Færsluflokkur: Bloggar

Skáldskapur á torgi stjórnmálanna

Var að lesa færslu Guðmundar Magnússonar undir yfirskriftinni Saklaus fórnarlömb á ritvellinum, þar sem Guðmundur fjallar um ritdeilu Egils Helgasonar og Björns Bjarnasonar. Nokkuð skemmtileg átök það, þó að ekki séu þeir einu sinni sammála um hvort þeir séu andstæðingar. Um það snýst raunar ritdeilan.

En hitt er forvitnilegra að Björn teflir fram broti úr ljóðabálknum Hrunadansi eftir Matthías í dagbókarfærslu 9. nóvember:

Það er vegið að þeim sem vitja síns tíma með dug
eins og vandræðaskáld sem telur sjálfum sér borgið
en það er víst erfitt að komast á krassandi flug
í kastljósi frétta og venja sig sífellt við orgið
í álitsgjöfum sem hatast við annarra hug
og halda í gislingu þjóð sem ráfar um torgið
þar sem frelsið er iðkað og afskræmt eins og gengur
og enginn veðjar á frelsisgyðjuna lengur.

Egill svarar á mánudag í pistli undir yfirskriftinni Ónefni, stjórnmálaskýringar, leirburður og segir um útspil Björns: "Nú bið ég þá að rétta upp hönd sem finnst þetta góður kveðskapur. Ekki? Nei, þetta er hnoð og hugsunin flatneskja. Maður þarf ekki að bera mikið skynbragð á bókmenntir til að sjá það." 

Og skyndilega er ritdeilan farin að snúast um það hvort þetta sé góður kveðskapur hjá Matthíasi!

Af þessu hefur Guðmundur áhyggjur, skyldi öðlingurinn Matthías Johannessen vera orðinn saklaust fórnarlamb á ritvellinum. Fjandakornið. Matthíasi er sama!

Það er frekar að það skemmti honum að kveðskapur hans rati inn á torgið sem hann yrkir um. Með gagnrýni sinni er Egill því að hefja upp kveðskap Matthíasar; koma honum á "krassandi flug". Um leið botnar Egill fyrripartinn sem Matthías kastar fram.  


Í hliði tímans

Æ, hvað það var notalegt að vera blaðamaður á fimmtudaginn var. Þá fékk ég í hendur ljóðabók skáldsins Hannesar Péturssonar Fyrir kvölddyrum, sem þó átti ekki að koma út fyrr en daginn eftir. Ég var allt í einu staddur í hliði tímans; fékk það dásamlega verkefni að skrifa frétt um fyrstu ljóðabók Hannesar í 13 ár, – áður en hún kom út! Það tók mig tæpan klukkutíma að renna hratt yfir hana einfaldlega vegna þess að ég var of óþreyjufullur til að dvelja við eitt einasta kvæði; ég varð að fá að bergja þegar á því næsta og því næsta.  

Ég verð að segja það strax að Fyrir kvölddyrum stóð undir væntingum, – og þá er mikið sagt! Þjóðskáld sem mælir. Ljóðin hafa leikandi létt form og mál og mynda óræða heild, þó að aldrei sjáist til botns. Þau grafa sig lengra niður í farveginn við hvern lestur, svo það myndast djúpir hyljir og þó speglast himinn yfir. Reglulega dregur maður óviðjafnanlegar hendingar upp úr kafinu. Eins og ljóðabrotið: "Hvílumst. Hlustum ef við getum/ á lífið – /hina löngu hugsun."  

Það er ánægjulegt að höfundur finnur sig í einu ljóði staddan á klapparskeri í Grímsey og auðvitað koma hrafnar við sögu í kveðskapnum. Krúnk! Og best að ljúka þessu með nýrri hendingu Hannesar Péturssonar: "Við stóðumst ekki án drauma/ neinn dag til kvölds…"


Hvað er heima?

Æ, gaman að finna ættjarðarstoltið við lestur á pistli Huldars Breiðfjörðs, félaga í Krumma, á Bjarti.is. Maður fær eiginlega gæsahúð og notalegan hroll. Pistillinn er raunar lengri eins og menn geta séð með því að fara á vefsíðu Bjarts. Slóðin er hér fyrir neðan.  

"Á meðan eldaflugið magnaðist og allt að verða tólf stóð ég úti í garði með bjórflösku og var uppteknari við að róa niður hund fjölskyldunnar – T. Breiðfjörð – en mikla andakt. Það voru engin heiti, engin eftirsjá né sérstök tilhlökkun, eða öfugt. Ég stóð bara í snjónum og horfði á gamla árið springa út, leka niður svartan himin, oní kræklótt tré. Svo var komið nýtt ár – 2006 – og eins og alltaf birtist það sem örlítið ljósari himinn en sá sem ég hafði horft upp í rétt fyrir tólf. Ég var að drekka bjór, byrjaður að finna á mér, leið vel. Og reyndar var restin af fjölskyldunni, sem stóð þarna rétt hjá – hjónin G. Breiðfjörð og H. Ingólfsdóttir - örlítið drukknari en yfirleitt áður á áramótunum (hugsanlega vegna þess að Skaupið hafði verið einhvernveginn þannig) svo það var kannski ekki alveg upp úr þurru að við byrjuðum allt í einu og í fyrsta sinn að syngja þrjú saman. Við klóruðum okkur í gegnum fyrsta erindi “Nú árið er liðið”, eða hvað það lag nú heitir, síðan leystist raulið upp í hlátur. Annaðhvort voru bjórarnir orðnir of margir eða við höfum aldrei kunnað allan textann, frekar en þú. Hinsvegar var faðir minn fljótur að framlengja stemninguna úr garðinum og inn í stofu með því að byrja að spila einhverja ítalska tenóra – sem þeim báðum finnst svo æðislegir – og hafði vit á að stilla nógu hátt til að við gætum örugglega öll sungið með. Sem við gerðum þar til ég náði loks í leigubíl og fór niður í bæ. Og þannig einhvernveginn var hann, hápunkturinn, á hálfsmánaðar heimsókn til Íslands eftir eins og hálfs ár dvöl í útlöndum. Hápunkturinn vegna þess að hann svaraði loks spurningunni sem hóf að bergmála í höfðinu á mér nokkrum dögum eftir að ég lenti á Keflavíkurflugvelli seint í desember. Hvað er heima?"

http://bjartur.is/?i=12&f=13&o=994


Hvað er þetta með ósonið

Rétt kominn af Al Gore helgimyndinni þar sem hann lofaði mannkyn fyrir að hafa stoppað í ósongatið og síðan af Krummafundi þar sem  jöklafræðingur sannfærði okkur um hið sama rekst maður á þessa skelfingarfrétt á vefnum!

Frábær fundur annars og afskaplega fróðlegur. Gleymdi þó að spyrja að því hvað varð um allan koltvísýringinn fyrir 40 milljón árum eða þar um bil - kannski orðið viðurkennd vísindi að Himalayafjöllin hafi orðið að til kæla andrúmsloft (koltvísýringur skolaðist úr andrúmslofti með súrri rigningu, sjá hér). Hitafar í dag (og síðustu tugmilljónir ára) semsagt óeðlilegt, eða þannig. 


mbl.is Gatið á ósonlaginu yfir Suðurskautslandinu jafn stórt nú og mest hefur orðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krummi á Stykkishólmi

Ég talaði áðan við téðan Braga Jósepsson, sem varð í undrandi í meira lagi þegar hann heyrði af því að Lestrarfélagið Krummi væri til. Hann hafði svolitlar áhyggjur af því að okkur litist ekki á þann félagsskap sem sækti fundi Lestrarfélagsins Krumma í bókinni, en ég fullvissaði hann um það að við litum svo á að það væri löngu tímabært að Lestrarfélagið Krummi fengi verðugan sess í heimsbókmenntunum og við fögnuðum því þessu framtaki hans.
 
Bragi býr hinsvegar á Stykkishólmi og er ekki á leið í bæinn alveg á næstunni. Hann er fús að koma á fund til okkar og ætlar að hringja á undan sér. Á fundinum á þriðjudag í næstu viku verða lesnir stuttir og valdir kaflar úr skáldsögu Braga, sem fjalla einmitt um fundi Lestrarfélagsins Krumma. Bókin kom út í kilju, er gefin út af bókaforlaginu Mostrarskeggi, sem er í eigu Braga, og fæst í bókaverslunum Pennans á 1.800 krónur.

Hróður lestrarfélagsins Krumma fer víða

Ég veit ekki hversu vel menn lesa Morgunblaðið er þar stóð þetta um daginn:
 
"SÞH víkur að þeim þætti skáldsögunnar þar sem segir frá umræðu í Lestrarfélaginu Krumma þar sem verið er að ræða þá gagnrýni, sem Halldór Laxness hafði fengið fyrir fjórar af stóru skáldsögum sínum (Vefarann mikla, Sölku Völku, Sjálfstætt fólk og Heimsljós)."
 
Er ekki ástæða til þess að okkar góði formaður lesi bókina sem vitnað er í (Gáfnaljósið) og meti hvort ástæða sé til að fá höfundinn, Kormák Bragason (Braga Jósepsson) á okkar fund? Hann gæti þá rætt við okkur um hið forvitnilega viðfangsefni bókarinnar ("Gáfnaljósið er raunsæ og dramatísk spennusaga og er skrifuð að meginhluta til í hefðbundnum frásagnarstíl þar sem skyggnst er inn í hugarheim óvenju bráðþroska persónu, umbrot og árekstra kynþroskaskeiðsins, skyggnst inn fyrir þær lokuðu dyr sem sögupersónan lifir og hrærist í, þar sem gilda önnur lögmál, þar sem talað er annað tungumál, þar sem gildir öðruvísi siðferði en almennt er viðurkennt í hinu borgaralega samfélagi."), eða um barnahneigð almennt, en af umsögn um bókina að dæma er hún fyrirferðarmikil í verkinu.
 
arnim.

Er að koma heimsendir?

Nú eru bíósýningar í borginni í algleymingi, alþjóðleg kvikmyndahátíð að hefjast og annarri að ljúka. Í tilefni af sýningu myndarinnar Inconvenient Truth, sem byggð er á samnefndri bók, ætlum við að fá til okkar Tómas Jóhannesson, sem nýlega flutti erindi á vísindaráðstefnu um efni þeirrar myndar. Hann ætlar að setja okkur inn í rökin með og á móti þessum kenningum Gores um yfirvofandi heimsendi. Og eflaust munu krummafélagar hlýða þögulir á.
Af því tilefni verður afsláttarsýning á myndinni fyrir krummafélaga fyrir krummafélaga í Sambíóunum klukkan 18.
Einnig ætlar Friðjón að halda erindi um orrustuna um Bandaríkin.
Loks býður Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík félagsmönnum Krumma afslátt á korti sem gildir á allar sýningar hátíðarinnar. Menn geta fengið passann á 4.500 krónur í stað 6.000. Þá þurfa þeir að melda sig til mín og geta síðan sótt passann á Thorvaldsen bar. Dagskráin er afar metnaðarfull eins og sést á blaðinu sem dreift var á öll um helgina. 
Á fundinum verður jafnframt kynnt dagskrá fram að áramótum, en stjórn krumma fundar í vikunni. Þar á meðal verða heimsóknir í forlögin og fyrirlestrar rithöfunda sem gefa út fyrir jólin.

Af höfundi Lolitu

Ég heimsótti Kristján Karlsson skáld í dag og barst Vladimir Nabokov í tal. Hann var vinsæll fyrirlesari við Cornell þegar Kristján var bókavörður við íslenska safnið í Íþöku, sem kennt er við Fiske. Kristján nefndi að í skáldsögu Nabokovs Pale Fire eða Bleikum eldi láti hann glæpamann flýja inn á safnið.  

Áður en bókin kom út hafði frú Vera Nabokov, sem var mikil fegurðardís, lagt leið sína á safnið. En þá gaf hún bókunum lítinn gaum, var meira að skoða landslagið, gá út í hornin og rýna í króka og kima. Kristján er sannfærður um að hún hafi verið að athuga staðarhætti fyrir manninn sinn, rithöfundinn. Og sýnir þetta vel að bókaskrif eru verk margra, þó að einn sé skrifaður fyrir þeim.

Ennfremur segir Kristján að í sögunni búi Nabokov til konungsríki nyrst í Evrópu "og mér finnst hann stundum vera að tala um Ísland". 


Hvenær er of langt gengið?

Það er gott að hafa vettvang fyrir míníatúra.

Ég tók viðtal við Sigurð Örlygsson listmálara á fimmtudag og birtist það í Morgunblaðinu á morgun, sunnudag. Alltaf falla einhver orð hjá viðmælendum sem ekki komast í endanlega útgáfu, en geta þó verið áhugaverð. Hann sagði mér að Ólafur Gunnarsson rithöfundur hefði eitt sinn sagt við sig, um hina örmjóu línu velsæmisins, sem gjarnan freistar listamanna: Ef það hvarflar að þér að þú hafir gengið of langt, gakktu þá lengra!

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband