Færsluflokkur: Bloggar

Hin nýja Kristjanía?

Loftmynd af KristjaníuÁ árunum 1969 og 1970 opnuðu íbúar á Kristjánshöfn í Kaupmannahöfn nokkrum sinnum leið inn í yfirgefna herstöð til að búa til leiksvæði fyrir börnin í hverfinu. Herinn og lögreglan lokuðu herstöðinni jafnharðan en hættu að standa í því árið 1971. Um svipað leiti birtist grein í dagblaði um hinar yfirgefnu byggingar á svæðinu og möguleikana sem í þeim fælust, sérstaklega fyrir ungt fólk í íbúðarvandræðum. Greinin virkaði sem segull og fólk tók að flykkjast þangað, margir í leit að frelsi, bræðralagi og nýju þjóðskipulagi; og Kristjanía varð til. Ári síðar sömdu íbúar Kristjaníu við Varnarmálaráðuneytið um að þeir greiddu fyrir hita og rafmagn og fengu um leið stimpilinn "þjóðfélagsleg tilraun". Kristjanía er nú næstvinsælasti viðkomustaður ferðamanna á leið um Kaupmannahöfn á undan Litlu hafmeyjunni og á eftir Tívolí. Reyndar hafa markaðsrannsóknir sýnt að í Evrópu er vörumerkið Kristjanía þekktara en sjálf Kaupmannahöfn.

Kristjanía hefur lengi verið fræg fyrir hasssölu en notkun og sala harðra efna var bönnuð á svæðinu snemma á níunda áratugnum og tóku íbúarnir sig saman og ráku dópsalana á brott harðri hendi. Hasssölu fyrir opnum tjöldum hefur nú einnig verið hætt og reynir lögreglan að framfylgja því með rassíum mörgum sinnum á dag. christiania

En Kristjanía hefur ekki síður verið suðupottur menningar og listar. Nefna má tónleikastaðinn Gráa salinn (þar sem Red Hot Chili Peppers buðu m.a. óvænt uppá tónleika fyrir skemmstu), leikhópinn Sólvagninn, matstaðinn Spiseloppen, og uppáhaldskaffihúsið mitt, Mánaveiðarann. Íslendingar hafa verið duglegir að sækja áhrif til Kristjaníu og hafa tekið þátt í leiklistar- og tónlistarstarfi svæðiðsins auk þess sem nokkrir landsþekktir einstaklingar hafa búið þar um lengri og skemmri tíma.

Þegar borgaraleg öfl hafa verið við völd í Danmörku, hafa þau í gegnum tíðina gert tilraunir til að loka og eða breyta Kristjaníu, en hingað til án árangurs. Á síðustu árum hefur átt sér stað mikil uppbygging á svæðinu í kring um Kristjaníu, íbúða- og lóðaverð hefur hækkað mikið og sérstaklega með tilkomu nýja Óperuhússins, en sum húsanna í Kristjaníu hafa útsýni yfir Hólminn, þar sem hún stendur.  Nú eru einmitt uppá borðinu enn einar tillögurnar um breytingar á skipulagi svæðisins sem snúa einkum að þéttingu byggðar og niðurrifi nokkurra húsa sem byggð hafa verið án tilskilinna leyfa. Eins eru mörg húsanna að hruni komin og viðhald á þeim brýnt. Svæðið er enn í eigu landvarnarráðuneytisins sem vill að leigutekjur standi undir viðhaldskostnaði.

Samkvæmt hefðum og venjum hér í Danmörku þurfa allir að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Danir hafa yfirhöfuð mikla þörf fyrir að ræða málin og einungis gegnum miklar vangaveltur þar sem allir mögulegir og ómögulegir aðilar þurfa að koma sínum sjónarmiðum á framfæri, án tillits til hvort þau komi málinu við, er hægt að komast að niðurstöðu.  Oft virðist mér umræðan í hugum Dana vera mikilvægari niðurstöðunni. Þetta þjóðfélagseinkenni nær hápunkti í hinu svokallaða konsensus-lýðræði Kristjaníu, en þar þurfa allir íbúar að samþykkja þær ákvarðanir er varða sameiginlega hagsmuni Kristjaníubúa eigi að breyta einhverju (einfaldur eða aukinn meirihluti nægir ekki: ALLIR þurfa að vera sammála). Þetta á að tryggja að meirihlutinn geti ekki kúgað minnihlutann en snýst að sjálfsögðu uppí það að minnihlutinn kúgar meirihlutann. Þannig gæti einn aðili staðið gegn því að þau samkomulagsdrög sem nú eru uppá borðinu nái fram að ganga. 

Ég hef persónulega sveiflast fram og tilbaka í afstöðu minni til Kristjaníu. Annars vegar er þetHerstöðin á Miðnesheiðita hið skemmtilegasta svæði, þar sem fólk fær að vera sérviturt í friði og hins vegar er ég á því að fólk eigi að borga húsaleigu og skatta. Dan Leahy, bandarískur vinur minn benti mér reyndar á skemmtilega lausn á Kristjaníumálinu. Nú þegar herstöðin á Miðnesheiði er laus, ætti að bjóða Kristjaníubúum hana til afnota. Það yrði til að æra óstöðuga Danina ef Íslendingar eignuðust líka Kristjaníu. Þá væri ekkert eftir nema Tívolí...


Petraeus sem yfirhershöfðingi í Írak

ég heyrði það í hádegisfréttunum í dag að það væri líklegt að Petraeus yrði yfirhershöfðingi í staðinn fyrr Casey.  Það er frábært að heyra þessar fréttir.  mín reynsla af Petraeus er sú að hann naut ótrúlegs trausts á meðal írakana, náði mjög vel til sinna nánustu samstarfsmanna og var fær um að tala á tungumáli evrópskra fréttamanna.  í írak fannst mér oft einsog bandaríkjamenn framleiddu bara tvær tegundir af hershöfðingum: tudda og gáfumenn.  og petraeus var án nokkurs vafa í flokki gáfumanna sem samt sem áður óttaðist aldrei að taka hættulegar ákvarðanir.  ég trúi á mikilvægi kenninga darwins og efast ekki um að tuddarnir séu mikilvægir í bandaríska hernum þótt mér hafi sést yfir mikilvægi þeirra en ég var mjög hamingjusamur yfir að njóta þeirrar lukku að hafa Petraeus yfir mér en ekki einhvern tuddann.

Er okkur stjórnað af sníkjudýrum?

lifecycleEflaust heldur einhver að í ofangreindri sé ég að kalla stjórnmálamenn sníkudýr.  Þó stundum megi sjá eitthvað snýkjudýralegt við störf ýmissa stjórnmálamanna var fyrirsögnin hins vegar meint bókstaflega.

Snýkjudýr er nefnt Toxoplasmosis gondii, bogfrymill upp á íslensku.  Þessi einfrumungur mun víst hreiðra um sig í meltingarvegi katta án þess að valda þeim skaða, berast síðan í smádýr en í þeim borar dýrið sig út úr meltingarveginum og sest að í líkamanum.  Þegar smádýrin eru síðan étin af ketti lokast hringurinn.

Menn geta einnig sýkst af bogfrymlasótt, þó það henti illa hringrás snýkjudýrsins.  Þekkt er að slík sýking getur verið alvarleg ónæmisbældum og valdið alvarlegum fóstursköðum eða fósturláti ef ófrísk kona smitast.  Þetta er meginástæða þess að mikil áhersla er lögð á að þungaðar konur borði aldrei nema gegnumeldað kjöt.  Einkennalaust smit er hins vegar algengt, um tíundi hver íslendingur hefur mótefni gegn bogfrymli sem bendir til fyrri sýkingar.

Nú á síðustu árum hafa verið að koma fram nýjar upplýsingar um hegðun bogfrymlasóttar.  Í fyrsta lagi var skoðuð hegðun hjá sýktum rottum og í ljós kom að þær tóku mun meiri áhættu við að skríða úr felustað sínum en þær ósýktu, sem hentar sníkjudýrinu þar sem auknar líkur eru þar með á að rottan verði étin af ketti.  Þessi mál komust fyrst á flug þegar skoðaðir voru einstaklingar sem höfðu látist í bílslysum, þá virðist sem mun algengara sé að þeir séu sýktir af bogfrymlasótt en aðrir.  Þó það sé orðið nokkuð langsótt að flokka umferðarslys undir smitsjúkdóma þá eru þetta byltingarkenndar niðurstöður þar sem það virðist mögulegt að sníkjudýr sem setjist að í heila manna breyti hegðun þeirra. 

Aðrir hafa nú sýnt fram á karlmenn sem sýktir eru af bogfrymli hafa almennt lægri greindarvísitölu en ósýktir, þeir hafa minni menntun og eru líklegri til að brjóta reglur samfélagsins.  Konur sem smitast hafa af bogfrymlasótt eru taldar félagslega opnari og jafn vel fjöllyndari en þær ósýktu.

Enn eru þetta ný vísindi og örugglega margt eftir að koma í ljós við frekari rannsóknir á næstu árum.  Hér bendir þó flest til að um sé að ræða algera byltingu í skilningi okkar á hegðun smitsjúkdóma í manninum sem líklegt verður að teljast að muni verða talin verðskulda Nóbelsverðlaun síðar meir.


Fjölmiðlapistill

Ólafur Teitur og krummi Góður fjölmiðlapistillinn í morgun hjá Ólafi Teiti.  Heiða Jóhannsdóttir hafði skrifað makalausa grein í Lesbókina þarsem fordómar hennar og ofstækið gagnvart hægri mönnum í Bandaríkjunum var stjórnlaust.  Hún þóttist notast við hlutlausar heimildir en einsog Ólafur bendir á:  "Greinin er byggð alfarið á bandarískum vef sem hún kallar "fjölmiðlavaktin Media Matters for America".  Blekkingin felst í því að Heiða sleppir því einhverra hluta vegna að taka fram að það er yfirlýst stefna Media Matters að skrásetja og leiðrétta eingöngu áróður íhaldsmanna.  Hún villir um fyrir lesendum með því að kalla þetta "fjölmiðlavakt" og láta sem það sé hlutlæg niðurstaða að ofstækisfullir hægrimenn vaði uppi".  Ólafur Teitur bendir á að ritstjórar síðunnar hafa orðið uppvísir að lygi, síðan notast hann við aðra síðu sem skrásetur viðbjóðinn sem hefur komið útúr vinstri mönnum í Bandaríkjunum sem er hálfu verri ef eitthvað er - en Heiða hafði ekki áhuga á að kynna í greininni sinni.  Þá klykkir hann út með því að minnast þess að þótt Heiða hafi verið hneyksluð á því í greininni sinni hvað hægri menn í Bandaríkjunum notuðu sterk orð að þá hafði hún í dómi sínum um Fahrenheit 9/11 gefið myndinni fjórar stjörnur og sagt að sér þætti það bara fínt að hann tæki stundum "sterkt til orða".

Teiknimyndir fyrir börnin - sjúkur heimur (2. hluti)

10m Finn mig knúinn til að leggja aðra færslu til þessarar umræðu sem Börkur hóf hér um daginn eftir að hafa séð myndina Happy Feet sem virðist nú fara sigurför um heiminn. Vissulega er hér á ferð stórvirki í tölvuvinnslu (unnið af fólki sem eflaust sóaði æsku sinni í tölvuleiki) en þá er líka upptalið það sem gott er (e.t.v. af því að sömu aðilar lásu ekki nægilega margar bækur).

Í myndinni er reynt að blanda inn ádeilu á trúarofstæki og ofnýtingu auðlinda með hryllilegum árangri. Boðskapurinn virðist m.a. vera sá að sjálfsagt sé að stöðva veiðar mannsins á einni dýrategund til að bjarga þeim dýrategundum öðrum sem geta sungið gamla R&B og diskóslagara. Eða eins og 5 ára dóttir mín kommenteraði eftir myndina: "þá verður fólkið bara að borða pulsur og brauð í staðinn fyrir fisk". Að vísu var hressandi að sjá selinn og frændur Keikó gerða að blóðþyrstum og illa innrættum rándýrum (hefði mátt taka það skrefi lengra og skjóta inn nokkrum selveiðandi eskimóahetjum).

Eftir að hafa gluggað í dóma um myndina á netinu þá virðist fólki annað hvort vera fullkomlega sama um slíkan fáránleika (og þá fær myndin fimm stjörnur) eða að það verður pirrað og reitt (og gefur myndinni eina stjörnu).

Hvort viljum við frekar, útlit eða innihald?


Aftaka Husseins

Það var skrítið að sjá sjónvarpsupptöku af því þegar Saddam Hussein var leiddur til aftöku í Írak. Fjöldi félaga minna og vina áttu ættingja sem ríkisstjórn Saddams Husseins hafði niðurlægt, pyntað og myrt. Áður en að aftöku hans kom hafði ég vonað að þannig færi. Svo þegar loksins kemur að henni þá líður manni bara illa. Því maður sér ekki fjöldamorðingja og illmenni leitt til aftöku, heldur bara gamlan og sorgmæddan mann. Manni fannst hann frekar þurfa aðhlynningu aðstaddra og aðstoð heldur en að sett væri snara um háls hans og hann myrtur. Ég minntist þess sem einn japanskur hermaður sagði í viðtali eftir seinni heimsstyrjöldina, sem var eitthvað á þessa leið: “Það fara allir í stríð með nafn ættjarðarinnar og konungsins á vörunum en þeir deyja allir kallandi á mömmu sína”. Þótt sumir illvirkjar fremji glæpaverk sín með ómanneskjulegum aðferðum þá koma þeir allir til aftöku sinnar sem menn. Ég veit ekki hvað ég held um dauðarefsingar. Þótt maður sé mótfallinn dauðarefsingum á Íslandi hef ég yfirleitt sýnt því skilning að úti í heimi hinna stærri samfélaga en svona örsamfélags einsog hér, séu dauðarefsingar skiljanlegar í sumum tilvikum – en ég er ekki viss. Ég sá aldrei illvirkjann Saddam Hussein. Ég var reyndar á réttarhöldunum yfir honum en sá hann sem gamlan og kurteisan mann. Hann var leiddur inní dómsalinn í fylgd tveggja óvopnaðra tvítugra stráklinga. Hann sýndi engan mótþróa, lét þá stoppa göngu sína þegar annar þeirra lyfti hendi, settist síðan þegar stráklingurinn leyfði honum það. Á meðan réttarhöldunum stóð var hann kurteis og bað tvisvar um orðið en dómarinn hafnaði því í bæði skiptin og hann tók því einsog kurteisum manni ber. Bróðir hans var reyndar einsog snarbrjálaður vitleysingur í réttarhöldunum en það er önnur saga. Það gerir hann svosem ekkert að betri manni að hann skuli hafa verið rólegur, kurteis og gamall. Manni skilst að hann hafi skipað fyrir sín verstu glæpaverk með ró og kurteisi. Og við önnur réttarhöld hélt hann reiðilestur yfir dómurunum og hellti sér yfir sjíana. En ég sé ekki að það geri Írak heldur að betra landi að myrða þennan gamla og kurteisa fjöldamorðingja.
mbl.is Samstarfsmenn Husseins teknir af lífi á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bókin uppi í hillu

Fyrist fundur Animal Man og Superman

TEN MILES OUTSIDE THE CITY, THE SCREAMING BEGINS IN EARNEST...  

Þannig hefst reynslusaga hins ágæta Animal Man, ofurhetju sem hefur lagt búninginn á hilluna, snúið sér að barneignum og tilheyrandi. Hann lifir ofur hversdagslegu lífi, rífst við konuna og krakkana og allt það. Hann bisar við að bjarga ketti nágrannans, sem er fastur uppí tré. Dettur. Lendir á fótunum – eins og köttur! Ekki svo hversdagslegt. Rifjar upp hina gömlu góðu daga.

Hann langar ekki að lifa svona leiðinlegu lífi lengur! Hann langar að

leggja sitt til málanna. Byrjar að                         Fyrsti fundur Animal Man og Superman           

þjálfa upp yfirnáttúrulega krafta sem hafa blundað í vöðvastæltum líkama hans. Dregur upp appelsínugult cat-suit og flug-gleraugu í stíl. Bætir við múnderinguna bláum mittisjakka, það er svo hallærislegt þessa dagana að vera í svona þröngum galla, og auk þess er jakkinn hentugur til að geyma peninga og ýmislegt smálegt segir söguhetja okkar við spyrjandi eiginkonu sína. Tátiljur eru í sama lit, ljóst hárið er sett upp í loftmikla eighties-greiðslu, en kraftar í kögglum eru óbeislaðir, ekki nógu þjálfaðir. Endar í runna í fyrstu flugferðinni. Ný ofurhetja er engu að síður fædd. Og hvað gerist svo? Jú, fyrir hreina tilviljun steðjar mikill háski að samfélaginu, ókennileg vera rís upp úr skuggum holræsisins og hrellir saklausa borgara, og okkar maður ákveður að grípa í taumana. Bjarga heiminum. Að vísu gerist þetta ekki áfallalaust, en enginn verður óbarinn biskup. Gefum sögumanni bókarinnar aftur orðið:

HIS FIRST ATTEMPTS HAVE FAILED BUT THE BEAST IS NOTHING IF NOT A CREATURE OF SINGULAR PURPOSE. HIS ENEMIES THINK THE CITY WILL PROTECT THEM. THEY THINK THEY ARE SAFE ... SAFE IN THEIR CONCRETE AND STEEL... THEY ARE WRONG.

 

(Eða var það lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins sem sagði þetta?)

 

Grant Morrison, Chas Truog, Doug Hazlewood, Tom Grummet: Animal Man. 1991. DC Comics.

  

Árið 2006

holper8Nú um áramót er vel við hæfi að líta aðeins um öxl.  Í ljósi þess að samkvæmt almennu áliti vísindamanna eru ekki nema eins og nokkrir áratugir þar til kolvísýringsútblástur jarðarbúa nær að útrýma ísbjörnum er eðlilegt að líta yfir mitt persónulega framlag í þeim efnum á árinu 2006.

Aksturinn sýnist mér ekki hafa verið sérlega mikill á heimilinu, þó hann mætti vera á sparneytnari bíl. Líklega hafa verið eknir innan við 10.000 km og útskilnaður koltvísýrings vegna þeirra er lauslega áætlaður um 6 tonn.  Flugkílómetrarnir eru hins vegar nokkuð margir eða um 31500 og þeir kílómetrar vega þungt í útskilnaðarmálum, um 11 tonn voru losuð út í andrúmsloftið við það.  

Þetta gerir því samtals um 17 tonn af koltvísýringi sem bara ferðir mínar hafa losað út andrúmsloftið.  Við þetta þyrfti að bæta losun upp á einhver tonn vegna flutnings og framleiðslu matar og annars varnings, þó það sé nokkuð erfiðara að áætla þann þáttinn. 

Þegar ég lít yfir árið hvað varðar minn persónulega þátt þá hef ég líklega gert eiginlega ekki neitt til að draga úr útblæstri.  Ég hef ekki sleppt ferðalögum, allt of sjaldan hjólað í vinnuna og er ekki á sparneytnum bíl.  

Vonandi eru gróðurhúsaáhrifin bara ímyndun.  Kannski er einskær tilviljun að fyrirbærið jólasnjór þekkist vart lengur, nú er orðið réttara að tala um jólarigninguna, jólapolla eða jafnvel jólaflóðin eins og þetta árið. 

Ég ætla samt að gera ráð fyrir að álit sérfróðra manna sé rétt og reyna að gera ganga betur um náttúruna á næsta ári.  Framtíð barnabarna minna og barnabarna þeirra er í húfi.  

Gleðilegt ár 


Þeir hafa engan tíma

þegar ég var í írak fyrr á árinu lögðu þeir mikla áherslu á það að flýta þessum réttarhöldum því saddam er að ná sjötugu og samkvæmt íröskum lögum má ekki aflífa mann sem er orðinn svo gamall.  þannig að það má búast við því að þeir hafi hraðar hendur með aftökuna.  það er svolítið spaugilegt að þeir hafa ekki einu sinni tíma til að fara í gegnum aðaldómsmálin einsog eiturefnahernaðinn gegn kúrdunum eða fjöldamorðin á sjíunum í uppreisn þeirra - þar framdi saddam sína hryllilegustu glæpi.  þess í stað láta þeir nægja dóm fyrir þessi fáu morð í nánast ókunnu máli til að koma honum fyrir kattarnef.
mbl.is al-Maliki: Ekkert hindrar aftöku Saddams Hussein
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig vinstri menn björguðu Sjöllunum

Lánshæfislækkunin frá Standard og Poor´s var áfall fyrir ríkisstjórnina en hefði getað haft víðtæk pólitísk áhrif ef vinstri menn hefðu ekki verið búnir að skjóta sig í fótinn fyrir þetta sóknarfæri með því að krefjast mun meiri fjárhagslegra útgjalda heldur en ríkisstjórnin vildi.  Magnað til þess að hugsa hvað hefði gerst ef það væri ábyrg og skynsöm stjórnarandstaða í landinu.  Hugsanlega hefði fylgið hrunið undan sjöllunum og stjórnarandstöðuflokkarnir getað sótt fram til sigurs með vorinu.  En þarsem sjallarnir lifa við þá lukku að hafa andstöðuflokka sem vilja skrifa undir alla tékka og ábyrgðir sem beðið er um mun þetta líklegast verða þeim til framdráttar.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband