jungle með rokkhljómsveitinni Guns&Roses hugsanlega hentað betur og gert að verkum að allir hefðu ákveðið að vera lengur - jafnvel miklu lengur. Og þannig mætti halda áfram að nefna dæmi sem sýna fram á hið flókna samspil sem þarf að eiga sér stað undir lagi til að það geti talist rétt í karaoke. Þar rekum við okkur á listin er afstæð og lítið um rétt svör þegar um hana ræðir. Yfirleitt reynist væntanlegum flytjanda því best að láta hjarta ráða för þegar hann velur sér lag. Í það minnsta að treysta á eigið innsæi. Sjálfum hefur mér til dæmis - ef ég má gerast svo frakkur að trana mér fram - reynst vel að staldra við þau lög á listunum sem kalla fram sömu óræðu tilfinningu og grípur mig ef ég velti fyrir mér hvernig getur staðið á því að myntpeningur sökkvi en heilu skemmtiferðaskipin fljóti. (Tilfinning sem er fléttuð úr vonleysi, kitlandi uppgjöf og kæruleysi.) Hinsvegar verður hver og einn að finna út fyrir sjálfan sig hvernig honum hentar best að haga sér við val rétta lagsins. Ef lítil hjálp reynist í innsæinu gæti kannski verið gott að fá aðstoð við ákvarðanatökuna - til dæmis frá traustum vini.
Karaoke er sett saman úr japönsku orðunum kara (tóm) og okesutora (hljómsveit).
Inoue Daisuke fann upp karaokevélina árið 1971.
Karaoke er list.
Inoue Daisuke varð sér aldrei úti um einkaleyfi á karaokevélinni.
Inoue Daisuke missti þar af tækifæri til að verða einn ríkasti maður Japan.
Á hverjum degi syngja milljónir manna um allan heim í karaoke.
Í dag starfar Inoue Daisuke við að selja sérstakan hreinsibúnað fyrir karaokevélar.
Núna - einmitt núna - er einhver að syngja í karaoke!
En auðvitað kemur ekki í ljós fyrr en söngvarinn hefur stigið á stokk og hafið upp raust sína - ég nota svolítið hátíðlegt orðalag hérna vegna þess hversu mikið er í húfi - hvort lagið er rétt. Og reyndar kemur yfirleitt á daginn - því miður - að lagið, eða allavega eitthvað, er kolrangt. Það er fyrst þá sem í ljós kemur hvern mann söngvarinn hefur að geyma og hvort hann getur hagrætt flutningi sínum á þann veg að lagið verði aftur rétt. Fyrst þá reynir á listamanninn í flytjandanum og hvort hann getur gert augnablikið að sínu með svo afgerandi hætti að allt verði á endanum hárrétt. Til þess hefur viðkomandi úr nokkrum möguleikum að velja.
Hann gæti til dæmis sett sveigju á bakið, hnykkt aftur höfðinu og dramatíserað þannig flutning lagsins. Hann gæti jafnvel látið sig falla á hnén og gripið með báðum höndum um hljóðnemann og sungið lagið af auknum krafti. Hann gæti leyst vind í hljóðnemann og hrópað úúúps strax á eftir. Í tilfelli kvenna bregst sjaldan að færa hljóðnemann að klofinu og láta hann standa eins og getnaðarlim út í loftið. Að sama skapi er alltaf grípandi þegar karlmaður leggur hönd á brjóstkassann og byrjar að nudda hann eins og kynæsandi söngkona í tónlistarmyndbandi. Og flytjendur af báðum kynjum eiga möguleika á að reka löngutöng upp í loftið líkt og söngvari í þungarokkshljómsveit. Eins er einfalt að reka tunguna framan í viðstadda og byrja að hoppa eða láta líkt og maður sé ekki með réttu ráði. Jafnvel láta sig hníga niður á sviðið og þykjast vera dauður þar til geðshræring grípur um sig. Geðshræring sem söngvarinn getur eytt eins og goð með því einu að standa upp og halda áfram að syngja - hvort sem hann gerir það vel eða illa. Allt þetta getur breytt röngu lagi í rétt og sýnir okkur að vegir karaokesins - eins og einhver sagði - liggja bæði í senn upp á við og niður í móti.
Góða skemmtun.
Úr bókinni Kalaoke - My Rife eftir Nemuro Abe.
Þýðing: Huldar Breiðfjörð.
Bækur | Breytt s.d. kl. 10:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
krummi
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
annapala
-
arnih
-
arnljotur
-
begga
-
birgitta
-
bjarnihardar
-
bleikaeldingin
-
davidlogi
-
don
-
ea
-
fararstjorinn
-
feministi
-
gattin
-
geislinn
-
grettir
-
halldorbaldursson
-
hallkri
-
handsprengja
-
handtoskuserian
-
hannibalskvida
-
herdis
-
hlynurh
-
hof
-
hoskuldur
-
hrollvekjur
-
hugsadu
-
hux
-
ingibjorgelsa
-
jonasantonsson
-
kaffi
-
kiddirokk
-
kjarninn
-
kjoneden
-
kolgrima
-
listasumar
-
ljonas
-
lostintime
-
maggaelin
-
magnusb
-
malacai
-
maple123
-
nosejob
-
pallvil
-
ragnhildur
-
reni
-
ruthasdisar
-
seth
-
sigurgeirorri
-
stebbifr
-
steinibriem
-
theld
-
tulugaq
-
vefritid
-
vglilja
-
vinursolons
-
vitinn
-
arniarna
-
gisliblondal
-
skak
-
athena
... ... ... ... ... ... ... ... ...