Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
1.12.2008 | 12:14
Hvernig endurvinnum við traustið?
TRAUST þjóðar okkar erlendis hefur snarminnkað á undanförnum misserum. Fyrstir til að hætta að treysta Íslandi og Íslendingum voru alþjóðlegir bankar sem starfað hafa með íslenskum fyrirtækjum og stofnunum til margra áratuga. Í kjölfarið hafa fylgt stjórnvöld og almenningur í mörgum mikilvægustu viðskipta- og vinalöndum okkar. Hægt er að útmála ýmsar ástæður fyrir þessum bresti, ytri aðstæður og innri.
Stórt séð er ástæðan fyrir þverrandi trausti einföld, íslenska þjóðin eyddi um efni fram og fór fram af fádæma kappi, græðgi og skorti á auðmýkt. Niðurstaðan varð skuldsetning sem alþjóðlegt fjármálakerfi trúði ekki að verðmætasköpun okkar stæði undir. Hvernig er hægt að treysta okkur ef við treystum ekki hvert öðru? Flest bendir til þess að orðspor þjóðarinnar og traust hennar í viðskiptum sé nú í sögulegu lágmarki meðal viðskipta- og vinaþjóða okkar. Erfitt er að gera þá kröfu til erlendra aðila að þeir treysti okkur ef við treystum ekki hvert öðru. Innanlands ríkir dæmalaust vantraust milli helstu stofnana samfélagsins. Aðeins um 30% almennings treysta stjórnvöldum. Stjórnvöld treysta almenningi ekki nægilega til að halda honum upplýstum um gang mála. Fjölmiðlarnir treysta ekki stjórnvöldum og öfugt. Almenningur treystir ekki fjölmiðlum og á móti óttast fjölmiðlarnir sem aldrei fyrr að missa viðskipti almennings. Viðskiptavinir bankanna treysta ekki bönkunum, sem á móti treysta hvorki viðskiptavinum sínum né eigendum, ríkisvaldinu. Innan við 5% þjóðarinnar treysta enn stjórn Seðlabankans og formaður bankastjórnar Seðlabankans telur augsýnilega að allir aðrir en hann hafi brugðist. Mikið verk er augljóslega framundan við að byggja upp traust á milli stofnana og einstaklinga samfélagsins. Hvernig byggjum við á ný traust í samfélagi okkar?
Litlu skilar að bölsótast út í allt og alla og kenna öðrum um ógæfu vora. Fyrsta skrefið er óhjákvæmilegt uppgjör við fortíðina. Hver og einn verður að líta í eigin barm, átta sig á og gangast við þeim mistökum sem hann hefur gert. Og viðurkenna þau opinskátt. Slíkt uppgjör krefst hugrekkis en er nauðsynlegur grundvöllur uppbyggilegra samskipta sem mun leiða af sér vaxandi traust í samfélaginu. Sem dæmi um þetta má nefna boðskipti stjórnvalda við almenning. Þau fara fyrst að verða trúverðug þegar framkvæmdavaldið hefur játað á sig mistök sem blasir við að gerð hafa verið. Hvað bankana varðar voru mistökin einnig fjölmörg. Ráðgjöf bankanna til viðskiptavina sinna var að mörgu leyti meingölluð og byggð á kostulegu mati á stöðu og horfum krónunnar, svo eitthvað sé nefnt. Áhersla bankanna á að koma sparnaði í peningamarkaðssjóði er einnig ámælisverð. Hvað er svona erfitt við að viðurkenna þessi mistök? Almenningur í landinu verður einnig að taka til sín það sem hann á. Óhófleg eyðsla fjármögnuð með lánsfé og lítill eða enginn sparnaður í góðæri eru alvarleg mistök í persónulegum fjármálum. Auðvitað á það ekki við um alla, en stór hluti almennings tók þátt í góðærisruglinu af kappi.
Framundan er tímabil þar sem hroki, yfirlæti og dramb verður að víkja fyrir auðmýkt og raunsæi í samskiptum Íslendinga innbyrðis og við aðrar þjóðir. Þá verður lögleysa að víkja fyrir virðingu gagnvart réttarríkinu. Það má ekki gerast að þeir sem gerst hafa sekir um lögbrot, hvort sem það eru auðgunarbrot eða brot gegn valdstjórninni komist upp með það. Það er trú mín að því fyrr sem stjórnvöld ganga á undan með góðu fordæmi og fara að auðsýna auðmýkt, játa mistök sín og varða leiðina að lausnum fyrir fyrirtækin og fólkið í landinu, því fyrr muni erlendar þjóðir fá á okkur traust á ný. Ríki á ný traust á að stjórnvöld þekki leiðina út úr vandræðunum munu fyrirtækin og fólkið fylgja á eftir. Nýja Ísland mun rísa og raunverulegt góðærisskeið hefjast, byggt á sönnum verðmætum og öðrum gildum en græðgi og hroka.
Karl Pétur Jónsson (Grein sem birtist í Morgunblaðinu 1. desember 2008)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.4.2007 | 23:57
Botnlaus áfergja í niðurlægingu og viðbjóð
Í áhugaverðu Kastljósviðtali Evu Maríu Jónsdóttur við Ágústu Evu Erlendsdóttur fellir sú síðarnefnda Silvíu Nætur-grímuna. Hún lýsir því hvernig fjölmiðlar, innlendir sem erlendir, virtust hafa endalausa lyst á viðbjóði og niðurlægingu Silvíu Nætur.
Silvíu Nætur ævintýrið er einstakt í sinni röð hérlendis og mér liggur við að segja á heimsvísu. Ágústa Eva og félagar unnu mikið þrekvirki. Markmið þeirra var að benda á ýmsa vonda og ógeðslega hluti í samtíma okkar og það tókst þeim. Meðal þessara hluta er hversu langt fjölmiðlar eru frá því að endurspegla veruleikann. Einungis það að skáldaðar persónur á borð við Borat og Silvía Nótt séu án frekari útskýringa viðföng fréttafólks er í rauninni ótrúlegt. Ekki síður að sögur sem augljóslega eru heilaspuni séu á síðum blaðana innan um fréttir sem maður á að taka trúanlegar. Dæmi um þetta eru til dæmis fréttir af fræga fólkinu, sem allt reynt fjölmiðlafólk veit að er að stærstum hluta rakalaus þvættingur. (það væri áhugavert að sjá hvað gerðist ef fréttaflutningur af íþróttum væri með þessum hætti)
Fjölmiðlar hafa fetað ýmsar slóðir í viðleitni sinni til að halda lífi. Þeir blanda saman auglýsingaefni og ritstjórnarefni, þeir gerast málsvarar hagsmunaaðila og þeir birta efni sem er mestan part skáldskapur eins og það væri sannleikur. Þessar slóðir eru helslóðir. Fréttaflutning má ekki menga með bulli. Fólk er ekki fífl. Fólk er skynsamt og mun til lengri tíma hætta að virða fjölmiðla sem þekkja ekki muninn á nytsömum alvöru upplýsingum og bulli.
Pistillinn birtist einnig á hrafnaspark.blog.is
Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.4.2007 kl. 00:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.3.2007 | 13:29
Kvennaátak Samfylkingar
Það er athyglisvert hversu illa Ingibjörgu Sólrúnu gengur að höfða til kvenna eftir að hún varð formaður Samfylkingarinnar. Hún var einn af leiðtogum Kvennalistans, borgarstjóri í Reykjavík og í síðustu kosningum var hún forsætisráðherraefni Samfylkingar og var gert út á sérstöðu hennar sem konu í kosningabaráttunni. Í nýrri könnun sem fjallað er um í Morgunblaðinu kemur í ljós að 44% kvenna sem kusu Samfylkingu síðast myndu ekki kjósa hana ef kosið væri í dag. Skjálfti er kominn í stuðningslið Ingibjargar og gekk t.d. tölvupóstur frá stuðningskonum hennar milli manna fyrr í vetur þar sem kostir hennar voru tíundaðir. Stuðningskonur hafa skrifað greinar í blöð og núna síðast skrifar Kristrún Heimsdóttir stuðningsgrein í nýjasta hefti Krónikunnar.
En hvað veldur því að fylgið hverfur frá Samfylkingunni? Það er engin ein einföld skýring á því, frekar samspil nokkurra þátta. Hér á eftir koma nokkrar hugsanlegar skýringar og er þessi listi enganveginn tæmandi:
1. Samfylkingin er ekki mjög trúverðug þegar kemur að umhverfis- og stóriðjumálum. Þeir sem eru andvígi stóriðju og vilja leggja áherslu á umhverfismál vilja ekki fresta framkvæmdum, þeir vilja fá skýrt NEI líkt og Vinstri grænir bjóða upp á.
2. Evrópu og Evruumræða Samfylkingarinnar er ekki að skila þeim miklu. Í skoðanakönnunum er ekki mikill stuðningur við þau mál og það eina sem Ingibjörg Sólrún gerir er að fæla frá þá sem eru efins um ESB og Evruna.
3. Össur Skarphéðinsson gerir henni og flokknum síðan endalausar skráveifur með bloggi sínu og ummælum í fjölmiðlum. Það er flestum ljóst að hann virðist ljóma þegar fylgi Samfylkingarinnar mælist endurtekið mun minna en þegar hann var formaður.
4. Jón Baldvin Hannibalsson hefur, líkt og Össur, lítið gert til þess að hjálpa Ingibjörgu Sólrúnu. Það er engum formanni gott að hafa fyrrverandi formenn og leiðtoga endalaust gjammandi og með aðfinnslur í fjölmiðlum.
5. Ingibjörg vann góða sigra með R-listanum í Reykjavík en henni hefur ekki tekist að yfirfæra sterka stöðu sína sem leiðtoga R-listans yfir á formensku sýna hjá Samfylkingu. Sennilega spilar þar inn í hvernig hún hvarf frá borgarstjórastólnum, þar sem flokksmönnum hinna R-listaflokkanna fannst þeir sviknir, og hvernig hún beið með að bjóða sig fram til formennsku í Samfylkingunni. Þegar hún loksins bauð sig fram til formennsku var hún ekki lengur sá sterki leiðtogi sem hún var sem borgarstjóri R-listanns.
6. Ingibjörg Sólrún vill fá stuðning kvenna, en samt sá hún sér ekki fært að styðja Steinunni Valdísi í leiðtogavali í borginni né í þingsæti í prófkjöri. Engin gagnrýni hafði komið fram á störf Steinunnar sem borgarstjóri frá flokkssystkinum og því hefðu flestir talið að réttast væri fyrir Ingibjörgu Sólrúnu að styðja hana en hún valdi Dag B. Eggertsson. Kjósendur Samfylkingar sjá þetta og finnst það því ekki trúverðugt þegar stuðningsmenn Ingibjargar Sólrúnar reyna að höfða til kjósenda út á það að hún sé kona.
Sennilega geta lesendur komið með enn fleiri skýringar á lánleysi Ingibjargar Sólrúnar og Samfylkingarinnar í skoðanakönnunum þessa dagana. Það verður áhugavert að sjá hvort að Ingibjörgu Sólrúnu takist að snúa stöðunni við og sannfæra kjósendur um að Samfylkingin sé raunhæfur kostur í næstu kosningum.
Konur í Samfylkingu og Framsókn á leið til vinstri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.2.2007 | 12:08
Eignaflensufaraldur
Fyrir ekki svo löngu voru fréttir af því í Morgunblaðinu að hópur kennara við Laugarnesskóla ákvað að kaupa enga nýja hluti í tvo mánuði. Lesendur blaðsins fengu af því greinargóða lýsingu hvaða erfiðleika kennararnir hefðu nú gengið í gegnum við að neita sér um nýja hluti í svo langan tíma, þeir komust af því að tilgangurinn væri í senn göfugur og hversdagslegur, að draga úr ásókn í auðlindir jarðar og um leið bæta hag buddunnar, og eins að þeir hafi verið haldnir ósjálfráðu kaupæði.
"Léttir að vera laus við innkaup" var ein fyrirsögnin, sem er þvílík firring að það hálfa væri nóg. Eru næst á dagskrá viðtöl við þá sem ekki hafa efni á að kaupa sé neitt nýtt í fjórar vikur eða jafnvel lengur. Verður sama fyrirsögn valin? Það er nefnilega ekki fréttnæmt að fólk sem á allt neitar sér um eitthvað.
Hitt þótti mér merkilegt að þessir kennarar, sem eru svo þungt haldnir sjúkdómnum nýja, eignaflensu, affluenza, eru svo lausir við jarðsamband að halda að þeir bjargi heiminum eð því að hætta að kaupa nýja hluti. Allt þeirra umhverfi, bílarnir, fartölvurnar, upphituðu húsin, angórapeysurnar, steinanuddið, kaffihúsin, bíóferðirnar, eru afrakstur neysluþjóðfélagsins sem þeir eru að andæfa. "Við erum að draga úr eftirspurn með þessu" segja þeir og eru þá um leið að minnka lífsgæði þeirra sem starfa við framleiðslu á varningnum, fátækum bræðrum okkar og systrum í þriðja heiminum sem langar mest af öllu að geta tekið þátt í lífsgæðakapphlaupinu.
Í framhaldi af eignaflensufréttum kom svo önnur fréttaskýring þar sem tveir verkefnisstjórar tala um tilfinningar sínar; "mér finnst eitthvað vera að gerast," segir annar og hinn segir hafa orðið var við að "fólk hugsi meira um neyslu sína en áður". "Áður", í þessu sambandi á þá væntanlega fyrir jól, áður en fólk eyddi meira en það hefur nokkru sinni gert ef marka má fréttir í upphafi ársins; "Jólaverslun aldrei meiri og eykst um 4,4% milli ára" sagði til að mynda í frétt í Morgunbaðinu 11. janúar sl. Kannski fór fólk að hugsa "meira um neyslu sína en áður" þegar það fékk kortareikninginn og þá fór kannski "eitthvað" að gerast.
20.2.2007 | 12:05
Eru bloggvinir vinir í alvörunni?
Vináttan er mikil á Moggablogginu. Þar virðist enginn vinalaus, nema hann velji það sjálfur. Mér finnst þetta skemmtileg hefð og það er gaman að fylgjast með því hvernig hún þróast.
Nú á Hrafnasparkið 26 bloggvini. Reyndar virðist krummum haldast illa á bloggvinum sínum, því nokkrir hafa "yfirgefið bygginguna" á þessum þremur mánuðum sem liðnir eru.
Halldór Baldursson skopmyndateiknari hefur tekið sér hlé frá blogginu um sinn og snúið sér að því að teikna. Krummar geta reyndar ekki kvartað, því hann teiknaði bókelskan krumma á forsíðu árshátíðarblaðsins um liðna helgi og prýddi teikningin þakkargjöf til Óskars Magnússonar forstjóra og rithöfundar.
Hrafn Jökulsson hefur einnig sagt skilið við bloggheima. En þessi leiftrandi rithöfundur, ljóðskáld og ritstjóri, var svo elskulegur að vísa á Hrafnasparkið í lokafærslu sinni, þar sem bloggarar gætu fundið "skáldlegar" pælingar. Hrafn gladdi krumma á lestrarfélagsfundi á sínum tíma með umfjöllun sinni um Jón Thoroddsen og Jónas Guðlaugsson. Nú hefur ástin "framið valdarán" í hans lífi og ýmis spennandi og mannbætandi verkefni bíða.
Þá hefur sá mæti maður Chien Andalou alias blogdog kvatt af hugsjónaástæðum þar til þjóðfélagið hefur náð meiri þroska.
Enn eru ofangreindar bloggsíður uppi og fólk getur flett þeim, en það er ekki alltaf tilfellið á netinu. Þannig virðist Guðmundur Magnússon hafa gufað upp með sitt blogg "Skrafað við skýin". Það sama varð fyrir mér um daginn þegar ég ætlaði að finna skáldsögu Guðbergs Bergssonar rithöfundar sem hann skrifaði beint á netið á sínum tíma, en sú saga er uppistaðan í Hryllilegri sögu sem hann sendi frá sér fyrir jólin. Ég fann hana hvergi.
Aðrir bloggvinir dafna vel. Áðan bættist Sigurður Elvar Þórólfsson kollegi minn af Mogganum í hópinn. Bókaormurinn Kolgrima er afar dularfull, - hver er hún? Ég hef áður rakið snilld Ívar Páls Jónssonar sem nú vinnur að sinni fyrstu skáldsögu og hefur samið lag um fyrirbærið pebl. Arnljótur Bjarki Bergsson er með sigldari mönnum, en um leið sá norðlenskasti sem ég þekki. Guðfríður Lilja er hjartslátturinn í íslenskri pólitík. Stefán Friðrik er mikilvirkur stjórnmálaskýrandi eins og Bjarni Harðarson, sem eiginlega ætti að banna að fara í framboð af því að hann er mun skemmtilegri á hliðarlínunni. Vélstýran er hugrakkur bloggari sem þorði "að missa fótfestuna um stund" og tapaði því ekki sjálfri sér.
Hjörtur J. Guðmundsson sveiflast til hægri, huxuðurinn Pétur Gunnarsson heldur sig fyrir miðju og Eiríkur Bergmann sveiflast til vinstri. Björgvin Þór Þórhallsson skrifar BARA á netið. Það rignir yfir Flosa Kristjánsson gimsteinum. Margrét Elín Arnarsdóttir er "laganemi, íþróttafíkill og brjálæðingur".
Heimssýn sér lengra en ESB. Og Katrín Snæhólm Baldursdóttir er ástfangin af rúminu sínu. Þórarinn Eldjárn er skáld og meistari. Femínistinn er fylgjandi frelsinu til að klámvæðast og Gísli Freyr Valdórsson líka, sem bauð konunni sinni á Argentínu í tilefni af konudeginum. Vefritið fjallar um samfélagsmál úr ólíkum áttum. Svartfuglinn Anna Benkovic Mikaelsdóttir yrkir teknótexta til Sylvíu Nætur. Kári Harðarson kveður engan í kútinn en kveður úr kútnum.
Að lokum á Sigurður Ásbjörnsson jarðfræðingur yfir 300 bloggvini. Þegar hann er spurður hvernig hann leggi rækt við alla þessa bloggvini svarar hann:
Bloggvinir mínir eru meira og minna fundnir af handahófi. Sumir skrifa um áhugaverð mál, sumir eru samherjar í sýn á tilveruna, sumir eru með allt aðra sýn á tilveruna heldur en ég, sumir skrifa einfaldlega svo skemmtilegan stíl að það er hrein unun að lesa það sem frá þeím kemur, óháð viðfangsefni.
Til að fylgjast með ritstörfum bloggvina minna þá vel ég þá leið að skrá mig inn í kerfið og smella síðan á stjórnborð. Þar kemur upp vinstra megin "bloggvinir nýjustu færslur" þann lista skanna ég og á listanum má sjá ca. 4-5 fyrstu línurnar í ólesnum greinum. Ef efni eða stíll vekur áhuga minn þá skrepp ég á síðurnar þeirra og fæ mér allan skammtinn
Þetta er áhugavert, - eru bloggvinir vinir í alvörunni eða er það bara á netinu? Ber að sýna þeim ræktarsemi?
Pétur Blöndal
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
19.2.2007 | 08:24
Krónikan klikkar
Nýtt fréttatímarit Sigríðar Daggar Auðunsdóttur, Krónikan kom út á dögunum og er um margt ágætt blað. Víst voru vandræði með orðaskiptingar, talsvert um prentvillur og útlitið gekk ekki alltaf upp, en það má skrifa á byrjunarörðugleika og ekki ástæða til að ætla annað en að næsta tölublað verði mun betra.
Í blaðinu eru ágætis greinar þó ég verði að taka undir með þeim sem búnir eru að fá fullmikið af Hannesi Smárasyni - ólánlegt að geta ekki verið með sterkara efni á forsíðunni. Inni í blaði er líka sitthvað að athuga, til að mynda fréttaskýringin "Sagan endalausa" sem segir af "Baugsmálinu". Þar segir meðal annars svo:
"Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, mætti í útvarpsviðtal á bolludaginn árið 2003 og sakaði forráðamenn Baugs um að hafa reynt að múta sér með 300 milljónum gegn því að hann léti af andstöðu við þá. Þetta átti að hafa gerst á fundi í Lundúnum í vitna viðurvist Illuga Gunnarssonar, þáverandi aðstoðarmanns Davíðs, sem reyndar hefur aldrei tjáð sig um málið opinberlega."
Þessi texti, sem er ómerktur og telst því á ábyrgð ritstjóra, er della og sú staðhæfing að Illugi hafi aldrei tjáð sig um málið opinberlega óskiljanleg. Í Morgunblaðinu 4. mars, 2003 segir Illugi til að mynda þetta: "Eins og ég hef áður sagt þá er frásögn forsætisráðherra af málinu bæði nákvæm og rétt". (Þessa frétt má lesa ókeypis í gagnasafni Morgunblaðsins, tengill á hana hér.)
Einnig staðfestir Hreinn Loftsson að hann hafi nefnt 300 milljónir í samtali við Davíð í frétt í blaðinu sama dag:
"Þá gat ég þess að Jón Ásgeir hefði sagt í hálfkæringi að það væri kannski rétt að borga [Davíð] 300 milljónir inn á reikning í útlöndum, líkt og sagt var að Kári hefði gert. Þetta ítrekaði ég við hann í [gærmorgun] þegar Davíð hringdi í mig áður en hann fór í útvarpið. Þá ítrekaði ég að þetta hefði verið sagt undir þessum kringumstæðum í hálfkæringi og engin alvara hefði verið á bak við það."
(Tengill á þessa frétt hér.)
Semsé: Illugi staðfestir að Hreinn hafi nefnt þetta við Davíð og Hreinn staðfestir að hann hafi nefnt þetta. Hvort Hreinn hafi sagt þetta í hálfkæringi eða ekki skiptir ekki máli í þessu samhengi, en skiptir máli að Krónikan fer rangt með. Kannski það verði leiðrétting í næsta blaði.
18.2.2007 | 21:21
Karíus, Baktus og heilbrigðisráðherra
Nýlega kynnti Lýðheilsustofnun niðurstöður MUNNÍS rannsóknarinnar. Megintilgangur rannsóknarinnar var að kanna tannátu og glerungseyðingu hjá 1. 7. og 10 bekk og náði rannsóknin til 20% slembiúrtaks þessara árganga árið 2005.
Í stuttu máli sýnir þessi rannsókn að tannheilsa barna og unglinga er ansi bágborin og hefur farið versnandi síðustu ár. Eins og segir í útdrætti rannsóknarinnar á vef Lýðheilsustofunar: ,,Í norrænum samanburði lætur nærri að íslensk börn og ungmenni séu að meðaltali með tvöfalt fleiri skemmdar tennur en samanburðarhópar í Svíþjóð (2005) og er staðan verri en á hinum Norðurlöndunum. Hjá 15 ára unglingi eru að meðaltali rúmlega 4 fullorðinstennur skemmdar og þarfnast viðgerðar eða hafa þegar verið fylltar. Hjá þeim 33% sem verst eru settir innan þessa hóps eru að meðaltali 9 tennur skemmdar. Glerungseyðing greinist í einhverri fullorðinstönn hjá 15% 12 ára barna og hjá 30% 15 ára unglinga.Tíðni tannskemmda fer vaxandi og áhyggjuefni hversu algengt það er að ekki er gert við tannskemmdir. Um 17% barna og ungmenna (4-18 ára) mæta ekki í reglubundið eftirlit hjá tannlækni."
Í útdrætti MUNNÍS rannsóknarinnar kemur einnig fram að Tryggingastofnun ríkisins (TR) greiði umtalsvert minna vegna forvarna í tannheilbrigðismálum barna nú en árið 1998. TR veitir styrki vegna tannlækinga barna og unglinga, öryrkja og aldraðra. Þegar Siv Friðleifsdóttir heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra tók við embætti sínu lagði hún upp með tvö aðaláhersluefni: Forvarnir og aldraða. Þess ber þó ekki merki hvað tannlækningar varðar; samkvæmt fjárlögum 2007 er einungis gert ráð fyrir 2.7% hækkun á framlögum til skjólstæðinga TR vegna tannlækninga. Þessi prósentuhækkun nær engan veginn að halda í við verðbólgu síðasta árs, hvað þá að vega upp á móti fjölgun í þeim hópum sem njóta styrkja frá TR vegna tannlækninga eða rétta af þá lækkun sem orðið hefur á framlögum hins opinbera til þessa málaflokks hin síðari ár.
Hvers vegna skyldu heilbrigðisyfirvöld hafa komist upp með að skerða smátt og smátt framlög til tannlækninga síðustu ár? Jú, eins og kunnugt er rann árið 1998 út samningur Tannlæknafélags Íslands og TR og var hann ekki endurnýjaður. Samningurinn hafði verið við lýði í fjöldamörg ár og snerist um að tannlæknar sömdu við TR um fast verð fyrir tannlæknaþjónustu við skjólstæðinga stofnunarinnar. Tannlæknar sömdu þá um verð sem þeir töldu að væri ásættanlegt fyrir viðkomandi þjónustu. Þetta kom svo aftur skjólstæðingum TR til góða þar sem innifalið var í samingunum að þeir fengju stærstan hluta tannlæknakostnaðarins endurgreiddan. Þegar samningurinn rann út var ekki lengur þrýstingur á heilbrigðisyfirvöld að láta styrkina fylgja almennri verðlagsþróun og því fór sem fór. Þeir þrýstihópar sem hefðu átt að láta málið sig varða svo sem ASÍ, foreldrasamtök, samtök eldri borgara og Öryrkjabandalagið hafa því miður sofið á verðinum hvað þetta varðar.
Hver skyldu nú vera viðbrögð ráðherra þegar allt stefnir í óefni í tannheilbrigðismálum barna og unglinga? Jú, það er að semja við tannlækna um ,,ókeypis skoðun og eftirlit hjá ákveðnum hópum barna" svo sem haft hefur verið eftir henni í fjölmiðlum síðustu daga. Það á sem sagt að semja við tannlækna um samræmda gjaldskrá fyrir þessa þjónustu. Og ef tannlæknum hugnast ekki slíkur samningur ,,þá munum við auglýsa eftir tannlæknum sem vilja koma á svona samningi" (Siv Friðleifsdóttir í samtali við Blaðið, 8. febrúar 2007). Þessi skilaboð hljóma óneitanlega undarlega; allt í einu er það tannlækna að bjarga margra ára svelti í framlögum hins opinbera til tannlækninga með því að koma á fastri ríkisgjaldskrá í tannlækningum. Það virðist ekki hafa hvarflað að heilbrigðisyfirvöldum að tannlæknar séu ef til vill alls ekki í aðstöðu til að semja um fasta gjaldskrá fyrir tannlækningar ákveðinna hópa í þjóðfélaginu. Tannlækningar, eins og önnur þjónusta, falla undir samkeppnislög. Það þýðir að tannlæknum er óheimilt að hafa samráð um gjaldskrár sínar og verða að hafa útdrátt með helstu aðgerðarliðum sínum hangandi á biðstofum skjólstæðingum sínum til glöggvunar.
En er þetta ekki bara í lagi, að veita ákveðnum árgöngum skoðun og forvarnir á sama verði - væri ekki líka í lagi að stórmarkaðirnir kæmu sér saman um verð á nautalundum og handsápu ef þeir kepptu hver við annan í verði á Maggisúpum og kaffi? Það væri fróðlegt að heyra hvaða augum samkeppniseftirlitið lítur þessar hugmyndir ráðherra.
Einvern veginn hljómar þessi boðskapur ráðherra eins og það eigi að finna sem fyrst blóraböggla fyrir lélegri tannheilsu barna og unglinga annars staðar en innan heilbrigðisráðuneytisins. Niðurstöður MUNNÍS rannsóknarinnar koma tannlæknum ekki á óvart, enda hafa þeir tekið eftir versnandi tannheilsu barna og unglinga síðustu ár. Þeir fagna því svo sannarlega að heilbrigðisráðherra hefur lýst yfir vilja til að gera eitthvað í þeim málum. En að stilla því þannig upp að málið standi og falli með samningi við tannlækna er hin mesta firra. Heilbrigðisráðherra verður einfaldlega að veita meiri peningum til málaflokksins og hækka verulega tannlækningastyrki til barna og unglinga. Verði það gert er ekki ósennilegt að einver hluti tannlæknastéttarinnar bjóði upp á þá "ókeypis skoðun og forvarnir" sem ráðherra er svo tíðrætt um út frá lögmálum hins frjálsa markaðar. Ekki hefur enn reynt á hvort tannlæknar hafa vilja til samninga við TR en vafasamt verður að teljast að landslög leyfi þeim að ganga til slíkra samninga. Og hver skyldi svo vera sýn ráðherra á styrki TR til eftirlits og forvarna meðal aldraðra og öryrkja? Þörf þeirra fyrir slíka þjónustu er síst minni en yngri aldurshópa ef ekki á að stefna í sömu átt og hjá börnum og unglingum.
Magnús Björnsson
18.2.2007 | 15:28
Blaðamenn, ástríða og ótroðnar slóðir
Davíð Logi Sigurðsson kollegi minn af Morgunblaðinu er einkar vel að Blaðamannaverðlaununum kominn fyrir skrif um alþjóðamál, enda skynjar maður á skrifum hans að fyrir honum er það áhugamál og ástríða, ekki aðeins brauðstrit. Eflaust eru þeir til sem eru ósammála honum, til dæmis um íslensku friðargæsluna, en það hreyfir þá við umræðunni og yfirleitt þegar slíkt gerist er það í átt til upplýsingar. Með því að gefa svo mikið af sjálfum sér í fréttir og fréttaskýringar um alþjóðamál, svo sem Guantanamo, fá þær svipmót hans.
Það sama á við um Auðunn Arnórsson blaðamann Fréttablaðsins, sem ég vann raunar með á Morgunblaðinu á sínum tíma. Hann hefur löngum verið flestum fróðari um málefni Evrópusambandsins. Það er afar mikilvægt fjölmiðlum að blaðamenn hafi djúpa þekkingu á viðfangsefnum sínum og fái tækifæri til að miðla þeirri þekkingu til lesenda.
Það kemur varla neinum á óvart sem fylgist með þjóðmálaumræðunni að Jóhannes Kr. Kristjánsson ritstjóri Kompáss hafi verið verðlaunaður fyrir rannsóknarblaðamennsku. Hann hefur stýrt Kompási inn á ótroðnar slóðir í íslenskri fjölmiðlun og beitt aðferðum sem hingað til hafa aðeins tíðkast í fréttaskýringarþáttum erlendis. Með því hefur honum og samstarfsfólki hans tekist að vekja umræðu í þjóðfélaginu og rúmlega það, - umfjöllunin hefur kallað á aðgerðir.
Það verður forvitnilegt að sjá hvaða áhrif það hefur á rannsóknarblaðamennsku sem stunduð er á öðrum fjölmiðlum.30.1.2007 | 14:32
Ekki sama Krónikan og Krónikan
Friðrik Kristjánsson bregst ókvæða við á vefsíðu sinni.
Ég sit í nemendaráði í Fjölbrautaskólanum við Ármúla og sé meðal annars um útgáfu á blaðinu Fávitinn sem kemur út mánaðarlega í skólanum. Mér sárnar mjög að lesa þessa frétt, ég veit ekki hver fann nafnið upphaflega en að segja að Höfundur nafnsins er Þóra Kristín Ásgeirsdóttir á Stöð 2" er eins langt í frá að vera rétt og mögulegt er.
Á hinn bóginn þá hefur Krónikan komið út á hverju einasta ári í mjög langan tíma, veit þó ekki hve langan. Hér fyrir framan mig hef ég Kronika, Skólablað Fjölbrautaskólans við Ármúla, 2006 útgáfu.
Og hann heldur áfram:
Skólablaðið okkar á síðasta ári taldi um 65 blaðsíður. Það er hið glæsilegasta og kemur út aftur nú fyrir sumarið.
Þá veltir hann því fyrir sér hvernig viðbrögðin hefðu verið ef á forsíðu Mbl.is hefði birst frétt um að kona að nafni Þóra Kristín hefði fundið upp nafnið Viljinn og að einhver Sigríður Dögg væri ritstjóri þess."
Auðvitað getur margt farið úrskeiðis á síðustu metrunum þegar stofnað er til blaðaútgáfu. Þá er erillinn mikill og stundum verður mönnum á. Ég er ekki viss um að útgáfa vikublaðsins Krónikunnar muni grafa undan forvera sínum í Ármúla. Ég leyfi mér raunar að efast um það, þar sem miðlarnir eru gjörólíkir. Samt verða orð Sigríðar Daggar að teljast óheppileg og eflaust leitar hún sátta við kollega sína úr Ármúlanum.
Ég frétti fyrr í dag að samstarfsmaður minn til margra ára, Helga Kristín Einarsdóttir, sem hefur jafnan setið á næsta borði eða í næsta bás við mig, hefði ráðið sig til vikublaðsins nýja. Ég vil nota tækifærið og óska henni til hamingju með starfann. Allir lesendur Morgunblaðsins vita hvílíkur úrvals blaðamaður hún er. Og ég mun sakna hennar af ritstjórninni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.1.2007 | 22:26
Hefst tveggja turna tal á ný?
Enn kemur Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, fram með yfirlýsingar. Eftir því sem yfirlýsingar Ingibjargar Sólrúnar verða fleiri, svo sem um að Samfylkingin sé flokkur sem þorir", þá virðist fólk síður þora" að greiða flokknum atkvæði sitt. Ef marka má skoðanakönnun Frjálsar verslunar er fylgi Samfylkingarinnar nú komið niður fyrir fylgi Vinstri grænna. Þar hefur Samfylkingin aðeins 18,5% fylgi en Vinstri grænir 20,5%.
Ef svo fer fram sem horfir, þá verður fróðlegt að hlusta á kappræðurnar fyrir næstu kosningar, þar sem Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, byrjar á tveggja turna talinu um að vinstri menn þurfi að sameinast um einn sterkan vinstri flokk til að veita Sjálfstæðisflokknum mótvægi og að sá flokkur sé Vinstri hreyfingin grænt framboð. Hvernig bregst Samfylkingin við því? Og hver verður forsætisráðherraefni, - er það ekki formaður stærri vinstri flokksins?
Einnig er forvitnilegt að lesa skýringar forsetans Hrafns Jökulssonar á bágu gengi Samfylkingarinnar. Hann bendir á að næstum annar hver kjósandi hafi yfirgefið Samfylkinguna samkvæmt könnuninni og að konur hafi þúsundum saman horfið frá stuðningi við flokkinn. Það sé engin furða, þar sem Vinstri grænir tefli fram öflugum konum á borð við Katrínu Jakobsdóttur, Guðfríði Lilju Grétarsdóttur og Svandísi Svavarsdóttur. Sigfús Þ. Sigmundsson bendir á það á móti að von sé á nýrri könnun frá Capacent upp úr mánaðamótum og telur nauðsynlegt að fá fyrst niðurstöður úr henni áður en sveiflan verði staðfest. Þá er bara að bíða og sjá...
Ingibjörg Sólrún segist ekki taka þátt í þagnarbandalagi um Evrópumál | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
krummi
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- annapala
- arnih
- arnljotur
- begga
- birgitta
- bjarnihardar
- bleikaeldingin
- davidlogi
- don
- ea
- fararstjorinn
- feministi
- gattin
- geislinn
- grettir
- halldorbaldursson
- hallkri
- handsprengja
- handtoskuserian
- hannibalskvida
- herdis
- hlynurh
- hof
- hoskuldur
- hrollvekjur
- hugsadu
- hux
- ingibjorgelsa
- jonasantonsson
- kaffi
- kiddirokk
- kjarninn
- kjoneden
- kolgrima
- listasumar
- ljonas
- lostintime
- maggaelin
- magnusb
- malacai
- maple123
- nosejob
- pallvil
- ragnhildur
- reni
- ruthasdisar
- seth
- sigurgeirorri
- stebbifr
- steinibriem
- theld
- tulugaq
- vefritid
- vglilja
- vinursolons
- vitinn
- arniarna
- gisliblondal
- skak
- athena
... ... ... ... ... ... ... ... ...