Fjölmiðlapistill

Ólafur Teitur og krummi Góður fjölmiðlapistillinn í morgun hjá Ólafi Teiti.  Heiða Jóhannsdóttir hafði skrifað makalausa grein í Lesbókina þarsem fordómar hennar og ofstækið gagnvart hægri mönnum í Bandaríkjunum var stjórnlaust.  Hún þóttist notast við hlutlausar heimildir en einsog Ólafur bendir á:  "Greinin er byggð alfarið á bandarískum vef sem hún kallar "fjölmiðlavaktin Media Matters for America".  Blekkingin felst í því að Heiða sleppir því einhverra hluta vegna að taka fram að það er yfirlýst stefna Media Matters að skrásetja og leiðrétta eingöngu áróður íhaldsmanna.  Hún villir um fyrir lesendum með því að kalla þetta "fjölmiðlavakt" og láta sem það sé hlutlæg niðurstaða að ofstækisfullir hægrimenn vaði uppi".  Ólafur Teitur bendir á að ritstjórar síðunnar hafa orðið uppvísir að lygi, síðan notast hann við aðra síðu sem skrásetur viðbjóðinn sem hefur komið útúr vinstri mönnum í Bandaríkjunum sem er hálfu verri ef eitthvað er - en Heiða hafði ekki áhuga á að kynna í greininni sinni.  Þá klykkir hann út með því að minnast þess að þótt Heiða hafi verið hneyksluð á því í greininni sinni hvað hægri menn í Bandaríkjunum notuðu sterk orð að þá hafði hún í dómi sínum um Fahrenheit 9/11 gefið myndinni fjórar stjörnur og sagt að sér þætti það bara fínt að hann tæki stundum "sterkt til orða".

Teiknimyndir fyrir börnin - sjúkur heimur (2. hluti)

10m Finn mig knúinn til að leggja aðra færslu til þessarar umræðu sem Börkur hóf hér um daginn eftir að hafa séð myndina Happy Feet sem virðist nú fara sigurför um heiminn. Vissulega er hér á ferð stórvirki í tölvuvinnslu (unnið af fólki sem eflaust sóaði æsku sinni í tölvuleiki) en þá er líka upptalið það sem gott er (e.t.v. af því að sömu aðilar lásu ekki nægilega margar bækur).

Í myndinni er reynt að blanda inn ádeilu á trúarofstæki og ofnýtingu auðlinda með hryllilegum árangri. Boðskapurinn virðist m.a. vera sá að sjálfsagt sé að stöðva veiðar mannsins á einni dýrategund til að bjarga þeim dýrategundum öðrum sem geta sungið gamla R&B og diskóslagara. Eða eins og 5 ára dóttir mín kommenteraði eftir myndina: "þá verður fólkið bara að borða pulsur og brauð í staðinn fyrir fisk". Að vísu var hressandi að sjá selinn og frændur Keikó gerða að blóðþyrstum og illa innrættum rándýrum (hefði mátt taka það skrefi lengra og skjóta inn nokkrum selveiðandi eskimóahetjum).

Eftir að hafa gluggað í dóma um myndina á netinu þá virðist fólki annað hvort vera fullkomlega sama um slíkan fáránleika (og þá fær myndin fimm stjörnur) eða að það verður pirrað og reitt (og gefur myndinni eina stjörnu).

Hvort viljum við frekar, útlit eða innihald?


Leikjatölvur og lestur

Í grein í vef útgáfu The Spectator segir Boris Johnson að það sé kominn tími til þess að við sem photo_console_Wiisamfélag horfumst í augu við þau skelfilegu áhrif sem tölvuleikir hafa á þá kynslóð sem er að vaxa upp. Árið 1997 var bætt inn lestrarstund í alla grunnskóla í Bretland en sex árum síðar hafði börnum sem sögðust ekki hafa gaman af lestri fjölgað úr 23% í 35%. Kannanir sýna að börn og þá sérstaklega drengir líta á lestur sem skylduverk og það sé nauðsynlegt að lesa til þess að klára einhver próf, en ekki vegna þess að það sé hreinlega gaman að lesa. Boris lítur svo á að tölvuleikir séu stór hluti af vandamálinu. Við krefjumst þess að kennarar kenni börnunum okkar að lesa og kenni þeim að meta bókmenntir, en samt leyfum við þeim að hanga fyrir framan tölvuleikina þegar þau eru komin heim.

Boris hefur verulegar áhyggjur af því hvert stefnir. 40% ungmenna uppfylla ekki kröfur um lestur og reikning við 14 ára aldur og stór hluti þeirra sem fara í Háskóla ráða ekki við að skrifa ritgerðir sem uppfylla kröfur Háskólanna. Boris lítur svo á að einn af stærstu sökudólgunum séu tölvuleikirnir og því hvetur hann alla til þess að ná sér í sleggju og hreinlega brjóta leikjatölvurnar í nafni lestrarins.

Margt í þessari lýsingu gæti átt við hér á Íslandi, þó svo að við séum tæpast komin jafn langt í þessari þróun og Bretar. Í Bretlandi eru 85% heimila með leikjatölvur og er hlutfallið hvergi hærra. Sala bóka gengur vel á Íslandi og virðast flest börn ennþá lesa. Svo má heldur ekki gleyma því að lestur hlýtur að vera meira en bara lestur bóka. Íslensk börn lesa textað efni í sjónvarpi og kvikmyndahúsum, þau lesa texta á tölvuskjánum, hvort sem það er á alnetinu eða msn-inu o.s.frv. En vissulega þurfum við að gæta að okkur og tryggja að tölvuleikir séu í raun aðeins leikir en ekki lífsstíll. Það getur ekki verið nokkrum manni hollt að hanga heilu og hálfu dagana fyrir framan sjónvarpsskjá í tölvuleik og gera lítið annað. Það er nauðsynlegt að reyna að örva áhuga ungmenna á bókum og lestri því það er skelfileg tilhugsun að upp komi kynslóð sem fari á mis við þá ánægju sem felst í lestir góðrar bókar.


Aftaka Husseins

Það var skrítið að sjá sjónvarpsupptöku af því þegar Saddam Hussein var leiddur til aftöku í Írak. Fjöldi félaga minna og vina áttu ættingja sem ríkisstjórn Saddams Husseins hafði niðurlægt, pyntað og myrt. Áður en að aftöku hans kom hafði ég vonað að þannig færi. Svo þegar loksins kemur að henni þá líður manni bara illa. Því maður sér ekki fjöldamorðingja og illmenni leitt til aftöku, heldur bara gamlan og sorgmæddan mann. Manni fannst hann frekar þurfa aðhlynningu aðstaddra og aðstoð heldur en að sett væri snara um háls hans og hann myrtur. Ég minntist þess sem einn japanskur hermaður sagði í viðtali eftir seinni heimsstyrjöldina, sem var eitthvað á þessa leið: “Það fara allir í stríð með nafn ættjarðarinnar og konungsins á vörunum en þeir deyja allir kallandi á mömmu sína”. Þótt sumir illvirkjar fremji glæpaverk sín með ómanneskjulegum aðferðum þá koma þeir allir til aftöku sinnar sem menn. Ég veit ekki hvað ég held um dauðarefsingar. Þótt maður sé mótfallinn dauðarefsingum á Íslandi hef ég yfirleitt sýnt því skilning að úti í heimi hinna stærri samfélaga en svona örsamfélags einsog hér, séu dauðarefsingar skiljanlegar í sumum tilvikum – en ég er ekki viss. Ég sá aldrei illvirkjann Saddam Hussein. Ég var reyndar á réttarhöldunum yfir honum en sá hann sem gamlan og kurteisan mann. Hann var leiddur inní dómsalinn í fylgd tveggja óvopnaðra tvítugra stráklinga. Hann sýndi engan mótþróa, lét þá stoppa göngu sína þegar annar þeirra lyfti hendi, settist síðan þegar stráklingurinn leyfði honum það. Á meðan réttarhöldunum stóð var hann kurteis og bað tvisvar um orðið en dómarinn hafnaði því í bæði skiptin og hann tók því einsog kurteisum manni ber. Bróðir hans var reyndar einsog snarbrjálaður vitleysingur í réttarhöldunum en það er önnur saga. Það gerir hann svosem ekkert að betri manni að hann skuli hafa verið rólegur, kurteis og gamall. Manni skilst að hann hafi skipað fyrir sín verstu glæpaverk með ró og kurteisi. Og við önnur réttarhöld hélt hann reiðilestur yfir dómurunum og hellti sér yfir sjíana. En ég sé ekki að það geri Írak heldur að betra landi að myrða þennan gamla og kurteisa fjöldamorðingja.
mbl.is Samstarfsmenn Husseins teknir af lífi á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skáldið, Framsókn og græni liturinn

benediktssonHalldór Ásgrímsson fór með kvæði eftir Einar Benediktsson skáld í báðum áramótaávörpum sínum, eins og fram kom í síðustu færslu, og þannig hafa forsætisráðherrar valið sér skáld í gegnum tíðina, – tekið ástfóstri við þau. Eins er það með litina, stjórnmálaflokkar hafa eignað sér ákveðna liti, græni liturinn stendur til dæmis fyrir Framsóknarflokkinn. En þá vaknar spurning hvort ekki þurfi að gæta samræmis þar á milli, – hvað skyldi Einari hafa fundist um græna litinn? 

Í bókinni Satt & ýkt eftir Gunnar M. Magnús er sagt frá hjátrú Einars Benediktssonar og haft eftir frú Valgerði Benediktsdóttur:

Hann hafði og sérstaka ótrú á vissum hlutum.

Svo var til dæmis um það, að hann mátti ekki sjá neitt með grænum lit á heimili sínu, hvorki flík né húsmuni, og mátti aldrei af því bregða.

Svo stóð á, að Indriði Einarsson rithöfundur, sem var frændi Einars, hafði einhvern tíma minnt hann á það, að enginn af Reynistaðaættinni mætti vera klæddur fötum með grænum lit, það væri óheillamerki. 

Séra Árni Þórarinsson hafði sömu sögu að segja af Einari:

– Einar hafði mikið yndi af dularfullum sögum, en var ekki margfróður á þau efni. – Hann var líka það, sem almennt er kallað að vera hjátrúaður.

Það var um hann sagt til dæmis, að hann hefði aldrei þorað að ganga í grænum fötum vegna þess, að við því hefði legið bann í ættinni, síðan Bjarni Reynistaðabróðir varð úti grænklæddur á Kili.

Loks má geta sögu Indriða Einarssonar, sem sagði að hann hefði eitt sinn hitt Einar á götu í nýjum fötum grænum.

– Heyrðu, frændi, kvaðst Indriði hafa sagt, þú ert kominn í græn föt.

– Nei, hver andskotinn, svarar Einar og flýtti sér heim, fleygði þar af sér fötunum og fór aldrei í þau oftar.

Það skýtur því skökku við að nú á dögum eru kvæði skáldsins Einars Benediktssonar helst lesin fyrir alþjóð um áramót af mönnum með græn bindi.


Skáld og forsætisráðherrar um áramót

Flugeldar-twilight-01Maður bíður alltaf eftir því með mestri óþreyju þegar nýr forsætisráðherra tekur við stjórnartaumum landsins hvaða skáldi hann tekur ástfóstri við í áramótaávörpum sínum. Og auðvitað er það þannig að skáld velja ekki forsætisráðherra heldur forsætisráðherrar skáld.

Löng hefð er fyrir því í Sjálfstæðisflokknum að vitnað sé í Hannes Hafstein skáld og fyrsta ráðherra þjóðarinnar. Það liðu varla áramót án þess að Davíð Oddsson kallaði hann til samfylgdar inn í nýtt ár.

En Geir H. Haarde mælti þjóðinni mót við nýtt skáld í gærkvöldi þegar hann sagði: „Áramót boða birtu og nýjar vonir framundan. Í nýrri bók sinni túlkar Hannes Pétursson þessa tilfinningu með glæstri ljóðmynd:

Seint gleymist sólarkoma

eftir svartasta skammdegi:

gulir eldar

við efstu fjöll!

Í niðurlagi ræðu sinnar talaði Geir um skáldið Jónas Hallgrímsson: „Töfrar málsins í ljóðum Jónasar snerta strengi í brjósti sérhvers Íslendings. Segja má að hvar sem lokið er upp í ljóðasafni Jónasar glitri á perlur. Margt af skáldskap hans er lifandi á vörum okkar, hvort sem við höfum lært hann í barnaskóla eða síðar á ævinni. Kvæðið alkunna, Ég bið að heilsa, er gott dæmi um þetta:

Nú andar suðrið sæla vindum þýðum,

á sjónum allar bárur smáar rísa

og flykkjast heim að fögru landi Ísa

að fósturjarðar minnar strönd og hlíðum.

Þetta fallega kvæði, sem yljað hefur mörgum um hjartarætur, tvinnar saman íslenska arfleifð og evrópska menningu. Það er óður til fósturjarðarinnar en undir erlendum bragarhætti, fyrsta sonnettan sem ort er á íslensku."

Geir er maður tónlistarinnar og þess vegna lætur hann ekki hjá líða að geta tónskáldsins: „Mörgum áratugum eftir andlát Jónasar Hallgrímssonar fæddist sá maður sem átti eftir að gefa þessu kvæði annað líf, tónskáldið góða, Ingi T. Lárusson. Lag Inga T. hefur greypt kveðju Jónasar heim til Íslands í hug og hjörtu okkar Íslendinga. Þessara tveggja listamanna er gott að minnast í kvöld."

Davíð Oddsson minntist Jónasar Hallgrímssonar raunar í áramótaávarpi sínu árið 2002. Þá sagði hann að Jónas hefði ort margt og yrkisefnin verið ólík. „En þegar vel er að gáð glittir í ást hans á ættjörðinni í nánast hverju kvæði. Og það er hvergi úr stíl. Það er ekki merki um þjóðrembing og mont, þótt við látum, eins og Jónas, eftir okkur að það glitti í ást okkar á landi og þjóð í nær sérhverju verki sem við tökum að okkur og hvað sem við annars höfum fyrir stafni á nýja árinu. Fyrir rúmum hundrað árum orti 18 ára gamall piltur á þessa leið til landsins síns:

Ef verð ég að manni, og veiti það sá,

sem vald hefur tíða og þjóða,

að eitthvað ég megni, sem lið má þér ljá,

þótt lítið ég hafi að bjóða,

þá legg ég að föngum mitt líf við þitt mál,

hvern ljóðstaf, hvern blóðdropa, hjarta

og sál.

Halldór Ásgrímsson gerði Einar Benediktsson að skáldi Framsóknarflokksins í sínum tveimur ávörpum. Og Matthías Jochumsson kemur við sögu í ávarpi Davíðs árið 2004: „Hvað boðar nýárs blessuð sól?" spurði sr. Matthías forðum, og sama hugsun býr nú með okkur, hverju og einu.

Hún boðar náttúrunnar jól,

hún flytur líf og líknarráð,

hún ljómar heit af Drottins náð.

Þannig svaraði skáldið sjálfu sér. Matthías þurfti enga spádómsgáfu til þess að gefa þetta svar. Þetta var ekki spá, heldur vissa. Sr. Matthías hafði, þegar þarna var komið, sigrað efann sem ásótti hann stundum forðum. Hann var kominn fyrir þann vind. Honum var borgið, í öruggri vissu þess að:

Í hendi Guðs er hver ein tíð

í hendi Guðs er allt vort stríð

hið minnsta happ, hið mesta fár

hið milda djúp, hið litla tár

Í almáttugri hendi hans

er hagur þessa kalda lands,

vor vagga, braut, vor byggð og gröf,

þótt búum við hin ystu höf.

En það er ekki hægt að fjalla um áramótaávörp án þess að Hannes Hafstein fái að njóta sín í orðum Davíðs og mörg áramót sem koma til greina. Höldum áfram með árslok 2004, þar sem Matthías hefur þegar arkað fram á sviðið í upphafi ræðunnar. Síðar slæst Hannes Hafstein í för með honum, sem kom vígreifur til starfa í gamla Landshöfðingjahúsinu við Bakarabrekku:

„En þegar Hannes Hafstein horfði út um gluggann sinn í hinu nýja stjórnarráði vissi hann ekki aðeins, rétt eins og við nú, að margt var ógert. Við honum blasti, hvert sem litið varð um landið, að það var nánast allt ógert. Samt ljómaði hann í sál og sinni þennan febrúarmorgun árið 1904. Af hverju? Af því að hann skynjaði að loksins var fengin forsendan fyrir framförum í því landi, sem svo lengi hafði staðið í stað. Og hver var hún forsendan sú? Frelsið. Frelsið var aflgjafinn sem svo lengi hafði vantað. Daufar vonir höfðu vissulega blundað með þjóðinni og hún átt drauma og þrár, en frumkvæðisrétturinn og framkvæmdaskyldan hvíldu ekki á réttum herðum fyrr en með heimastjórninni. Eignir þjóðarinnar voru ekki miklar og aflið virtist ekki beysið en það dró ekki móð úr fyrsta ráðherranum sem vissi í hjarta sínu að nú voru vatnaskil. Þetta skynjaði gamli skáldmæringurinn fyrir norðan líka, þar sem hann sat í Sigurhæðum. Úr bréfum hans til Hannesar Hafsteins má lesa væntingar hans - jafnvel sigurvissu, nú þegar þau lögðust á eitt, forsjónin, frelsið og hinn stórhuga skarpgreindi skáldbróðir hans, sem falið hafði verið að hlaupa fyrsta spottann í langhlaupi hennar úr örbirgð til betra lífs. Forskot annarra þjóða á Íslendinga mældist ekki í metrum, heldur í áratugum eða öldum, en það gilti einu, því nú var Ísland komið af stað og hljóp loks með kyndil sinn á eigin forsendum.

Hannes mat hvatningarbréf sr. Matthíasar mikils. Hann var ekki orðinn ráðherra Íslands er hann svarar einu bréfanna meðal annars með þessum orðum.

Við þurfum trú á mátt og megin,

á manndóm, framtíð, starfsins guð,

þurfum að hleypa hratt á veginn,

hætta við óláns víl og suð,

þurfum að minnast margra nauða,

svo móður svelli drótt af því,

þurfum að gleyma gömlum dauða,

og glæsta framtíð seilast í.

Og Davíð klykkir út með: „Forystuhæfileikar Hannesar Hafsteins, óbilandi kjarkur hans og bjartsýni, sefjandi sigurvissa gagnvart hvers kyns erfiðleikum var orkugjafi þjóðarinnar í upphafi nýrrar aldar. En meira að segja slíkir eiginleikar hefðu dugað skammt ef viðspyrnan, sem frelsið gaf, hefði ekki fengist. Þess er okkur hollt að minnast á þessum tímamótum. Því baráttunni um frelsið er ekki lokið og lýkur aldrei, þótt hún hafi breyst. Og nú er vandinn við að varðveita það og efla flóknari en nokkru sinni fyrr. Því nú er ekki lengur við fjarlægan, óbilgjarnan, erlendan andstæðing að eiga sem sameinar þjóðina til átaka. Nú snýr baráttan inn á við. Nú er við okkur sjálf að eiga og það er snúnara. Við þurfum sjálf að gæta þess að sá aflvaki og þróttur sem í frelsi manna býr fái að njóta sín. En frelsið verður gagnslítið, ef það er aðeins fárra en ekki fjöldans. Ef við kunnum ekki með það að fara, misnotum það eða misbeitum, þá þrengir smám saman að því, uns svo er komið að það skiptir engu, hvort rót þess er nær eða fjær, í Kvosinni eða Kaupmannahöfn. Þá værum við komin aftur á byrjunarreit."


Ísland - níunda best í heimi!

Á forsíðu vefútgáfu New York Times er slegið upp lista yfir þær 25 ferðagreinar sem flestir hafa áframsent til vina og kunningja. Í níunda sæti er greinin „Iceland's Ring Roadtmt10cd: The Ultimate Road Trip". Á sama tíma og rithöfundarnir Ólafur Gunnarsson og Einar Kárason fóru til Bandaríkjanna til að keyra Route 66, þá fór blaðamaðurinn Mark Sundeen til Íslands og ók hringveginn.

Hann talar um það í greininni að landslagið sé eins og ameríska vestrið hafi verið sett í hrærivél, hin ljóðræna strandlengja Kaliforníu, hrjóstrugar eyðimerkur Nevada, jöklar Alaska og hverir Yellowstone. „... og ef þér líkar ekki eitt náttúrufyrirbærið, þá eru bara nokkrir klukkutímar í það næsta."

En greinin jafnast auðvitað ekki á við aðra hringferð sem Neil Strauss fór um Ísland og skrifaði um í New York Times 7. nóvember árið 2001 undir yfirskriftinni „What a Short, Strange Icelandic Trip It's been". Þar fylgir hann kántrýbandinu Funerals á tónleikaferð um landið eftir Airwaves-hátíðina í október, en það var þá og verður líklega enn að teljast nær óþekkt á skerinu og aðsóknin eftir því, enda yfirskrift ferðarinnar: „The Almost Pathetic Tour".

Blaðamaður New York Times upplifir ýmislegt, eins og nærri má geta, svo sem að Sykurmolinn Einar Melax stígur óvænt á svið með bandinu á veitingastaðnum Krákunni á Grundarfirði og spilar á harmóníku og gítar, en fáir mæta á tónleikana í Kántrýbæ á Skagaströnd út af fertugsafmæli sem haldið er sama kvöld.

Þó að Funerals hafi svo sem aldrei sigrað heiminn vantar ekki rokkstjörnubraginn á meðlimi sveitarinnar, eins og þegar bassaleikarinn Viðar Hákon Gíslason segir: „We can only perform drunk". Minni stjörnuljómi er þó yfir Ólafi Jónssyni trommuleikara í greininni, en hann segir að hugurinn reiki oft á meðan hann taki trommusóló, „and he would find himself thinking about eating a sandwich".


Bókin uppi í hillu

Fyrist fundur Animal Man og Superman

TEN MILES OUTSIDE THE CITY, THE SCREAMING BEGINS IN EARNEST...  

Þannig hefst reynslusaga hins ágæta Animal Man, ofurhetju sem hefur lagt búninginn á hilluna, snúið sér að barneignum og tilheyrandi. Hann lifir ofur hversdagslegu lífi, rífst við konuna og krakkana og allt það. Hann bisar við að bjarga ketti nágrannans, sem er fastur uppí tré. Dettur. Lendir á fótunum – eins og köttur! Ekki svo hversdagslegt. Rifjar upp hina gömlu góðu daga.

Hann langar ekki að lifa svona leiðinlegu lífi lengur! Hann langar að

leggja sitt til málanna. Byrjar að                         Fyrsti fundur Animal Man og Superman           

þjálfa upp yfirnáttúrulega krafta sem hafa blundað í vöðvastæltum líkama hans. Dregur upp appelsínugult cat-suit og flug-gleraugu í stíl. Bætir við múnderinguna bláum mittisjakka, það er svo hallærislegt þessa dagana að vera í svona þröngum galla, og auk þess er jakkinn hentugur til að geyma peninga og ýmislegt smálegt segir söguhetja okkar við spyrjandi eiginkonu sína. Tátiljur eru í sama lit, ljóst hárið er sett upp í loftmikla eighties-greiðslu, en kraftar í kögglum eru óbeislaðir, ekki nógu þjálfaðir. Endar í runna í fyrstu flugferðinni. Ný ofurhetja er engu að síður fædd. Og hvað gerist svo? Jú, fyrir hreina tilviljun steðjar mikill háski að samfélaginu, ókennileg vera rís upp úr skuggum holræsisins og hrellir saklausa borgara, og okkar maður ákveður að grípa í taumana. Bjarga heiminum. Að vísu gerist þetta ekki áfallalaust, en enginn verður óbarinn biskup. Gefum sögumanni bókarinnar aftur orðið:

HIS FIRST ATTEMPTS HAVE FAILED BUT THE BEAST IS NOTHING IF NOT A CREATURE OF SINGULAR PURPOSE. HIS ENEMIES THINK THE CITY WILL PROTECT THEM. THEY THINK THEY ARE SAFE ... SAFE IN THEIR CONCRETE AND STEEL... THEY ARE WRONG.

 

(Eða var það lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins sem sagði þetta?)

 

Grant Morrison, Chas Truog, Doug Hazlewood, Tom Grummet: Animal Man. 1991. DC Comics.

  

Árið 2006

holper8Nú um áramót er vel við hæfi að líta aðeins um öxl.  Í ljósi þess að samkvæmt almennu áliti vísindamanna eru ekki nema eins og nokkrir áratugir þar til kolvísýringsútblástur jarðarbúa nær að útrýma ísbjörnum er eðlilegt að líta yfir mitt persónulega framlag í þeim efnum á árinu 2006.

Aksturinn sýnist mér ekki hafa verið sérlega mikill á heimilinu, þó hann mætti vera á sparneytnari bíl. Líklega hafa verið eknir innan við 10.000 km og útskilnaður koltvísýrings vegna þeirra er lauslega áætlaður um 6 tonn.  Flugkílómetrarnir eru hins vegar nokkuð margir eða um 31500 og þeir kílómetrar vega þungt í útskilnaðarmálum, um 11 tonn voru losuð út í andrúmsloftið við það.  

Þetta gerir því samtals um 17 tonn af koltvísýringi sem bara ferðir mínar hafa losað út andrúmsloftið.  Við þetta þyrfti að bæta losun upp á einhver tonn vegna flutnings og framleiðslu matar og annars varnings, þó það sé nokkuð erfiðara að áætla þann þáttinn. 

Þegar ég lít yfir árið hvað varðar minn persónulega þátt þá hef ég líklega gert eiginlega ekki neitt til að draga úr útblæstri.  Ég hef ekki sleppt ferðalögum, allt of sjaldan hjólað í vinnuna og er ekki á sparneytnum bíl.  

Vonandi eru gróðurhúsaáhrifin bara ímyndun.  Kannski er einskær tilviljun að fyrirbærið jólasnjór þekkist vart lengur, nú er orðið réttara að tala um jólarigninguna, jólapolla eða jafnvel jólaflóðin eins og þetta árið. 

Ég ætla samt að gera ráð fyrir að álit sérfróðra manna sé rétt og reyna að gera ganga betur um náttúruna á næsta ári.  Framtíð barnabarna minna og barnabarna þeirra er í húfi.  

Gleðilegt ár 


E.T.

Kannski vegna þess að þau eru að koma, nálgast hratt, stend ég sjálfan mig að því að velta fyrir mér möguleikanum á lífi á öðrum hnöttum. Kannski er það vegna einhvers annars, veit það ekki, þetta er eitthvað sem ég hef aldrei pælt í af alvöru. En núna, þegar ég hef hugsað um líf á öðrum hnöttum - extraterrestrials - í nokkra daga, kemur mér stöðugt oftar til hugar að þetta ágæta viðfangsefni (samsetning alheimsins) sé og verði ávallt ofar skilningi og greind mannsins.

Það er, því lengur sem ég stari út í geim og reyni að komast að einhverri rökréttri niðurstöðu, því meir líður mér eins og hundi sem situr fyrir framan sjónvarpstæki og telur sig vera að koma á raunverulegu sambandi þegar hann geltir á annað dýr á skjánum. Því lengur sem ég stari út í geim og reyni að mynda mér einhverja raunverulega skoðun á lífi á öðrum hnöttum, því meir líður mér eins og páfagauki sem reynir við sjálfan sig í spegli. Það er, því lengur sem ég stari út í geim því sterkar fæ ég á tilfinninguna að við séum á svo rangri braut í hinum svokölluðu heimsfræðum að ekki sé einu sinni hægt að byrja að tala um það. Og þótt vísindin þróist - þótt geimförin komist lengra - þá skipti það hugsanlega jafnmiklu máli í stóra samhenginu og ef hundurinn framan við sjónvarpið næði að stökkva upp og tylla loppunum á skET%202jáinn.

Um daginn birtust tvær fréttir sem báðar tengdust heimsfræðingnum Stephen W. Hawking. Önnur var sú að Hawking hefur komist að því að mannkynið verður að nema aðrar plánetur í framtíðinni. Það muni ekki lifa af útþenslu sólarinnar. Þótt ég læsi fréttina nokkrum sinnum tókst mér ekki að skilja þessa nýju vísindaniðurstöðu Stephen W. Hawking öðruvísi en svo að hann hefði bara aldrei verið í eðlisfræði í Digranesskóla. Þar var okkur kennt í tólf ára bekk að sólin væri að þenjast út og myndi á endanum eyða jörðinni. Hin fréttin var merkilegri. Mér þótti hún reyndar svo stórmerkileg að allan þann dag gekk ég um með algerlega endurnýjaða trú á mannsandanum. Samkvæmt fréttinni átti Stephen W. Hawking í svæsnum málaferlum við eiginkonu sína vegna meints framhjáhalds. Honum hafði tekist, þrátt fyrir að vera svo illa farinn af hreyfitaugungahrörnun að hann getur ekki lengur haldið höfðinu uppréttu, að halda framhjá með ritaranum sínum. Það geta sennilega bara snilllingar. Og hvað segir þetta manni um karlmenn? Í framhaldinu velti ég fyrir mér hvort fréttirnar tvær hefðu verið slitnar úr samhengi. Hugsanlega sá greyið maðurinn ekki fram á annað - nú þegar hann var að ganga í gegnum heiftarlegan skilnað - en að þurfa að koma sér fyrir á annarri plánetu.

Stephen William Hawking; vinur minn sem hefur miklar mætur á vísindamanninum reyndi einu sinni að sannfæra mig um að hann hefði fundið Guð. Hefði hreinlega reiknað hann út. "Nú?" sagði ég. "Já," svaraði vinur minn. "Hann hefur komið auga á hreyfingar og krafta í geimnum sem hann getur ekki staðsett í neinum þekktum kerfum og ekki sett í nein þekkt samhengi og telur því að þetta óþekkta afl hljóti að vera Guð." Þótt mig byrjaði að gruna að vinur minn væri endanlega búinn að rugla þessum tveimur stóru persónum saman man ég líka að mér fannst þetta svolítið falleg hugmynd; Guð sem óskilgreindar bylgjuhreyfingar innan um alla lógík heimsins. Þessi pæling vinar míns (og Stephen W. Hawkings) rifjaðist aftur upp fyrir mér daginn sem ég las fréttina um framhjáhaldið og hugsaði ég þá með mér að líklegast væri heimsfræðingurinn svolítið mikið góður í kjaftinum.

Einhverntíma birtist Stephen W. Hawking líka í sjónvarpinu og tilkynnti okkur hinum með þessari seiðandi tölvurödd - sem ein og sér lætur allt hljóma eins og Sannleik - að tímaflakk, jájá, auðvitað væri það mögulegt, við myndum náttúrlega bara ferðast í gegnum svartholin. Tímaflakk? Svartholin? Daginn eftir var ég búinn að kaupa mér Sögu tímans og byrjaður á þessari bók sem átti að vera bæði "ljós og lifandi" samkvæmt kynningartextanum.

Úr Sögu tímans: "Þegar stjarna hrynur saman og verður að svartholi, eru hreyfingarnar miklu hraðari og orkustraumurinn frá stjörnunni öflugri. Þess vegna myndi ekki líða langur tími þangað til hún kæmist í sístætt ástand. En hvernig myndi það ástand vera? Ætla mætti að það velti á ótalmörgum atriðum í gerð stjörnunnar, ekki aðeins massa hennar og snúningshraða, heldur einnig í þéttleikanum á mismunandi stöðum í stjörnunni og hreyfingum loftkenndra efna í henni - en svo er ekki. Væru svarthol jafn fjölbreytileg og það sem hrunið hefur saman til þess að mynda þau, gæti reynst afar erfitt að spá nokkru um gerð þeirra almennt."

Ég kláraði aldrei bókina. Og kannski er það þessvegna sem ég hef fundið hjá mér þá þörf undanfarið að stara út í geim og fást við hinar ósvöruðu spurningar. En að engri niðurstöðu komist. Að sjálfsögðu. Hinsvegar hefur enn annað byrjað að leita á hugann. Hvað er Guð að gera þegar hann er að færa til þessa orku eða hvað þetta var sem Stephen Hawking kom auga á en gat ekki fundið stað í neinum kerfum? Hverju eiga þessar hreyfingar hans að koma til leiðar? Ég sé mjög eftir að hafa ekki spurt vin minn að því á sínum tíma. Er þessi geimsins stærsta vera að hreyfa sig til að forða þessum bílnum frá árekstri við hinn? Er hann að hafa áhrif á lottóið? Er hann að reyna að halda aftur af Kim Jong-Il? Er hann að hjálpa unglingsstráknum að herða sig upp og hringja bara í hana? Er hann að kalla fram rigningu á Indlandi? Er hann að stýra gengi krónunnar? Hverju eiga þessar óskýranlegu hreyfingar Guðs að ná fram? Veit það ekki, veit bara að því lengur sem ég stari út í geim, því meir hlakka ég til áramótana.

Munið eftir gleraugunum.

Huldar Breiðfjörð


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband