Hvernig endurvinnum við traustið?

TRAUST þjóðar okkar erlendis hefur snarminnkað á undanförnum misserum. Fyrstir til að hætta að treysta Íslandi og Íslendingum voru alþjóðlegir bankar sem starfað hafa með íslenskum fyrirtækjum og stofnunum til margra áratuga. Í kjölfarið hafa fylgt stjórnvöld og almenningur í mörgum mikilvægustu viðskipta- og vinalöndum okkar. Hægt er að útmála ýmsar ástæður fyrir þessum bresti, ytri aðstæður og innri.

Stórt séð er ástæðan fyrir þverrandi trausti einföld, íslenska þjóðin eyddi um efni fram og fór fram af fádæma kappi, græðgi og skorti á auðmýkt. Niðurstaðan varð skuldsetning sem alþjóðlegt fjármálakerfi trúði ekki að verðmætasköpun okkar stæði undir. Hvernig er hægt að treysta okkur ef við treystum ekki hvert öðru? Flest bendir til þess að orðspor þjóðarinnar og traust hennar í viðskiptum sé nú í sögulegu lágmarki meðal viðskipta- og vinaþjóða okkar. Erfitt er að gera þá kröfu til erlendra aðila að þeir treysti okkur ef við treystum ekki hvert öðru. Innanlands ríkir dæmalaust vantraust milli helstu stofnana samfélagsins. Aðeins um 30% almennings treysta stjórnvöldum. Stjórnvöld treysta almenningi ekki nægilega til að halda honum upplýstum um gang mála. Fjölmiðlarnir treysta ekki stjórnvöldum og öfugt. Almenningur treystir ekki fjölmiðlum og á móti óttast fjölmiðlarnir sem aldrei fyrr að missa viðskipti almennings. Viðskiptavinir bankanna treysta ekki bönkunum, sem á móti treysta hvorki viðskiptavinum sínum né eigendum, ríkisvaldinu. Innan við 5% þjóðarinnar treysta enn stjórn Seðlabankans og formaður bankastjórnar Seðlabankans telur augsýnilega að allir aðrir en hann hafi brugðist. Mikið verk er augljóslega framundan við að byggja upp traust á milli stofnana og einstaklinga samfélagsins. Hvernig byggjum við á ný traust í samfélagi okkar?

Litlu skilar að bölsótast út í allt og alla og kenna öðrum um ógæfu vora. Fyrsta skrefið er óhjákvæmilegt uppgjör við fortíðina. Hver og einn verður að líta í eigin barm, átta sig á og gangast við þeim mistökum sem hann hefur gert. Og viðurkenna þau opinskátt. Slíkt uppgjör krefst hugrekkis en er nauðsynlegur grundvöllur uppbyggilegra samskipta sem mun leiða af sér vaxandi traust í samfélaginu. Sem dæmi um þetta má nefna boðskipti stjórnvalda við almenning. Þau fara fyrst að verða trúverðug þegar framkvæmdavaldið hefur játað á sig mistök sem blasir við að gerð hafa verið. Hvað bankana varðar voru mistökin einnig fjölmörg. Ráðgjöf bankanna til viðskiptavina sinna var að mörgu leyti meingölluð og byggð á kostulegu mati á stöðu og horfum krónunnar, svo eitthvað sé nefnt. Áhersla bankanna á að koma sparnaði í peningamarkaðssjóði er einnig ámælisverð. Hvað er svona erfitt við að viðurkenna þessi mistök? Almenningur í landinu verður einnig að taka til sín það sem hann á. Óhófleg eyðsla fjármögnuð með lánsfé og lítill eða enginn sparnaður í góðæri eru alvarleg mistök í persónulegum fjármálum. Auðvitað á það ekki við um alla, en stór hluti almennings tók þátt í góðærisruglinu af kappi.

Framundan er tímabil þar sem hroki, yfirlæti og dramb verður að víkja fyrir auðmýkt og raunsæi í samskiptum Íslendinga innbyrðis og við aðrar þjóðir. Þá verður lögleysa að víkja fyrir virðingu gagnvart réttarríkinu. Það má ekki gerast að þeir sem gerst hafa sekir um lögbrot, hvort sem það eru auðgunarbrot eða brot gegn valdstjórninni komist upp með það. Það er trú mín að því fyrr sem stjórnvöld ganga á undan með góðu fordæmi og fara að auðsýna auðmýkt, játa mistök sín og varða leiðina að lausnum fyrir fyrirtækin og fólkið í landinu, því fyrr muni erlendar þjóðir fá á okkur traust á ný. Ríki á ný traust á að stjórnvöld þekki leiðina út úr vandræðunum munu fyrirtækin og fólkið fylgja á eftir. Nýja Ísland mun rísa og raunverulegt góðærisskeið hefjast, byggt á sönnum verðmætum og öðrum gildum en græðgi og hroka.

Karl Pétur Jónsson (Grein sem birtist í Morgunblaðinu 1. desember 2008)


Fyrsta tilnefningin

Þá hefur krummi sig til flugs. Komið er að tilnefningum til rauðu hrafnsfjaðrarinnar, sem jafnan eru veitt fyrir athyglisverðustu kynlífslýsingarnar.

Fyrstu tilnefninguna fær Sjón fyrir lýsingu í skáldsögunni Rökkurbýsnum, sem eins mætti kalla Rökkurfýsnir, miðað við atganginn þegar fyrsti karlmaðurinn á jörðinni uppgötvar náttúruna, í umhverfi sínu, sjálfum sér og eigin skugga.

Myndin á jörðinni var því ólíkt mýkri en hann sjálfur að sköpulagi, dældir og bungur gerðu mjaðmir hennar og brjóst bogadregin. Já, tilfinning sem náði tökum á huga hans greip því einnig líkama hans. Útlimurinn milli fóta hans þandi sig út, reisti sig við og stóð framréttur, eins og styrkur handleggur herforingja sem skipar liði sínu til orrustu: „Fram til sigurs!" Og umyrðalaust fylgdi Adam skipun hins ákaflega reista lims. Hann kastaði sér yfir veruna og rak liminn milli fóta henni, á kaf í sandjörðina, og skakaði sér á henni þar til þykkur og mikill brundurinn þrýstist úr líkama hans af viðlíka afli og stórsjór sem hleypur upp fertugan hamravegg. Á meðan fullnægingin sundraði regnboganum á innanverðum augnlokum hans, þar sem hver litur þaut út í tómið eins og vígahnöttur, stundum fjólurauður, stundum vatnsblár, stundum sólgulur, flæddi sæðið um hverja glufu í jarðskorpunni, inn í hverja spurngu í steinunum, hverja skoru og brest í kristöllunum, hverja holu í moldinni. Þannig frjóvgaði Adam undirheimana þegar hann lá með skugga sínum. Þar af spratt þjóðin sem byggir þá dimmu veröld neðanjarðar.

Fleiri tilnefningar munu birtast á Hrafnasparki næstu vikur.

Er krummum og öðrum krúnkendum gert hér með að miðla kynlífslýsingum sem þeir rekast á í jólabókaflóðinu.


Zeitgeist

Jæja Davíð, loksins kom ég því í verk að horfa á myndina Zeitgeist sem þú bentir mér á fyrir nokkru.  Þú hefur rétt fyrir þér, þetta er mynd sem allir þurfa að sjá.  Fyrir þá sem ekki þekkja þá fjallar þessi mynd um í raun þrjú brennandi heit samtímamál sem sennilega snerta alla jarðarbúa, trú, stríð og hagfræði.

Því miður er ekki hægt að kalla myndina almennilega heimildarmynd, heldur er hún augljóslega framleidd af fólki sem tilheyrir flokki samsæriskenningarsmiða - conspiracy einstaklinga.  Á köflum fer hún talsvert aðeins yfir strikið í því að skrifa slæma þróun á reikning Dr Evil sem á að vera að spila með okkur.  Í heild bara eru svo margir punktar sem fram koma í myndinni sem fólk er almennt ekki meðvitað um að jafnvel þó ekki nema helmingur þeirra sé sannur mun myndin samt breyta heimsmynd þeirra sem á hana horfa.

Myndina Zeitgeist er hægt að horfa á frítt hérna að neðan og ég skora á þig að sjá hana.

 

 


Trafalgar

Í Kabúl í Afganistan er haldin árleg hátíð til að fagna sigri Breta á Frökkum og Spánverjum í hinni frægu sjóorrustu við Trafalgar. Þar sigldi Nelson flotaforingi þvert á flota Frakka og klauf hann í tvennt. Orrustunni lauk með stórsigri Breta sem misstu ekki eitt einasta skip en sökktu eða tóku herfangi 22 skip andstæðinga sinna. Orrustan gerði yfirráð Breta á hafinu algjör. Þau yfirráð entust langt inná 20. öldina. Trafalgar dagurinn er haldinn hátíðlegur víða um heim þarsem Bretar koma saman. Hér á kaffihúsinu Gandamack í Kabúl koma Bretar árlega saman til að minnast hans og einn breskur vinur minn bauð mér á hátíðina. Kaffihúsið var nú þakið fánum þeirra þjóða sem tóku þátt í orrustunni. Myndir af bardaganum voru á veggjunum og yfir öllum herlegheitunum gnæfði stór mynd af Nelson flotaforingja. Á samkomuna voru mættir heldri menn einsog sendiherra Breta í Afganistan og aðstoðar sendiherra Bandaríkjamanna. Þarna var þónokkuð af blaðamönnum sem búsettir eru í borginni en einnig breskir athafnamenn einsog framkvæmdastjóri DHL þjónustunnar í Afganistan sem var reyndar skotinn til bana nokkrum dögum seinna hérna fyrir utan kaffihúsið. Breski sendiherrann hélt gamansama ræðu enda sá þjóðernisrembingur sem hefur örugglega einkennt Trafalgar daginn áður fyrr runnin af hátíðinni og þjóðernisstolt varla dregið fram nema til að gera grín að því. Síðan var miðum með tilvitnunum í Nelson dreift til gesta og hver þeirra var látinn standa upp og þylja orð hans. Hvatningarorð hans og stríðsyfirlýsingar ásamt lýsingum á Frökkum sem þorpurum og illmennum hljómuðu undarlega í munni flestra, svo skringilega að þau urðu fyndin. Annars ku Trafalgar dagurinn hafa verið stór hátíðahöld allt fram að lokum fyrstu heimsstyrjaldarinnar. Hryllingur hennar og hið ógurlega mannfall ku hafa minnkað áhuga Breta á að fagna stríðssigrum og vopnahlés dagurinn þann ellefta nóvember hefur síðan verið talinn meira viðeigandi til að taka sér hlé frá vinnu og minnast fallinna.

Börkur Gunnarsson er höfundur bókarinnar "Hvernig ég hertók höll Saddams" sem kemur út hjá Sögum 11.11.08.


Rendon

Rendon.  John Rendon. Þetta nafn er of stórt fyrir mig. Svo fjarlægt og tengt svo mikilli djöfulmennsku að ég hélt að það væri ekki mögulegt að ég myndi hitta slíkan ógeðslegan glæpamann á lífsleiðinni minni. Ekki er ég að búast við því að hitta Al Capone fyrr en í næsta lífi. En það gerðist. Ég hitti John Rendon. Magnað. Hér í Kabúl. Spjallaði við hann kvöld eftir kvöld og hann gaf meira að segja ráð um hvernig við Íslendingar ættum að koma okkur uppúr fjármálakrísunni. Rendon. Nú er djöfullinn sjálfur kominn til hjálpar í djöfullegum aðstæðum okkar Íslendinga. Rendon er sakaður um alla glæpi almannatengsla sem þekkjast. Hann er sakaður um að hafa að hafa tekið að sér það verkefni að ófrægja Saddam Hussein og undirbúa bandarísku þjóðina fyrir innrás í Írak. Hann er sakaður um að veitt þjóð sinni aðgang að lygum og þvættingi  í þeirri von að sannfæra hana um mikilvægi þess að gera innrás í landið. Hann er sakaður um frekar ógeðfelld plott í Kólumbíu og öðrum löndum Suður-Ameríku. Hann er sakaður um að vera frekar ógeðslegur. Hann er stór "player" í almannatengslum í heimspólitíkinni. Hann hafði stóra samninga við ríkisstjórn George Bush á meðan sá hernaðarforseti undirbjó hverja innrásina á fætur annarri. Ég var spenntur að sjá Rendon. Spenntur fyrir því að hitta hann. Ég verð að viðurkenna að ég hálfvegis var að bíða eftir hornum og hala. Og ef ekki hornum og hala að þá væri í það minnsta eitthvað járnað glott á andliti hans, eitthvað sem maður tengir við illvirki. Eða að þarna væri ótrúlega sjarmerandi og heillandi maður sem fengi alla til að elska sig, einsog psykopatarnir eru; sýnast elskulegir og snúa þannig öllum í kringum sig til ýmissa ógeðfelldra verka. En ekkert af þessu var raunin. Það voru ákveðin vonbrigði að hitta Rendon, því hann er frekar feitur maður, frekar vinalegur en ekkert umfram það venjulega. Engin horn á höfði hans, né djöfullegt glott. En hann er ekkert sérstaklega vinsamlegur heldur, ekkert sérstaklega sjarmerandi. Það er eiginlega ekkert sérstakt við hann. Hann er eins venjulegur maður og hugsast getur. Kannski aðeins feitari en gengur og gerist, annars: venjulegur. Það að vera venjulegur hreinsar samt engan af þeim glæpum sem hann er sakaður um og ég veit ekkert hvað er reyndin með þau mál. Ég sá líka Saddam Hussein á sínum tíma ganga fyrir framan mig inní réttarsalnum í Bagdad; sá leit ekki illmannlega út, hann var bara vinsamlegur gamall maður. Samt efaðist ég ekkert um að hann væri sekur um flesta þá glæpi sem hann var sakaður um. Rendon. Ég veit það ekki. Ég spurði hann útí ýmislegt sem ég hafði lesið um hann, til dæmis lygarnar sem hann hafði átt að hafa breitt út um Írak og það sem hann gerði í Kólumbíu. Hann vildi ekki kannast við neitt. Ég spurði hann útí útvarpsstöðina sem hann hafði stofnað í Kúrdistan til að vinna gegn stjórn Saddams Hussein. Sem átti að hafa verið eytt þegar Saddam ákvað allt í einu að ráðast inní Kúrdistan og samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hafði fengið af netinu hafði her Saddams drepið alla hundrað starfsmenn útvarpsstöðvarinnar en Rendon sagði að nánast allir hefðu sloppið. Ég veit ekkert hvað er rétt. Fannst reyndar óþægilegt að allar ásakanirnar sem ég beindi að honum var svarað með því að þetta væri ósatt. Ekki að ég efist um hans orð né orð blaðamannanna. Það virðast allir geta logið af mjög mikilli sannfæringu hvort sem þeir kalla sig blaðamenn eða almannatengsla menn. En það hefði verið skemmtilegra og boðið uppá dýpri samræður ef eitthvað af þessum ásökunum hefðu verið að hans mati í það minnsta hálf sannar. Hann sagði mér samt skemmtilegar sögur af mistúlkun og misnotkun upplýsinga. Hann sagði mér líka frá því í nákvæmum smáatriðum hvernig Ísland ætti að koma sér útúr vandræðum sínum og lagði þar aðaláherslu á ferðamannaiðnaðinn - þótt ég verði að taka fram að þarmeð var hann hreint ekki að tala gegn álverum, enda taldi hann þau líka vera mikilvægan þátt í framgangi næstu ára. Ég hélt ég hefði hitt djöfulinn sjálfan - loksins. En varð fyrir vonbrigðum með það hvað þetta var voðalega venjulegur maður. En hvort að djöfullinn sé þannig; bara voðalega venjulegur maður eða ekki, það veit ég ekkert um.


Nýtt um Potter

Æ, hvað það er notalegt að stökkva aftur inn í ævintýraheim Rowling, að þessu sinni til að fylgjast ævintýrum Sirius Black og James Potter þremur árum áður en Harry Potter fæðist.

Hér má lesa um það!  

Rowling þarf ekki mikið rými til að skapa spennu!

 


Mönnuð geimferð til Mars?

Það hefur verið töluvert afrek að komast til tunglsins hjá Neil Armstrong og félögum árið 1969 og vissulega risaskref fyrir mannkynið, heilir 386 þúsund kílómetrar. Víst botna sumir ekkert í því að það skuli hafa tekist fyrir daga litasjónvarpsins og fótanuddtækjanna. En þá voru menn reyndar löngu farnir að sprengja heilu borgirnar í loft upp.

En George Bush lætur sér ekki nægja að leggja á ráðin um ferð til tunglsins, enda vanur að leggja undir sig nýjar lendur á plánetunni jörð. Hann vill senda mannað geimfar alla leið til Mars.

Og það er forvitnilegt að lesa hvað Bill Bryson hefur að segja um það í stórfróðlegri bók, "A Short History of Nearly Everything", sem kom út árið 2003:

A manned mission to Mars, called for by the first president Bush in a moment of passing giddiness, was quietly dropped when someone worked out that it would cost $450 billion and probably result in the deaths of all the crew (their DNA torn to tatters by high-energy solar particles from which they could not be shielded).


Ókúguð bændaþjóð í norðri

Neistar, úr þúsund ára lífsbaráttu íslenskrar alþýðu, kom út lýðveldisárið 1944. Þar er rifjuð upp vörn þegnfrelsis og þjóðfrelsis fyrr á öldum:

Á evrópskan mælikvarða er þessi málsgrein merkust alls, sem Íslendingar frumsömdu á 14. öld: "Vitið það fyrir víst, að vér þykjumst lausir eftir því vornasta bréfi, sem vort foreldri sór Hákoni konungi gamla, ef vér fáum eigi að sumri það, sem oss er játað af honum og nú mælum vér til."

Orðin voru skilaboð alþingis til erlends ríkisráðs, sem taldi konung sinn eiga Ísland að boðan guðs og þurfa engan nauðungarsamning að halda við íslenzkan almúga, sbr. framkomu Loðins lepps og konungsbréf með Jónsbók 1280. Orðin sýna, að Ísleningar telja konungssambandið viðskiptalegs, en ekki guðlegs eðlis, og á þeirri skoðun hafa forvígismenn landsréttinda byggt á síðari öldum. Meirihluta tímans, síðan orðin voru skráð, voru það landráð og auk þess lastmæli gegn guðlegri ráðstöfun að nefna það, að Íslendingar megi og geti sagt konungdómi upp hollustu, og 1944 reyndist þurfa til þess "bylting." En 1320 þorði alþingi að segja þetta, og þögn ríkisráðs á móti var af Jóni Sigurðssyni metin jafnt og nauðugt samþykki, en réttarlega fullgilt. Án svo hispurslausrar ánýjunar hefði Gamli sáttmáli ekki orðið Íslendingum sú líftaug, sem hann varð.

Landfleyg hafa lastmælin orðið á sinni tíð, sem höfð voru eftir Lofti og Birni um konungdóminn, þótt höfundur Árnasögu þyrði eigi að skrá þau sjálf. Andstaðan gegn Hákoni gamla lifði og beizkjan undan þeirri minningu, er "vort foreldri sór." Alla 14. öld héldu landsmenn réttindum í horfi. Hefnd kom yfir Smið, hinn vaska norska hirðstjóra, fyrir að lífláta mann án fulls lagaréttar, og drepinn var þá Skráveifa. Norðlendingar þoldu ekki konungi að senda þeim slík yfirvöld, og líkur hugur er í árnesingaskrá nokkru síðar. Í aldarlok hrekst danskur biskup af Skálholtsstóli, þótt sá sigur væri þá búinn að kosta embættismissi, hver veit hve lengi, fyrir mikinn þorra presta í biskupsdæminu. Nýskipan Michels var hrundið. Þá heimtar drottning án laga nýjan skatt af landinu, sem var eign hins konunglega fatabúrs, og leggur landráðasök við óhlýðni. Íslendingar taka allir á sig landráðin og neita skatti, en gefa fatabúrinu ölmusu. Eyfirðingum þótti hreinlegast að gefa ekki, og tæpri öld síðar hrundu þeir 110 saman með alvæpni fjárkröfum hirðstjóra til bónda þar í byggð. Stórflokkar vopnaðra manna um siðskiptin vitna um ókúgaða bændaþjóð, sem hefði ekki þolað konungsvaldinu afarkosti, ef ógæfuárin eftir 1548 hefðu ekki gert menn forystulausa gegn ásælninni og síðan verzlunaránauðinni.


Visual bookshelf á Facebook

Krummi mælir með Visual Bookshelf á Facebook fyrir krumma og aðra bókaáhugamenn.

Þar má fá innsýn í hvað vinirnir á Facebook eru með á náttborðinu og hvort nokkuð er í það spunnið. Spjallþræðir eru um flestar bókanna, oft skapast forvitnilegar umræður og jafnvel bráðfyndnar, eins og um sjöundu bókina um Harry Potter, þar sem Elinor nokkur fer á kostum.

Facebook er prýðis uppfinning. Þar má afla fylgismanna við nánast hvaða málstað sem er, svo sem sjálfstæði Álandseyja og að aftur verði hafin framleiðsla á bláum ópal. Og endurvekja kunningsskap við gömul skólasystkin.

Og auðvitað eiga krummar að krúnka þar saman!


Af góðvinum krumma!

Það er í nógu að snúast hjá góðvinum Krumma.

Elísabet Jökulsdóttir hélt upp á fimmtugsafmæli sitt í Iðnó í gær, flutti dásamlegan gjörning í tilefni dagsins og stráði gullkornum yfir afmælisgesti. Hrafnasparkið sendir henni hamingjuóskir.

Þá tilkynnti Ólafur Gunnarsson í 24 stundum að hann ætlaði að halda beat-hátíð til minningar um Jack Kerouac 3. maí næstkomandi, en lesið verður upp á pallinum við heimili hans.

Eins og krummar vita þýddi Ólafur On the Road eða Á vegum úti eftir Kerouac. Erlendir rithöfundar koma fram á hátíðinni, auk Michael Pollocks, Einars Kárasonar, Sjóns, Hilmars Arnar Hilmarssonar, Birgittu Jónsdóttur og Jónsa í Sigur Rós.

Krummar rata.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband