Færsluflokkur: Bækur

Eftirmæli næstum því nítjándu aldar

Mér áskotnðist fyrir nokkrum árum kverið Eptirmæli átjándu aldar eptir Krists hingaðburð, frá Ey-konunni Íslandi, eftir Magnús Stephensen (Í þessarar nafni framvörpuð af Magnúsi Stephensen, Konúng. Hátignar virkilegu Jústítsráði of Justitiario í þeim konúngl. íslendska Land-yfirretti sem gefin var út í Leirárgörðum við Leirá, 1805. Prentuð á Forlag Íslands opinberu Vísinda-Stiptunar af bókþryckjara G.J. Schagfjord.)

Eins og Magnús segir fyrir hönd eykonunnar Íslands í ljóðrænu upphafi þessara annars þurrlegu eftirmæla, sem eru að stórum hluta upptalning:

Þú ert framliðin, eilífleg frá mér horfin, þú 18da Krists Öld! Þú, sem ert mér minnisstæðust af öldunum, af því þú varst hin síðasta sem ég misti, og breytilegasta einhver að lunderni, hraðaðir þér á fund þinna eldri systra, geckst til hvíldar hjá þeim þá seinustu nótt ársins 1800, en rís aldrei framar upp mér til yndis eður aðstoðar.

Í lokin er svo ljóðabálkur sem er Samtal þeirrar Átjándu og Nítjándu aldar, um nóttina milli þess 31ta Decembr. 1800 og 1ta Januarii 1801.

Fyrir stuttu gaf JPV út einskonar eftirmæli nítjándu aldar, Ísland í aldanna rás - 19. öldin; glæsileg bók og gríðarstór, merkileg bók og efnismikil - ekkert er til sparað. Einn er þó ljóður á þessari bók, svo slæmur að dregur óneitanlega úr sagnfræðilegu yfirbragði hennar. Á bókarkápu má nefnilega sjá að 19. öld bókarinnar er ekki 19. öldin sem menn almennt kannast við. Hún hefst nefnilega á síðasta ári 18. aldar og lýkur á næstsíðasta ári 19. aldar - miðar semsé við árin 1800 til 1899.

Þetta er nú umdeilt atriði, segir kannski einhver, en um þetta deila menn varla nema sér til gamans.


Erótík eða klám?

Í frétt á Mbl.is segir að tekist hafi að fá pandabirni til að fjölga sér í dýragörðum með því að sýna karldýrum myndir af pandabjörnum para sig og koma þeim þannig til. Þetta vekur óneitanlega spurningar í vestrænni siðmenningu. Sólskríkjan syngur:  

Æsist pandan orkurík

við ástarlíf á skjám;

er það skilgreint erótík

eða bara klám?


mbl.is Lostavekjandi myndbönd fyrir pandabirni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

5973 árum eptir veraldarinnar sköpun

Almanak fyrir ár eptir Krists fæðing 1837, sem er hið fyrsta ár eftir hlaupaár enn fimmta eptir Sumarauka
útreiknað fyrir Reikiavík á Íslandi af
C.F.R. Olufsen
Prof Astronom
Útlagt og lagað eptir íslendsku tímatali af
Finni Magnússyni
Prof

Sem bókasafnari verður maður oft að glíma við þá tilfinningu að vilja eignast eitthvað bara til að eignast það. Það kemur þannig oft fyrir að maður rekst á einhvern prentgrip sem er svo eigulegur að maður verður eiginlega að komast yfir hann þó hann falli ekki að neinu sem maður annars er að safna, eða hafi ekki verið á lestrarlistanum, sem er nú sá listi sem ég annars styðst helst við. Svo var því til að mynda farið með lestrarbók Rasmusar Christians Rask sem mér áskotnaðist á dögunum, rit sem nú starir á mig úr hillunni sem ég skrifa þetta og álasar mér fyrir bruðlið (Lestrarkver handa heldri manna börnum með stuttum skíringargreinum um stafrófið og annað þar til heyrandi, samið af Rasmúsi Rask, Prófessor í bókmentafræði, bókaverði Háskólans og meðlim af ýmisligum lærðum Félögum. Kaupmannahöfn, 1830).

Fyrir stuttu var ég í heimsókn hjá kunningja mínum sem er með afbrigðum bókafróður maður og mikill safnari. Hann hefur iðulega útvegað mér ýmislegt fágæti og tilgangur með heimsókninni til hans var einmitt að skoða bækur sem honum höfðu borist og ég var að leita að. Eftir að þeim samskiptum okkar var lokið sagðist hann hafa nokkuð að sýna mér og dró fram úr felustað böggul af litlum kverum. Ég opnaði böggulinn og sá að þar voru komnir kubbarnir goðsagnakenndu, fyrstu árgangar Íslandsalmanaksins, heilt og fallegt eintak, óbundið.

Mig setti hljóðan enda hafði ég ekki áður séð slíkan og annan eins dýrgrip og reyndar aldrei séð nema stöku hefti eða slitrur úr hefti. Litla almanakið, eins og það er einnig kallað, var fyrirrennari almanaks Þjóðvinafélagsins sem flestir þekkja væntanlega, og var fyrst gefið út 1837 í samræmi við konunglega tilskipun í kjölfar tilmæla rektors og prófessora háskólans í Kaupmannahöfn. C.F.R. Olufsen stjörnufræðiprófessor var falið að semja almanakið en Finnur Magnússon fenginn til að snúa því á íslensku og laga að íslenskum háttum.

Fyrstu árgangar almanaksins voru í litlu broti og þaðan er komið heitið kubbarnir, en það var í þeirri stærð frá 1837 til 1860. Finnur sá um íslenskun almanaksins til 1849 að Jón Sigurðsson tók við verkinu og gerði á því ýmsar breytingar, lét meðal annars prenta það með latínuletri og síðan breyta brotinu 1861, en hann gerði líka efnisbreytingu á innihaldi þess.

Í almanakinu er ýmsan fróðleik að finna, til að mynda er þar tilgreindur grúi dýrlinga, getið um ýmsar messur sem hér var haldið upp á, finna má gamla misseristalið og fyrsti vetrardagur er settur á laugardag, sem olli víst deilum eins og rakið er í ágætri samantekt á vefsetri nútímaútgáfu almanaksins. Á þriðju síðu almanaksins má lesa:

Nærverandi ár reiknast eptir Krists fæðing 1837
Eptir veraldarinnar sköpun 5804
Frá trúarbragðanna síðustu siðaskiptum 320
Frá Oldenborgar-konungsættar ríkisstjórnar byrjun í Danmörku 388
Frá vors allranáðugasta konungs Friðriks hins sjötta fæðing 69
 
Eins og ég gat í upphafi þá verður maður stundum gripinn yfirmáta löngun til að eignast gamlar bækur eiginlega bara til að eignast þær. Sú löngun heltók mig eitt augnablik og ég missti út úr mér spurninguna: "Hvaða verð er á þessu?" Safnarinn vinur minn leit á mig og hristi hausinn án þess að segja orð af vorkunnsemi. Hann vissi að þetta væri svo langt frá minni kaupgetu að það tæki því ekki að hafa orð á því. Tók svo kubbana af mér og pakkaði þeim saman þegjandi.

 


Í hliði tímans

Æ, hvað það var notalegt að vera blaðamaður á fimmtudaginn var. Þá fékk ég í hendur ljóðabók skáldsins Hannesar Péturssonar Fyrir kvölddyrum, sem þó átti ekki að koma út fyrr en daginn eftir. Ég var allt í einu staddur í hliði tímans; fékk það dásamlega verkefni að skrifa frétt um fyrstu ljóðabók Hannesar í 13 ár, – áður en hún kom út! Það tók mig tæpan klukkutíma að renna hratt yfir hana einfaldlega vegna þess að ég var of óþreyjufullur til að dvelja við eitt einasta kvæði; ég varð að fá að bergja þegar á því næsta og því næsta.  

Ég verð að segja það strax að Fyrir kvölddyrum stóð undir væntingum, – og þá er mikið sagt! Þjóðskáld sem mælir. Ljóðin hafa leikandi létt form og mál og mynda óræða heild, þó að aldrei sjáist til botns. Þau grafa sig lengra niður í farveginn við hvern lestur, svo það myndast djúpir hyljir og þó speglast himinn yfir. Reglulega dregur maður óviðjafnanlegar hendingar upp úr kafinu. Eins og ljóðabrotið: "Hvílumst. Hlustum ef við getum/ á lífið – /hina löngu hugsun."  

Það er ánægjulegt að höfundur finnur sig í einu ljóði staddan á klapparskeri í Grímsey og auðvitað koma hrafnar við sögu í kveðskapnum. Krúnk! Og best að ljúka þessu með nýrri hendingu Hannesar Péturssonar: "Við stóðumst ekki án drauma/ neinn dag til kvölds…"


Krummi á Stykkishólmi

Ég talaði áðan við téðan Braga Jósepsson, sem varð í undrandi í meira lagi þegar hann heyrði af því að Lestrarfélagið Krummi væri til. Hann hafði svolitlar áhyggjur af því að okkur litist ekki á þann félagsskap sem sækti fundi Lestrarfélagsins Krumma í bókinni, en ég fullvissaði hann um það að við litum svo á að það væri löngu tímabært að Lestrarfélagið Krummi fengi verðugan sess í heimsbókmenntunum og við fögnuðum því þessu framtaki hans.
 
Bragi býr hinsvegar á Stykkishólmi og er ekki á leið í bæinn alveg á næstunni. Hann er fús að koma á fund til okkar og ætlar að hringja á undan sér. Á fundinum á þriðjudag í næstu viku verða lesnir stuttir og valdir kaflar úr skáldsögu Braga, sem fjalla einmitt um fundi Lestrarfélagsins Krumma. Bókin kom út í kilju, er gefin út af bókaforlaginu Mostrarskeggi, sem er í eigu Braga, og fæst í bókaverslunum Pennans á 1.800 krónur.

Ég á ekki krónu!

Þá er maður að skríða undan sumri. Er eiginlega uppfullur af Björgólfi Thor Björgólfssyni eftir að hafa varið síðustu vikum og mánuðum í að viða að mér efni í viðtal við hann. Síðan er maður alltaf að frétta litlar örsögur frá fólki um hann eftir að viðtalið birtist. Vilhjálmur Jens Árnason sagði mér til dæmis frá því að hann hefði verið á landsleik og alltaf þegar færi hefði farið forgörðum hefði hann heyrt fyrir aftan sig: "Ég á ekki krónu!" Þegar honum varð litið aftur fyrir sig, þá sat þar Björgólfur Thor.

Annars er Björgólfur Thor enginn sérstakur vinur krónunnar. Hann hefur ítrekað lýst því yfir að hann vilji að Íslendingar taki upp evru og talaði um það í viðtalinu, þó að það kæmist ekki í blaðið, að það mætti svo sem einnig fara þá leið að beintengja krónuna við evruna, þó að það kæmi sér betur fyrir marga að slaufa henni alveg. Engu að síður var hann á þeirri skoðun að Íslendingar ættu að vera áfram í EES, enda fengjum við öll fríðindi þar án þess að fórna nokkru. En það væri grundvallaratriði að vera í Evrópusamstarfi, t.d. yrðu Íslendingar að geta unnið hvar sem er í Evrópu, þannig að ef samningurinn um EES dytti upp fyrir, yrðum við að ganga í ESB.


Gáfumannafótboltabók

Mér finnst ástæða til að vekja athygli manna á þeirri ágætu bók The Thinking Fans Guide to the World Cup, en í henni er fjallað um fótboltakeppnina miklu frá skemmtilegu sjónarhorni. Ýmsir mætir menn, rithöfundar og fleiri, voru fengnir til að skrifa um löndin sem þátt taka í kepninni og þá ekki endilega á fótboltalegum forsendum. Eins er að finna í bókinni ýmsar tölfræðilegar upplýsingar fyrir þá sem áhuga hafa á slíku.

Í bókinni kemur einnig fram, og er rökstutt rækilega, hvað þjóðir þurfa til að ná langt í HM:

  • Tilheyra Evrópusambandinu
  • Vera nýfrjáls
  • Nýlenduherrar sigra nýlendur (ekki þó Frakkar Senegala)
  • Illt er að vera olíuframleiðsluþjóð
  • Ekki vera of frjálslynd í fjármálum

Best af öllu er þó að vera Brasilía. 

Bókin er víst uppseld en meira væntanlegt.


Krummi hefur sig til flugs

Yfir mold sig miðnótt breiddi,

mæddur, krankur huga' eg leiddi

fyrri manna forn og kynleg

fræði ýms, er ræktu þeir.

Þá hefur lestrarfélagið Krummi búið sér hreiður á Netinu og við hæfi að vitna í félaga Einar Benediktsson. Hér gera félagar krummar sér hreiður í kirkjuturnum. Skráð verður krúnk og krá um bókmenntir, listir, pólitík og önnur hrafnaþing. Vængjaþytur hrafna, - heyr...

...Aðeins það og ekki meir.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband