Stórstjörnuslúður!

Á laugardag var fyrsta morðið framið á Seltjarnarnesi.

W. Anton Power hélt veislu vegna frumsýningar stórmyndarinnar Power and Greede, sem fjallar reyndar ekki um íslenskan fjármálamarkað heldur kvikmyndabransann - í Hollywood.

Einn boðsgesta var handritshöfundurinn Hackford Ryder, sem er krummum að góðu kunnur frá fyrri færslu. Hver man ekki þessi fleygu orð: "It was just a regular day in New York".

Og morð var framið. Það var reyndar ósköp saklaust. Eins saklaust og morð getur verið.

Skýringin var sú að við hjónin stóðum fyrir morðgátuveislu, þar sem gestirnir klæddu sig upp í tísku fjórða áratugarins, matur og tónlist eftir því, og blessunarlega leystist gátan ekki fyrr en rúmlega þrjú um nóttina.

Þá kom í ljós að undir gervunum var bara hið geðþekkasta fólk, meira að segja þrír krummar. En umræður voru hvassar meðan á leiknum stóð. Slúðurblaðakonan Tat fékk nokkrum sinnum að heyra „you slut" frá hinum konunum.

Til marks um hvernig „túba" hún er, þá skrifaði hún í blaðið Los Angeles Morning Express 31. janúar 1936 undir yfirskriftinni: „Stórstjörnuslúður!":

Elskurnar!
Hollywood logar. Í vikunni sást til eftirsóttasta piparsveins borgarinnar, Stuart D. Muphin, okkar eigin Stu, í vafasömum félagsskap svo vægt sé til orða tekið. Var hann í fylgd með dularfullri konu, sem eftir áreiðanlegum heimildum ykkar óverðugrar stundar það sem hefur verið nefndur ,,elsti atvinnuvegur í heimi". Snæddu skötuhjúin hádegisverð á hinum glæsilega veitingastað ,,Champagne", þar sem þau létu ákaflega vel að hvoru öðru. Svo innileg voru atlot þeirra að starfsfólk staðarins sá sig tilknúið að skakka leikinn og reka parið á dyr. Er þessi háttsemi Stu áfall fyrir hina fjölmörgu aðdáendur hans, sem bundu vonir við að vandræði hans væru á enda eftir dvölina á ,,Trouts Lake". Ykkar óverðug ætlar að kanna þetta mál nánar, en tækifæri til þess gefst þegar hún fer í mótttöku til heiðurs Troy Tremble á laugardag, þar sem þotulið Hollywood-borgar mun gæða sér á síberískum vodkakokteilum, kældum með ísmolum frá Norðurskautinu.
Ástarkveðjur,
Tat

Svo endurtók hún leikinn 7. febrúar 1936:

Elskurnar!
Virðulegasti og áhrifamesti leikstjóri borgarinnar, Seldon U. Lloyd, hefur ákveðið að leikstýra mynd eftir Hackford Ryder. Samstarf þeirra eru frábærar fréttir fyrir aðdáendur góðra kvikmynda, en þó hefur yðar óverðug komist að því að hér er ekki allt sem sýnist. Það hefur farið mjög leynt að hr. Ryder og Sel hafa undanfarið eldað saman grátt silfur. Illar tungur vilja kenna um meintu ástarsambandi Sel og Ivonde B. Ahlone, síðan hún sló í gegn í myndinni Daze of Wynan Rosas, en þeir, sem hafa fylgst með skrifum hr. Ryder, hafa þóst sjá þar ýmis merki um að Ivonde sé ástin í lífi þessa virta rithöfundar. Að minnsta kosti vekja lýsingar eins og þessar spurningar: ,,Hann horfði í augu þessarar undurfögru stúlku og fannst sem hann sykki hjálparlaust í bláar tjarnirnar. Ljósar flétturnar, þungar og ilmandi, voru eina haldreipið. Hann dró hana til sín. Hún reyndi af vanmætti að ýta honum frá sér og muldraði: ,,Inte, inte nu". " Það verður áhugavert að fylgjast með samstarfi þeirra Sel og Ryder, - hver ætli verði stjarna myndarinnar?
Chiao!
T

Næst verður morð framið í Hrísey eða sunnan jökuls ... Tat heldur ykkur upplýstum!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband