Færsluflokkur: Bloggar

Er von?

Baggalútur

c_documents_and_settings_petur_my_documents_my_pictures_baggaluturVannærðir fingur á vörum móður, þó ekki hennar sjálfrar heldur lítils barns. Þannig er fréttamynd World Press Photo árið 2006. Stúlkan er eins árs gömul, Alassa Galisou, í bráðaskýli í Norðvestur-Níger, en þar höfðu geisað þurrkar og skordýraplágur. Höndin skorpin eins og á gamalmenni við íhugult andlit móðurinnar, Fatou Ousseini. Þrátt fyrir skelfilegar aðstæður er svipur móðurinnar óræður, lýsir kannski einna helst umhyggju, enda er hún að fá aðstoð fyrir barnið sitt. Er von?

Finbarr O'Reilly, fréttaritari Reuters, tók ljósmyndina, en hann fór ekki að mynda sjálfur fyrr en árið 2001 og eignaðist fyrst almennilega myndavél, stafræna, einu til tveim árum síðar. Hann segir vin sinn Marcus Bleasdale, ljósmyndara, hafa gefið sér það hollráð að ljósmyndun snerist um að finna tengslin við fólk.

En mikill hryllingur eru fréttamyndirnar, jarðskjálftar, stríð, hryðjuverk, hungursneyðir, flóð og sjálfsmorðsárásir. Þar með er lýst fyrstu 44 síðum bókar með verðlaunamyndum World Press Photo. Sem betur bera næstu síður með sér að birtingarmyndir tilverunnar eru fleiri í augum fréttahauka, til dæmis pattar í fótbolta á botni vatnslausrar sundlaugar í Afghanistan.

Engu að síður er undirliggjandi sama áleitna spurningin í flestum myndunum, þó að hún sé misjafnlega alvöruþrungin: Er von?

Varnaðaráhrif eru mikil af þessum ljósmyndum, sem hverfa ekki svo glatt úr huga manns. Og áhrifaríkast þegar kunnugleg minni eru notuð til að vekja fólk til umhugsunar. UNICEF hefur beitt sömu aðferð og gert það vel, til dæmis með fótbolta meðan á HM í knattspyrnu stóð árið 2002 og nú er UNICEF á Íslandi búið að ráða James Bond til starfans, Roger Moore. Ætli hann verði með rautt nef?

Svo er komið út lagið Brostu með Baggalúti í tilefni af degi rauða nefsins 1. desember, þar sem þekktir einstaklingar leggja málefninu lið. Og spurning vaknar, sem hlýtur að liggja til grundvallar öllu hjálparstarfi og upp að vissu marki fréttamennsku og ljósmyndun. Er von?  


mbl.is Roger Moore leikur í íslenskri auglýsingu á vegum UNICEF
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eftirmæli næstum því nítjándu aldar

Mér áskotnðist fyrir nokkrum árum kverið Eptirmæli átjándu aldar eptir Krists hingaðburð, frá Ey-konunni Íslandi, eftir Magnús Stephensen (Í þessarar nafni framvörpuð af Magnúsi Stephensen, Konúng. Hátignar virkilegu Jústítsráði of Justitiario í þeim konúngl. íslendska Land-yfirretti sem gefin var út í Leirárgörðum við Leirá, 1805. Prentuð á Forlag Íslands opinberu Vísinda-Stiptunar af bókþryckjara G.J. Schagfjord.)

Eins og Magnús segir fyrir hönd eykonunnar Íslands í ljóðrænu upphafi þessara annars þurrlegu eftirmæla, sem eru að stórum hluta upptalning:

Þú ert framliðin, eilífleg frá mér horfin, þú 18da Krists Öld! Þú, sem ert mér minnisstæðust af öldunum, af því þú varst hin síðasta sem ég misti, og breytilegasta einhver að lunderni, hraðaðir þér á fund þinna eldri systra, geckst til hvíldar hjá þeim þá seinustu nótt ársins 1800, en rís aldrei framar upp mér til yndis eður aðstoðar.

Í lokin er svo ljóðabálkur sem er Samtal þeirrar Átjándu og Nítjándu aldar, um nóttina milli þess 31ta Decembr. 1800 og 1ta Januarii 1801.

Fyrir stuttu gaf JPV út einskonar eftirmæli nítjándu aldar, Ísland í aldanna rás - 19. öldin; glæsileg bók og gríðarstór, merkileg bók og efnismikil - ekkert er til sparað. Einn er þó ljóður á þessari bók, svo slæmur að dregur óneitanlega úr sagnfræðilegu yfirbragði hennar. Á bókarkápu má nefnilega sjá að 19. öld bókarinnar er ekki 19. öldin sem menn almennt kannast við. Hún hefst nefnilega á síðasta ári 18. aldar og lýkur á næstsíðasta ári 19. aldar - miðar semsé við árin 1800 til 1899.

Þetta er nú umdeilt atriði, segir kannski einhver, en um þetta deila menn varla nema sér til gamans.


Dauðaklám

Börkur fjallar um í ágætum pistli hér fyrir nokkrum dögum hversu óhugnarlegt það var að vera áminntur um dauðann við að sjá legsteina í Kringlunni.

Ekki vil ég gagnrýna það sem Börkur var að skrifa um.  Mér finnst það einnig ósmekklegt að nota dauðann til að vekja athygli á málefnum, sérstaklega málefni eins og launamun sem hefur ekkert með dauðann að gera.  Ef það á að nota dauðann í eitthvað þá á það að hafa forvarnargildi, að t.d. opna augu froðuheilaökumanna fyrir því að þeir geta drepið fólk með hegðun sinni.

 

Börkur minnist einnig á auglýsingar Umferðarstofu og ég er sammála honum að þær voru óhugnarlegar.  Það eru hins vegar afleiðingar umferðaslysa einnig.  Þegar auglýsingarnar eru síðan settar í samengi við fjölda blóðslettna og morða í dagskrárliðunum á undan og eftir verður viðkvæmni fólks, og birtingarbannið sem sett var á einhverjar þeirra, bara hlægileg. 

 

Árið 2006 er dauðinn nefnilega orðinn allsherjar söluvara.  Á friðsælum íslenskum heimilium, þegar þjóðin vill hvíla sig eftir vinnudaginn, þykir sjálfsögð afþreying að horfa á nokkur hryllileg morð fyrir svefninn. 

 

Raunverulegi dauðinn hefur hins vegar verið fjarlægður og stofnanavæddur þannig að stór hluti fólks hefur aldrei verið viðstaddur andlát og jafn vel ekki einu sinni séð lík.  Ættingjar 98 ára einstaklinglings sem er að safnast til feðra sinna heimta lækni á bláum ljósum og endurlífgun.  Þjóðin er búin að taka dauðan út úr daglegu lífi eins og hann var í baðstofusamfélaginu og setja hann í flokk með afþreyingu.  Þegar hann síðan birtist á sinn náttúrulega hátt verða margir steinhissa.

 

Ef hið stórskemmtilega og náttúrulega tómstundagaman kynlíf er sett fram sem söluvara verður það að subbulegu klámi.  Dauðanum er ekki hægt að lýsa sem stórskemmtilegum, en hann er jafn náttúrulegur og kynlíf og fæðing.  Ef fjallað er á niðrandi hátt um dauðann og hann gerður að söluvöru verður hann á sama hátt að klámi, dauðaklámi.

 

Af einhverjum ástæðum er þjóðin orðin svo dofin að fólki finnst ekkert eðlilegra en að blóðslettusubbuskapur viðgangist sem skemmtiefni í sjónvarpi og kvikmyndum.  Þegar dauðaklámið birtist á einhverjum öðrum vettvangi, eins og í auglýsingahléi eða í Kringlunni, er það hins vegar óþægilegt.  Það sem mér finnst fyndnast við Umferðarstofuauglýsingarnar er að viðbrögðin virðast aðallega vera af því að óhugnaðurinn var í íslenskri auglýsingu.  Í pakkaauglýsingunum um myndbönd mánaðarins er venjulega að finna nokkur skot þar sem oft verri óhugnaður er sýndur en Umferðastofa gerði.  Enginn kippir sér upp við það.

 

Ég er annars ekki alveg viss hvaðan þessi þörf kemur að láta hræða úr sér líftóruna.  Getur verið að þorri fólks lifi bara svo drepleiðinlegu og óspennandi lífi að það finni hjá sér náttúrulega hvöt til að upplifa einhverja óhugnað? 

Ef bornar eru saman þær kynslóðir sem nú eru lifandi á landinu er annars áhugavert að yngri kynslóðin, sem veltir sér hvað mest upp úr dauðakláminu, virðist oft hafa ótrúlega takmarkaða hæfni til að takast á við raunveruleg vandamál.  Eldra fólk kvartar um að því líði svona frekar illa ef þeir hafa misst fótinn, makann og húsið en yngra fólk á til að koma ef það springur bíldekk og heimta áfallahjálp.  STRAX!

Hjalti Már 

P.s. mér sýnist þetta vera orðið nokkuð morbid fyrsta færsla mín á Hrafnasparkið, tek eitthvað líflegra fyrir næst.

   

Listalist

Nú er jólabóka- og plötuflóðið að komast á fullan skrið. Á hverju ári hristir maður höfuðið yfir því hvernig sé eiginlega hægt að gefa út allt þetta efni. Ekki það að það sé á einhvern hátt neikvætt heldur stafar undrunin af því að erfitt er að sjá hvernig þetta getur allt borið sig fjárhagslega.

 

Blöð og fréttaþættir keppast um að fella misþunga rit- og plötudóma. Oftast fer þetta þannig fram að fyrst er gerð stutt grein fyrir bókinni eða plötunni og svo er felldur dómur sem er skorinn niður í eina setningu og svo að lokum gefnar stjörnur. Gagnrýni þessi er oft á tíðum frekar snubbótt og snýst gjarna frekar um smekk gagnrýnandans heldur en dóma sem taka mið af því sem höfundurinn er að reyna að koma til skila.

 

Einn þáttur í þessu eru hinir ómissandi listar. Það er merkilegt hvernig listaáráttan virðist vera að styrkja sig í sessi með hverju árinu sem líður. Það er sama hvort um er að ræða bíómyndir, tónlist eða bækur, öllu þarf að raða niður á topp tíu lista. Bókum og tónlist er raðað niður eftir seldum eintökum og bíómyndum eftir tekjum af miðasölu.

 

Umræðan virðist oft á tíðum frekar snúast um það hversu mikið er selt frekar en um gæði þess sem selt er. Skilaboðin sem þannig er miðlað virðast vera þau að beint samhengi sé á milli sölu og gæða vörunnar. Þannig auglýsa útgefendur gjarna að um sé að ræða metsöluvöru og gefa í skyn að eina vitið sé að kaupa viðkomandi bók eða plötu eða að sjá viðkomandi bíómynd. Þetta hefur leitt til þess að sífellt meiri skautun verður á þessu efni. Annars vegar eru þær vörur sem prýða metsölulistana og seljast í miklu upplagi og hins vegar restin sem selst í mun minna mæli. Svo rammt kveður orðið að þessu að það jaðrar við borgaralega óhlýðni að kaupa eitthvað annað en það sem er ofarlega á lista.

 

Það væri verðugt rannsóknarefni að skoða sölutölur aftur í tímann og sjá hvort samhengi er á milli þeirra bóka, platna og bíómynda sem best seldust og þess sem best hefur þolað tímans tönn. Einhvern veginn rennur mig í grun um að sú muni ekki verða niðurstaðan. Svo tekin séu klassísk dæmi um “bestsellera” þá mætti nefna ævisögur fegurðardrottninga, funheitan Icy-flokkinn eða einhverja af hinum sívinsælu amerísku “high school” bíómyndum. Ég er sannfærður að öll þessi ár var einnig gefið út efni sem fólk nýtur enn í dag þrátt fyrir að salan hafi verið takmörkuð á útgáfujólunum.

 

Ég stenst ekki mátið að spá fyrir um mjög gott efni sem er að koma út um þessi jól en mun líklega ekki verma toppsæti listanna. Þar get ég nefnt sem dæmi nýju bókina hans Braga, plötuna hans Péturs Ben og bíómyndina Börn. Ég vil þó taka fram að ég vona að þetta reynist ekki áhrínsorð og hvet til borgaralegrar óhlýðni.


Efni í heila bók

Bækur koma manni stundum á óvart, án þess að það sé skrifað inn í söguna. Þannig var bókin um Pelé sem Auðunn Atlason gaf mér í afmælisgjöf. Þá var ég skriðinn yfir þrítugt. Hann hafði fundið bókina á fornbókasölu og fremst í bókina var skrifað stórum stöfum: "Pétur Pelé". Kom á daginn að bókina hafði ég átt sjálfur og upp komst um æskudrauminn.

Ástæðan fyrir því að ég rifja þetta upp er bráðskemmtilegt viðtal Kolbrúnar Bergþórsdóttur við Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, frambjóðanda í forvali Vinstri grænna og forseta Skáksambandsins, í Blaðinu í dag. Þar getur þjóðin eignast skeleggan og heilsteyptan þingmann. Í viðtalinu talar Guðfríður Lilja meðal annars um stórmeistarann Helga Ólafsson:

"Helgi er skemmtilegur, hnyttinn og hefur auðugt listamannseðli. Skákir hans eru skapandi og hugmyndaríkar. Það eru margar frægar sögur til af Helga. Einhvern tíma á sínum yngri árum, eftir að hafa tapað skák tvísýnni skák, þaut hann út en kom síðan aftur nokkru seinna því hann hafði áttað sig á því að hann hafði gleymt skónum sínum."

En sem sagt, það er falleg mynd af Guðfríði Lilju og Steinunni Blöndal, frænku minni, í Blaðinu og lýsir Guðfríður Lilja sambandi þeirra á hlýjan og einlægan hátt. Hún segir meðal annars: "Ástarsaga okkar Steinu er efni í heila bók". Þessi orð benda til þess að Guðfríður Lilja og Steina séu alveg eins og allir í okkar fjölskyldu, hugsi í bókum, jafnvel ástina.

Það sem meira er, bækur eru hirslustaður fyrir það sem stendur nærri hjarta þeirra. Einu sinni blaðaði ég í bók sem ég fann í íbúð foreldra minna á Akureyri, þar sem Steina hafði búið og stundað háskólanám. Ég fann á milli blaðsíðanna vel stílað ástarbréf, ástríkt og ljóðrænt. Sem betur fer rann það ekki upp fyrir mér fyrr en í lok lestursins hver bréfritarinn væri (annars hefði ég vitaskuld ekki lesið bréfið). Það var skrifað í Ameríku á námsárum Guðfríður Lilju. Ég kom því við fyrsta tækifæri til þeirra og voru þá mörg ár liðin frá því það var skrifað.

Þekkjandi Steinu hefur mér alltaf fundist skemmtilegt í hvaða bók ég fann bréfið. Líklega skýrir það af hverju hún hefur ekki fundið það aftur. Bókin hét "Prophet of Fire" og var ævisaga Ben-Gurions.  


Klámhundar hjá jafnréttissinnum

JOsexycarsMA39Ég fór í sakleysi mínu í Kringluna um daginn með litlu frænku minni en var strax í inngangnum rifinn úr gleðiskapinu sem ég var í og inní myrkan hluta lífs míns þarsem ég þurfti að upplifa missi vina og fjölskyldumeðlima.  Einhverjir klámhundar á einhverri auglýsingastofunni höfðu í hugmyndaleysi sínu sett upp legsteina í anddyrinu með þartil gerðum kertum og krönsum þannig að stemmningin var mjög svipuð því sem við þekkjum sem höfum heimsótt leiði
fjölskyldumeðlima og vina og tilfinningin af þeirri upplifun helltist yfir mann.  Nú gætu ýmsir haldið að hér væri verið að nota dauðann til að minna á dauðans alvarleika, hvernig of hraður akstur eða áfengisakstur getur valdið dauða ástvina og ættingja. Hvernig stríðsrekstur hefur valdið miklum dauða í heiminum eða þessháttar málum sem hafa með dauðann að gera.  Það var ekki raunin.  Verið var að benda á alls óskylt mál, launamun kynjanna!  Þvílíkt klám.  Þetta er ekki ósvipað því og þegar bílaauglýsingar eru búnar sprengikrafti með því að skella naktri konu á húddið.  Smekkleysið er algjört þarsem konan hefur ekkert með bílinn að gera, hún fylgir ekki í kaupunum. Nöktu konunni er samhengislaust hent uppá húddið til að höfða til frumhvata karlkynsins í von um að þarmeð skoði þeir auglýsinguna betur.  Og þessi Jafnréttisstofa, Femínistafélagið eða hverjir sem eru með þessa auglýsingu notar alveg sama klámið því tilgangurinn virðist helga meðalið.  Þótt jafnrétti kynjanna sé göfugur málstaður er það fólk sem telur þá baráttu vera baráttu uppá líf og dauða algjörlega búið að tapa snertingu við raunveruleikann.

Þótt þetta klám hjá þessum baráttumönnum jafnréttis kynjanna sé skrefi lengra en ég kannast við að þá hefur þessi harka í auglýsingum verið frekar vaxandi.  Þótt ekki sé hægt að saka þá um klám sem tengja baráttu sína gegn áfengisakstri við dauðann að þá er sumt farið að verða einum of viðbjóðslegt.  Þegar þeir sýna ungan mann í fjölskylduboði sveifla dóttur sinni í kringum sig og síðan "missa" hana (það var meira einsog hann hefði fleygt henni) þannig að hún flaug í hinn enda hússins og hvarf niður stigann - væntanlega steindauð, þá spyr maður sig hvort tilgangurinn helgi virkilega meðalið?  Ég hef mínar efasemdir um að þessi auglýsing hafi bjargaðmannslífum en ég veit það fyrir víst að hún olli verulegri vanlíðan hjá mörgu siðuðu fólki sem hvort eð er keyrir aldrei ölvað.  Sama má segja um sjálfsmorðsauglýsinguna sem var gerð til að hjálpa baráttunni
gegn spilafíkn?  Come on!

Nokkrar hugmyndir fyrir svona smekklausa auglýsingastofu og sérstaklega fyrir svona smekklausa viðskiptavini sem samþykkja svona ömurleika blindaðir af eigin sannfæringu um samfélagsmál:

Hugmyndir að því hvernig á að auglýsa baráttu þeirra sem vilja afnema
skylduáskrift RÚV:

Ungur maður á þrítugsaldri setur upp hengingaról, horfir á mynd af fimm manna fjölskyldu sinni, strýkur með puttanum yfir andlitið á yngstu dóttur sinni sem er fjögurra ára gamall ljósgeisli - svo hengir hann sig.  Textinn sem kemur yfir skjáinn:  skylduáskrift RÚV hefur leitt til margra óþarfa gjaldþrota ungra eldhuga á fjölmiðlamarkaðnum sem hefur leitt til tvístraðra fjölskyldna, eyðilagðra framtíðarplana og jafnvel sjálfsmorða.

Hugmynd að auglýsingu fyrir andstæðinga Kárahnjúkavirkjunar:

Vinnuhópur er staddur í einum göngunum við Kárahnjúkavirkjun að þræla við dagsverkið sitt.  Ungur maður er sérstaklega vinnusamur og gantast við félagana og talar um hvað hann hlakkar til að komast heim til fjölskyldunnar sinnar.  Hann bætir því við að hann sé í raun á móti þessari virkjun en hann verði að vinna fyrir fátækri fjölskyldu sinni.  Svo hrynur úr loftinu þannig að hann kremst undir.  Gott að hafa myndavélina lengi á andlitinu á honum þegar hann deyr og hrygluhljóðin í síðasta andardrættinum heyrist.  Þessi göfugi piltur er dáinn. Textinn:  Allar virkjanir hafa leitt til alvarlegra vinnuslysa og nánast allar virkjanir hafa leitt til dauðsfalla.  Ert þú fylgjandi dauða vinnandi manna?  Saklausra fjölskyldufeðra?

Blessunarlega hafa þessir hagsmunahópar ekki haft svo smekklaust fólk í forsvari að það myndi samþykkja svona auglýsingar, því þótt málstaður þeirra geti verið göfugur og allt sem er sagt í
auglýsingunni sé satt, þá er það bara ósmekklegt klám.


Byssur í heimi barnanna

pirates_matthewsÞað kom furðuleg frétt í sjónvarpinu um daginn. Sjóræningjar rændu íslensk hjón á hafi úti. Að vísu er ekkert skrýtið við að sjóræningjar ræni, allra síst á sjónum. En ég hafði sagt dóttur minni að sjóræningjar væru ekki til. Hún var nefnilega svo hrædd við sjóræningja. Þannig að hún leit stórum augum á foreldra sína og spurði: "Eru til sjóræningjar?" 

„Já," svaraði mamma.  

 „En þeir eru ekki með sverð?" spurði stelpan tvístígandi. 

„Nei, ástin mín," svaraði mamma.

„En þeir eru með byssur?" spurði hún.  

„Já," svaraði mamma.  

„Má hafa byssur?" spurði stelpan.  

„Nei," svaraði mamma og var ekkert að nefna að á íslenskum heiðum væri allt morandi af fólki í felubúningum með byssur.

„En það má hafa dótabyssu?" spurði stelpan.  

„Það er allt í lagi að hafa dótabyssu."

„Það er ein dótabyssa í Salómear húsi," sagði þá stelpan og létti af samviskunni. Svo hélt hún áfram að leika sér, komin með byssuleyfi, þó án þess að drepa neinn. Kjartan Halldórsson, sem rekur Sægreifann, gerði hinsvegar heiðarlega tilraun til þess sem gutti, og sagði frá því í viðtali á sunnudaginn var:

„Þegar við bjuggum í Syðsta-bæ var Valgeir í Ásum prestur hjá okkur og reyndist okkur alltaf vel. Hann kom oft til foreldra minna að húsvitja. Einu sinni sögðu systur mínar mér að þetta væri vondur kall og vissu að ég var frakkur og óþægur. Þær réttu mér kindabyssu, sem pabbi sálugi átti, og sögðu: „Skjóttu prestinn!" Ég lét ekki segja mér það tvisvar, stökk inn í stofu með byssuna og öskraði: „Skjóta prestinn!" Sem betur fer voru ekki skot í byssunni, bara hólkurinn, og ég var snúinn niður, - afvopnaður alveg á stundinni. Þá sagði klerkur: „Já, það er töggur í þessum.""


5973 árum eptir veraldarinnar sköpun

Almanak fyrir ár eptir Krists fæðing 1837, sem er hið fyrsta ár eftir hlaupaár enn fimmta eptir Sumarauka
útreiknað fyrir Reikiavík á Íslandi af
C.F.R. Olufsen
Prof Astronom
Útlagt og lagað eptir íslendsku tímatali af
Finni Magnússyni
Prof

Sem bókasafnari verður maður oft að glíma við þá tilfinningu að vilja eignast eitthvað bara til að eignast það. Það kemur þannig oft fyrir að maður rekst á einhvern prentgrip sem er svo eigulegur að maður verður eiginlega að komast yfir hann þó hann falli ekki að neinu sem maður annars er að safna, eða hafi ekki verið á lestrarlistanum, sem er nú sá listi sem ég annars styðst helst við. Svo var því til að mynda farið með lestrarbók Rasmusar Christians Rask sem mér áskotnaðist á dögunum, rit sem nú starir á mig úr hillunni sem ég skrifa þetta og álasar mér fyrir bruðlið (Lestrarkver handa heldri manna börnum með stuttum skíringargreinum um stafrófið og annað þar til heyrandi, samið af Rasmúsi Rask, Prófessor í bókmentafræði, bókaverði Háskólans og meðlim af ýmisligum lærðum Félögum. Kaupmannahöfn, 1830).

Fyrir stuttu var ég í heimsókn hjá kunningja mínum sem er með afbrigðum bókafróður maður og mikill safnari. Hann hefur iðulega útvegað mér ýmislegt fágæti og tilgangur með heimsókninni til hans var einmitt að skoða bækur sem honum höfðu borist og ég var að leita að. Eftir að þeim samskiptum okkar var lokið sagðist hann hafa nokkuð að sýna mér og dró fram úr felustað böggul af litlum kverum. Ég opnaði böggulinn og sá að þar voru komnir kubbarnir goðsagnakenndu, fyrstu árgangar Íslandsalmanaksins, heilt og fallegt eintak, óbundið.

Mig setti hljóðan enda hafði ég ekki áður séð slíkan og annan eins dýrgrip og reyndar aldrei séð nema stöku hefti eða slitrur úr hefti. Litla almanakið, eins og það er einnig kallað, var fyrirrennari almanaks Þjóðvinafélagsins sem flestir þekkja væntanlega, og var fyrst gefið út 1837 í samræmi við konunglega tilskipun í kjölfar tilmæla rektors og prófessora háskólans í Kaupmannahöfn. C.F.R. Olufsen stjörnufræðiprófessor var falið að semja almanakið en Finnur Magnússon fenginn til að snúa því á íslensku og laga að íslenskum háttum.

Fyrstu árgangar almanaksins voru í litlu broti og þaðan er komið heitið kubbarnir, en það var í þeirri stærð frá 1837 til 1860. Finnur sá um íslenskun almanaksins til 1849 að Jón Sigurðsson tók við verkinu og gerði á því ýmsar breytingar, lét meðal annars prenta það með latínuletri og síðan breyta brotinu 1861, en hann gerði líka efnisbreytingu á innihaldi þess.

Í almanakinu er ýmsan fróðleik að finna, til að mynda er þar tilgreindur grúi dýrlinga, getið um ýmsar messur sem hér var haldið upp á, finna má gamla misseristalið og fyrsti vetrardagur er settur á laugardag, sem olli víst deilum eins og rakið er í ágætri samantekt á vefsetri nútímaútgáfu almanaksins. Á þriðju síðu almanaksins má lesa:

Nærverandi ár reiknast eptir Krists fæðing 1837
Eptir veraldarinnar sköpun 5804
Frá trúarbragðanna síðustu siðaskiptum 320
Frá Oldenborgar-konungsættar ríkisstjórnar byrjun í Danmörku 388
Frá vors allranáðugasta konungs Friðriks hins sjötta fæðing 69
 
Eins og ég gat í upphafi þá verður maður stundum gripinn yfirmáta löngun til að eignast gamlar bækur eiginlega bara til að eignast þær. Sú löngun heltók mig eitt augnablik og ég missti út úr mér spurninguna: "Hvaða verð er á þessu?" Safnarinn vinur minn leit á mig og hristi hausinn án þess að segja orð af vorkunnsemi. Hann vissi að þetta væri svo langt frá minni kaupgetu að það tæki því ekki að hafa orð á því. Tók svo kubbana af mér og pakkaði þeim saman þegjandi.

 


Bólbeitur og íslensk tunga

james_bond_11Á síðasta krummafundi var rætt um vægi orða, eins og Friðjón nefnir í bláu appelsínunum. Þess vegna er vert að benda á að í tilefni af degi íslenskrar tungu hefur Námsgagnastofnun efnt til samkeppni undir yfirskriftinni „Nýyrði vantar". Andrés Magnússon kemur reyndar með þá ótímabæru athugasemd, sem hann sérhæfir sig raunar í, að engin af þeim enskuslettum sem taldar eru upp feli í sér merkingu sem ekki sé til orð yfir á íslenskri tungu.

Engu að síður er þetta verðugt verkefni fyrir krummafélaga að spreyta sig á, enda bókaverðlaun í boði og er mælst til að tillögu eða tillögum sé skilað fyrir 27. nóvember. Spurt er um casual fatnað, crossover tónlist, að deita, fusion-eldhús, nickið á MSN, outlet-búð, að skeita, trendsetter í tískunni og wannabe rokkstjörnu.

Nýyrðatalið rifjar upp grein um „pick-up"-línur sem undirritaður skrifaði í Morgunblaðið í febrúar árið 1997 undir yfirskriftinni „Bólbeitur". Ég fékk krummann Kristján Leósson til liðs við mig og við bjuggum til nýyrði yfir „pick-up"-línur, enda ekkert íslenskt orð til þeirrar merkingar. Bólbeita varð ofan á og önnur orð sem komu til greina voru ísbrjótur, brókarlykill, tökuorð og rúmmál.

Það er ánægjulegt að sjá orðið skjóta upp kollinum aftur núna. Svo virðist sem íslenskufræðingur hafi grafið það upp og nefnt í útvarpsþætti í apríl í fyrra. Orðinu er síðan hampað á glúbbi stúlku frá Fáskrúðsfirði, notað skýringarlaust í dagbók ritarans Gísla og 16 ára nemi í Hrísey sem lifir lífinu lifandi skrifar:

Vorum að horfa á þátt sem heitir "How I Met Your Mother" .. .SNILLD;D en talandi um það.. hafiði heyrt talað um "Bólbeitu" ?:D hahaha.. þau sögðu þetta í þættinum ..;) Eða þúst, þetta var þýtt þannig, snilld!:D Fyrir ykkur sem fattið ekki, þá átti þetta að þýða "Pick-up lína" :D hahaha! bólbeita. Mér fannst þetta snilld..;)

Nokkur dæmi um bólbeitur voru gefin í fyrrnefndri grein:

  • „Fyrirgefðu, hvaða bólbeita virkar best á þig?" 
  • „Geturðu nokkuð hjálpað mér að finna lyklana að nýja Rollsinum mínum?"
  • „Ég sakna bangsa. Vilt þú sofa hjá mér?"
  • „Það hlýtur að vera eitthvað að augunum í mér. Ég get ekki litið af þér."
  • „Þetta er happadagurinn þinn. Það vill svo vel til að ég er á lausu."
  • „Bond. James Bond."

Krummafundur og uppljóstranir

Það er stórskemmtilegt að vafra um bloggsamfélagið. Einkum þegar maður rekst á krummafélaga. Örn Úlfar heldur úti "röflinu". Og þar er færsla miðvikudaginn 8. nóvember, daginn eftir krummafund:

"Eða er það ekki? Styttist í stysta VISA tímabil ársins. Lognið á undan storminum. Fékk góða bók í hendurnar í gær, Undir himninum, eftir Eirík Guðmundsson. Stórskemmtilegur Krumma fundur í skrifstofum Bjarts. Athyglisverðar umræður um kosningarnar í BNA, að fornu, nýju og í framtíðinni. Athyglisverðar uppljóstranir um prófkjör Sjálfstæðisflokkinn (sem allir vlija nú sópa undir teppið með því að tala illa um Samfylkinguna). Skemmtileg flækja í gangi milli Skúla Helga og sme reyndar. Kveikjan að færslu sme var reyndar bloggið hans Gumma um undarlegar fréttaáherslur Blaðsins, sem fjallar um gamlar skoðanakannanir í stað þess að nefna að um það bil 12000 manns kusu í prófkjörum Samfylkingarinnar um helgina. Top that."

Það væri nú forvitnilegt að heyra meira um uppljóstranir um prófkjör Sjálfstæðisflokksins sem allir vilja nú sópa undir teppið. Ef til vill á næsta Krummafundi?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband