Færsluflokkur: Bækur

Hrafn í úrslitum!

Hrafn Jökulsson, sem vakti mikla lukku á árshátíð lestrarfélagsins með krúnki sínu, er kominn í úrslit í samkeppni um bestu ljósmyndina úr göngum og réttum í Strandasýslu í haust.

Það vita krummar að hann er ekki einhamur!

Hér má kjósa í netkosningunni.

Annars er Hrafn í góðu yfirlæti í Trékyllisvíkinni við ysta haf. Þar endar vegurinn. Til hvers að leggja hann lengra?


Elísabet Jökulsdóttir hreppir rauðu hrafnsfjöðrina

hrafnsfjodrinElísabet Jökulsdóttir hefur veitt rauðu hrafnsfjöðrinni viðtöku fyrir athyglisverðustu kynlífslýsingu í bókmenntum liðins árs. Verðlaunin eru veitt árlega af lestrarfélaginu Krumma.  

Í Heilræðum lásasmiðsins lýsir hún sambandi sínu við Algea, mann sem hún kynntist á ferðalagi í New York, og eru upphafsorð bókarinnar: „Ég svaf hjá í Central Park". Kynlífslýsingar Elísabetar þóttu krassandi, erótískar, snjallar og innblásnar af andagift. Hér er ein þeirra lýsinga sem verðlaunin eru veitt fyrir:  

    „Stundum talaði ég og talaði í samförum. Ég þoldi ekki dramatískar þöglar samfarir þarsem allt hvarf inn í þögnina. Ég var veik fyrir röddum. Hann gat fullnægt mér með röddinni. Talaðu við mig og ég kem. Röddin kom úr þessum líkama sem ég þráði að fá inní mig. Mér fannst gott að hann segði eitthvað, bara eitthvað, og allt fór af stað inní mér. Svo reyndi ég að fá hann til að segja eitthvað ljótt eða dónalegt en hann hló að mér. Sagðist ekki vanur að tala í samförum, sagði að samfarir slitu sambandið. Mér fannst að þögnin tæki nándina í burtu, röddin væri hluti af líkamanum, blæbrigðarík og auðug, valdatæki. Ég var ekki síblaðrandi og það var einsog hann lærði að tala, uppgötvaði röddina. En auðvitað var hann að taka frá mér tungumálið einsog karlmenn gera við konur og hafa gert svo lengi, þetta flæði sem getur molað á þeim hausinn og fært okkur það á silfurfati."  

Eftirfarandi rithöfundar voru tilnefndir: Bjarni Bjarnason fyrir Bernharð Núll, Jón Kalman Stefánsson fyrir Himnaríki og helvíti, Valgarður Egilsson fyrir ljóðið Salt myrkur í ljóðabókinni Á mörkum, Vigdís Grímsdóttir fyrir Söguna af Bíbí Ólafsdóttur, Þórunn Erla Valdimarsdóttir fyrir Kalt er annars blóð, Þórbergur Þórðarson / Pétur Gunnarsson fyrir bókina ÞÞ í fátæktarlandi: Þroskasaga Þórbergs Þórðarsonar, Gunnar Randversson fyrir ljóðið Fingur þínir og myrkrið í samnefndri ljóðabók, Halla Gunnarsdóttir fyrir ljóðið Ölstofan í ljóðabókinni Leitin að Fjalla-Eyvindi, Sigurbjörg Þrastardóttir fyrir kynlífslýsingu í bókinni Blysfarir, Gils N. Eggerz fyrir Biblíu gáfaða fólksins, Þorgrímur Þráinsson fyrir bókina Hvernig gerirðu konuna þína hamingjusama og Valur Gunnarsson fyrir Konung norðursins.  

Rauða hrafnsfjöðrin fyrir athyglisverðustu kynlífslýsinguna var fyrst veitt árið 2007 og veitti Eiríkur Örn Norðdahl henni viðtöku fyrsta árið.  

Á meðfylgjandi mynd afhendir Lárus Blöndal, stjórnarmaður lestrarfélagsins Krumma, Elísabetu rauðu hrafnsfjöðrina og hjá þeim stendur Pétur Blöndal, forseti félagsins.  


Biblían og Þorgrímur fá rauðar tilnefningar

Þá er komið að síðustu tilnefningum til rauðu hrafnsfjaðrarinnar fyrir athyglisverðustu kynlífslýsingu í bókmenntum liðins árs.

Í Biblíu gáfaða fólksins eftir Gils N. Eggerz er svofelldur kafli:

Og nú er komið að áframhaldandi umræðu um G-blett karlmannsins. Eins  og áður sagði hef ég þróað með mér sterkt bókarkápublæti, en þó dugar kápan og hennar áferð ekki ein og sér, til að framkalla fullnægingu, nema um mjög sérstaka kápu sé að ræða. Eftir að hafa gælt við kápuna í dágóða stund, með báðum höndum, fær hægri höndin nýtt hlutverk. Ég legg vísifingur og löngutöng þeirrar hægri (ég er rétthentur), á spöngina milli endaþarmsops og pungs, og þrýsti þéttingsfast upp og í átt að endaþarmi. Þar með er G-blettur endaþarmsins örvaður hratt og örugglega, úr óvæntri átt, án nokkurs ógeðs frá líkamanum, og engin þörf er á slímugum reðurstrokum; sáðlát er í algeru lágmarki. Reynið heima í stofu! (Gildir vitaskuld ekki um konur, börn og gamalmenni, en þó er alveg tilvalið fyrir hvernig Gáfumenni sem er, að prófa eitthvað í þessum dúr.)

Þorgrímur Þráinsson kemur einnig inn á kynlífið í bókinni Hvernig gerirðu konuna þína hamingjusama:

Ein besta leiðin til að rjúfa þagnarmúrinn er einmitt að notfæra sér nútímatæknina, senda sms eða tölvupóst. Á þann hátt getur þú spurt spurninga sem hafa brunnið á þér. Og notað þau orð sem þú hefur ekki kunnað við að nota munnlega. Þú getur komið á óvart, daðrað, borið fram óskir og svo mætti lengi telja. Þessi möguleiki getur opnað flóðgáttir og skilað sér í fjölbreyttara kynlífi og innilegri samskiptum. Og svo þegar hvílubrögðin eru hafin er örvandi að segja að konan þín sé með fallega píku og það sé gaman að ríða henni.


Líkaminn og astrallíkaminn

Konungur norðursins nefnist skáldsaga Vals Gunnarssonar, sem tilnefnd er af félaga krumma, Berki Gunnarssyni, til rauðu hrafnsfjaðrarinnar.

Þetta er ævintýrasaga af norðurslóðum og aðalsöguhetjan Ilkka Hamalainen, sem vinnur við ræstingar í farþegaferjum í Helsinki.

Ilkka er ekki beint líkleg söguhetja í erótískum ástarsögum. Þó ekki væri nema nafnið. Enda er þetta ekki erótísk ástarsaga og kynlífssenan alveg laus við erótík - en athyglisverð fyrir því!

Skrokkurinn nam staðar. Það var eins og hann skynjaði tilvist þess sem stóð fyrir framan. Hann hnusaði út í loftið og horfði síðan beint á Ilkka. Það fór ekki á milli mála að sljó augun námu það sem þau sáu.

Ilkka ákvað að notfæra sér hik andstæðingsins og gerði áhlaup. Ef til vill væri hægt að þvinga sér beint inn í hann. En líkaminn greip um astralhendur hans og hélt honum föstum. Andi Ilkka reyndi að rífa sig lausan, en líkaminn var honum yfirsterkari og þvingaði hann niður. Hann hafði sig allan við en fyrst gaf annar fóturinn eftir og svo hinn. Andinn kraup fyrir afli líkamans.

En líkaminn lét sér ekki nægja táknrænan sigur. Hann sneri Ilkka við og þrýsti honum upp að vegg, hélt honum föstum með annarri hendinni og girti niður um sig með hinni.
Það er til vitnis um guðlega gamansemi og ef til vill staðfesting á því að einhvers staðar var enn til sá prakkaraguð sem hló að mannkyninu fyrir að vera eins og hann hafði skapað það, að reðurstærð Ilkka var langt yfir meðallagi. En það að tengja slíkan reður við andlit eins og hans hafði fært eiganda beggja lítið annað en krampa í hendurnar.

Ilkka hafði lengi þurft að sætta sig við það að njóta ásta með sjálfum sér. En það samband var nú að þróast yfir á annað stig og líkaminn tók andann í afturendann. Ilkka brá illilega. Hvernig stóð á því að astrallíkami hans, sem annars gat ekkert snert, fann fyrir líkamanum? 


"Við vorum falleg í rúminu"

"Ég svaf hjá í Central Park" eru upphafsorð bókarinnar Heilræði lásasmiðsins.

Tilnefning barst krummum frá Kolfinnu Baldvinsdóttur og víst verðskuldar Elísabet Jökulsdóttir að vera tilnefnd til rauðu hrafnsfjaðrarinnar fyrir athyglisverðustu kynlífslýsingu í bókmenntum liðins árs.

Í bókinni segir Elísabet frá sambandi sínu við Algea, mann sem hún kynntist á ferðalagi í New York. Víða má grípa niður í bókinni, en tvö kaflabrot verða að nægja hér. Fyrst þetta:

Við vorum falleg í rúminu, hann svartur og ég hvít. Samt hugsaði ég ekki um að hann væri svartur. Hann var maður sem mig langaði  að elska. Og langaði tilað elskaði mig. Það var fallegt að við vorum ekki eins á litinn en ég hélt því fyrir mig. Hann var svo viðkvæmur fyrir því að vera svartur og það var ég auðvitað líka, en kannski var ég viðkvæm fyrir því að vera hvít. Ég hugsaði stundum: Skyldi hann ekki langa í svarta konu.

Mér fannst við passa vel saman en vildi ekki segja það. Hann hefði talið að ég vildi gera okkur falleg saman því við vorum hvít og svört. Blanda einhverju saman sem blandaðist ekki. Ég fann að hann elskaði mig og var undrandi. En yfirlýsing hans: Svartir menn kyssa aldrei píkuna á konunum sínum, hljómaði einsog byrjunarsetning í aðskilnaðarbæklingi. Ég var viss um að hann meinti: Svartir menn kysa aldrei píkuna á hvítum konum. Þetta var svo fáránlegt að ég meikaði ekki að tala um það. Hann var veikur fyrir að láta sjúga typpið á sér, þótt ég gerði það meira fyrir sjálfa mig. En sagði mér í óspurðum fréttum að sæðið væri gott fyrir húðina.  

Svo þetta:

Stundum talaði ég og talaði í samförum. Ég þoldi ekki dramatískar þöglar samfarir þarsem allt hvarf inn í þögnina. Ég var veik fyrir röddum. Hann gat fullnægt mér með röddinni. Talaðu við mig og ég kem. Röddin kom úr þessum líkama sem ég þráði að fá inní mig. Mér fannst gott að hann segði eitthvað, bara eitthvað, og allt fór af stað inní mér. Svo reyndi ég að fá hann til að segja eitthvað ljótt eða dónalegt en hann hló að mér. Sagðist ekki vanur að tala í samförum, sagði að samfarir slitu sambandið. Mér fannst að þögnin tæki nándina í burtu, röddin væri hluti af líkamanum, blæbrigðarík og auðug, valdatæki. Ég var ekki síblaðrandi og það var einsog hann lærði að tala, uppgötvaði röddina. En auðvitað var hann að taka frá mér tungumálið einsog karlmenn gera við konur og hafa gert svo lengi, þetta flæði sem getur molað á þeim hausinn og fært okkur það á silfurfati.


Helgibók fyndninnar

Mikill munaður er það fyrir íslenska þjóð að eiga nokkurskonar helgibók fyndninnar, bækur sem hafa að geyma alla skráða íslenska fyndni fyrr og síðar. 

Ef mönnum dettur eitthvað í hug, sem þeir halda að sé fyndið, er vissara að fletta því upp í Íslenskri fyndni áður en það er sagt upphátt.

Þar sem Íslendingar eru heiðingjar upp til hópa, og fara með brandara um náungann í stað bæna, má segja að þetta séu í raun trúarrit þjóðarinnar.

Svo nefnt sé dæmi, þá er það alveg óborganlegt að Guðjón bóndi var að flá kú. Hún var föst í skinninu og húðin þykk, enda sóttist verkið seint. Loks andvarpar Guðjón: "Að menn skuli geta kallað þetta skinnlausar skepnur".

Svona brandara heyrir maður ekki lengur. Heimur versnandi fer. Nú eiga Íslendingar hvorki trú né fyndni.


Staða Villa og Huddersfield

Davíð Oddsson var hnyttinn sem endranær á blaðamannafundi um stýrivexti Seðlabankans, þar sem hann var spurður "sem fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins" hvað honum fyndist "um stöðu Villa".

Hann svaraði að bragði: "Hvað finnst þér um stöðu Huddersfield?"

Þetta vakti nokkra athygli og kátínu margra. Eitt vantaði þó á að brandarinn skilaði sér alveg. Það kom nefnilega ekki fram í fréttaflutningi fjölmiðla að spurt var um "stöðu Villa" á fundinum.

Orðaleikurinn felst í því að spurningin gæti eins átt við um Aston Villa eins og Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson.

Annars er staða Huddersfield ekki öfundsverð. Félagið er um miðja fyrstu deild, sem er í raun þriðja deildin í enska boltanum. Og það má muna fífil sinn fegurri, en það varð fyrst enskra liða til þess að vinna meistaratitilinn þrjú ár í röð, frá 1923-1926.


Karl, kona, viskí og klósett

Enn bætast við tilnefningar til rauðu hrafnsfjaðrarinnar.  

Að þessu sinni er það félagi krummi, Bjarni Bjarnason, sem fer á háskalegar slóðir í skáldsögunni Bernharður Núll. Krummar þekkja það frá kynningunni á Skólavörðustígnum. 

Gripið er niður í söguna þar sem sögumaður gægist yfir millivegginn á klósettinu og fylgist með því sem fram fer "í skærri skuggalausri halogenbirtunni":  

Drykkur hans er myrkar hugsanir um mig og hann virtist vera í þannig vímu þegar hann fór höndum um Súsönnu. Hún hallaði sér yfir klósettið, studdi sig með appelsínuhöndunum við vegginn og klóraði í flagnaða málningu með svartmáluðum misuppnöguðum nöglunum. Bleikur kjóllinn með brunagötunum eftir sígarettuglóðir var einn vöndull um hana miðja, gallabuxurnar á hælunum. Bernharður strauk annarri hendi um mittið, með hinni hélt hann um fleytifullt viskíglas sem sullaðist úr reglulega. Hún leit um öxl og lét hann rétta sér glasið, tæmdi það og saug klaka milli þess að hún hélt aftur af sér. Til að klæa sig strauk hún glasinu við andlitið. Það var eins og hún væri að missa tökin á öllum tilfinningum samtímis og öskra. Þær voru töfrandi efnaferli sem ávallt hafði runnið sitt skeið á enda með vissum hætti og mundi bera það enn á ný. Sjálkrafa hreyfingar náttúrunnar dásvæfðu mig. Bernharður herti tökin þannig að reiðin, einmanaleikinn og biturðin streymdu inn í hana og liðu út um hálfopnar varir sem bleikar leiðurblökulagaðar stundur. Allt í einu missti hún tök á tilfinningum sínum, og hans, heyrðist mér á öskrinu, og um leið kastaði hún af sér vatni eins og þetta væri einhverskonar trúarleg athöfn, skírn eða önnur gerð djöflahreinsunar.  


Hamingjan í svörtu skammdeginu

Bókin Geography of Bliss eftir Eric Weiner er forvitnileg lesning um Íslendinga, þjóðina sem mælist í sumum könnunum sú hamingjuríkasta í heiminum, samkvæmt gagnabanka hamingjunnar í Hollandi.

Weiner leitaði skýringa með því að ferðast til Íslands í svartasta skammdeginu. Hér eru nokkur atriði sem hann hjó eftir:

I'm beginning to get into this darkness thing. I'm not yet embracing it, but we're edging closer, darkness and me. Cold has its virtues. Without cold, there would be no coziness.

...

On a practical level, Icealnd's smallness means that parents needn't bother with that old bromide about not talking to strangers. There are no strangers in Iceland.   

...

Something about the smoke-filled bar, or perhaps the vodka-infused cough drop, gets me thinking about Nietzsche. Usually, Nietzsche gives me a headache. But one thing he said keeps bubbling up to my consciousness, like a geothermal spring. The measure of a society, he said, is how well it transforms pain and suffering into something worthwile. Not how a society avoids pain and suffering - for Nietzsche, a deeply troubled man himself (he went insane in his latter years), knew that was impossible - but how it transforms it. The Icelanders have done a good job of not only surviving on this odd moonscape but also transforming their suffering into something worthwhile. Happy, even.  

... 

If it is possible for language, mere words, to nurture happiness, to tickle the creative soul of an entire people, then surely that language is Icelandic.

... 

Her name is Eva, and she is drunk.

... 

In Iceland, being a writer is pretty much the best thing you can be. Successful, struggling, published in books or only in your mind, it matters not. Icelanders adore their writers. Partly, this represents a kind of narcissism, since just about everyone in Iceland is a writer or a poet.

... 

Faced with a brutal climate and utter isolation, Icelanders could have easily chosen despair and drunkenness. The Russian option. But instead these hardy sons and daughters of Vikings peered into the unyielding blackness of the noon sky and chose another option: happiness and drunkenness. It is, I think, the wiser option. Besides, what else is there to do in the dark?


Rímorð þung af forneskju

Jón Kalman Stefánsson sendi frá sér skáldsögu fyrir jólin. 

Fyrir vikið er hann auðvitað tilnefndur til rauðu hrafnsfjaðrarinnar - annað væri óhugsandi! Það vita krummar að Jón Kalman rís undir því. Meira að segja í flokki athyglisverðustu kynlífslýsinga, sem er nú ekki á allra færi.

Þetta er maðurinn sem skapaði Himnaríki og helvíti. Og allt þar á milli.

Gripið er niður í sjóferðalýsingu í bókinni:

Pétri funhitnar og hann rær sér taktfast á þóftunni, slær höndum öðru hverju á lærin þegar rímorðin verða svo þung að það er erfitt fyrir mannslíkamann að ráða við þau, því líkami mannsins er viðkvæmur, hann þolir ekki að fá stórt grjót á sig, þolir ekki snjóflóð, nístandi kuldann, þolir ekki einsemdina, hann þolir ekki rímorð þung af forneskju, gegnsýrð af girnd, og þessvegna slær Pétur á lærin, til að koma orðunum frá sér, og mennirnir fimm kippast við, allir á valdi þessa frumstæða afls sem streymir frá formanni þeirra. Augu Einars uppglennt af svartri hamingju, Gvendur andar opnum munni, Árni lítur ekki af Pétri, Bárður með hálflokuð augu, hlustar ekki á orðin heldur hljóminn í þeim, hljóminn í röddinni og hugsar, fjandinn sjálfur, hvaðan kemur skarfinum þessi kraftur! Strákurinn sveiflast á milli hrifningar og andúðar, hann starir á fimmtugan manninn moka upp úr sér klámvísum, hvað er Pétur nema gamall kall og hvað eru þessar vísur nema ruddaskapur? En í næstu andrá breytist Pétur aftur í eitthvað fornt og hljómur orðanna rífur í strákinn. Hann bölvar sjálfum sér, bölvar Pétri, hann situr þarna innan um fimm menn í bátskænu á Íshafinu, með frostið allt í kring, og sveiflast á milli hrifningar og andúðar. Pétur hefur tekið sjóhattinn ofan, hann hefur svitnað, lagt annan vettlinginn frá sér, stór höndin virðist kreppast utan um sum orðanna, hann starir einbeittur fram fyrir sig og reynir að hugsa ekki um Andreu, vertu lengur, biður hún stundum í krónni, uppi á saltfiskstæðunni sem fer hækkandi, verður bráðum svo há að hann getur ekki lengur staðið á meðan, farðu hægt, segir hún, þetta er gott, og hún færir fæturna meira í sundur, bæði til að njóta hans, til að finna betur fyrir honum, en líka svo hann meiði hana ekki, en hitinn í orðum hennar og fæturnir sem fara betur í sundur verður of mikið, það springur allt innan í Pétri, hann kippist við og bítur saman jöxlum en Andrea lítur ósjálfrátt til hliðar, eins og til að fela vonbrigðin, jafnvel depurðina, sem kemur fram í svip hennar, síðan er þögn í krónni og Andrea forðast að líta á mann sinn. Og mitt í unaði vísnakraftsins leitar þetta augnablik Pétur uppi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband