21.12.2007 | 10:20
Veruleikafirring á Netinu
Þegar ég heyrði af því hjá vini mínum úr friðargæslunni að hryðjuverkamenn sem tækju menn í gíslingu flettu fórnarlömbum sínum upp á Netinu, þá ákvað ég að fletta upp sjálfum mér til að sjá hvað þeir fyndu. Og sló inn "Pétur Blöndal".
Þeir yrðu fljótir að koma mér fyrir kattarnef, held ég. Raunar virðist í þessum færslum gæta þess misskilnings að ég sitji á þingi, sem auðvitað er fjarri sanni. Ég er ótínd blaðamannsblók.
Á meðal þess sem ég fann var:
"Pétur Blöndal er einhver ómerkilegasta lýðskrumari sem náð hefur af öld Adolfs Hitlers inn á þá tuttugustu og fyrstu."
"Pétur Blöndal er hálfviti. Það er ekki til neinn veruleikafirrtari maður... Hver kýs svona örvita á þing?"
"... ég færi útaf í fyrstu beyju á 200 km hraða ef Pétur Blöndal væri með mér í bíl"
"Ég hef áður minst á vitleisinginn hann Pétur Blöndal. Ég held að þessi maður ætti nú sem fyrst að fara í ýtarlega geðransókn, því veruleikafyrringin hjá honum er alveg einstök."
Viðkomandi bætti raunar við í stórundalegri umfjöllun um menntamál: "... hann virðist alveg gleyma einu, ef allir fara nú að menta sig, hvað þá? Hverjir eiga þá að vinna hin hefðbundnu láglaunastörf?... Vil Pétur Blöndal að kínverji sem ekki kann íslensku beri út póstinn til hans?"
Fleiri ummæli eru á Netinu sem ég sé ekki ástæðu til að birta, jafnvel enn ósmekklegri en þau sem tilgreind eru hér að ofan.
Reyndar má líka lesa að umræddur Pétur Blöndal sé "heiðarlegur maður og hreinskiptinn" (passar), gæjalegasti þingmaðurinn (ég er ekki þingmaður!), hafi verið valinn "tík ársins" af vefritinu Tíkin.is (ha, ég? Takk! Vissi reyndar ekki af þessu, en er virkilega stoltur!) og að hann hitti oft naglann á höfuðið, hiki raunar ekki við að hamra fast á honum ef honum sýnist svo og sé alveg sama hvort flokkssystkinum sínum þyki þörf á barsmíðinni (humm...).
Eftir lesturinn held ég best sé að halda sig frá slóðum, þar sem fólk hefur tilhneigingu til að dubba mann upp í appelsínugulan galla.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.12.2007 | 13:33
Af upplestri og bingói
Þá er farið að líða á seinni hlutann í jólabókaflóðinu. Það er forvitnilegt að upplifa það frá rithöfundarhliðinni. Maður gægist inn um ókunnar gáttir og kynnist nýju fólki, gömlu fólki og nýju hefði Elías Mar sagt.
Ég las til dæmis í gær upp hjá Hrafnistu í Reykjavík. Að minnsta kosti tveir rosknir karlar urðu afar svekktir þegar þeir sáu mig ganga í salinn, ruku úr sætum sínum og kvörtuðu yfir því á leiðinni út að það hefði verið auglýst bingó.
Einhverjir sátu þó áfram. Þar á meðal var Gunnfríður Ása sem vann á bókasafninu á Seltjarnarnesi og tók mér nú ekki alltaf fagnandi þegar ég skilaði tuttugu bókum of seint í enn eitt skiptið. Það var ofvaxið hennar skilningi hvernig þetta gat komið ítrekað fyrir, ekki síst þar sem ég bjó hinum megin við götuna.
Svo var komið að ég sat aftast í þristinum þegar ég vissi að von gat verið á henni í vagninn að framanverðu. Og ef hún kom inn, þá stökk ég út að aftan.
Auðvitað átti hún ekki skilið þessa hegðun af mér, þessa mæta kona, sem var í kvenfélaginu á Nesinu. En mér var einfaldlega fyrirmunað að skila bókunum á réttum tíma. Kannski af því að bækurnar voru margar og það tók tíma að lesa þær. Nú er ég farinn að kaupa mér bækur frekar en að taka þær að láni á bókasöfnum. Það er einfaldlega ódýrara. Og svo er það ágæt afsökun.
Þarna var líka Unnur Ragna sem þekkti heimili langafa míns Benedikts Sveinssonar og langömmu Guðrúnar Pétursdóttur á Skólavörðustíg 11. Hún sagði að þau hefðu verið með fjórar beljur í garðinum. Ó, þær voru svo fallegar," sagði hún og bætti við með eftirsjá í röddinni: Slefið um allt og tungan." Hún var vinkona tvíburasystranna, Guðrúnar og Ólafar, ömmusystra minna.
Viltu endilega gera langafa þinn að kúabónda," spurði ættingi minn þegar ég bar þetta undir hann.
Bækur | Breytt 19.12.2007 kl. 15:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.12.2007 | 19:57
Sköpunarsögur Péturs Blöndal, forseta lestrarfélagsins Krumma
Ástkæru Krummar,
Undir styrkri forystu forseta vor, Péturs Blöndal, höfum við Krummar komist í kynni við mörg af helstu skáldum landsins, sitið í návist þeirra, hlýtt á upplestur og spurt spjörunum úr. Í hópi Krumma eru hins vegar einnig hæfileikaskáld. Þótt undirritaður hafi verið fjarstaddur þá barst honum sú fregn til eyrna að Bjarni Bjarnason hefði sýnt einmitt það og sannað með upplestri sínum í Hegningarhúsinu um daginn.
Það er einsýnt af þessu að Krummar þurfa ekki að leita langt yfir skammt að rithöfundi til að fræða okkur og skemmta við upplestur á næsta fundi lestrarfélagsins. Lengi lifi forseti vor, lengi lifi Pétur Blöndal!!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.12.2007 | 15:48
Tíminn og Trékyllisvík
Tíminn stöðvaðist í gær.
Það var ekki út af frostinu. Ekki heldur af ótta við snarbrattar hlíðar í fljúgandi hálku. Ástæðan var sú að við ókum inn í kyrrðina í Trékyllisvík. Þar er lífið áhyggjulaust, helsta umferð á vegunum tófur og mýs og hrafnasveimur flugvélagnýrinn.
Og viti menn, ekkert farsímasamband. Slík forréttindi upplifi ég núorðið aðeins hjá Þóru bústýru á Halldórsstöðum í Laxárdalnum. Þar stendur tíminn líka kyrr.
Ég fór til Trékyllisvíkur í gær með Ragnari Axelssyni ljósmyndara (RAX) til að taka viðtal við rithöfundinn og krummavininn Hrafn á staðnum "þar sem vegurinn endar". Þar er líka nýtt upphaf. Ragnar færði þeim hjónum ljósmyndir að gjöf og síðan gengum við um söguslóðir.
Það var ekki fyrr en við Hafnarfjallið klukkan 2 í nótt sem tíminn færðist aftur úr stað. Og engu munaði að jeppinn gerði það líka í fárviðrinu - út af veginum. En við komumst á áfangastað eftir að hafa farið fetið fyrir Hafnarfjallið. Afrakstur ferðarinnar verður svo í Morgunblaðinu á sunnudag.
Nú er bara spurning hvort krummar funda ekki bráðlega við heimskautsbauginn. Þar geta allir fundið sitt heima, ekki síst þeir sem tjalda svörtum fjöðrum.
Bækur | Breytt 17.12.2007 kl. 17:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.12.2007 | 02:16
Hlustaðu á þessa bók
Á síðasta ári dró hins vegar okkar ástsæli formaður Krummanna mig á þorrablót sem Sigurrós hélt í samvinnu við kvæðamannafélagið Iðunn. Við það galopnuðust augu mín fyrir því að við íslendingar eigum okkur sérstaka sönghefð í stemmum sem ég rétt svo vissi að væri til en er því miður ekki hægt að segja að sé ríkur þáttur í þjóðarsálinni árið 2007. Flestir kannast svo sem við kvæðasöng, en fáa þekki ég sem geta kveðið með því lagi sem líklega gert hefur verið í þúsund ár hér á landi.
Ég hef nú varið nokkrum tíma í að hlusta á ýmsar útgáfur af stemmum og rímnalögum og ber sífellt meiri virðingu fyrir þessari sérstöku menningu. Stór hluti annarrar tónlistar sem sungin er hér á landi virðist stundum vera lítið annað en endurómun af því sem gert hefur verið í öðrum menningarsamfélögum. Í rímnalögum eigum við okkar sérkenni.
Annars er það ákveðin áhugaverð pæling varðandi okkar hornrétta vestræna nútímasamfélag af hverju nánast öll okkar tónlist byggir á 4/4 takti - einn, tveir, þrír, fjór. Tengingin við hornréttan kassa er augljós en í t.d. inverskri tónlist mun lagið byggjast á mun fleiri slögum og hugsunin meira sú að tónlistin byggi á hring en ekki kassa. Í rímnalögum er lítil sem engin virðing borin fyrir reglulegum takti en þeim mun meira fyrir hrynjanda ljóðsins. Í stað fjögurra slaga er hver staka flutt sem nánast með fjallgöngu í huga, hægur stígandi framan af og rís upp um miðbikið en fjarar síðan hægt út í langan lokatón. Það þarf nokkra þjálfun til að geta sungið með þeim hætti án þess að festast í reglufestu venjulegs takts.
Nú hafa þau Þórarinn Eldjárn og Sigrún Eldjárn gefið út bók sem ef til vill getur orðið mikilvægt skref í að endurvekja íslenskan kvæðasöng. Í bókinni Gælur, fælur og þvælur eru ný barnakvæði eftir Þórarinn í anda við fyrri bækur hans. Það nýja við þessa bók er að henni fylgir geisladiskur þar sem Bára Grímsdóttir kveður kvæðin með fornu íslensku lagi. Bókin er frábærlega skrifuð líkt og allar fyrri ljóðabækur fyrir börn sem Þórarinn hefur gefið út, en það hefur haft dáleiðandi áhrif á dóttur mína tveggja og hálfs árs að geta hlustað á Báru kveða ljóðin.
Af minni takmörkuðu þekkingu á stemmum að dæma hefur Bára leyst þetta verkefni með fullkomnum hætti. Eitt af því erfiða við að geta kveðið stemmur með réttum hætti er að þær virðast ekki eiga að fylgja nema að hluta til því sem kennt er í tónlistarskólum og almennt tíðkast í söng. Eftir að hafa prófað að kveða með öldungunum í Iðunni er augljóst að til að geta kveðið þarf að aflæra ýmsan ávana eftir þjálfun í hefðbundnum kórsöng. Áherslur og taktur er með allt öðru lagi. Of hámenntaður söngvari held ég því að ætti erfitt með að koma kvæðalögum rétt til skila en Bára kveður fallega og af fullkominni virðingu við rímnalagaformið.
Ef gera á kvæðasöng aftur að lifandi listformi hjá þjóðinni er líklega vænlegast að byrja á leikskólunum. Það hefur þó aðeins slegið mig við að fara yfir þau lög sem sungin eru á leikskólum að tónlistarlega er þetta að mestu mikil flatneskja, eiginlega allt stöðluð 4/4 GCD lög. Ef farið væri að kynna séríslenskan kvæðasöng sérstaklega á leikskólum og tóneyra barnanna vanið strax við þennan sérstæða söngstíl okkar Íslendinga væri hægt að leggja mikilvæga undirstöðu fyrir framtíðina.
Því hvet ég alla til að kaupa þessa bók og spila, lesa og syngja fyrir börnin.
Nánari upplýsingar um rímur má finna á síðu Kvæðamannafélagsins Iðunnar, www.rimur.is
Lifi stemmurnar!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.12.2007 | 12:05
Höfundar skrifa um höfunda
Það er athyglisvert hversu margar af þeim bókum sem koma út þessa dagana fjalla um höfunda. Fyrir þá sem hafa gaman af bókum getur verið forvitnilegt að kynnast höfundinum betur, kynnast lífshlaupi hans, hugmyndum og vinnubrögðum, en vitanlega þarf maður ekki að vita nokkurn skapaðan hlut um höfund til þess að njóta þess sem hann skrifar. Of miklar upplýsingar um höfund geta jafnvel tekið frá höfundarverkinu þegar lesandinn reynir að sjá höfundinn og hans lífshlaup endalaust í ritverkinu.
Tvær af höfundabókunum eru auglýstar með vísun í ástamál höfunda; Davíð Stefánsson og Þórbergur Þórðarson. Sennilega eiga þessar auglýsingar að höfða betur til Séð og heyrt kynslóðarinnar. Pétur Blöndal (krummi) skellir fram viðtölum við 12 rithöfunda og ljóðskáld og nær að draga fram vinnubrögð, höfundareinkenni og sérstöðu hvers höfundar. Hjálmar Sveinsson skrifar um Elías Mar, sem er vanmetinn rithöfundur sem var í takt við fyrringu og tómlæti eftirstríðsáranna. Síðan eru einnig bækur um Sigfús Daðason, Halldór Laxness og Jónas Hallgrímsson.
Það er erfitt að átta sig á því hvað veldur þessum mikla áhuga höfunda að skrifa um höfunda þessi jólin. Það væri forvitnilegt að taka við þá viðtöl, líkt og Pétur gerir í bók sinni Sköpunarsögur, og reyna að átta sig á því hvers vegna allir þessir höfundar fengu þá hugmynd að skrifa bækur um höfunda jólin 2007.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.11.2007 | 02:06
Krimmi hjá krummum
Viðburðarík vika. Í dag var útgáfuteiti vegna Sköpunarsagna á Kaffi Sólon, viðtalsbókar við tólf rithöfunda um sköpunarferlið, þar sem margir krummar mættu. Meira um það síðar.
Innan um mannfólkið mátti greina krumma sjálfan; sjaldséður fuglinn stóð við barinn og tjaldaði þar svörtum fjöðrum, feginn að vera laus úr pokanum.
Eftir það var förinni heitið í útgáfuveislu Bjarts. Einnig þar brá fyrir krummum. Og spiluð var ballskák með osta, öl og bókadrykkinn. Bjartur með tvær skáldsögur í ár, en þeim fjölgar á næsta ári. En forlagið keppir hinsvegar að metsölu í ljóðabókum, fyrsta upplagið farið af Sjón og Kristínu Svövu.
Og veislan er ekki á enda. Næsta þriðjudag verður krummafundur sem hefst að vanda kl. 20.30. Árni Þórarinsson heiðrar krumma með nærveru sinni. Nánar um það síðar.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.11.2007 | 02:33
Vigdís krúnkar með krummum
Vigdís Grímsdóttir heiðraði krumma með nærveru sinni í heimboði til Forlagsins sl. þriðjudagskvöld. Skemmtilegri verða höfundar ekki. Enda var hún kynnt þannig til sögunnar fyrir kvöldið að hjá henni væri "alltaf leikur í orðum, tvíræðni og glettni í fasi. Eða er henni alvara?"
Og maður verður engu nær um það með því að skoða meðfylgjandi mynd. Þó má ljóst vera að félagi Börkur lifir sig inn í frásögnina.
Vigdís las upp úr Sögunni af Bíbí Ólafsdóttur og sagði síðan frá kynnum sínum af henni og að erfitt hefði verið að fá Bíbí til verksins - örlögin hefðu þó spunnið sinn þráð.
Hún sagðist hafa tekið samtal þeirra upp á þrjátíu spólur og skrifað allt orðrétt niður. Það hefði hjálpað sér að ná þræði í söguna. Og hún neitaði að upplýsa krummana um manninn með hrafnshöfuðið, sem kemur fyrir í verkum hennar, og er ræddur í Sköpunarsögum. Hún gaf það þó upp að hún hefði ráðfært sig við hann fyrir krummafundinn.
Að vanda voru móttökur Forlagsins einkar glæsilegar, Jóhann Páll Valdimarsson tók virkan þátt í samræðunum, ekki síst um lygna og ólygna útgefendur, og jólakökur, konfekt og bókadrykkur voru á borðum.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.11.2007 | 01:36
Aðdáandi Ólivers
Stefán Eiríksson er enn við sama heygarðshornið, að þessu sinni í þættinum Kiljan, Oliver Twist í uppáhaldi. Bók sem hann hafði fyrri sið að lesa einu sinni á ári. Og hefur bloggað um hér á Hrafnasparki. Saga af því hvernig menn geta dottið í undirheimana, en líka snúið við blaðinu.
En Stefán er kominn aftur í barnaþulurnar. En hvað það var skrýtið eftir Pál J. Árdal les hann fyrir yngsta son sinn, sem er eins og hálfs árs, og Stefán segist raunar kunna hana utanbókar. Auðvitað munu krummar fá hann til að krunka þuluna fyrir sig á næsta krummafundi á þriðjudaginn kemur.
Meira um þann fund síðar. Krá!
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.5.2007 | 10:11
Titlabarn
Það vantar gott orð fyrir fyrsta barnið í hverri kynslóð fjölskyldu. Við fæðingu slíks barns fá ekki bara foreldrarnir titlana pabbi og mamma, heldur eru einnig afar og ömmur, föðursystur og föðurbræður, móðursystur og móðurbræður, langafar og langömmur og aðrir eftir fjölskyldumynstrum.
Er einhver með fleiri tillögur en titlabarn?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
krummi
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 176819
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- annapala
- arnih
- arnljotur
- begga
- birgitta
- bjarnihardar
- bleikaeldingin
- davidlogi
- don
- ea
- fararstjorinn
- feministi
- gattin
- geislinn
- grettir
- halldorbaldursson
- hallkri
- handsprengja
- handtoskuserian
- hannibalskvida
- herdis
- hlynurh
- hof
- hoskuldur
- hrollvekjur
- hugsadu
- hux
- ingibjorgelsa
- jonasantonsson
- kaffi
- kiddirokk
- kjarninn
- kjoneden
- kolgrima
- listasumar
- ljonas
- lostintime
- maggaelin
- magnusb
- malacai
- maple123
- nosejob
- pallvil
- ragnhildur
- reni
- ruthasdisar
- seth
- sigurgeirorri
- stebbifr
- steinibriem
- theld
- tulugaq
- vefritid
- vglilja
- vinursolons
- vitinn
- arniarna
- gisliblondal
- skak
- athena
... ... ... ... ... ... ... ... ...