13.1.2007 | 13:56
Lögreglustjórinn og Oliver Twist
Viðtal við Stefán Eiríksson nýskipaðan lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins í Blaðinu í dag er stórfróðlegt og skemmtilegt, eins og maðurinn sjálfur.
Krúnk!
Kolbrún Bergþórsdóttir á heiður skilinn fyrir rannsóknarvinnu og góðan undirbúning fyrir viðtalið, því hún spyr Stefán út í veru hans í lestrarfélaginu Krumma, en aldrei áður hefur heyrst svo mikið sem krúnk um þann félagsskap á síðum dagblaðanna. Svo gripið sé niður í viðtalið:
Mér er sagt að þú sért í lestrarfélagi sem heiti Krummarnir. Í hvaða félagsskap ertu þar?
"Pétur Blöndal blaðamaður er upphafsmaðurinn að þessum félagsskap, mikill áhugamaður um lestur, og vildi fá vini sína og kunningja úr hinum og þessum áttum til að hittast reglulega og ræða um bókmenntir. Við hittumst einu sinni í mánuði, oftar í desember þegar jólabókaflóðið skellur á. Við erum um það bil fimmtán, þar á meðal Huldar Breiðfjörð, Börkur Gunnarsson, Árni Matthíasson, Karl Blöndal, Lárus Blöndal, Róbert Spanó prófessor í lagadeild og fleiri góðir menn."
Ertu mikill bókmenntamaður?
"Uppáhaldsbókin mín þegar ég var drengur var Oliver Twist. Ég hef lesið hana ótrúlega oft og finnst hún alltaf jafn skemmtileg og vel skrifuð. Charles Dickens er þar af leiðandi í miklum hávegum hjá mér. Ég hafði líka mikið dálæti á bókum Ármanns Kr. Einarssonar. Þegar ég var í MH var ég í barnabókaáfanga þar sem var nokkuð talað niður til Ármanns og hans bóka. Ég reyndi í þeim áfanga og ritgerð sem ég skrifaði að taka upp hanskann fyrir hann því hann var vitaskuld að skrifa í sínum stamtíma út frá sínu sjónarhorni. Ég held að hann hafi gert marga góða hluti. Ég hef lesið mikið af bókum Einars Kárasonar og hef náð ágætis tengingu við þær, sérstaklega fyrri bækur hans"
Ég get vel ímyndað mér að þú fáist við skáldskap svona í laumi. Er það rétt?
"Einstaka sinnum set ég saman vísur, en yfirleitt tilneyddur. Ég mér samt þann draum að setjast niður einhvern tíma og skrifa skáldsögu eða eitthvað í þeim dúr. En ég hef ekkert verið að prófa mig áfram af viti í þeim efnum."
Krúnk!
Hrafnasparkið hefur raunar ratað á síður dagblaðanna þegar Morgunblaðið tók viðtal við félaga krumma Börk og Steinar, sem báðir voru viðstaddir réttarhöldin yfir Saddam Hussein, en daginn áður hafði Börkur lýst þeirri reynslu í pistli á Hrafnasparki.
Krá!
Bækur | Breytt s.d. kl. 16:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.1.2007 | 00:20
Tíunda hver kona á fimmtugsaldri er öryrki
Nýlega birtist afar áhugaverð úttekt á örorku á Íslandi í Læknablaðinu. Þar kemur meðal annars fram að örorka er algengari meðal kvenna og að 10. hver kona á fimmtugsaldri er öryrki. Konur á Suðurnesjum reynast eiga vinninginn, 11,5% þeirra er á örorku á meðan 7,1% kvenna á Vestfjörðum telst til öryrkja.
Þegar fjallað er um örorku og starfsgetu finnst mér oft gagnlegt að hugsa til sögunnar af Jean-Dominique Bauby sem eitt sinn var aðalritstjóri tískutímaritsins ELLE. Hann varð fyrir því einhverju mesta óláni allra ólána að fá heilablóðfall og læsast inn í líkama sínum í locked in syndrome, en í því heilkenni er hugsunin algerlega heil en maðurinn ófær um að hreyfa nokkuð annað en augun og er því í raun læstur inn í eigin líkama.
Þrátt fyrir þetta ástand, sem reyndar ekki svo mjög sjalgæft, skrifar maðurinn bókina "The Diving Bell and the Butterfly". Skriftirnar fóru fram þannig að einhver sat og las stafrófið upphátt þar til hann blikkaði auga og þannig gat hann skrifað einn staf. Milli þess sem hann var að skrifa varði hann síðan dögunum í að hugsa út hvað hann ætlaði að segja næst í bókinni.
Bókin er vel skrifuð, enda Bauby vel ritfær maður þegar hann varð fyrir áfallinu, og ég mæli með lestri hennar. Sagan er þörf áminnig um að fyrst Bauby gat fundið hjá sér styrk til þess að halda áfram störfum þá ættu allir að geta komið einhverju í verk. Kannski minnir hún líka á að öllum er nauðsynlegt að hafa einhver verkefni í lífinu, að hluti þess að lifa sé að hafa eitthvað fyrir stafni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.1.2007 | 13:10
Óvænt að rekast á langalangafa
Það var óvænt og skemmtilegt að rekast á langalangafa, sem sést á meðfylgjandi mynd, í Kvæðum eftir Jón Thoroddsen. Tildrög kvæðisins virðast raunar jafn óvænt, því Lárus Blöndal sendi óvart í embættis bréfi til Jóns prívatbréf óuppbrotin og sum uppbrotin. Það er þá ekkert nýtt að menn séu utan við sig í fjölskyldunni. Jón svaraði Lárusi í bundnu máli:
Hér með sendist þér pistill Páls
að öllu leyti óuppbrotinn,
eigi að krapti neinum þrotinn
þó farið hafi fjöll og háls,
í Korintuborg hann komast á
og kontórlögum engum hlýða,
ei í mángara búðum bíða,
settu takmarki sínu ná,
alt einsog rjúpan Eyrarbakka
aumíngja konan til sem hlakkar
reytta í potti sínum sjá.
Þar er komin skýringin á því hve hlýtt afa mínum, Lárusi Blöndal, var til Jóns. Sá síðarnefndi gat raunar verið viðskotaillur eins og sést á kveðskap hans "Við burtför Gríms Þorgrímssonar frá Kaupmannahöfn", en téður Grímur Þorgrímsson var betur kunnur sem Grímur Thomsen. "Þetta er meira en meðalníð," var sagt við mig þegar mér var kennt kvæðið.
Heilum varpi héðan þér
hryssan Ránar löðurbarða,
en hvort kemur aftur, mér
ekki Grímur! þykir miklu varða.
---
Þá í geira gný eg var
Grímur sat í holu,
hnipraði sig hetjan þar,
og horfði undan golu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.1.2007 | 09:35
Hin nýja Kristjanía?
Á árunum 1969 og 1970 opnuðu íbúar á Kristjánshöfn í Kaupmannahöfn nokkrum sinnum leið inn í yfirgefna herstöð til að búa til leiksvæði fyrir börnin í hverfinu. Herinn og lögreglan lokuðu herstöðinni jafnharðan en hættu að standa í því árið 1971. Um svipað leiti birtist grein í dagblaði um hinar yfirgefnu byggingar á svæðinu og möguleikana sem í þeim fælust, sérstaklega fyrir ungt fólk í íbúðarvandræðum. Greinin virkaði sem segull og fólk tók að flykkjast þangað, margir í leit að frelsi, bræðralagi og nýju þjóðskipulagi; og Kristjanía varð til. Ári síðar sömdu íbúar Kristjaníu við Varnarmálaráðuneytið um að þeir greiddu fyrir hita og rafmagn og fengu um leið stimpilinn "þjóðfélagsleg tilraun". Kristjanía er nú næstvinsælasti viðkomustaður ferðamanna á leið um Kaupmannahöfn á undan Litlu hafmeyjunni og á eftir Tívolí. Reyndar hafa markaðsrannsóknir sýnt að í Evrópu er vörumerkið Kristjanía þekktara en sjálf Kaupmannahöfn.
Kristjanía hefur lengi verið fræg fyrir hasssölu en notkun og sala harðra efna var bönnuð á svæðinu snemma á níunda áratugnum og tóku íbúarnir sig saman og ráku dópsalana á brott harðri hendi. Hasssölu fyrir opnum tjöldum hefur nú einnig verið hætt og reynir lögreglan að framfylgja því með rassíum mörgum sinnum á dag.
En Kristjanía hefur ekki síður verið suðupottur menningar og listar. Nefna má tónleikastaðinn Gráa salinn (þar sem Red Hot Chili Peppers buðu m.a. óvænt uppá tónleika fyrir skemmstu), leikhópinn Sólvagninn, matstaðinn Spiseloppen, og uppáhaldskaffihúsið mitt, Mánaveiðarann. Íslendingar hafa verið duglegir að sækja áhrif til Kristjaníu og hafa tekið þátt í leiklistar- og tónlistarstarfi svæðiðsins auk þess sem nokkrir landsþekktir einstaklingar hafa búið þar um lengri og skemmri tíma.
Þegar borgaraleg öfl hafa verið við völd í Danmörku, hafa þau í gegnum tíðina gert tilraunir til að loka og eða breyta Kristjaníu, en hingað til án árangurs. Á síðustu árum hefur átt sér stað mikil uppbygging á svæðinu í kring um Kristjaníu, íbúða- og lóðaverð hefur hækkað mikið og sérstaklega með tilkomu nýja Óperuhússins, en sum húsanna í Kristjaníu hafa útsýni yfir Hólminn, þar sem hún stendur. Nú eru einmitt uppá borðinu enn einar tillögurnar um breytingar á skipulagi svæðisins sem snúa einkum að þéttingu byggðar og niðurrifi nokkurra húsa sem byggð hafa verið án tilskilinna leyfa. Eins eru mörg húsanna að hruni komin og viðhald á þeim brýnt. Svæðið er enn í eigu landvarnarráðuneytisins sem vill að leigutekjur standi undir viðhaldskostnaði.
Samkvæmt hefðum og venjum hér í Danmörku þurfa allir að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Danir hafa yfirhöfuð mikla þörf fyrir að ræða málin og einungis gegnum miklar vangaveltur þar sem allir mögulegir og ómögulegir aðilar þurfa að koma sínum sjónarmiðum á framfæri, án tillits til hvort þau komi málinu við, er hægt að komast að niðurstöðu. Oft virðist mér umræðan í hugum Dana vera mikilvægari niðurstöðunni. Þetta þjóðfélagseinkenni nær hápunkti í hinu svokallaða konsensus-lýðræði Kristjaníu, en þar þurfa allir íbúar að samþykkja þær ákvarðanir er varða sameiginlega hagsmuni Kristjaníubúa eigi að breyta einhverju (einfaldur eða aukinn meirihluti nægir ekki: ALLIR þurfa að vera sammála). Þetta á að tryggja að meirihlutinn geti ekki kúgað minnihlutann en snýst að sjálfsögðu uppí það að minnihlutinn kúgar meirihlutann. Þannig gæti einn aðili staðið gegn því að þau samkomulagsdrög sem nú eru uppá borðinu nái fram að ganga.
Ég hef persónulega sveiflast fram og tilbaka í afstöðu minni til Kristjaníu. Annars vegar er þetta hið skemmtilegasta svæði, þar sem fólk fær að vera sérviturt í friði og hins vegar er ég á því að fólk eigi að borga húsaleigu og skatta. Dan Leahy, bandarískur vinur minn benti mér reyndar á skemmtilega lausn á Kristjaníumálinu. Nú þegar herstöðin á Miðnesheiði er laus, ætti að bjóða Kristjaníubúum hana til afnota. Það yrði til að æra óstöðuga Danina ef Íslendingar eignuðust líka Kristjaníu. Þá væri ekkert eftir nema Tívolí...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.1.2007 | 09:43
Það sem gefur heiminum von
Innflytjendur okkar frá Mið- og Suður-Ameríku. Þeir gefa mér von. Gefa mér von um að við eigum eftir að breytast. José nágranni minn þekkir bókstaflega alla í byggingunni - bankar upp á, kemur með kökur og hressingu og skiptir sér glaðlega af manni þegar honum dettur í hug. Þekkir alla nágranna sína með nafni. Ég á þetta ekki til í sjálfum mér, en ég finn að það gerir veröld mína hlýlegri - og Ameríku betri. Þetta er önnur arfleifð sem með tímanum verður að okkar eigin.
Ég á slíka nágranna!
María Helena Sarabía frá Kólumbíu og Gunnlaugur Karlsson og börnin þeirra, Mikael, Gabríel og Sara, eru nágrannar mínir; þau búa í næsta stigagangi og garðurinn er sameiginlegur. Ef til vill er það fyrir suður-amerísk áhrif frá þeim að fjölskyldurnar í húsinu eru eins og ein stór fjölskylda. Það er ekki nóg með að allir þekkist með nafni; við fögnum saman stórhátíðum, svo sem gamlárskvöldi, en komum einnig saman við minni tækifæri, og alltaf er gleði og náungakærleikur ríkjandi. Allir hjálpast að og deila með öðrum. Ef eitthvað bjátar á er það leyst með brosi á vör og aldrei möglað. Þetta er lítið únívers hérna við Sólvallagötuna, en kraftur jákvæðninnar er mikill.
Stórfjölskyldan, eins og ég kýs að kalla nágrannasamfélagið, kemur oft saman í garðinum á sumrin, stundum er borðað við langborð, einn stekkur inn og nær í osta, annar í drykkjarföng. Svo allt í einu er kominn risastór pottur með suður-amerískri súpu! Alltaf er von á góðu frá söngelsku fjölskyldunni, sem varð enn söngelskari með nýja máginum, og útivistarhjónunum, þar sem bræður vaxa á hverju strái. Læknishjónin eru ýmist með bráðaþjónustu eða karaoke á heimili sínu og hjónin á fyrstu tendra himinhvelfingu úniversins.
Einni stétt manna er þó úthýst, innbrotsþjófar eru ekki velkomnir og er bókahillum kastað á eftir þeim úr kjallaranum.
Æ, þetta er yndislegt fólk og ég mun alltaf halda í þessi fjölskyldutengsl, sama hvar á hnettinum ég bý. Sonur okkar hefur verið hjá Maríu dagmömmu og Carmen yndislegri móður hennar, - söngelsku konunni með stóra brosið og hlýja útbreidda faðminn. Jafnvel ísklumpar í brjósti Íslendinga bráðna og byrja að slá í salsasveiflu í návist þeirra. Og á meðan slík fjölskylda er til...
... þá gefur það mér líka von.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 10:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.1.2007 | 14:10
Trúarbrögð lúseranna
Ég fór á fjórðu myndina á fjórum dögum í gærkvöldi, Little Miss Sunshine, og hef sjaldan hlegið jafn mikið á bíósýningu. Þar er spjótunum beint að öllum þessum sjálfshjálparbókum og námskeiðum sem er ætlað að búa til sigurvegara" og leiðtoga" úr lúserunum okkur. Og fegurðardýrkunin fær sömu meðferð, enda angi af sömu fullkomnunaráráttu.
Hrakfarir fjölskyldunnar minna óneitanlega á ólánið sem elti Birtíng, en þá sögu ritaði Voltaire til að narrast að bjartsýnisheimspeki þeirra Leibnitz og Popes. Birtíngur aðhylltist háspekisguðfræðis-alheimsviskukenníngu" meistara síns, Altúngu, sem fólst í því að ekki væri til afleiðing án orsakar; allir hlutir væru í einni keðju og miðuðu til hins besta.
Í raun ganga sjálfshjálparkenningarnar enn lengra og kenna manni að taka orsakakeðjuna í sínar hendur, gera sjálfan sig mikilvægasta hlekknum í þeirri keðju. Aðferðafræðin er sú sama og hjá Birtíngi, nefnilega heilaþvottur, að segja það við sjálfan sig nógu oft að maður sé mikilvægasti hlekkurinn, þá fer maður að trúa því.
Birtíngur tönnlaðist á því að við lifðum í þessum besta heimi allra heima" og lofaði sköpunarverkið, en á sama tíma fór Búlgarakóngur í stríð við Abarakóng, eins og frá segir í þýðingu Laxness:
Ekkert gat fegurra, rennilegra, glæsilegra né betur uppsett en hinir tveir herir. Lúðrarnir, þverpípurnar, óbóurnar, trumburnar, fallbyssurnar, alt myndaði þetta þvílíkt samræmi, að jafnvel í helvíti þekkist ekkert slíkt. Fallbyssurnar lögðu að velli í fyrstu lotu hérumbil sex þúsund manns hvorumegin; síðan afmáðu byssuskytturnar af þessum besta heimi allra heima níu til tíu þúsund fanta. Byssustíngurinn var einnig gild ástæða fyrir nokkur þúsund mannslátum. Einar þrjátíu þúsund sálir fóru þar fyrir lítið. Birtíngur skalf eins og heimspekíngi sæmir og reyndi að láta sem minst á sér bera í þessu hetjulega slöktunarverki.
Þannig eru trúarbrögð lúseranna, annarsvegar Birtíngs sem telur sér trú um að ógæfa sín sé áfangi í átt að betri heimi og þess vegna geti hann vel við unað, og hinsvegar allra sigurvegaranna og leiðtoganna sem eiga yfir höfði sér fjöldauppsagnir stófyrirtækjanna, en telja að ef þeir læri sjálfshjálparbækur utan að, eins og níu þrepa kerfi Richards í Little Miss Sunshine, þá verði himnaríki á jörðu þeirra. Þangað til uppsagnarbréfið berst í pósti með reikningnum fyrir sjálfshjálparbókinni og námskeiðinu.
Hér með nefni ég þetta alheimsviskupessímismakennínguna í einu skrefi aftur á bak og níu fet ofan í jörðina" og þið sem hafið lesið þetta þurfið ekkert að greiða fyrir það. Ef þið eruð sömu lúserarnir og ég þá eigið þið nóg með að greiða jólavisareikninginn sem fer að berast inn um lúguna.
Kvikmyndir | Breytt 15.1.2007 kl. 11:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.1.2007 | 15:23
Póstkort frá Guði

Loks fór ég á Stranger Than Fiction. Ég er ekkert að ljóstra upp miklu þegar ég segi að hún fjallar um ósköp rúðustrikaðan mann sem vinnur hjá skattinum og kemst að því hann er sögupersóna í skáldsögu. Myndin er dásamleg og óvænt himnasending, - eins og póstkort frá Guði! Það er ekki annað hægt en að hrífast með hugarflugi höfundarins og það greip mig óviðráðanleg löngun til að fræðast örlítið um Zach Helm.
Það er furðu brotakennt sem maður les um þennan 31 árs gamla mann á Netinu (f. 21. janúar 1975). Ekki síst ef horft er til þess dálætis sem fjölmiðlar hafa á honum; hann hefur verið kallaður hinn nýi Charlie Kaufman og valinn á lista efnilegustu kvikmyndagerðarmanna í Esquire, Empire, Variety og Fade In Magazine.
Af einkahögum hans er helst títt að hann var trúlofaður leikkonunni Lucy Liu, sem Quentin Tarantino gerði ódauðlega í Kill Bill, og er nú trúlofaður annarri leikkonu, Kiele Sanches, sem hefur helst haslað sér völl í sjónvarpsþáttum, m.a. Lost.
En Helm hefur í raun aðeins skrifað eitt handrit sem lýst hefur hvíta tjaldið og það var Stranger Than Fiction. Hann skrifaði einnig handrit að sjónvarpsmynd, Other Peoples Money, sem frumsýnd var árið 2003, en vakti enga sérstaka athygli. Eflaust hefur hann þó skrifað ófá handrit í kvikmyndanámi við The Goodman School of Drama at DePaul University, þar sem hann útskrifaðist árið 1996. Auk þess sem hann skrifaði leikritið Last Chance For a Slow Dance", sem frumsýnt var í New York í árslok 2006.
Það forvitnilegasta sem ég fann um manninn var brot úr viðtali í Vanity Fair. Þar sagðist hann ekki hafa náð sér á strik fyrr en hann setti sjálfum sér lífsreglur, bjó sér til siði og reglur sem giltu um það hvernig hann beitti sköpunargáfu sinni. Nokkur atriði sem hann lagði áherslu á:
1. Write what interests you. Don't get penned into one genre or field. This year, I've worked on a new thriller novel, a historical sports drama screenplay, and a six-man play that tackles social issues. Each one, oddly, informs the other and allows me to approach all my writing with a freshness that I wouldn't have if I focused on, say, crime fiction alone.
2. When placing your work, don't decide merely based on immediate financial gain. Money works in odd ways - sometimes, if you take more cash up front, it's a short-sighted proposition. Better to place your screenplay with the right producer or director, for example - someone who gets the project and respects you. You'll be happier if you're demanding that your work is treated with respect - and to get that, you have to treat your own work with respect. Plus, you never know when or how something is going to pay off - either in a financial or creative windfall.
3. Don't take crap jobs for money. Rewriting gigs can pay a lot of money in Hollywood, but they can also drain you. Likewise with other projects that sail down the pipeline. The first question should always be: Is this a stimulating, challenging project? When you're focusing on your own writing, why do anything except what is of the highest interest for you? For the money? If you're after that, you'd do much better to go into commercial real estate or investment banking. If you're going to tackle the trials and tribulations of a writing life, follow your passions. Take risks. Go out on limbs. It's a field where - at least for me - playing it safe means creative stagnation.
Helm hefur nóg fyrir stafni þessa dagana. Fyrsta kvikmynd sem hann bæði skrifar handrit að og leikstýrir, Mr. Magorium's Wonder Emporium, verður frumsýnd árið 2007 og í aðalhlutverkum eru Jason Bateman, Natalie Portman og Dustin Hoffman. Einnig vinnur hann að Thomas Johnson, sem fjallar um mann sem hugsanlega er raðmorðingi, og er að skrifa handrit eftir skáldsögunni This is Serbia Calling. Þá er handritið The DisAssociate í vinnslu hjá Warner Bros.
Það fjallar um mann sem fær póstkort frá Guði.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 16:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.1.2007 | 21:35
Petraeus sem yfirhershöfðingi í Írak
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.1.2007 | 08:49
Er okkur stjórnað af sníkjudýrum?
Eflaust heldur einhver að í ofangreindri sé ég að kalla stjórnmálamenn sníkudýr. Þó stundum megi sjá eitthvað snýkjudýralegt við störf ýmissa stjórnmálamanna var fyrirsögnin hins vegar meint bókstaflega.
Snýkjudýr er nefnt Toxoplasmosis gondii, bogfrymill upp á íslensku. Þessi einfrumungur mun víst hreiðra um sig í meltingarvegi katta án þess að valda þeim skaða, berast síðan í smádýr en í þeim borar dýrið sig út úr meltingarveginum og sest að í líkamanum. Þegar smádýrin eru síðan étin af ketti lokast hringurinn.
Menn geta einnig sýkst af bogfrymlasótt, þó það henti illa hringrás snýkjudýrsins. Þekkt er að slík sýking getur verið alvarleg ónæmisbældum og valdið alvarlegum fóstursköðum eða fósturláti ef ófrísk kona smitast. Þetta er meginástæða þess að mikil áhersla er lögð á að þungaðar konur borði aldrei nema gegnumeldað kjöt. Einkennalaust smit er hins vegar algengt, um tíundi hver íslendingur hefur mótefni gegn bogfrymli sem bendir til fyrri sýkingar.
Nú á síðustu árum hafa verið að koma fram nýjar upplýsingar um hegðun bogfrymlasóttar. Í fyrsta lagi var skoðuð hegðun hjá sýktum rottum og í ljós kom að þær tóku mun meiri áhættu við að skríða úr felustað sínum en þær ósýktu, sem hentar sníkjudýrinu þar sem auknar líkur eru þar með á að rottan verði étin af ketti. Þessi mál komust fyrst á flug þegar skoðaðir voru einstaklingar sem höfðu látist í bílslysum, þá virðist sem mun algengara sé að þeir séu sýktir af bogfrymlasótt en aðrir. Þó það sé orðið nokkuð langsótt að flokka umferðarslys undir smitsjúkdóma þá eru þetta byltingarkenndar niðurstöður þar sem það virðist mögulegt að sníkjudýr sem setjist að í heila manna breyti hegðun þeirra.
Aðrir hafa nú sýnt fram á karlmenn sem sýktir eru af bogfrymli hafa almennt lægri greindarvísitölu en ósýktir, þeir hafa minni menntun og eru líklegri til að brjóta reglur samfélagsins. Konur sem smitast hafa af bogfrymlasótt eru taldar félagslega opnari og jafn vel fjöllyndari en þær ósýktu.
Enn eru þetta ný vísindi og örugglega margt eftir að koma í ljós við frekari rannsóknir á næstu árum. Hér bendir þó flest til að um sé að ræða algera byltingu í skilningi okkar á hegðun smitsjúkdóma í manninum sem líklegt verður að teljast að muni verða talin verðskulda Nóbelsverðlaun síðar meir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.1.2007 | 17:48
Af íhaldssömum og frjálslyndum rangfærslum fjölmiðla
Media Matters to America, sem Börkur fjallaði um í Fjölmiðlapistli fyrr í dag, heldur úti athyglisverðum vef, mediamatters.org, þar sem fréttaflutningur (eða á að kalla það áróður?) er vægt til orða tekið afar einhliða. Þar er til dæmis hneykslast á því að Rudolph Giuliani, fyrrverandi borgarstjóri New York, fái að njóta skörungskapar síns eftir hryðjuverkin í New York 11. september, en í kjölfarið var hann kallaður borgarstjóri Ameríku" af Oprah Winfrey og á það sammerkt með öllum bloggurum heimsins að hafa verið valinn maður ársins af Time, en var reyndar einn um það árið 2001.
En nei, fjölmiðlar eiga að þjarma að Giuliani vegna 146 síðna skýrslu úr hans eigin herbúðum, sem á dularfullan hátt komst í hendur fjölmiðla, en þar er gerð úttekt á möguleikum hans í forkosningum repúblikana vegna forsetakosninganna árið 2008.
Og hvað var svona slæmt sem sérfræðingar Giulianis fundu um hann sjálfan? Það hlýtur að vera hrikalegt fyrst farið er fram á allsherjar endurskoðun á viðhorfum Bandaríkjamanna til Giulianis af fjölmiðlavakt sem berst gegn íhaldinu með því að leita í print, broadcast, cable, radio, and Internet media outlets for conservative misinformation - news or commentary that is not accurate, reliable, or credible and that forwards the conservative agenda - every day, in real time."
Sú hin sama Fjölmiðlavakt horfir þá framhjá öðrum frjálslyndari" rangfærslum í fjölmiðlum.
New York Daily News birti brot úr skýrslunni, sem aðstoðarfólk Giulianis segir að hafi verið stolið, og þar stendur:
On the same page is a list of the candidate's central problems in bullet-point form: his private sector business; disgraced former aide [former New York City Police Commissioner] Bernard Kerik; his third wife, Judith Nathan Giuliani; "social issues," on which ... he is more liberal than most Republicans, and his former wife [and former New York City television news anchor] Donna Hanover.
The concerns appear to be listed as issues for Giuliani law partner Pat Oxford to address and are followed by the central question of the campaign:
Are there "prob[lem]s that are insurmount[able]?" it asks, adding, "Has anyone reviewed with RWG?" Giuliani, whose middle name is William, is referred to throughout the document by his initials.
"All will come out -- in worst light," the memo continues. "$100 million against us on this stuff."
Þannig teflir fjölmiðlavakt frjálslyndra Bandaríkjamanna, sem telur sig þurfa að vinna gegn íhaldsöflunum í landinu, því fram gegn Guiliani að hann sé frjálslyndari en Repúblikanaflokkurinn! Og það er þá svona líka skelfilegt að fjölmiðlar vestra eiga að birta illa fengin gögn um hann. Eitthvað öfugsnúið við það að stofnunin beiti sér gegn frjálslyndum öflum innan Repúblikanaflokksins.
Ég hef reyndar verið þeirrar skoðunar að nær ómögulegt sé að réttlæta að fjölmiðlar birti stolin gögn, og þá allra síst þau sem er lekið í þeim tilgangi að klekkja á keppinauti, hvort sem það er í viðskiptum eða stjórnmálum. Og það kemur ánægjulega á óvart að fjölmiðlar vestra hafa þráast við að birta nokkuð um hina illa fengnu skýrslu.
Ekkert úr þessari skýrslu er svo sem nýtt af nálinni, annað en að gögnin hafa verið tekin saman í einn pakka. Jú, Giuliani einsetur sér að safna 100 milljónum dollara í kosningasjóð á þessu ári. Það gerir hann varla að þorpara. Í raun er ágætt fyrir Giuliani að fá óþægileg mál í umræðuna núna. Þau skaðar hann þá síður þegar nær dregur kosningum.
Vitaskuld er það rétt hjá Ólafi Teiti, eins og Börkur bendir á, að Heiða hefði átt að tilgreina hverskonar vefur Media Matters to America er, en að sama skapi réttlætir það ekki ummælin sem höfð eru eftir hinum ýmsu hægriöfgamönnum" í umfjöllun hennar. Þau verða að skoðast sjálfstætt, þó að erfitt sé því að treysta að þau hafi ekki verið rifin úr samhengi. Það kemur hinsvegar ekki á óvart að ummælum öfgamanna til vinstri hafi verið sleppt. Þannig stofnun er Media Matters to America.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.1.2007 kl. 02:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
krummi
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (5.7.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
annapala
-
arnih
-
arnljotur
-
begga
-
birgitta
-
bjarnihardar
-
bleikaeldingin
-
davidlogi
-
don
-
ea
-
fararstjorinn
-
feministi
-
gattin
-
geislinn
-
grettir
-
halldorbaldursson
-
hallkri
-
handsprengja
-
handtoskuserian
-
hannibalskvida
-
herdis
-
hlynurh
-
hof
-
hoskuldur
-
hrollvekjur
-
hugsadu
-
hux
-
ingibjorgelsa
-
jonasantonsson
-
kaffi
-
kiddirokk
-
kjarninn
-
kjoneden
-
kolgrima
-
listasumar
-
ljonas
-
lostintime
-
maggaelin
-
magnusb
-
malacai
-
maple123
-
nosejob
-
pallvil
-
ragnhildur
-
reni
-
ruthasdisar
-
seth
-
sigurgeirorri
-
stebbifr
-
steinibriem
-
theld
-
tulugaq
-
vefritid
-
vglilja
-
vinursolons
-
vitinn
-
arniarna
-
gisliblondal
-
skak
-
athena
... ... ... ... ... ... ... ... ...