Antík fólk

don19Bloggið er vinsælt, það hefur líklega ekki farið framhjá mörgum.  Fólk úr öllum stéttum skrifar um allt og ekkert úr daglegu lífi og um skoðanir sínar. 

Mér þætti áhugavert að sjá hvaða blogg fólk almennt les, það veit ég ekki til að hafi mikið verið rannsakað.  Leitar það uppi aðra einstaklinga með sömu skoðanir og áhugamál, fólk á svipuðum aldri og með líka menntun eða eru margir að leita eftir að kynnast ólíkum skoðunum og þjóðfélagshópum?  Einhvern vegin grunar mig að t.d. þegar kemur að stjórnmálum lesi margir bara skoðanir þeirra sem þeir eru sammála en sneiði hjá öðrum sjónarmiðum. 

Þjóðfélagshópur sem ekki ber mikið á í bloggheimum er háaldrað fólk.  Þó eru til góðir bloggarar í þessum hópi og er hinn 93 ára Donald Crowdis sem skrifar á:

 http://dontoearth.blogspot.com/ 

að verða einna þekktastur þeirra.  Ellirhörnun sést ekki þegar texti Crowdis er lesin, maðurinn starfaði lengi sem safnstjóri í Halifax og stjórnaði sjónvarpsþáttum og greinilega hinn merkasti maður.  Crowdis veit að hann er að deyja og er að dunda sér við að pakka saman og að ganga frá lífinu og skrifar um hugleiðingar sínar í þessu ferli, auk þess að koma með sjónarhorn manns sem fæddur var 1913 á samfélag nútímans.  Hann er hins vegar ekkert sérstaklega sáttur við að deyja, þó hann sé á tíræðisaldri, og finnst hann eiga margt ógert.  Eins og algengt er með þá sem eru deyjandi er hann meðvitaður um hversu dýrmæt hver stund er sem við fáum að lifa og hann skrifar ekki nema hann hafi eitthvað að segja, regla sem ekki allir bloggarar virða. 

Þegar fólk er komið á þennan aldur verður það oft hornreka í samfélaginu, á stundum litið á það sem byrði og skoðanir þeirra úreltar.  Á sama tíma og stofuskápur, málverk eða aðrir munir sem komnir eru á tíræðisaldur þykja eftirsótt og dýrmæt antik er fólk á sama aldri stundum lítils metið.  Hluti þessa vandamál er eflaust að hver kynslóð, hver stétt og þjóðfélagshópur er of mikið í sínu horni og margir hafa hreinlega aldrei kynnst skoðunum manneskju sem lifað hefur 8 eða 9 áratugi.  Bloggið hefur hins vegar alla möguleika á að geta að sameinað alla anga þjóðfélagsins og því er mikilvægt að háaldraðir eigi fulltrúa sína þar líkt og aðrir þjóðfélagshópar. 

Hver skyldi annars vera aldursforseti íslenskra bloggara?  Veit það einhver?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það er reytingur hér af Grumpy Old Men, sem ekki falla alveg undir flokk Hr. Crowdis.  Stundum skynja ég Ragnar Reykás blunda þar undir,  (Ma...ma...ma..maður...), þótt hann búi jú líka í yngri mönnum.  Bloggið finnst mér stórkostlegt að því leyti að ég trúi því að það bæti málvitund og tjáningu fólks og hjálpi því til að aga hugsun sína og móta skoðanir af rökfestu.

Ekki veitir af í því einstefnumiðlunarsamfélagi, sem okkur er orðið hættulega tamt að lifa í.  Bloggið finnst mér vera nútíma birtingarmynd þeirra lýðræðislegu skoðanaskipta, sem voru hornsteinn hins Gríska veldis til forna.  Þar sátu öldungar og vitringar á torgum og ræddu tilvistarspurningar og vísindi við hvern sem vildi og skoðanir voru virtar og ræddar, hversu grunnhyggnar, sem þær hljómuðu.  Það er kannski megin munurinn á blogginu og hins forngríska fyrirmyndarsamfélags að hér vantar einmitt, eins og þú íar að,  hina spöku öldrunga. 

Jón Steinar Ragnarsson, 27.1.2007 kl. 02:56

2 Smámynd: Guðmundur Gunnarsson

Sá sem situr við stjórnvölinn á Moggablogginu hefur mikil áhrif á hvað blogg eru lesinn, of mikil. Það eru greinilega tiltölulega lítil hópur í náðinni hjá þessum stjórnanda, því það virðist vera nákvæmlega sama  hvað sumir setja á sitt blogg það birtist jafnharðan á "Valinn blogg" og traffikinni er beint þangað. 

Guðmundur Gunnarsson, 27.1.2007 kl. 10:26

3 Smámynd: Júlíus Valsson

Takk fyrir að benda okkur á antíkbloggarann! Hann rúlar! (eins ogbaranbörnin segja)

Júlíus Valsson, 27.1.2007 kl. 13:02

4 Smámynd: Júlíus Valsson

Takk fyrir að benda okkur á antíkbloggarann! Hann rúlar! (eins ogbaranbörnin segja)

Júlíus Valsson, 27.1.2007 kl. 13:02

5 Smámynd: Júlíus Valsson

...freistandi að senda þetta í þriðja sinn! (nei, afsakið, þetta var óvart)

Júlíus Valsson, 27.1.2007 kl. 13:04

6 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Áhugavert væri að lesa þetta blogg gamla mannsins og sjá hvernig hann sér dauðann. Maður veltir því fyrir sér hvernig fólk mætir þessum óumflýjanlega atburði þegar hann nálgast. Það góða við bloggið er að maður fær sterkari innsýn í hugarheim og tilveru annars fólks og það er frábært.

Tek undir með Guðmundi. Sé ekki alveg hvernig sumir ná að hanga þarna á toppi Moggabloggsins og velti stundum fyrir mér hvað ráði?

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 27.1.2007 kl. 13:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband