Færsluflokkur: Kvikmyndir

Spielberg hefur reynt við Tinna áður

22_albums_tintinÞetta er ekki í fyrsta sinn sem Spielberg hefur áhuga á því að gera mynd um Tinna. Árið 1982 reyndi Spielberg að komast yfir réttinn til þess að gera mynd byggða á ævintýrum Tinna og studdi Hergé Spielberg í þeirri viðleitni. En þegar Spielberg sá drög að fyrsta handritinu, sem Melissa Matheson skrifaði, hætti hann við að leikstýra og ákvað að framleiða myndina í staðin. Leitað var til nokkurra leikstjóra og á endanum var talað við Roman Polanski. Hann hafði lengi haft áhuga á því að leikstýra mynd byggðri á sögunni "Veldissproti Ottókars konungs" en því miður varð aldrei neitt af þeirri mynd.

Sagan segir síðan að Spielberg hafi skrifað eigið handrit og sent Hergé. Hergé hafi hinsvegar þótt það of Hollywoodlegt og hafnað því. Í staðin gerði Spielberg myndirnar um Indiana Jones sem lukkuðust stórvel, eins og allir þekkja.

Nú er bara að bíða og sjá hvort þessi atlaga að Tinna lukkist betur hjá Spielberg.


mbl.is Spielberg og Jackson boða myndir um Tinna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

mögnuð viðkvæmni

En þótt það sé óskiljanlegt fyrir okkur að ríki og stjórnvöld séu svona viðkvæm í Íran og Kazahkstan þegar bíómyndir sýna þjóðir þeirra á einhverjum tímum í einhverju öðru ljósi en þær kjósa þá er hægt að skilja að einstaka fólk eða þjóðfélagshópar verði sárir. Fyrir suma skiptir fortíðin og ásýnd lands þeirra miklu máli sem allir geta tengt við. Mér finnst hálf glatað þegar Ísland er sett í ömurlegt samhengi erlendis. En að ríkisstjórn Íslands stígi fram og lýsi samsæriskenningunum sem þær hafa búið til í eigin huga er alltaf svolítið fyndið. Dýrasta mynd Tyrklands á þar síðasta ári, sú sem fékk langmesta fjármagn úr kvikmyndasjóði þess lands í sögunni og varð síðan vinsælasta mynd ársins þar, fjallaði um hugrakka múslima sem máttu ekki vamm sitt vita og síðan bandaríska hermenn í Írak sem drápu allt sem þeir sáu, réðust inní brúðkaup, nauðguðu og drápu. Ég hef hitt bandaríska hermenn sem sárnaði að þessi bandalagsþjóð þeirra skyldi framleiða svona mynd og um eitthvað sem þeim fannst vera óréttlátt sjónarhorn á ástand mála en bandarísk stjórnvöld hafa ekki minnst á þetta svo ég viti. Sjálfur gerði ég þau mistök þegar ég gerði bíómynd í Tékklandi að láta Íslendinga koma þar fram og tala um þjófótta Tékka og vera ótrúlega fordómafulla gagnvart þjóðinni sem þeir voru gestir hjá. Reyndar kom það ekki mikið að sök því það var aldrei undirtexti þegar útlendingarnir töluðu saman á útlenskunni. Sú ákvörðun var ekki tekin til að fela einhverja gagnrýni á Tékka. Heldur af því að myndin fjallaði öðrum þræði um að vera utanveltu og gott að láta tékkneska áhorfendur vera aðeins utanveltu í tékkneskri bíómynd. Svo elskaði ég líka að hlusta á tónana í tungumálunum sem ég skildi ekki, einsog finnskunni og vildi að áhorfandinn einbeitti sér að því og upplifði fegurðina í tónlistinni en einnig fjarlægðina við tungumálið og hversu heimurinn er þeim lokaður þegar þeir skilja ekki orð. Ég var sjálfur á þeim tíma mjög pirraður yfir því að það væri alltaf verið að reyna stela frá mér og oft með mjög góðum árangri. Hafði ekki kynnst því fyrr á ævinni. Í eina skiptið sem ég var spurður útí þessar samræður Íslendinganna þegar ég var að sýna myndina í Tékklandi var þegar ég sýndi hana fyrir klúbb tékkneskra fanatíkera fyrir íslenskri menningu, sem er fyndinn klúbbur aðdáenda Íslands og íslenskrar menningu. Þegar ég útskýrði hvað Íslendingarnir voru að segja í bíómyndinni urðu þeir mjög sárir og ég varð mjög leiður. Þetta var gott fólk, Tékkar eru gott fólk og algjör óþarfi að búa árum saman í góðu landi og láta síðan Íslendingana segja bara eitthvað leiðinlegt um þá. En þetta var ekki nema bara þriggja mínútna sena í myndinni þannig að vonandi fyrirgefa þeir mér þetta. Sjá þetta ekki sem formála af innrás inní landið, enda búa þeir þegar yfir kjarnorku og ég er ekki þátttakandi í alþjóðlegu samsæri til að sprengja þá aftur til steinaldar.
mbl.is Íranar gagnrýna bandaríska mynd um Persastríðin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ófreskjur og dropi af súrrealisma

annaandthemoods Hann var bragðgóður og listilega samsettur konfektmolinn sem ég kjammsaði á í síðustu viku. Ég fór nefnilega á frumsýningu teiknimyndarinnar Önnu og skapsveiflanna; myndar sem fjallar um samskipti foreldra og barna og er óvænt og verðugt framlag inn í umræðuna um uppeldisstofnanir samfélagsins.

Það er unun að fylgjast með því hvernig Sjón er að þróast sem höfundur. Hann hefur svo mikil vald á söguforminu. Og ásamt því að setja í verkið dropa af trega, eins og tónskáldið Atli Heimir Sveinsson sagði mér að hann gerði við melódíur sínar, þá setur hann dropa af súrrealisma.

Sjón segir frá myndinni í Fréttablaðinu í dag og þar kemur fram að hún hafi verið styrkt af Breska listaráðinu (British Art Council), en þar á bæ hafi menn verið efins um söguna til að byrja með. „Þeir höfðu áhyggjur af því að við værum að gera gys að unglingum," segir Sjón. „Ég hef hins vegar unnið með unglingum og vissi að þeir kynnu að meta að vera sýndir sem hálfgerðar ófreskjur; þeir vilja vera dálítið ógnvekjandi. En í myndinni er það líka unglingurinn sem fer með sigur af hólmi."

Sjón var sem kunnugt er einn af þeim sem stóðu fyrir listasmiðjunum fyrir börn í Gerðubergi og hefur raunar unnið víðar í ritsmiðjum með börnum og unglingum. En það er ekki hægt að fjalla um myndina án þess að ljúka lofsorði á teikningar Gunnars Karlssonar; honum tókst að skapa bara „dálítið ógnvekjandi" ófreskjur, sem er mun erfiðara en að skapa alvöru ófreskjur. Eftir myndina hugsar maður samt með skelfingu til unglingsára barna sinna. Þegar maður stingur höfðinu í dyragættina og þau hrópa: „ÚÚÚÚÚÚúúúúúúút!" En kannski verður það ekkert svo hryllilegt.

Kannski verður það bara fyndið?


Trúarbrögð lúseranna

505165~little-miss-sunshine-postersÉg fór á fjórðu myndina á fjórum dögum í gærkvöldi, Little Miss Sunshine, og hef sjaldan hlegið jafn mikið á bíósýningu. Þar er spjótunum beint að öllum þessum sjálfshjálparbókum og námskeiðum sem er ætlað að búa til „sigurvegara" og „leiðtoga" úr lúserunum okkur. Og fegurðardýrkunin fær sömu meðferð, enda angi af sömu fullkomnunaráráttu.

 

Hrakfarir fjölskyldunnar minna óneitanlega á ólánið sem elti Birtíng, en þá sögu ritaði Voltaire til að narrast að bjartsýnisheimspeki þeirra Leibnitz og Popes. Birtíngur aðhylltist „háspekisguðfræðis-alheimsviskukenníngu" meistara síns, Altúngu, sem fólst í því að ekki væri til afleiðing án orsakar; allir hlutir væru í einni keðju og miðuðu til hins besta.

Í raun ganga sjálfshjálparkenningarnar enn lengra og kenna manni að taka orsakakeðjuna í sínar hendur, gera sjálfan sig mikilvægasta hlekknum í þeirri keðju. Aðferðafræðin er sú sama og hjá Birtíngi, nefnilega heilaþvottur, að segja það við sjálfan sig nógu oft að maður sé mikilvægasti hlekkurinn, þá fer maður að trúa því.

Birtíngur tönnlaðist á því að við lifðum í „þessum besta heimi allra heima" og lofaði sköpunarverkið, en á sama tíma fór Búlgarakóngur í stríð við Abarakóng, eins og frá segir í þýðingu Laxness:

Ekkert gat fegurra, rennilegra, glæsilegra né betur uppsett en hinir tveir herir. Lúðrarnir, þverpípurnar, óbóurnar, trumburnar, fallbyssurnar, alt myndaði þetta þvílíkt samræmi, að jafnvel í helvíti þekkist ekkert slíkt. Fallbyssurnar lögðu að velli í fyrstu lotu hérumbil sex þúsund manns hvorumegin; síðan afmáðu byssuskytturnar af þessum besta heimi allra heima níu til tíu þúsund fanta. Byssustíngurinn var einnig gild ástæða fyrir nokkur þúsund mannslátum. Einar þrjátíu þúsund sálir fóru þar fyrir lítið. Birtíngur skalf eins og heimspekíngi sæmir og reyndi að láta sem minst á sér bera í þessu hetjulega slöktunarverki.

Þannig eru trúarbrögð lúseranna, annarsvegar Birtíngs sem telur sér trú um að ógæfa sín sé áfangi í átt að betri heimi og þess vegna geti hann vel við unað, og hinsvegar allra sigurvegaranna og leiðtoganna sem eiga yfir höfði sér fjöldauppsagnir stófyrirtækjanna, en telja að ef þeir læri sjálfshjálparbækur utan að, eins og níu þrepa kerfi Richards í Little Miss Sunshine, þá verði himnaríki á jörðu þeirra. Þangað til uppsagnarbréfið berst í pósti með reikningnum fyrir sjálfshjálparbókinni og námskeiðinu.

Hér með nefni ég þetta „alheimsviskupessímismakennínguna í einu skrefi aftur á bak og níu fet ofan í jörðina" og þið sem hafið lesið þetta þurfið ekkert að greiða fyrir það. Ef þið eruð sömu lúserarnir og ég þá eigið þið nóg með að greiða jólavisareikninginn sem fer að berast inn um lúguna.


Póstkort frá Guði

1553__stranger_than_fiction_l Ég hef tekið nokkra bíómyndatörn upp á síðkastið. Í gærkvöldi fór ég á mynd Eastwoods, sem tekin var að hluta hér á Íslandi, Flags of Our Fathers, og varð lítt hrifinn. Þeim mun meira hreifst ég af myndinni Children of Men; þar er mannkynið komið í öngstræti árið 2027, yngsta barnið átján ára og var að gefa upp öndina. Þá verður ung kona ólétt og leitar Morgundagsins fyrir barnið sitt. Nokkuð þétt mynd og frumleg á köflum.

Loks fór ég á Stranger Than Fiction. Ég er ekkert að ljóstra upp miklu þegar ég segi að hún fjallar um ósköp rúðustrikaðan mann sem vinnur hjá skattinum og kemst að því hann er sögupersóna í skáldsögu. Myndin er dásamleg og óvænt himnasending, - eins og póstkort frá Guði! Það er ekki annað hægt en að hrífast með hugarflugi höfundarins og það greip mig óviðráðanleg löngun til að fræðast örlítið um Zach Helm.

Það er furðu brotakennt sem maður les um þennan 31 árs gamla mann á Netinu (f. 21. janúar 1975). Ekki síst ef horft er til þess dálætis sem fjölmiðlar hafa á honum; hann hefur verið kallaður hinn nýi Charlie Kaufman og valinn á lista efnilegustu kvikmyndagerðarmanna í Esquire, Empire, Variety og Fade In Magazine.  

Af einkahögum hans er helst títt að hann var trúlofaður leikkonunni Lucy Liu, sem Quentin Tarantino gerði ódauðlega í Kill Bill, og er nú trúlofaður annarri leikkonu, Kiele Sanches, sem hefur helst haslað sér völl í sjónvarpsþáttum, m.a. Lost.

En Helm hefur í raun aðeins skrifað eitt handrit sem lýst hefur hvíta tjaldið og það var Stranger Than Fiction. Hann skrifaði einnig handrit að sjónvarpsmynd, Other Peoples Money, sem frumsýnd var árið 2003, en vakti enga sérstaka athygli. Eflaust hefur hann þó skrifað ófá handrit í kvikmyndanámi við The Goodman School of Drama at DePaul University, þar sem hann útskrifaðist árið 1996. Auk þess sem hann skrifaði leikritið „Last Chance For a Slow Dance", sem frumsýnt var í New York í árslok 2006.

Það forvitnilegasta sem ég fann um manninn var brot úr viðtali í Vanity Fair. Þar sagðist hann ekki hafa náð sér á strik fyrr en hann setti sjálfum sér lífsreglur, bjó sér til siði og reglur sem giltu um það hvernig hann beitti sköpunargáfu sinni. Nokkur atriði sem hann lagði áherslu á:

1. Write what interests you. Don't get penned into one genre or field. This year, I've worked on a new thriller novel, a historical sports drama screenplay, and a six-man play that tackles social issues. Each one, oddly, informs the other and allows me to approach all my writing with a freshness that I wouldn't have if I focused on, say, crime fiction alone.

2. When placing your work, don't decide merely based on immediate financial gain. Money works in odd ways - sometimes, if you take more cash up front, it's a short-sighted proposition. Better to place your screenplay with the right producer or director, for example - someone who gets the project and respects you. You'll be happier if you're demanding that your work is treated with respect - and to get that, you have to treat your own work with respect. Plus, you never know when or how something is going to pay off - either in a financial or creative windfall.

3. Don't take crap jobs for money. Rewriting gigs can pay a lot of money in Hollywood, but they can also drain you. Likewise with other projects that sail down the pipeline. The first question should always be: Is this a stimulating, challenging project? When you're focusing on your own writing, why do anything except what is of the highest interest for you? For the money? If you're after that, you'd do much better to go into commercial real estate or investment banking. If you're going to tackle the trials and tribulations of a writing life, follow your passions. Take risks. Go out on limbs. It's a field where - at least for me - playing it safe means creative stagnation.

Helm hefur nóg fyrir stafni þessa dagana. Fyrsta kvikmynd sem hann bæði skrifar handrit að og leikstýrir, Mr. Magorium's Wonder Emporium, verður frumsýnd árið 2007 og í aðalhlutverkum eru Jason Bateman, Natalie Portman og Dustin Hoffman. Einnig vinnur hann að Thomas Johnson, sem fjallar um mann sem hugsanlega er raðmorðingi, og er að skrifa handrit eftir skáldsögunni This is Serbia Calling. Þá er handritið The DisAssociate í vinnslu hjá Warner Bros.

Það fjallar um mann sem fær póstkort frá Guði.


Fjögur brúðkaup og W.H. Auden

006aÆtli Fjögur brúðkaup og jarðarför sé besta gamanmynd sem gerð hafi verið? Sjaldan hefur hárfínn húmor Breta notið sín eins vel, svo sem þegar Carrie (Andie MacDowell) segir í atriðinu á meðfylgjandi mynd: Is it still raining? I hadn't noticed." Þegar ég horfði á hana í Sjónvarpinu í kvöld rifjaðist upp grein sem ég skrifaði Morgunblaðið 13. ágúst árið 1994, fyrsta sumarið mitt í blaðamennsku. Ég rifja hana hér upp til gamans:  

Lesendur breska slúðurblaðsins The Sun" rak nýlega í rogastans þegar þeir sáu að síður blaðsins voru lagðar undir skáldskap. Ekki minnkaði furða þeirra þegar í ljós kom að um var að ræða nútímaskáldskap eftir W.H. Auden. Wystan Hugh Auden (1907-1973) er eitt fárra breskra nútímaskálda sem ekki virðist hafa fölnað í minningu almennings eftir dauða sinn og síðan kvikmyndin Fjögur brúðkaup og jarðarför var tekin til sýninga hafa vinsældir hans blómstrað sem aldrei fyrr. Ljóðið Funeral Blues" er lesið í jarðarför myndarinnar og hlýtur verðskuldaða athygli. Bæði er ljóðið eitt af aðgengilegri kvæðum Audens og síðan gerir leikarinn John Hannah því mjög góð skil. Eins sjaldgæft og það er að ljóð séu lesin í kvikmyndum, er það næstum einsdæmi að þau sé lesin án sjálfumgleði og hroka.

Bækur með verkum eftir W.H. Auden seljast betur í Bretlandi en bækur vinsælla höfunda eins og Bills Brysons og Bobs Monkhouse um þessar mundir. Um er að ræða útgáfur á ritdómum og ævisögum sem og umfangsmikilli heildarútgáfu á verkum hans undir ritstjórn Edwards Mendelsons sem nefnist Collected Poems" og safni æskuverka hans, Juvenilia: Poems 1922-28", sem ritstýrt er af Katherine Bucknell. Eitt er víst að af nógu er að taka því þótt ljóð Audens séu aðeins tekin með spanna þau yfir 926 blaðsíður. Allt er það í þjónustu óvinsællar listar", sem með orðum Audens krefst þess af þvermóðsku að vera lesin eða hunsuð". Um kveðskap Audens má segja að hann nýtur sannarlega vinsælda og er lesinn, jafnvel af lesendum slúðurblaðsins The Sun".

W.H. Auden kom tvisvar hingað til lands. Hann heimsótti Ísland rétt fyrir seinni heimsstyrjöldina, árið 1936, með félaga sínum Louis MacNeice. Eftir þá heimsókn gaf hann út bókina Bréf frá Íslandi, sem kom út árið 1937. Skemmst er frá því að segja að þeir félagar urðu fyrir ýmiskonar vonbrigðum með dvöl sína hér á landi. Þeir komu hingað til lands í leit að afdrepi frá ógnum samtímans og hávaðamenningarinnar. Auden gefur jafnvel í skyn að þeir hafi verið að reiðubúnir að yfirgefa listina ef þeir fyndu hér fullnægjandi og friðsælt líf, en svo fór ekki - kannski sem betur fer. Þeim þótti landið að vísu fallegt en ...

Svo kynnum þá heiminum eina hans

eltandi skugga,

með oflæti í búningi og versnandi

fisksölukjör.

Í afdal hvín jazzinn, og æskunnar fegurð

fær alþjóðlegt filmbros á vör

---

Tár falla í allar elfur og ekillinn setur

aftur upp glófa og bíl sinn á vegleysur knýr

í æðandi blindhríð, og emjandi skáldið

aftur að list sinni flýr.

(Úr þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar á ljóði Audens "Ferð til Íslands")

W.H. Auden kom síðan aftur til Íslands árið 1964. Kristján Karlsson skáld hitti hann þá ásamt fleiri Íslendingum í boði Gylfa Þ. Gíslasonar menntamálaráðherra og í samtali þeirra kom fram að Auden fannst Reykjavík mikið breytt og hann þekkti sig varla aftur. Annars var hann fremur fámáll," segir Kristján. Hann var aldrei þekktur fyrir venjulega gamansemi, enda held ég að hann hafi ekki stundað hana að ráði. Hún kemur þó fyrir í leikritum hans og ljóðum." Þegar bókin Bréf frá Íslandi kom út fannst mörgum lýsingin á Íslandi vera full stráksleg og bókin hefur aldrei verið þýdd á íslensku. Einhver nefndi við Auden að Íslendingar hefðu móðgast af bókinni," segir Kristján. Hann á að hafa svarað í hálfkæringi: Við vorum nú bara strákar að vinna fyrir okkur.""

Kristján Karlsson skrifaði ljóð um heimsókn Audens hingað til lands árið 1936, þar sem hann dregur upp skemmtilega mynd af ungum manni sem þroskast og vitkast með aldrinum:

Gegnum frásögn sem flöktir og skriplar

og ljósmyndir loðnar af regni

fer Wystan Hugh Auden (ásamt Louis MacNeice)

um ófrjó og óþroskuð fjöll

með böl vorrar æsku: útvarpið

langferðabílinn og gisting hjá góðu fólki

slagveðrin hnýtna hesta aðeins sem ólund

á andliti djúpu og sléttu: landslag sem springur,

tómleiki æskunnar einungis vetur í jörð,

í margbrotið haust með farvegum flóknum og djúpum."


Íslenskur Bond?

Það eru ekki aðeins dansandi mörgæsir sem slá Daniel Craig við sem James Bond. Íslenskt hreystimenni hafði samband við Hrafnasparkið rétt í þessu og lýsti áhyggjum sínum af Bond í Casino Royale. 

Raunar gekk hann lengra og sagði að þetta væri enginn Bond. Í fyrsta lagi æki hann um á Ford Focus. Í öðru lagi sæti hann við pókerborðið og pantaði tvöfaldan romm í kók, en ekki Martini, "shaken, not stirred". Í þriðja lagi vélaði hann upplýsingar út úr íðilfagurri stúlku "sem síðan bauð honum að sofa hjá sér, en hann neitaði!"

"Það var aðeins einn Bond í bíósalnum," sagði þetta annálaða hreystimenni, sem klæðist stuttermabol í öllum veðrum. "Og það var ég. Ég sat með skvísuna í fanginu í salnum; hún strauk á mér bringuhárið og kyssti á mér hálsinn. Síðan gengum við út og þar beið gljáfægður Landcruiser. Það hugsuðu allir sem sáu okkur: "Já, þarna fer hinn eini sanni Bond." Þetta var engin keppni."


mbl.is Dansandi mörgæsir vinsælar í kvikmyndahúsum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband