Færsluflokkur: Bloggar
13.12.2006 | 11:18
Keisarinn er með æðahnúta!
Á síðustu fundum Krumma höfum við hitt fyrir nokkra rithöfunda sem eru alveg hreint yndislega ólíkir. Og ekki eru verkin innbyrðis lík, a.m.k. ekki við fyrstu sýn: Eitt er 'hefðbundið' skáldverk, annað skáldsöguleg glósa á menningarmótun hokurbændastéttar, þriðja spéspegilssafn nýríkrar hégóma-hjarðar og sú fjórða gegnir hlutverki barnsins í Nýju fötum keisarans - nema hvað það bendir líka á að keisarinn er með bjórvömb, æðahnúta og kann ekki að ala upp börn!
Helsti ókosturinn við þá persónulegu sýn sem við fengum á höfundana og verk þeirra var að ekki gafst almennilegur tími til að lesa bækurnar fyrir - sem aftur leiddi til þess að spjallið allt varð kannski almennara (þótt Guðbergur hafi gert sitt til þess að setja okkur vel inn í það margbrotna hugsana- og framsetningarferli sem hafði mest áhrif á skrif bókarinnar). Það er því kannski ekki úr vegi að menn stingi inn upplifun sinni af þessum bókum, eftir því sem mönnum sækist lesturinn. Sjálfur er ég því miður í þeirri aðstöðu að vera bara að safna í lesskápinn, sem verður ekki opnaður fyrr en um jólin, að afstöðnum prófum og hreingerningum. Að sama skapi ætla ég að áskilja mér rétt á því að bæta hér aðeins um betur í hugrenningum um síðustu fundi síðar í kvöld (svona þegar mér hefur loksins tekist að takast á við blogghræðsluna :=)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.12.2006 | 09:16
Dagur mismælanna
Fjölmargar færslur á blogginu í gær snerust um mismæli.
Á vefsíðu sinni bendir krumminn Friðjón R. Friðjónsson bendir á eina þeirra úr umræðuþættinum Silfri Egils, þar sem Sigríður Dögg Auðunsdóttir verðandi ritstjóri vikublaðs talaði um að Kvennalistinn hefði verið stofnaður fyrir tíu árum.
Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, mismælti sig illa þegar hann sagði í viðtali við þýsku sjónvarpsstöðina N24 Sat1 að Ísrael byggi yfir kjarnorkuvopnum. Við höfum aldrei hótað nokkurri þjóð gereyðingu," sagði Olmert. Íranar hóta opinberlega að þurrka Ísrael af kortinu. Getið þið haldið því fram að það sé sambærilegt, þegar þeir vilja eignast kjarnorkurvopn, við Frakkland, Bandaríkin, Rússland og Ísrael?" Raunar er almennt talið að Ísraelar hafi komið sér upp kjarnaorkuvopnum, en þeir hafa ekki gengist við því. Og strumpurinn Þórir Hrafn Gunnarsson veltir því fyrir sér hvort þetta sé strump.
Það var síðan kostulegt þegar Óli Tynes mismælti sig í lestri frétta á Bylgjunni og talaði um að hneppa hrossið". Svo kostulegt að hann skellti sjálfur upp úr og leiðrétti sig.
Svo fær blaðamaður DV að heyra það á Sirkusbloggi, þar sem Guðný Lára Árnadóttir hellir sér yfir hann fyrir frétt um náin kynni" hennar og Toby úr Rockstar Supernova. Hún segir að blaðamaðurinn hafi hringt í sig. Hann spurði um náin kynni og ég sagði NEI. Samt er öll greinin um einhver náin kynni.. hvað í ansk er að. Hvernig getur svona fólk eins og þessi blaðamaður lifað með þetta á samviskunni að ljúga upp á annað fólk og láta það líta illa út."
Og þetta var allt á glogginu í bærkvöldi!
![]() |
Olmert sagði Ísrael í hópi kjarnorkuþjóða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.12.2006 | 21:56
Jólasnjór
Ég skellti mér til Kaupmannahafnar um síðustu helgi og komst, mér til mikillar gleði, að því að lítið hefur breyst síðustu misserin í höfuðborg frænda okkar. Tivoli var á sínum stað, hvergi hægt að rekast á orðið Muhammed í fréttum eða dagblöðum og, það sem mestu máli skiptir á jólaföstunni, jólabjórinn á sínum stað. Rauðklæddi maðurinn á hverju götuhorni, bjórkassinn á sleðanum, logndrífa, það klingir í bjöllum hreindýranna. Einhverra hluta vegna veldur þessi stemmning fjölgun heimsókna í páfagarð. Við hliðina á klósetti einnar búllurnar rakst ég á eftirfarandi:
en mand med en mission
at stikke sin
tunge ned i halsen
på hende eller ikke
hvem vil det være okay at gå hjem med nu
hun går alene hjem
hun går ned ad gaden
han cykler forbi hende
han cykler hjem med rasende fart
han lever i sit hoved
ikke i sin krop
han har en digt
han skal
have banket ned
desværre for hende
digtet vandt
ÅHHHHHHH.........
Danskara getur það varla orðið; söguhetjurnar á reiðhjólum!
Magnús Björnsson
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.12.2006 | 08:31
Bjarga mannslífum?
Nú eru 14.000 búnir að undirrita ósk um að suðurlandsvegur verði tvöfaldaður. Þeir einu sem tala gegn því virðast vera þeir hjá vegagerðinni, sem reyndar eru væntanlega þeir sem hafa mesta þekkingu á málinu.
Búið er að rannsaka málið mjög vandlega. Í þessari skýrslu er að finna ýtarlegar arðsemisupplýsingar um málið og árið 2001 var komist að svipaðri niðurstöðu. Eins og ofangreindar tölur sýna er líklega um 40 ár í að við þurfum á 2+2 vegi að halda.
Ég er því á móti því að um 10 milljörðum verði varið í að tvöfalda suðurlandsveginn. Mun hagkvæmara er að nýta þá fjármuni í að leggja sem fyrst 2+1 veg sem gæti náð líklega eftir mest öllu suðurlandinu en ekki bara til Selfoss. Þjóðvegakerfið okkar allt er stórhættulegt og að leggja í þessa gríðarlega kostnaðarsömu tvöföldun í nágrenni Reykjavíkur er ekki rétt forgangsröðun. Fyrir þann pening sem fór í tvöföldun Reykjanesbrautarinnar hefði mátt leggja 2+1 veg til Selfoss, Keflavíkur og að Hvalfjarðargöngum. Það að öllu fjármagninu var veitt í tvöföldun Reykjanesbrautar hefur kostað líklega eitt mannslíf á ári á suðurlandsveginum.
2+1 lausnin virkar. Læknar sem ég hef rætt við erlendis þar sem búið er að breyta vegunum yfir í þetta form kvarta undan því að þeir sjá varla nægilega mikið af slösuðu fólki til að halda sér í þjálfun. Það vandamál höfum við ekki hér.
Það sama gildir um lýsingar á þjóðvegum. Verkfræðingar höfðu bent á að ef vegir úti á landi eru lýstir upp fer fólk ómeðvitað að keyra hraðar og einnig fara bílar að keyra á staura þegar þeir fara út af. Heildarávinningurinn er því enginn. Að lýsa upp Reykjanesbrautina kostaði víst hálfan milljarð og var gert þvert ofan í ráðleggingar verkfræðinga, bara af því að mönnum þótti það hljóma vel að lýsa. Áður en tvöföldunin þar var opnuð var reynslan síðan gerð upp, þessi hálfi milljarður breytti engu um slysatíðnina og var því gagnslaus fjárfesting.
Nú er síðan farið að jarma um að lýsa upp suðurlandsveg.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.12.2006 | 16:11
Er þetta ekki svolítið klént, Jón Viðar?
Jón Viðar Jónsson leikhúsgagnrýnandi fer mikinn í nýju tölublaði Ísafoldar. Þar skrifar hann ritdóm um leikritið Amadeus undir yfirskriftinni Afturganga í Borgarleikhúsinu. Hann gefur leikritinu eina stjörnu og svo sem ekkert nema gott um það að segja. Um að gera að menn lýsi skoðunum sínum á þeim uppfærslum sem færðar eru á fjalir; leikhúsið þrífst á slíkri umræðu.
En Jón Viðar gengur lengra en það, rífur niður leikstjórann sjálfan og mælir með því að Hilmir Snær svipist næst um eftir "öðrum leikstjóra en Stefáni Baldurssyni. Sem stendur hefur Stefán því miður ekkert að gefa íslensku leikhúsi."
Jón Viðar segir einnig um Stefán að hann hafi í fyrri daga gert "mjög þokkalega hluti" en enginn lifi endalaust á fornri frægð. Og raunar vísar fyrirsögn greinarinnar til þess að Stefán sé afturgangan í Borgarleikhúsinu. Jón Viðar spyr: "Afturganga hvers? Sem þjóðleikhússtjóri var Stefán Baldursson oft - og alveg réttilega - gagnrýndur fyrir að reka einhvers konar stjörnupólitík á sviði leikhússins"
Þetta eru kaldar kveðjur frá leikhússunnanda til manns sem hefur fært íslensku leikhúsi margt spennandi í gegnum tíðina, bæði sem leikhússtjóri og leikstjóri. En látum það vera.
Undarlegt og nánast sögufölsun er hinsvegar að halda því fram að Stefán hafi ekkert að gefa íslensku leikhúsi, Hilmir Snær eigi því að snúa sér annað. Svo vill nefnilega til að síðast þegar þeir félagar unnu saman héldu gagnrýnendur vart vatni og Íslendingar flykktust í Iðnó á yfir 50 sýningar á Ég er mín eigin kona. Og sú sýning var á fjölunum síðastliðið vor, ekki er lengra síðan. Varla reyndist það yfirsjón hjá Hilmi Snæ að leika undir stjórn Stefáns sem Charlotte von Mahlsdorf og 34 aðrar persónur í leikritinu; hann fékk grímuverðlaun fyrir besta leik í aðalhlutverki.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.12.2006 | 15:53
Skaðleg réttlætiskennd?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.12.2006 | 23:55
Jesúbarn í jötu með ljósum
Fyrsti sunnudagur í aðventu er í dag, sú tíð er maður dregur fram úr geymslu táknmyndir þeirra hátíðar sem fer í hönd, ýmist sýnilega gripi eða ósýnilega, það sem manni er innrætt og síðan það sem maður býr til sjálfur smám saman um ævina.
Lútersk-evangelísk kirkja hefur mótað helgihald okkar flestra og byggir á sérkennilegum siðum og sérkennilegri hegðan manna sem sveipa sig pelli og purpura og fara með töfraþulur, særingar. Fjólublátt er litur aðventunnar, litur yfirbótar og föstu, þrautar og pínu. Þriðja sunnudaginn í aðventu sláum við aðeins í, gaudete sunnudaginn, skiptum út föstunni og þjáningunni fyrir gleði, fjólubláu fyrir bleikt og rautt, nú eða blátt, konunglega blátt eða dimmblátt.
Grænt er líka litur aðventunnar, litur greninála sem halda lit sínum í frosti og snjó, vísbending. loforð, um að það vori á ný. Og svo rautt, rautt er líka jólalitur nútildags, rauðar húfur og feitur karl með hvítt skegg, heilagur Nikulás, Sinterklaas.
Jólasveinninn mótaðist á löngum tíma, föt skegg og húfa. Í jólaævintýri Charles Dickens sem kom út 1843 er anda þessara jóla, The Ghost of Christmas Present, lýst svo í íslenskri þýðingu Karls Ísfelds frá 1942:
... Hann var í óbrotnum, dökkgrænum kyrtli eða möttli einum klæða, bryddum hvítu loðskinni. Þessi kyrtill féll svo laust að honum, að brjóst hans var bert, eins og hann hefði fyrirlitningu á að hylja það með nokkru aðfengnu. Fætur hans, er komu fram undan hinum víða kyrtilfaldi, voru líka berir og á höfðinu hafði hann ekki annað en sveig úr kristsþyrni, sem blikandi klakanjólar héngu í á víð og dreif.
Grænt og rautt, ber kristþyrnisins, Ilex aquifolium, og græn blöð hans voru kjarni í miðsvetrarhátíð fyrri tíma, tíma fyrir Krists hingaðkomu, en eftir að trúin breiddist út, hinn nýi siður, var sagt að kristsþyrnir hefði sprottið upp í fótspor hans, þyrnótt blöðin og rauð berin eins og blóðdropar. Enskir kölluðu runnann heilagt tré, holy tree, og kalla í dag Holly.
Andi þessara jóla er dökkhærður og bjartur yfirlitum með tindrandi augu, en er dagur kemur að kveldi verður hann hærugrár. Í honum er að finna þætti sem síðar urðu að jólasveini okkar tíma, samtíningur úr öllum áttum og ekki uppfinning Coca Cola Company eins og svo margir halda. Þaðan er þó líklega komin rauða álfahúfan sem allmargir starfsmenn Morgunblaðsins settu upp fyrir ljósmyndara eins og sjá mátti í jólablaði Morgunblaðsins fyrir skemmstu, kókkynslóðirnar (kláraðu kókið þitt, heyrði ég móður segja höst við barnið sitt á Hressó fyrir löngu).
Ég ljóstra kannski upp um aldur þegar ég rifja upp að með fyrstu jólaminningum er eplakassi sem keyptur var til landsins í gegnum sambönd hjá Eimskipum. Epli eru löngu hætt að vekja jólastemmningu, nú eru það mandarínurnar, citrus reticulata, eða mandarínuafbrigðið klementína. Lýsandi þegar rauðum eplum var kippt útaf forsíðu jólablaðs eins blaðauka Morgunblaðsins og appelsínugular klementínur settar í staðinn. Kannski ætti maður að kaupa sér klementínutré í fötu fyrir næstu jól. Kaupa sér jólastemmningu.
Undir lok hvers árs byrja menn einmitt að auglýsa jólastemmningu til sölu (og eins byrja menn að kvarta yfir því að hún sé auglýst of snemma).
Á rölti um jólamarkaði í ýmsum löndum rekst maður á mismunandi jólasiði - í Kristinaníu var hass í pönnukökunum í pönnukökuhúsinu, í Brussel drekka menn kryddaðan sénever að létta sér jólagjafaleitina, og í Barcelona kaupir maður styttur af kúkakarlinum, caganer, til að stilla upp með Jósep, Maríu og Jesúbarninu.
Kúkakarlinn er ekki í aðalhlutverki, hann er gjarnan til hliðar, jafnvel bak við fjárhúsið. Siðurinn er líklega frá sautjándu öld - hann gat ekki verið með við jötuna, segja katalónsk börn mér, hann þurfti að kúka. Þannig er manni kippt út úr glansmyndinni - það er eiginlega ekki hægt að vera jarðbundnari en að sitja á hægðum sér og skíta aftan við fjárhúsið þegar kóngarnir (í spænsku helgihaldi) eru að heiðra Jesúbarnið. Þó maður sé með rauða skotthúfu. Menja bé, caga fort! sögðu katalónskir bændur við upphaf borðhalds.
Siðirnir breytast og ekki ástæða til að amast við siðaskiptum. Sumt er þó erfiðara að sætta sig við en annað - er til viðurstyggilegra fyrirbæri en kókbílalest niður Laugarveginn? Kannski á maður bara að sætta sig við það og sækja sér huggun í Jesúbarni í jötu með ljósum frá Rúmfatalagernum. Á aðeins 2.990 kr.
Bloggar | Breytt 4.12.2006 kl. 12:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.12.2006 | 09:01
Vísindi eða vitleysa
Eitt það fyrsta sem nemum í mínu fagi er kennt í náminu er að það skiptir ekki öllu máli hvað þú veist eða kannt. Til að geta starfað farsællega skiptir öllu máli að vita alltaf nákvæmlega hvað það er sem þú veist ekki, hvenær þinni þekkingu sleppir og þú átt að spyrja einhvern annan sem veit betur. Þessi regla gildir um alla, 1. árs nemi sem gerir hluti sem hann kann ekki er jafn hættulegur og prófessor í sérhæfðu viðfangsefni sem gerir hluti sem hann kann ekki.
Því miður virðist þessi regla ekki vera virt í öllum fögum. Undanfarið hefur Hannes nokkur Hólmsteinn prófessor í stjórnmálafræði við HÍ skrifað pistla þar sem hann dregur í efa allar kenningar um að við þurfum að endurskoða græðgiskapphlaup nútímans og hugsa meira um náttúruna. Ljómandi af sjálfumgleði segir hann frá því hvernig hann innprentar nemendum sínum að vera ekkert að hlusta á spár um að losun kolvtísýrings geti leitt til hækkunar hitastigs á jörðinni. Hann hvetur fólk til að taka ekki mark á kenningum vísindamanna um að flest bendi til stórkostlegra hamfara á næstu áratugum vegna loftslagsbreytinga, hamfara sem setja allt vistkerfi jarðarbúa í hættu.
Hægt er að fullyrða að langflestir þeirra vísindamanna, sem hafa eitthvað raunverulegt vit á þeim flóknu reiknilíkönum sem gera þarf til að spá fyrir um þróun vistkerfis jarðarinnar, séu sammála um hættuna af gróðurhúsaáhrifunum. Samt veit prófessorinn betur. Ekki af því að hann hafi kynnt sér málið. Ekki af því að hann byggi niðurstöðuna á eigin rannsóknum eða með því að hrekja efnislega ályktanir vísindamanna.
Nei, Hannes veit bara betur. Hann hefur spáð aðeins í málinu, komist að þeirri niðurstöðu að þetta sé kannski bara bull og er ekkert að liggja á þeirri skoðun sinni. Að áður hafi orðið miklar náttúrulegar sveiflur í veðurfarinu og því sé allt eins líklegt að þær sveiflur sem við sjáum nú hafi ekkert með hegðun okkar að gera.
Hannes, hvort finnst þér eigi að nota suxamethonium eða rocuronium fyrir barkaþræðingu eftir höfuðáverka? Viltu tjá þig um burðarþolsútreikninga í nýja tónlistarhúsinu? Hvernig verður veðrið í næstu viku og hvenær gýs Katla?
Allt eru þetta góðar og gildar spurningar sem skipta máli í þjóðfélaginu og sem betur fer eigum við sérfræðinga á öllum sviðum sem við getum leitað til þegar við þurfum svör. Þeir vita ekkert endilega með vissu hvað gerist næst, en við leitum til þeirra af því að þeir hafa meira vit á vandamálinu en nokkur annar.
Látum vera að almennur starfsmaður lýsi skoðunum sínum á ýmsum málefnum á kaffistofu vörulagersins, en ef prófessor við virta menntastofnun lýsir áliti sínu þá á að vera hægt að gera kröfu til þess að vísindi séu á bak við orð hans. Ef það er ekki, ef prófessor er í nafni embættis síns farinn að tjá sig um hluti sem hann líklega hefur ekki nokkurt minnsta vit á, er það alvarlegt mál. Í greininni kemur fram að í háskólaheimi Hannesar virðist allt snúast um að sinna því sem eftirspurn er eftir en ekki leita sannleikans. Er prófessorinn að gefa í skyn að gjörvallur Kyotosamningurinn og allt starf sem unnið er að í loftslagsmálum sé til komið vegna athyglissýki háskólamanna?
Einu eðlilegu viðbrögðin þegar einstaklingur er farinn að brjóta grundvallarreglu allra vísindamanna og tjá sig um hluti sem hann hefur ekkert vit á er að hætta einfaldlega að taka mark á nokkru sem frá honum kemur. Það er orðið nokkuð langt síðan Hannes komst í þann flokk hjá mér. Vistkerfi jarðarinnar er að minnsta kosti allt of mikilvægt til að láta það stjórnmálafræðingi eftir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.12.2006 | 14:22
Stysta ljóðið?
Var að lesa bókina Believe it or Not! sem Robert L. Ripley sendi frá sér árið 1929 og fann þar nokkuð sem hann segir "stysta ljóð í heiminum":
Hired.
Tired?
Fired!
Þetta er auðvitað mjög merkingarþrungið, mannlegur harmleikur. En ég hef heyrt styttra ljóð, raunar eftir krummafélaga, Breka Karlsson, sem er enn harmþrungnara:
Dodi dó
Di dó
Það rifjast líka upp örljóð Davíðs Þórs Jónssonar eða Radíusbræðra um Ísbjörninn á Seltjarnarnesi:
Hér var íshús,
hvað næst?
Djísús
Kræst!
Kunna menn fleiri slík?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
30.11.2006 | 11:42
Karíókí í Höllinni
Nú um helgina fer fram í Laugardagshöllinni stærsta karíókí sýning allra tíma. Að vísu fá ekki allir að grípa í míkrófóninn, líkt og í Glæsibæ, heldur fá aðeins Magni og vinir hans að syngja. Nú þegar er uppselt á eina sýningu og gengur vel að selja á þá næstu. Hvað er eiginlega í gangi? Þættirnir Rock Star Supernova voru ágæt skemmtun og vitanlega hélt maður með Magna og hafði gaman af því að taka þátt í fárinu í kringum net og símkosningar langt fram á nótt. En hversu lengi á eiginlega að halda áfram? Öllum er sama um hljómsveitna Rock Star Supernova og í raun veit enginn hvað varð um hana og vinningshafa þáttanna eða þá bara alla hina keppendurnar. Magni er kannski flottur fír og fínn söngvari en hversu lengi ætlar hann að syngja þekkta slagara í karíókí með vinum sínum.
Sennilega er svarið; á meðan einhver er tilbúinn að borga sig inn á sýninguna!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
krummi
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
annapala
-
arnih
-
arnljotur
-
begga
-
birgitta
-
bjarnihardar
-
bleikaeldingin
-
davidlogi
-
don
-
ea
-
fararstjorinn
-
feministi
-
gattin
-
geislinn
-
grettir
-
halldorbaldursson
-
hallkri
-
handsprengja
-
handtoskuserian
-
hannibalskvida
-
herdis
-
hlynurh
-
hof
-
hoskuldur
-
hrollvekjur
-
hugsadu
-
hux
-
ingibjorgelsa
-
jonasantonsson
-
kaffi
-
kiddirokk
-
kjarninn
-
kjoneden
-
kolgrima
-
listasumar
-
ljonas
-
lostintime
-
maggaelin
-
magnusb
-
malacai
-
maple123
-
nosejob
-
pallvil
-
ragnhildur
-
reni
-
ruthasdisar
-
seth
-
sigurgeirorri
-
stebbifr
-
steinibriem
-
theld
-
tulugaq
-
vefritid
-
vglilja
-
vinursolons
-
vitinn
-
arniarna
-
gisliblondal
-
skak
-
athena
... ... ... ... ... ... ... ... ...