Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Íslensk hetja

Maður sem ég hef lengi dáðst að er fallinn frá. Ekki þekkti ég hann, nema ef hægt er að segja að maður þekki fólk í gegn um matinn sem það eldar ofan í mann. Hann allavega vissi ekki af aðdáun minni, né hver ég er.

Maðurinn hét Ari Huynh og var í hópi fyrstu víetnömsku flóttamannanna sem hingað komu árið 1979 eftir skelfilega lífsreynslu í heimalandi sínu og í Malasíu.

Án þess að ég þekki sögu hans í þaula þá geri ég ráð fyrir að Ari hafi barist gegn Hanoistjórninni, þar sem hann fæddist í Saigon. Í kjölfar hins mikla Víetnam-stríðs tók við mikið niðurlægingartímabil fyrir Suður Víetnama. Meðal þess sem Hanoistjórnin gerði var að gjaldfella gjaldmiðiðl suðursins fimmhundruðfallt miðað við gjaldmiðil norðursins og úr norðri streymdi fólk sem tók öll völd í suðrinu.

Fljótlega hófust svo átök milli Víetnam og Kína sem höfðu í för með sér ofsóknir gagnvart kínverskumælandi minnihlutanum í Víetnam, sem Ari tilheyrði. Þá gerði Ari og eiginkona hans það sem hetjur gera þegar öll sund virðast lokuð. Þau stungu af. Fóru í lífshættulegan leiðangur með börnin sín til Malasíu í leit að betri lífsskilyrðum.

Eftir nokkra pressu frá alþjóðasamfélaginu var það svo litla Ísland sem opnaði dyrnar fyrir Ara og fjölskyldu. Ekki var það andskotalaust ef ég man rétt. Miklar úrtöluraddir um flóttamannastraum og innflytjendavandamál, ef ég man umræðuna í samfélaginu á mínu tíunda aldursári rétt.

Það sem Ari og fjölskylda gerðu svo hingað komin var að finna sér fótfestu í nýju samfélagi. Ari hefur þá verið 33 ára. Hann starfaði sem matreiðslumaður á Hótel Sögu og víðar. Það tók hann sjö ár að opna veitingastaðinn Indókína í Kringlunni, þar sem hann og fjölskylda hans eldaði saigon- rækjur og ýmsa aðra frábæra rétti fyrir gesti verslunarmiðstöðvarinnar. Það var ekki fyrr en síðar sem ég fattaði hvað nafnið á veitingastaðnum hlýtur að hafa eigendurna miklu máli.

Fólk eins og Ari Huynh ætti að vera okkur öllum leiðarljós. Hetjudáðir á borð við þá sem hann drýgði er hann flýði Víetnam með fjölskyldu sína eru gjarnan vanmetnar. Hvað myndum við sjálf gera í sömu stöðu?


Vatn (e. water) úr landi

Ágæt úttekt í miðopnu Viðskiptablaðsins í dag um möguleika vatnsútflutnings héðan. Sú grein gefur þó ekki bara gott yfirlit yfir það hverjir hyggjast flytja út íslenskt lindarvatn og hvaðan heldur sýnir hún okkur sem ekkert vit höfum á viðskiptum hve íslenskt mál er orðið torskilið þeim sem standa í slíkri þjóðþrifastarfsemi.

Blaðið sér nefnilega þörf á því að setja inn skýringarorð á ensku fyrir þá sem ekki skilja íslensku almennilega, eða í það minnsta ekki nógu almennilega til að geta lesið sjö dálka grein í dagblaði hjálparlaust. Það á ekki bara við um orð og orðasambönd sem venjulegir Íslendingar skilja trauðla, eins og "kostgæfnisathugun (e. due dilligence)" og "20 til 40 feta vatnsgámum (e. small scale bulk water)", heldur líka orð og orðsambönd eins og "gæðavatn (e. premium)" (tvítekið í greininni, með skýringu í bæði skipti), "lindum (e. spring)", "hreinsuðu (e. purified)", "leyfi (e. certificate)", "snúist um smáaura (e. business of pennies - not dollars)".

Haldi einhver að verið sé að vísa til alþekktra hugtaka í viðskiptum má benda á að sé leitað (e. search) að orðasambandinu "business of pennies - not dollars" finnst ein niðurstaða (e. result) á Google. Þrjú dæmi (e. examples) fundust um "small scale bulk water". Eitt kanadískt (e. Canadian) og tvö íslensk, bæði frá Icelandia, einu fyrirtækjanna sem hyggjast flytja íslenskt vatn (e. water) úr landi.


Nýja íhaldið og Pétur Gunnarsson

1566632285.01._AA240_SCLZZZZZZZ_ Pétur Gunnarsson blaðamaður skilgreinir „krummana" sem „ný-íhaldsmenn" í nýlegri færslu á vef sínum og skírskotar væntanlega með því til „neo-conservatism".

Ég verð að segja að það gætir misskilnings hjá Pétri Gunnarssyni í þessum orðum, nokkurrar ósvífni og töluverðs ímyndunarafls. 

Svo fyrst sé vikið að misskilningnum, þá er Hrafnaspark ópólitískur vefur og þar krúnkar hver út frá sinni sannfæringu. Krummar tala ekki út frá pólitískri stefnuskrá og gætu aldrei komið sér saman um slíkt plagg.

Þetta er lestrarfélag!

Ósvífnin felst í því að eyrnamerkja Hrafnasparkið „nýja íhaldinu". Stundum er komið inn á pólitík í pistlum á Hrafnasparki, en oftast nær krúnka menn um allt annað, svo sem skáldskap, læknavísindi, fjölskylduna og jafnvel fótbolta. Það er leitun að pólitískum færslum á vefnum, hvað þá flokkspólitískum eða færslum til hægri eða vinstri, og fæstir félagsmanna tjá sig um pólitík á opinberum vettvangi.

Þá sjaldan pólitík ber á góma eru tekin fyrir málefni, oft í tengslum við sérsvið manna, og þarf töluvert ímyndunarafl til að lesa pólitískt mynstur úr því. Þannig hafa tveir menn tjáð sig um Írak, sem báðir hafa starfað í Bagdad. Einn hefur tjáð sig um Kristjaníu og býr sá hinn sami í Kaupmannahöfn. Tveir hafa tjáð sig um Byrgið án þess að flokkadráttum sé á nokkurn hátt blandað inn í það. Einn hefur öðrum fremur gagnrýnt fjölmiðla og vinnur hann á fjölmiðli. Einn hefur gagnrýnt Valgerði Sverrisdóttur og annar Hannes Hólmstein Gissurarson!

Þar með er það upptalið. Það mætti telja til mun fleiri færslur um bókmenntir og listir, sem er í raun það sem sameinar krumma. Enginn vegur er að koma þessu heim og saman við „neo-conservatism", sem Irving Kristol, „stofnandi og guðfaðir" hreyfingarinnar samkvæmt Wikipedia, lýsir þannig:

1. Economics: Cutting tax rates in order to stimulate steady, wide-spread economic growth and acceptance of the necessity of the risks inherent in that growth, such as budget deficits, as well as the potential benefits, such as budget surpluses.

2. Domestic Affairs: Preferring strong government but not intrusive government, slight acceptance of the welfare state, adherence to social conservatism, and disapproval of counterculture.

3. Foreign Policy: Patriotism is a necessity, world governement is a terrible idea, the ability to distinguish friend from foe, protecting national interest both at home and abroad, and the necessity of a strong military.

Ef Pétur Gunnarsson blaðamaður getur fundið þessum skoðunum stað á Hrafnasparki þætti mér bæði forvitnilegt og skemmtilegt að lesa þann pistil. En það er auðvitað ómögulegt að heimfæra slíka stílæfingu upp á „krummana" sem eru eins ólíkir að upplagi og þeir eru margir.


Árásarmynd gegn Hillary Clinton í undirbúningi

Þó að það sé stutt frá síðustu þingkosningum í Bandaríkjunum þá er pólitíkin komin á fulla ferð aftur. Þó nokkrir eru búnir að gefa sig fram og segjast sækjast eftir því að verða frambjóðendur sinna flokka til forseta þegar gengið verður að kjörborðinu í nóvember 2008. Þetta þykir nokkuð snemmt og fór t.d. Bill Clinton ekki af stað fyrr en í október 1991, þremur mánuðum fyrir fyrsta forval í demókrataflokknum, vegna kosninganna 1992 og Bush, núverandi forseti, hóf formlega baráttu ekki fyrr en í júní 1999 vegna kosninganna í nóvember 2000.  

frambjóðendurÞað að fara snemma af stað hefur bæði kosti og galla. Með því að fara snemma af stað gefst frambjóðendum lengri tími til þess að kynna sig og sín málefni, en um leið þá gefst andstæðingunum líka lengri tími til þess að koma höggi á þá. Það kostar líka óhemju peninga að bjóða sig fram og það er dýrt að halda úti langri kosningabaráttu. En um leið, þá getur frambjóðandinn ekki hafið formlega söfnun fyrr en hann er búinn að bjóða sig fram. En það er ekki nóg að safna peningum, það þarf líka að nota þá og hefur Kerry verið gagnrýndur fyrir það að eiga fullt eftir af sínum kosningasjóði þegar að hann tapaði fyrir Bush.

Af þeim sem eru komnir fram hjá demókrötum fær Hillary Rodham Clinton  og Barack Obama einna mesta athygli. Andstæðingar eru byrjaðir að sækja þéttar að Barack Obamaen það er þó Hillary Rodham Clinton sem mun fá yfir sig mestu gusuna. Nú hefur t.d. fyrrum ráðgjafi þeirra hjóna, Dick Morris, hafið söfnun á fé til þess að útbúa heimildarmynd þar sem ráðist verður að Hillary. Dick Morris hefur sent út bréf þar sem hann biður um fjárstuðning og segir eitthvað á þá leið: "ef þér líkaði hvernig Swift Boat Veterans snéru kosningabaráttu Kerrys, ímyndaðu þér þá hvernig að fyrrum ráðgjafi Clintons getur komið höggi á baráttu hennar fyrir forsetaembættinu". Það er því allveg ljóst að hasarinn er að byrja fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum.

Andrúmsloft leyndarhyggju eða hvað?

Er þetta ekki frekar ódýrt lýðskrum hjá Valgerði utanríkisráðherra að slá um sig með yfirlýsingum um að  hún vilji ekki viðhalda andrúmslofti leyndarhyggju? Í gær aflétti hún leynd af viðaukum við varnarsamninginn við Bandaríkin frá 1951 sem er hið besta mál, en að láta eins og með því sé hún, fyrst ráðherra, að brjótast út úr einhverju andrúmslofti leyndarhyggju er kjánalegt. Þegar hún var spurð að því á Ríkisútvarpinu í gær hvort hún myndi ekki aflétta leynd af núverandi varnarsamningi við Bandaríkin sagði hún eitthvað á þá leið að í samningnum væru svo vandmeðfarnar upplýsingar um varnir landsins að það væri nauðsynlegt að halda þeim leyndum. En samt vill hún ekki viðhalda andrúmslofti leyndarhyggju!

Ætli það sé ekki þannig að á hverjum tíma þá séu einhverjar upplýsingar, eða samningar, sem að ríkið gerir sem nauðsynlegt sé að ákveðin leynd hvíli á eða trúnaður ríki um. Það er síðan nauðsynlegt að það séu skýrar reglur um það hvað séu trúnaðargögn og hversu lengi leyndin eigi að hvíla, þannig að blaðamenn og fræðimenn viti hvenær þeir geti komst í viðkomandi gögn.


Byrginu lokað en ekki bjargarveginum!

Það hefur verið hryggilegt að fylgjast með þróun mála hjá aðstandendum Byrgisins og virðist ljóst af skýrslu Ríkisendurskoðunar að staðið hefur verið að rekstrinum með óviðunandi hætti. Í framhaldi af því hefur verið tilkynnt að loka eigi Byrginu. Það er afleitt þegar þannig fer um framtak sem fer vel af stað og eflaust í góðum ásetningi, ekki síst þegar það bitnar á þeim sem síst skyldi.

Það má ekki horfa framhjá því að Byrgið hefur sinnt vel ákveðnum einstaklingum, sem hafa fengið þar stuðning og nauðsynlegt haldreipi í lífinu. Sumir þeirra hafa jafnvel verið komnir á afar háskalegar brautir, svo samfélaginu hefur staðið ógn af, en síðan hefur rofað til hjá þeim og þeir fundið lífi sínu nýjan farveg.

Nú er það mikilvægasta úrlausnarefnið að tryggja að áfram verði úrræði fyrir þá skjólstæðinga sem eiga um sárt að binda eftir að Byrgið lokar; það þarf að gerast skjótt og örugglega því það er hópur sem ekki þolir mikla óvissu. Hún er víst næg fyrir.   


mbl.is Styrkjum til Byrgisins hætt og málinu vísað til saksóknara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af íhaldssömum og frjálslyndum rangfærslum fjölmiðla

Media Matters to America, sem Börkur fjallaði um í Fjölmiðlapistli fyrr í dag, heldur úti athyglisverðum vef, mediamatters.org, þar sem fréttaflutningur (eða á að kalla það áróður?) er vægt til orða tekið afar einhliða. Þar er til dæmis hneykslast á því að Rudolph Giuliani, fyrrverandi borgarstjóri New York, fái að njóta skörungskapar síns eftir hryðjuverkin í New York 11. september, en í kjölfarið var hann kallaður „borgarstjóri Ameríku" af Oprah Winfrey og á það sammerkt með öllum bloggurum heimsins að hafa verið valinn maður ársins af Time, en var reyndar einn um það árið 2001. Rudy_Giuliani

En nei, fjölmiðlar eiga að þjarma að Giuliani vegna 146 síðna skýrslu úr hans eigin herbúðum, sem á dularfullan hátt komst í hendur fjölmiðla, en þar er gerð úttekt á möguleikum hans í forkosningum repúblikana vegna forsetakosninganna árið 2008. 

Og hvað var svona slæmt sem sérfræðingar Giulianis fundu um hann sjálfan? Það hlýtur að vera hrikalegt fyrst farið er fram á allsherjar endurskoðun á viðhorfum Bandaríkjamanna til Giulianis af fjölmiðlavakt sem berst gegn íhaldinu með því að leita í „print, broadcast, cable, radio, and Internet media outlets for conservative misinformation - news or commentary that is not accurate, reliable, or credible and that forwards the conservative agenda - every day, in real time."

Sú hin sama Fjölmiðlavakt horfir þá framhjá öðrum „frjálslyndari" rangfærslum í fjölmiðlum.

New York Daily News birti brot úr skýrslunni, sem aðstoðarfólk Giulianis segir að hafi verið stolið, og þar stendur:  

On the same page is a list of the candidate's central problems in bullet-point form: his private sector business; disgraced former aide [former New York City Police Commissioner] Bernard Kerik; his third wife, Judith Nathan Giuliani; "social issues," on which ... he is more liberal than most Republicans, and his former wife [and former New York City television news anchor] Donna Hanover.

The concerns appear to be listed as issues for Giuliani law partner Pat Oxford to address and are followed by the central question of the campaign:

Are there "prob[lem]s that are insurmount[able]?" it asks, adding, "Has anyone reviewed with RWG?" Giuliani, whose middle name is William, is referred to throughout the document by his initials.

"All will come out -- in worst light," the memo continues. "$100 million against us on this stuff."

Þannig teflir fjölmiðlavakt frjálslyndra Bandaríkjamanna, sem telur sig þurfa að vinna gegn íhaldsöflunum í landinu, því fram gegn Guiliani að hann sé frjálslyndari en Repúblikanaflokkurinn! Og það er þá svona líka skelfilegt að fjölmiðlar vestra eiga að birta illa fengin gögn um hann. Eitthvað öfugsnúið við það að stofnunin beiti sér gegn frjálslyndum öflum innan Repúblikanaflokksins.

Ég hef reyndar verið þeirrar skoðunar að nær ómögulegt sé að réttlæta að fjölmiðlar birti stolin gögn, og þá allra síst þau sem er lekið í þeim tilgangi að klekkja á keppinauti, hvort sem það er í viðskiptum eða stjórnmálum. Og það kemur ánægjulega á óvart að fjölmiðlar vestra hafa þráast við að birta nokkuð um hina illa fengnu skýrslu.

Ekkert úr þessari skýrslu er svo sem nýtt af nálinni, annað en að gögnin hafa verið tekin saman í einn pakka. Jú, Giuliani einsetur sér að safna 100 milljónum dollara í kosningasjóð á þessu ári. Það gerir hann varla að þorpara. Í raun er ágætt fyrir Giuliani að fá óþægileg mál í umræðuna núna. Þau skaðar hann þá síður þegar nær dregur kosningum.

Vitaskuld er það rétt hjá Ólafi Teiti, eins og Börkur bendir á, að Heiða hefði átt að tilgreina hverskonar vefur Media Matters to America er, en að sama skapi réttlætir það ekki ummælin sem höfð eru eftir hinum ýmsu „hægriöfgamönnum" í umfjöllun hennar. Þau verða að skoðast sjálfstætt, þó að erfitt sé því að treysta að þau hafi ekki verið rifin úr samhengi. Það kemur hinsvegar ekki á óvart að ummælum öfgamanna til vinstri hafi verið sleppt. Þannig stofnun er Media Matters to America.


Skáldið, Framsókn og græni liturinn

benediktssonHalldór Ásgrímsson fór með kvæði eftir Einar Benediktsson skáld í báðum áramótaávörpum sínum, eins og fram kom í síðustu færslu, og þannig hafa forsætisráðherrar valið sér skáld í gegnum tíðina, – tekið ástfóstri við þau. Eins er það með litina, stjórnmálaflokkar hafa eignað sér ákveðna liti, græni liturinn stendur til dæmis fyrir Framsóknarflokkinn. En þá vaknar spurning hvort ekki þurfi að gæta samræmis þar á milli, – hvað skyldi Einari hafa fundist um græna litinn? 

Í bókinni Satt & ýkt eftir Gunnar M. Magnús er sagt frá hjátrú Einars Benediktssonar og haft eftir frú Valgerði Benediktsdóttur:

Hann hafði og sérstaka ótrú á vissum hlutum.

Svo var til dæmis um það, að hann mátti ekki sjá neitt með grænum lit á heimili sínu, hvorki flík né húsmuni, og mátti aldrei af því bregða.

Svo stóð á, að Indriði Einarsson rithöfundur, sem var frændi Einars, hafði einhvern tíma minnt hann á það, að enginn af Reynistaðaættinni mætti vera klæddur fötum með grænum lit, það væri óheillamerki. 

Séra Árni Þórarinsson hafði sömu sögu að segja af Einari:

– Einar hafði mikið yndi af dularfullum sögum, en var ekki margfróður á þau efni. – Hann var líka það, sem almennt er kallað að vera hjátrúaður.

Það var um hann sagt til dæmis, að hann hefði aldrei þorað að ganga í grænum fötum vegna þess, að við því hefði legið bann í ættinni, síðan Bjarni Reynistaðabróðir varð úti grænklæddur á Kili.

Loks má geta sögu Indriða Einarssonar, sem sagði að hann hefði eitt sinn hitt Einar á götu í nýjum fötum grænum.

– Heyrðu, frændi, kvaðst Indriði hafa sagt, þú ert kominn í græn föt.

– Nei, hver andskotinn, svarar Einar og flýtti sér heim, fleygði þar af sér fötunum og fór aldrei í þau oftar.

Það skýtur því skökku við að nú á dögum eru kvæði skáldsins Einars Benediktssonar helst lesin fyrir alþjóð um áramót af mönnum með græn bindi.


Maður ársins ert þú!

manoftheyearEr þetta ekki með því hallærislegasta, maður ársins ert þú. Tímaritið Time hefur valið mann ársins áratugum saman en nokkrum sinnum hafa þeir ákveðið að velja ekki einstakling heldur óræðan hóp; 1966 völdu þeir td. aldurshópinn 25 ára og yngri, 1975 voru það amerískar konur, 1982 völdu þeir tölvuna og 2003 var það ameríski hermaðurinn. En sem sagt í ár gátu ritsjórarnir ekki komið sér saman um neinn einn einstakling sem hefði haft áhrif á milljónir manna með aðgerðum sínum, heldur völdu þeir alla þá sem nota alnetið, hvort sem það eru þeir sem skoða eða þeir sem setja efni út á netið.

Time hefur valið mann ársins (man, woman or idea) síðan 1927 og er skilyrðið að viðkomandi hafi með aðgerðum sínum haft veruleg áhrif á líf fólks eða gang heimsmála, hvort sem það er til góðs eða ills. Til dæmis völdu þeir Adolf Hitler mann ársins árið 1938 og Jósef Stalín árin 1939 og 1942 og eru það dæmi um menn sem höfðu gífurleg áhrif, en ekki til góðs. En þrátt fyrir allt það sem er að gerast í heiminum í ár þá geta ritstjórar Time ekki fundið einn einasta mann sem hefur haft nógu mikil áhrif á líf fólks til þess að verðskulda það að vera maður ársins. Í staðinn velja þeir mig?


143 nauðganir í ár

Svo hljómaði fyrirsögn Blaðsins í dag og í undirfyrirsögn sagði: "Nauðgunum fjölgar en kærum fækkar á milli ára" en þeir sem lesa greinina gera sér grein fyrir því að það setningin er ósönn eða fullyrðing án nokkurra stoða.  Því samkvæmt fréttinni hefur engin rannsókn farið fram um hvort nauðgunum hefur fjölgað eða fækkað.  Það eina sem vitað er, er að fleiri hafa leitað til neyðarmóttöku vegna nauðgana sem er allt eins líklegt eða líklegra að sé tilkomið vegna þess að meiri fjöldi þeirra sem nauðgað er leita sér aðstoðar.  Þarsem í þjóðfélaginu gætir meiri samúðar gagnvart fórnarlömbum slíks ofbeldis, meiri fordæmingar gagnvart ofbeldismönnunum og á undanförnum árum stóraukinnar umræðu og fræðslu um þessi mál þá er eðlilegt að búast við því að aukið hlutfall fórnarlamba finni kjark til að leita sér aðstoðar.  Nú er þetta bara eitt af þúsund dæmum um að fjölmiðlar hér á landi komi þeim bölmóði á framfæri að allt sé að versna þótt ekki sé tilefni til þess.  Það virðist oft einsog í þjóðfélögum þarsem allt er á uppleið og aðstæður fólks verði betri og betri sé tilhneygingin þessi á meðan í öðrum þjóðfélögum sem ég hef dvalið í og allt virðist í heljar höndum ef ekki á hraðri leið þangað sé tilhneygingin öfug - þar sé stöðugt minnst á að uppsveiflan sé í rétta átt, glæpir fari minnkandi og horfi til mikilla framdrátta.  Það er áhugavert hversu öfugsnúið þetta er.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband