Hlustaðu á þessa bók

c_documents_and_settings_ibm_my_documents_drasl_4455Mikið er sungið á Íslandi.  Sjálfur er ég alinn upp við tónlist og hef varið um áratug syngjandi í ýmsum kórum og hélt að ég hefði kynnst þannig tónlistararfi íslendinga nokkuð vel. 

Á síðasta ári dró hins vegar okkar ástsæli formaður Krummanna mig á þorrablót sem Sigurrós hélt í samvinnu við kvæðamannafélagið Iðunn.  Við það galopnuðust augu mín fyrir því að við íslendingar eigum okkur sérstaka sönghefð í stemmum sem ég rétt svo vissi að væri til en er því miður ekki hægt að segja að sé ríkur þáttur í þjóðarsálinni árið 2007.  Flestir kannast svo sem við kvæðasöng, en fáa þekki ég sem geta kveðið með því lagi sem líklega gert hefur verið í þúsund ár hér á landi. 

Ég hef nú varið nokkrum tíma í að hlusta á ýmsar útgáfur af stemmum og rímnalögum og ber sífellt meiri virðingu fyrir þessari sérstöku menningu.  Stór hluti annarrar tónlistar sem sungin er hér á landi virðist stundum vera lítið annað en endurómun af því sem gert hefur verið í öðrum menningarsamfélögum.  Í rímnalögum eigum við okkar sérkenni.

Annars er það ákveðin áhugaverð pæling varðandi okkar hornrétta vestræna nútímasamfélag af hverju nánast öll okkar tónlist byggir á 4/4 takti - einn, tveir, þrír, fjór.  Tengingin við hornréttan kassa er augljós en í t.d. inverskri tónlist mun lagið byggjast á mun fleiri slögum og hugsunin meira sú að tónlistin byggi á hring en ekki kassa.   Í rímnalögum er lítil sem engin virðing borin fyrir reglulegum takti en þeim mun meira fyrir hrynjanda ljóðsins.  Í stað fjögurra slaga er hver staka flutt sem nánast með fjallgöngu í huga, hægur stígandi framan af og rís upp um miðbikið en fjarar síðan hægt út í langan lokatón.  Það þarf nokkra þjálfun til að geta sungið með þeim hætti án þess að festast í reglufestu venjulegs takts.

Nú hafa þau Þórarinn Eldjárn og  Sigrún Eldjárn gefið út bók sem ef til vill getur orðið mikilvægt skref í að endurvekja íslenskan kvæðasöng.  Í bókinni Gælur, fælur og þvælur eru ný barnakvæði eftir Þórarinn í anda við fyrri bækur hans.  Það nýja við þessa bók er að henni fylgir geisladiskur þar sem Bára Grímsdóttir kveður kvæðin með fornu íslensku lagi.  Bókin er frábærlega skrifuð líkt og allar fyrri ljóðabækur fyrir börn sem Þórarinn hefur gefið út, en það hefur haft dáleiðandi áhrif á dóttur mína tveggja og hálfs árs að geta hlustað á Báru kveða ljóðin. 

Af minni takmörkuðu þekkingu á stemmum að dæma hefur Bára leyst þetta verkefni með fullkomnum hætti.  Eitt af því erfiða við að geta kveðið stemmur með réttum hætti er að þær virðast ekki eiga að fylgja nema að hluta til því sem kennt er í tónlistarskólum og almennt tíðkast í söng.  Eftir að hafa prófað að kveða með öldungunum í Iðunni er augljóst að til að geta kveðið þarf að aflæra ýmsan ávana eftir þjálfun í hefðbundnum kórsöng.  Áherslur og taktur er með allt öðru lagi.  Of hámenntaður söngvari held ég því að ætti erfitt með að koma kvæðalögum rétt til skila en Bára kveður fallega og af fullkominni virðingu við rímnalagaformið.

Ef gera á kvæðasöng aftur að lifandi listformi hjá þjóðinni er líklega vænlegast að byrja á leikskólunum.  Það hefur þó aðeins slegið mig við að fara yfir þau lög sem sungin eru á leikskólum að tónlistarlega er þetta að mestu mikil flatneskja, eiginlega allt stöðluð 4/4 GCD lög.  Ef farið væri að kynna séríslenskan kvæðasöng sérstaklega á leikskólum og tóneyra barnanna vanið strax við þennan sérstæða söngstíl okkar Íslendinga væri hægt að leggja mikilvæga undirstöðu fyrir framtíðina.

Því hvet ég alla til að kaupa þessa bók og spila, lesa og syngja fyrir börnin.

Nánari upplýsingar um rímur má finna á síðu Kvæðamannafélagsins Iðunnar, www.rimur.is

 

Lifi stemmurnar! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband