Tíminn og Trékyllisvík

Tíminn stöðvaðist í gær.

Það var ekki út af frostinu. Ekki heldur af ótta við snarbrattar hlíðar í fljúgandi hálku. Ástæðan var sú að við ókum inn í kyrrðina í Trékyllisvík. Þar er lífið áhyggjulaust, helsta umferð á vegunum tófur og mýs og hrafnasveimur flugvélagnýrinn. 

Og viti menn, ekkert farsímasamband. Slík forréttindi upplifi ég núorðið aðeins hjá Þóru bústýru á Halldórsstöðum í Laxárdalnum. Þar stendur tíminn líka kyrr.

Ég fór til Trékyllisvíkur í gær með Ragnari Axelssyni ljósmyndara (RAX) til að taka viðtal við rithöfundinn og krummavininn Hrafn á staðnum "þar sem vegurinn endar". Þar er líka nýtt upphaf. Ragnar færði þeim hjónum ljósmyndir að gjöf og síðan gengum við um söguslóðir.

Það var ekki fyrr en við Hafnarfjallið klukkan 2 í nótt sem tíminn færðist aftur úr stað. Og engu munaði að jeppinn gerði það líka í fárviðrinu - út af veginum. En við komumst á áfangastað eftir að hafa farið fetið fyrir Hafnarfjallið. Afrakstur ferðarinnar verður svo í Morgunblaðinu á sunnudag.  

Nú er bara spurning hvort krummar funda ekki bráðlega við heimskautsbauginn. Þar geta allir fundið sitt heima, ekki síst þeir sem tjalda svörtum fjöðrum.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband