Færsluflokkur: Bloggar

Lýðræðisæfing í Bútan

Skemmtilega einlægt er að lesa um lýðræðisþróun í Himalayaríkinu Bútan. Alráður konungurinn, sem markað hefur þá fallegu stefnu að í ríki hans skipti mestu máli að auka þjóðarhamingju frekar en þjóðarframleiðslu, hefur nú skipað þegnum sínum að stofna stjórnmálaflokka og undirbúa sig fyrir kosningar sem ráðgerðar eru á næsta ári.

Kongurinn gerir sér samt augljóslega grein fyrir að lýðræði krefst mikils af þegnum sínum og að því verður ekki komið á yfir nóttu.  Til að undirbúa þjóðina fyrir lýðræði voru því haldnar æfingakosningar um síðustu helgi, það er ekki fyrr en á næsta ári sem kosið verður um raunveruleg málefni.

Það er fróðlegt að líta til baka í söguna, þegar lýðræði var fyrst reynt í Frakklandi 1789 tók það áratug þar til Napóleón var orðinn einráður þannig að fyrsta tilraunin gekk ekki sem best.  Tíma tekur að breyta þjóðum, hvort sem það er í átt að lýðræði eins og sumar þjóðir standa frammi fyrir eða að auka umhverfisvitund.  Tvö hundruð árum eftir fyrstu lýðræðistilraunina í Frakklandi var lýðræði snögglega komið á í Rússlandi, hjá þjóð sem aldrei hafði verið frjáls.  Tæpum áratug síðar komst til valda maður sem er á góðri leið með að gerast einvaldur.  Sagan vill endurtaka sig.

Lýðræði gerir kröfur til þjóðar og stjórnmálamanna sem þurfa að læra leikreglurnar - og gleyma þeim ekki.  Miðað við sandkassaleikinn sem okkur hefur verið boðið upp á hér á landi undanfarnar vikur vona ég að Bútanbúar geri sér ekki ferð til Íslands til að reyna að læra lýðræði í framkvæmd.  Aðrar þjóðir hafa náð lengra en við í þeim efnum.

 


Áframhjáhald þingmanna í Súlnasal

Bækurnar komnar í kassa enda flutningar á laugardaginn kemur. Þó eru enn sex bókastaflar á stofuborðinu. Efst í einum þeirra er bók sem ég var að fá í hendur. Hún hefst á orðunum:

Það var sjaldgæft að sjá svo mörg fræg andlit samankomin á Íslandi.

Þetta er bókin Íslendingar, nokkurskonar sápuópera í bókarformi, sem hægt er að gerast áskrifandi að. Á fyrstu síðu er Geir H. Haarde í sveiflu á dansgólfinu í Súlnasal Hótel Sögu og Ingibjörg Sólrún við barinn með mojito.  Og jafnvel Jón Sigurðsson kreistir fram brosið. Á sama tíma fara óformlegar stjórnarmyndunarviðræður fram á klósettinu á milli tveggja þingmanna, en makarnir bíða grunlausir fyrir utan:

Hörður hunsaði enn og aftur orð Agnesar og færði andlitið neðar, á milli brjóstanna, og svo að fallega löguðum naflanum.  Ætlum við að mynda ríkisstjórn á ný?spurði hann eftir því sem andlitið færðist nær klofi hennar.

Þegar komið er á síðu 8 í bókinni er ljóst að ríkisstjórnarmyndun hefur tekist. Síðan hefst æsileg atburðarás geri ég ráð fyrir. Ég er ekki kominn lengra en hlakka til áframhaldsins eða öllu heldur áframhjáhaldsins.

Krummar verða settir frekar inn í hugarheim þingmannanna og hina æsilegu atburðarás á næsta krummafundi, sem verður haldinn innan fárra daga.


Economic hit man

Ég er satt að segja aðeins sleginn þessa dagana eftir að hafa verið að horfa á ræður John nokkurs Perkins á netinu.  John þessi starfaði óbeint áratugum saman fyrir ameríska heimsveldið, en í kjölfar atburðanna 11. september fannst hann ekki geta þetta lengur, hann yrði að segja heiminum frá því hvað hann hafði verið að fást við.  

Í stuttu máli þá starfaði John við að fara til ríkja í Austurlöndum nær, Mið- og Suður Ameríku og víðar.  Þar heimsótti hann þjóðarleiðtoga með tilboð um að gera þá persónulega moldríka, og gera þeim einnig ljóst að ef þær væru ekki samvinnuþýðir myndi það kosta þá lífið.  Ef menn vildu ekki hlýða voru sendir sjakalarnir til að drepa þjóðarleiðtogana og hann telur upp langan lista slíkra sem BNA lét taka af lífi.  Einungis ef það ekki bar árangur var herinn sendur inn líkt og gerðist þegar Hussein vildi ekki lengur spila með þeim og krafðist þess að Írakar myndu njóta olíunnar sjálfir, ólíkt Saudi Arabíu.  

Rakið er hvernig Alþjóðabankinn hefur starfað, lánað fátækum þjóðum of háar fjárhæðir til að byggja upp með því skilyrði að samið væri við bandarísk fyrirtæki.  Þegar þjóðirnar síðan gátu ekki borgað af lánunum er hægt að kúga löndin til að opna fyrir arðrán auðlinda eða beitingu atkvæða í SÞ eftir hentugleika.  Fátæka fólkið hefur þá setið uppi með skuldirnar.

John rekur hvernig lýðræði hefur í raun ekki verið virkt áratugum saman í Bandaríkjunum, örfáir auðhringir hafa allt of lengi getað keypt kosningar og völd og notað stjórnmálamenn fyrir fyrirtækin, fengið þá til að hætta að starfa í þágu þjóðar sinnar. 

Ég veit ekki hvað ykkur finnst, en eftir að hafa horft á klukkustundarlangan fyrirlestur John Perkins þá trúi því sem hann er að segja.  Eftir stutta netleit finn ég amk ekkert um að fullyrðingar hans séu hraktar.  Vissulega er margt af því sem hann hefur að segja eitthvað sem flest upplýst fólk hefur talið sig vita, það er samt áhrifaríkt að heyra innanbúðarmann lýsa því sjálfur hvernig stórfyrirtækin hafa kúgað heiminn. 

Það jákvæða við að hlusta á John er hversu mikla trú hann hefur á að hægt sé að breyta þessu.   Öll búum við á sömu kúlunni og þegar upp er staðið vilja allir jarðarbúar betri heim.  Ef skapaður er þrýstingur með því að kjósa heiðarlega stjórnmálamenn og krefjast bættrar umgengni við náttúruna er allt hægt.  Heimurinn hefur áður risið upp og losað sig við spillta leiðtoga.

Stuttur útdráttur er hér að neðan og ég mæli með því að verja fáeinum mínútum í að hlusta á manninn.  Fyrir þá sem vilja kynna sér málið nánar má heyra fyrirlestur í fullri lengd á slóðinni:

 http://www.yoism.org/?q=node/292

Einnig má lesa bók John Perkins, "Confessions of an Economic Hit Man" sem kom út á síðasta ári.

 


Hósti við hjartastoppi

Á netinu hefur nú mánuðum saman gengið manna á milli PP myndasýning þar sem fólki er sagt að hósta af öllu afli ef hjartað stöðvist.  Þar sem þessir hlutir virðast vekja áhuga, amk nægilega til að þetta er látið ganga áfram, er líklega rétt að útskýra aðeins um hvað málið snýst.

Það er þekkt að ef hjarta stoppar vegna sleglatifs er hægt að viðhalda einhverju blóðflæði með því að hósta hratt og kröftuglega.  Þegar andað er inn dregst blóð inn í brjóstholið og þar með hjartað vegna undirþrýstings og svo þegar hóstað er úr er því þrýst áfram út í slagæðakerfið. 

Í upphafi hjartaþræðinga var notað skuggaefni sem sprautað var í kransæðar sem gat valdið hjartastoppi.  Eldri hjartalæknar sem ég hef rætt við sem framkvæmdu hjartaþræðingar á þessum tíma segja það hafa verið hluta undirbúningsins að fræða sjúklinginn um að hann þyrfti að vera tilbúinn að hósta hratt og kröftulega væri hann beðinn um það.  Ef þetta var vel gert gat sjúklingurinn oft haldið sér vakandi örstutta stund, þó svo að hjartað væri stopp.

Gallinn við þetta allt er að þegar hjarta fólks stöðvast missir það nánast samstundis meðvitund áður en það átti sig á því hvað er að gerast.  Það getur því ekki tekið meðvitaða ákvörðun um að byrja að hósta líkt og þegar fylgst er stöðugt með hjartslættinum í hjartaþræðingu.  Ef hóstablóðflæði á að duga til að halda viðkomandi vakandi er líklega nauðsynlegt að liggja alveg flatur en sé það gert er vissulega fræðilega mögulegt að viðkomandi geti teygt sig í gemsann og hringt eftir aðstoð.  Læknir og sjúkraflutningamenn gætu því komist á staðinn í tæka tíð til að stuða hjartað aftur í gang.

Mér vitanlega hefur bara aldrei verið lýst að þessi tækni hafi bjargað mannslífi og því er alls ekki eytt dýrmætum tíma á skyndihjálparnámskeiðum til að kenna þetta.  Þetta eru pælingar en ekki vísindi.  Það slæma við þessa flökkusögu netsins er að ekki er tekið fram að hringja þurfi strax á aðstoð.

Í raun snýst skyndihjálp um að kenna bara það mikilvægasta, annars er hætta á að það mikilvæga gleymist í óþörfum smáatriðum.  Því miður munu flestir ef ekki allir þurfa að beita skyndihjálp einhvern tíma og því miður oft á einhverjum nákomnum, mikilvægt er því að flækja málið ekki með atriðum sem ekki er sannað að geri gagn. 

Ráðlagt er að allir sæki námskeið í skyndihjálp amk annað hvert ár.  Ég vil benda á Rauða Kross Íslands þar sem boðið er upp á námskeið af af ýmsum gerðum. 


hættur

Ég er hættur bloggskrifum. Þetta hefur oftast verið mjög gaman, stundum pirrandi en alltaf fróðlegt. Stórmerkilegt tjáningarform.

Þetta er reyndar hárréttur tími til að hætta, því framundan verður ábyggilega óendanlega leiðinlegur tími í bloggheimum fram að kosningum þarsem allir verða með eitthvað "agenda" þegar þeir þykjast vera að fjalla hlutlaust um stjórnmál.

Það er kannski við hæfi að ég endi með að velta fyrir mér það sem mér finnst undarlegast í þessum kosningum enn sem komið er. Það er fylgisminnkun samfylkingarinnar. Öllu heldur fylgishrun. Ég skil hana ekki. Ég er enginn samfylkingarmaður en mér finnst mikið af sómafólki í þeim flokki.  Árni Páll Árnason, Guðmundur Steingrímsson, Össur Skarphéðinsson, Ágúst Ólafur tala allir af skynsemi og Ingibjörg Sólrún er einn frambærilegasti kvenleiðtogi sem fram hefur komið. Samt eru Vinstri Grænir ennþá með meira fylgi og ekkert virðist geta dregið Samfylkinguna upp?


Af skammbyssum og siðmenningu

Mikið er sorglegt að heyra um skólamorðin í Bandaríkjunum. Og ógnvænlegt að menn kaupi sér skammbyssur úti í búð eins og ekkert sé. Þetta voru engar kindabyssur. Walther P22 og Glock 9 mm ku vera dýr og nákvæm skotvopn sem eru meðal annars notuð af lögreglumönnum vestra.

Cho Seung-Hui hét pilturinn var 23 ára. Hann hafði skrifað leikrit í tímum og má lesa tvö þeirra hér. Leikritin eru engin skemmtilesning og ekki sérlega vel skrifuð heldur. Þau eru sögð gefa vísbendingu um að Cho hafi verið misnotaður kynferðislega.

Í báðum leikritunum segist skólapiltur að nafni John hafa verið misnotaður, í öðru af stjúpföður sínum og í hinu af kennara. Í báðum leikritum óskar persónan kvölurum sínum dauða, en í öðru þeirra, Richard McBeef , er hann drepinn af stjúpföður sínum með berum höndum.

Í framhaldi af þessum hörmungaratburði er talað um að herða eftirlit í skólum í Bandaríkjunum. En maður hlýtur að velta því fyrir sér hvort ekki sé meiri ástæða til að herða löggjöf um byssueign. Það eina sem hamlaði Cho var að hann þurfti að bíða í 30 daga eftir að hafa keypt aðra skammbyssuna þar til hann gat fest kaup á hinni.

Til hvers eiga menn í siðmenntuðu þjóðfélagi skammbyssur?


Dýrsleg hegðun

Í nýjasta tölublaði Lifandi vísinda er afar áhugaverð grein um gjörbreytta hegðun fíla.  Í kjöflar dráps dýra og margs konar hryllings sem fílahjarðir hafa orðið fyrir í uppvextinum hefur skort lífsreyndari fyrirmyndir í uppeldinu.  Afleiðingin hefur verið að ofbeldi hefur aukist stórlega hjá fílunum, árásir á menn, aðra fíla og nashyrninga.  Meira að segja hefur sést til hjarða af ungum fílum nauðga nashyrningum. 

Við þessu er nú verið að bregðast með því að flytja eldri einstaklinga og setja inn í hjarðir ungfíla, þannig hefur tekist að minnka árásagirnina verulega.  New York Times fjallaði einnig um þessar rannsóknir á fílum síðasta haust og þeir bentu á ítarlega samsvörun í ofbeldishegðun ungs fólks.  í ljósi frétta síðustu daga af ofbeldi unglingsstúlkna er freistandi að velta fyrir sér þessum tengslum.  Í NYT greinni voru einnig rakin nánar flókin fjölskyldutengsl fílanna þar sem ömmurnar gegna mjög veigamiklu hlutverki, nokkuð sem ekki sést mikið af á Íslandi árið 2007 en væri etv ekkert verra en margt annað.

aramulalgÖnnur aðeins skemmtilegri hlið á hegðun fíla sem ég rakst nýlega á eru drykkjusögur.  Í suðurhluta Afríku vex Marula tréð, hvers ávöxtur notaður er til að framleiða Amarula rjómalíkjörinn.  Trén er ekki hægt að rækta og því er allur ávöxturinn tíndur af trjánum fyrir áfengisframleiðsluna.  Mennirnir eru hins vegar ekki þeir einu sem finna á sér af Amarula, þegar ávextirnir eru farnir að ofþroskast eftir að hafa fallið af trjánum verða þeir þræláfengir sem virðist leiða til allsherjar drykkjusamkomu hjá dýrum svæðisins.  Stutt en spaugilegt myndband af áhrifunum hér.

Drykkjuvandamál geta því sannarlega verið til staðar víðar en hjá mönnum.

 


Ekki alveg til fyrirmyndar

Sem betur fer virðist viðkomandi hafa sloppið vel í þessu tilviki, viðbrögðin eru samt ekki til eftirbreytni.  Þegar ekið er á gangandi vegfaranda og hann kastast yfir bílinn með þessum hætti eru því miður talsverðar líkur á alvarlegum áverkum.  Ekki síst vegna hættu á leyndum áverkum á hrygg er nauðsynlegt að flytja viðkomandi með réttum hætti, með hálskraga og öðrum stuðningi til að lágmarka hreyfingu á hrygg.  Það var þó rétt að koma vegfarandanum á slysadeild, því miður hefur sést að fólki hafi verið skutlað heim eftir viðlíka högg.

Við búum svo vel að eiga vel þjálfaða fagmenn sem eiga að sinna svona sjúkraflutningum.  Í öllum svona slysum þarf fyrst að tryggja öryggi vettvangs, því næst hringja á 112 og síðan huga nánar að hinum slasaða.  Ef hann er við meðvitund á ekki að hreyfa hann fyrr en sjúkraflutningamenn með sérþekkingu á slíku koma á vettvang.  

Nánari upplýsingar á vef Rauða Kross Íslands.

Ég mæli með því að verja nokkrum mínútum til að líta yfir þessi atriði.  Þú gætir bjargað mannslífi einn góðan veðurdag.


mbl.is Ók á gangandi mann og flutti hann síðan á sjúkrahús
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lækning Cheney

chen_lgÉg held að ég sé sammála þeim mörgu sem halda því fram að eitt af vandamálum heimsins sé Dick Cheney.  Erfitt er amk að sjá að ástand heimsins hafi batnað síðan hann komst til valda. 

Þessi maður hér er á því að Dick sé bara bitur gamall karlfauskur og að slíkir menn séu ekki þeir bestu til að stjórna heiminum.  Hann er einnig með mjög óhefðbundnar aðferðir til að breyta manninum og hrekja úr honum illa anda.

Annars er mikið af efni um Cheney á vefnum, hér er til dæmis fauels Cheney og óborganlegan söng um mannin má finna hér


mbl.is Cheney flaug á fugl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað ert þú til í að leggja á þig?

i6vAEt1qFáir viðurkenna líklega annað en að þeir séu hlynntir náttúruvernd í einhverri mynd.  Allir vilja hlífa viðkvæmustu náttúruperlunum, vernda regnskógana og enginn vill að ísbirnir, fílar og nashyrningar verði útdauðir.

Það sem greinir á milli hvort fólk sé náttúruverndarsinnar hefur því lítið með skoðanir að gera, mun meira um hvað fólk vill leggja mikið á sig fyrir náttúruna.  Reyndar eru enn til jólasveinar sem vilja að við höldum áfram græðgisneyslunni óheftri, en á þeim taka fáir mark á núorðið.   

Þegar einungis um 20% af rafhlöðum skila sér til endurvinnslu, þó þær séu uppfullar af mengandi þungmálmum, er augljóst að ótrúlega margir virðast ekki vera tilbúnir til að leggja neitt á sig, bara hreint út sagt alls ekki neitt.  Ekki einu sinni að skila rafhlöðum í endurvinnsluna.  Fáir hafa sparneytni einu sinni til hliðsjónar þegar keyptur er bíll.   Minnihluti dagblaða skilar sér til endurvinnslu og einungis lítill hluti af plastinu.  Ég hef sjaldan heyrt um einhvern sem hættir við að fljúga út í sumarfrí til að hlífa umhverfinu.  Flestir Íslendingar gera bara eiginlega ekki neitt fyrir umhverfið.

Þessi maður hér er hins vegar virkilega að reyna að hlífa umhverfinu, reyndar gengur hann svo langt að reyna við að gera tilveru sína og fjölskyldunnar algerlega hlutlausa hvað umhverfið varðar.  Þau nota ekki bíl og fara allra sinna ferða gangandi eða hjólandi, þau nota ekki rafmagn og menga ekki loft eða vatn.  Ekkert er keypt sem ekki er hægt að endurvinna.  Það merkilegasta er að þau búa á Manhattan.

Áhugaverð tilraun, og sérlega að þau skuli lýsa því að lífið hafi aldrei verið betra. 

Fæstir sem fjalla um umhverfismál eru svo bjartsýnir að þeir búist við því að hægt sé að hætta allri mengun, þó það það megi að sjálfsögðu stefna að því.  Einungis er verið að biðja fólk um að reyna aðeins að bæta umgengni sína við náttúruna og það er ótrúlega margt sem hægt er að gera án þess að það breyti í raun nokkru um lífsgæði okkar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband