Færsluflokkur: Bloggar

Rendon

Rendon.  John Rendon. Þetta nafn er of stórt fyrir mig. Svo fjarlægt og tengt svo mikilli djöfulmennsku að ég hélt að það væri ekki mögulegt að ég myndi hitta slíkan ógeðslegan glæpamann á lífsleiðinni minni. Ekki er ég að búast við því að hitta Al Capone fyrr en í næsta lífi. En það gerðist. Ég hitti John Rendon. Magnað. Hér í Kabúl. Spjallaði við hann kvöld eftir kvöld og hann gaf meira að segja ráð um hvernig við Íslendingar ættum að koma okkur uppúr fjármálakrísunni. Rendon. Nú er djöfullinn sjálfur kominn til hjálpar í djöfullegum aðstæðum okkar Íslendinga. Rendon er sakaður um alla glæpi almannatengsla sem þekkjast. Hann er sakaður um að hafa að hafa tekið að sér það verkefni að ófrægja Saddam Hussein og undirbúa bandarísku þjóðina fyrir innrás í Írak. Hann er sakaður um að veitt þjóð sinni aðgang að lygum og þvættingi  í þeirri von að sannfæra hana um mikilvægi þess að gera innrás í landið. Hann er sakaður um frekar ógeðfelld plott í Kólumbíu og öðrum löndum Suður-Ameríku. Hann er sakaður um að vera frekar ógeðslegur. Hann er stór "player" í almannatengslum í heimspólitíkinni. Hann hafði stóra samninga við ríkisstjórn George Bush á meðan sá hernaðarforseti undirbjó hverja innrásina á fætur annarri. Ég var spenntur að sjá Rendon. Spenntur fyrir því að hitta hann. Ég verð að viðurkenna að ég hálfvegis var að bíða eftir hornum og hala. Og ef ekki hornum og hala að þá væri í það minnsta eitthvað járnað glott á andliti hans, eitthvað sem maður tengir við illvirki. Eða að þarna væri ótrúlega sjarmerandi og heillandi maður sem fengi alla til að elska sig, einsog psykopatarnir eru; sýnast elskulegir og snúa þannig öllum í kringum sig til ýmissa ógeðfelldra verka. En ekkert af þessu var raunin. Það voru ákveðin vonbrigði að hitta Rendon, því hann er frekar feitur maður, frekar vinalegur en ekkert umfram það venjulega. Engin horn á höfði hans, né djöfullegt glott. En hann er ekkert sérstaklega vinsamlegur heldur, ekkert sérstaklega sjarmerandi. Það er eiginlega ekkert sérstakt við hann. Hann er eins venjulegur maður og hugsast getur. Kannski aðeins feitari en gengur og gerist, annars: venjulegur. Það að vera venjulegur hreinsar samt engan af þeim glæpum sem hann er sakaður um og ég veit ekkert hvað er reyndin með þau mál. Ég sá líka Saddam Hussein á sínum tíma ganga fyrir framan mig inní réttarsalnum í Bagdad; sá leit ekki illmannlega út, hann var bara vinsamlegur gamall maður. Samt efaðist ég ekkert um að hann væri sekur um flesta þá glæpi sem hann var sakaður um. Rendon. Ég veit það ekki. Ég spurði hann útí ýmislegt sem ég hafði lesið um hann, til dæmis lygarnar sem hann hafði átt að hafa breitt út um Írak og það sem hann gerði í Kólumbíu. Hann vildi ekki kannast við neitt. Ég spurði hann útí útvarpsstöðina sem hann hafði stofnað í Kúrdistan til að vinna gegn stjórn Saddams Hussein. Sem átti að hafa verið eytt þegar Saddam ákvað allt í einu að ráðast inní Kúrdistan og samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hafði fengið af netinu hafði her Saddams drepið alla hundrað starfsmenn útvarpsstöðvarinnar en Rendon sagði að nánast allir hefðu sloppið. Ég veit ekkert hvað er rétt. Fannst reyndar óþægilegt að allar ásakanirnar sem ég beindi að honum var svarað með því að þetta væri ósatt. Ekki að ég efist um hans orð né orð blaðamannanna. Það virðast allir geta logið af mjög mikilli sannfæringu hvort sem þeir kalla sig blaðamenn eða almannatengsla menn. En það hefði verið skemmtilegra og boðið uppá dýpri samræður ef eitthvað af þessum ásökunum hefðu verið að hans mati í það minnsta hálf sannar. Hann sagði mér samt skemmtilegar sögur af mistúlkun og misnotkun upplýsinga. Hann sagði mér líka frá því í nákvæmum smáatriðum hvernig Ísland ætti að koma sér útúr vandræðum sínum og lagði þar aðaláherslu á ferðamannaiðnaðinn - þótt ég verði að taka fram að þarmeð var hann hreint ekki að tala gegn álverum, enda taldi hann þau líka vera mikilvægan þátt í framgangi næstu ára. Ég hélt ég hefði hitt djöfulinn sjálfan - loksins. En varð fyrir vonbrigðum með það hvað þetta var voðalega venjulegur maður. En hvort að djöfullinn sé þannig; bara voðalega venjulegur maður eða ekki, það veit ég ekkert um.


Dagur í Hvíta húsinu

Það var mikil upplifun fyrir krumma að koma í Hvíta húsið. Og þarf víst ekki að koma neinum á óvart að húsráðandi þar eigi ævaforna ameríska eðalvagna, Kadilják og Pontiac. En hitt vita færri, að heill veggur á skrifstofunni í Hvíta húsinu er málverk eftir Dag Sigurðarson.

 

Hvíta húsið sem um ræðir er nefnilega skammt utan Reykjavíkur. Degi hafði orðið tíðrætt um að sig "vantaði vegg". Ólafur Gunnarsson rithöfundur, og húsráðandi í Hvíta húsinu, lét á endanum tilleiðast og Dagur flutti inn. Til stóð að verkefnið tæki þrjár viku, en auðvitað dróst það á langinn, enda skemmtilegur og inspírerandi félagsskapur, og ílengdist Dagur í Hvíta húsinu í þrjá mánuði.

Á föstudag fluttu svo krummar inn í Hvíta húsið með mökum, einn eftirmiðdag, og tók Ólafur á móti þeim af mikilli gestrisni - eins og þeir væru ekki ófínni pappír en Dagur Sigurðarson. Þar fræddust krummar meðal annars um það, að "hvíta húsið" svonefnda í skáldsögu Einars Kárasonar, Heimskra manna ráð, er hús Ólafs. Ólafur svaraði fyrir sig í skáldsögunni Blóðakur með því að koma lækninum fyrir í íbúð Einars. "Heyrðu, þetta er í minni íbúð!" sagði Einar.

Þetta var sögulegur dagur, föstudagurinn 22. febrúar, því það er dagurinn sem Ólafur kláraði næstu skáldsögu sína. "Nú veit ég að þetta verður bók," sagði hann. Aðspurður bætti hann við að reyndar væri ekki kominn söguþráður. Hann sagði þó lítillega frá efniviðnum, sem lofar góðu, en verður ekki upplýst um hér.

Ólafur segist sofa út og hefja ritstörf úthvíldur, það þýði ekkert að byrja í svartasta skammdeginu á morgnana. Og jafnvel þótt hann sé illa upplagður, þá byrji hann að skrifa, enda geti ræst úr slíkum dögum. "Það getur allt verið svart klukkan ellefu, en svo fyllist húsið af englum klukkan þrjú!" Og aðferð Hemingways höfðar til hans, að hætta þegar hann er í stuði, til þess að byrja aftur í stuði daginn eftir.

Ef aðeins allir húsráðendur í hvítum húsum væru eins og Ólafur.

Myndir sem enginn má missa af

Ace in the holeKvikmyndir eru bókmenntir. Að minnsta kosti eru bækur skrifaðar um kvikmyndir. 

Bækur á kvikmyndum. Kvikmyndir á bókum.

Í fyrstu flettingu á 501 Must-See Movies, sem fjölskyldunni á Rue Lecole áskotnaðist um helgina, sá ég nokkrar kvikmyndir sem mig langar til að horfa á:

Sunset Boulvard: „Still regarded as the greatest film ever made on the subject of Hollywood, Sunset Boulevard charts the ill-fated meeting of faded star Norma Desmond (Swanson) and screenwriter on the make, Joe Gillis (Holden).

Ace in the Hole: „Sacked from his job at a big newspaper, reporter Chuck Tatum (Douglas) resorts to taking a job on a small New Mexican paper."

The Story of G.I. Joe: „A small group from the 18th Infantry is followed by war correspondent Ernie Pyle (Meredith) from North Africa to Italy."

Sleeper: „In 2173, Miles Monroe, a clarinet player and owner of a New York health food store, is brought out of cryogenic suspension by radical scientists in order to carry out a mission that will hopefully lead to the toppling of the oppressive governement state."  

The Man in the White Suit: „An eccentric scientist develops a fabric that can never get dirty and will never wear out. Unforunately, both the textile industry establishment and the unions fail to see the benefit."

topgunUmfjöllunin í bókinni er ágæt, greinargóð á einni blaðsíðu um hverja mynd, og hún er að mestu bundin við bandarískar ræmur. 

Valið á myndum er ekki alveg fyrirsjáanlegt. Það gefur til dæmis aukið svigrúm að ganga út frá "must-see" en ekki bestu kvikmyndunum. Fyrir vikið má finna þarna stórmynd eins og Top Gun, sem enginn má missa af, ljómi yfir kalda stríðinu. 

Top Gun verður seint talin til bestu mynda. En er ekki nauðsynlegt að unga fólkið, sem fætt er eftir fall járntjaldsins, horfi á hana - þó ekki væri nema til að brúa bilið á milli kynslóða?


Stórstjörnuslúður!

Á laugardag var fyrsta morðið framið á Seltjarnarnesi.

W. Anton Power hélt veislu vegna frumsýningar stórmyndarinnar Power and Greede, sem fjallar reyndar ekki um íslenskan fjármálamarkað heldur kvikmyndabransann - í Hollywood.

Einn boðsgesta var handritshöfundurinn Hackford Ryder, sem er krummum að góðu kunnur frá fyrri færslu. Hver man ekki þessi fleygu orð: "It was just a regular day in New York".

Og morð var framið. Það var reyndar ósköp saklaust. Eins saklaust og morð getur verið.

Skýringin var sú að við hjónin stóðum fyrir morðgátuveislu, þar sem gestirnir klæddu sig upp í tísku fjórða áratugarins, matur og tónlist eftir því, og blessunarlega leystist gátan ekki fyrr en rúmlega þrjú um nóttina.

Þá kom í ljós að undir gervunum var bara hið geðþekkasta fólk, meira að segja þrír krummar. En umræður voru hvassar meðan á leiknum stóð. Slúðurblaðakonan Tat fékk nokkrum sinnum að heyra „you slut" frá hinum konunum.

Til marks um hvernig „túba" hún er, þá skrifaði hún í blaðið Los Angeles Morning Express 31. janúar 1936 undir yfirskriftinni: „Stórstjörnuslúður!":

Elskurnar!
Hollywood logar. Í vikunni sást til eftirsóttasta piparsveins borgarinnar, Stuart D. Muphin, okkar eigin Stu, í vafasömum félagsskap svo vægt sé til orða tekið. Var hann í fylgd með dularfullri konu, sem eftir áreiðanlegum heimildum ykkar óverðugrar stundar það sem hefur verið nefndur ,,elsti atvinnuvegur í heimi". Snæddu skötuhjúin hádegisverð á hinum glæsilega veitingastað ,,Champagne", þar sem þau létu ákaflega vel að hvoru öðru. Svo innileg voru atlot þeirra að starfsfólk staðarins sá sig tilknúið að skakka leikinn og reka parið á dyr. Er þessi háttsemi Stu áfall fyrir hina fjölmörgu aðdáendur hans, sem bundu vonir við að vandræði hans væru á enda eftir dvölina á ,,Trouts Lake". Ykkar óverðug ætlar að kanna þetta mál nánar, en tækifæri til þess gefst þegar hún fer í mótttöku til heiðurs Troy Tremble á laugardag, þar sem þotulið Hollywood-borgar mun gæða sér á síberískum vodkakokteilum, kældum með ísmolum frá Norðurskautinu.
Ástarkveðjur,
Tat

Svo endurtók hún leikinn 7. febrúar 1936:

Elskurnar!
Virðulegasti og áhrifamesti leikstjóri borgarinnar, Seldon U. Lloyd, hefur ákveðið að leikstýra mynd eftir Hackford Ryder. Samstarf þeirra eru frábærar fréttir fyrir aðdáendur góðra kvikmynda, en þó hefur yðar óverðug komist að því að hér er ekki allt sem sýnist. Það hefur farið mjög leynt að hr. Ryder og Sel hafa undanfarið eldað saman grátt silfur. Illar tungur vilja kenna um meintu ástarsambandi Sel og Ivonde B. Ahlone, síðan hún sló í gegn í myndinni Daze of Wynan Rosas, en þeir, sem hafa fylgst með skrifum hr. Ryder, hafa þóst sjá þar ýmis merki um að Ivonde sé ástin í lífi þessa virta rithöfundar. Að minnsta kosti vekja lýsingar eins og þessar spurningar: ,,Hann horfði í augu þessarar undurfögru stúlku og fannst sem hann sykki hjálparlaust í bláar tjarnirnar. Ljósar flétturnar, þungar og ilmandi, voru eina haldreipið. Hann dró hana til sín. Hún reyndi af vanmætti að ýta honum frá sér og muldraði: ,,Inte, inte nu". " Það verður áhugavert að fylgjast með samstarfi þeirra Sel og Ryder, - hver ætli verði stjarna myndarinnar?
Chiao!
T

Næst verður morð framið í Hrísey eða sunnan jökuls ... Tat heldur ykkur upplýstum!


reykjavík - osló - istanbúl - kabúl

hvað er með þetta búl dæmi í mið-austurlöndum? orðsifjafræðin segir mér að þetta sé tengt púl, þeir spili svo mikið púl í þessum hluta heimsins. 

ég hef komist að því að launin í blaðamennskunni eru ekki næg til að geta safnað mér fé til að framleiða bíómynd einsog ég ætla að gera í sumar svo ég ákvað að fara í stríð í afganistan sem hefur jafnan gefist vel til að laga fjárhagsstöðuna mína fyrir eða eftir kvikmyndaævintýrin mín. ég lagði af stað frá noregi - army express oslo - kabul - en við stoppuðum hér í istanbúl til að taka bensín í nótt, en vorum síðan grándaðir vegna slæms veðurs á flugvellinum í kabúl - þannig að ég er hér ásamt 60 norskum hermönnum og við bíðum frekari fyrirmæla. hugsanlega er okkur ætlað að fremja valdarán hér í stað þess að vera að þvælast alla leið til kabúl, enda hefur tyrkneska ríkisstjórnin verið til ýmissa ama undanfarin ár, vildi ekki einu sinni hleypa 100 þúsund bandarískum hermönnum í gegnum landið sitt til að lemja á trúbræðrum tyrkja í írak hérna um árið, en við bíðum rólegir fyrirmæla í istanbúl og sextíu alvopnaðir norsarar, ég held þeir heiti flestir olav.
ég er í asíska hluta istanbúl sem er ekki eins fallegur hluti borgarinnar og það er svo dýrt að fara yfir í evrópska hlutann, 180 evrur fram og til baka að ég læt það bíða þangað til ég kíki í alvöru heimsókn. svo er aldrei að vita nema kallið komi strax í kvöld. "take power in istanbul - show no mercy!" eða bara: "drulliði ykkur til kabúl letingjarnir ykkar! hvað eruði að hanga í djammborginni istanbúl!?"

kveðja til reykjavíkurbúl eða reykjabúl - kúl? olav biður að heilsa! 

börkur gunnarsson


Veruleikafirring á Netinu

Þegar ég heyrði af því hjá vini mínum úr friðargæslunni að hryðjuverkamenn sem tækju menn í gíslingu flettu fórnarlömbum sínum upp á Netinu, þá ákvað ég að fletta upp sjálfum mér til að sjá hvað þeir fyndu. Og sló inn "Pétur Blöndal".

Þeir yrðu fljótir að koma mér fyrir kattarnef, held ég. Raunar virðist í þessum færslum gæta þess misskilnings að ég sitji á þingi, sem auðvitað er fjarri sanni. Ég er ótínd blaðamannsblók. 

Á meðal þess sem ég fann var:

"Pétur Blöndal er einhver ómerkilegasta lýðskrumari sem náð hefur af öld Adolfs Hitlers inn á þá tuttugustu og fyrstu."

"Pétur Blöndal er hálfviti. Það er ekki til neinn veruleikafirrtari maður... Hver kýs svona örvita á þing?"

"... ég færi útaf í fyrstu beyju á 200 km hraða ef Pétur Blöndal væri með mér í bíl"

"Ég hef áður minst á vitleisinginn hann Pétur Blöndal. Ég held að þessi maður ætti nú sem fyrst að fara í ýtarlega geðransókn, því veruleikafyrringin hjá honum er alveg einstök."

Viðkomandi bætti raunar við í stórundalegri umfjöllun um menntamál: "... hann virðist alveg gleyma einu, ef allir fara nú að menta sig, hvað þá? Hverjir eiga þá að vinna hin hefðbundnu láglaunastörf?... Vil Pétur Blöndal að kínverji sem ekki kann íslensku beri út póstinn til hans?"

Fleiri ummæli eru á Netinu sem ég sé ekki ástæðu til að birta, jafnvel enn ósmekklegri en þau sem tilgreind eru hér að ofan.

Reyndar má líka lesa að umræddur Pétur Blöndal sé "heiðarlegur maður og hreinskiptinn" (passar), gæjalegasti þingmaðurinn (ég er ekki þingmaður!), hafi verið valinn "tík ársins" af vefritinu Tíkin.is (ha, ég? Takk! Vissi reyndar ekki af þessu, en er virkilega stoltur!) og að hann hitti oft naglann á höfuðið, hiki raunar ekki við að hamra fast á honum ef honum sýnist svo og sé alveg sama hvort flokkssystkinum sínum þyki þörf á barsmíðinni (humm...).

Eftir lesturinn held ég best sé að halda sig frá slóðum, þar sem fólk hefur tilhneigingu til að dubba mann upp í appelsínugulan galla.


Sköpunarsögur Péturs Blöndal, forseta lestrarfélagsins Krumma

Ástkæru Krummar,

Undir styrkri forystu forseta vor, Péturs Blöndal, höfum við Krummar komist í kynni við mörg af helstu skáldum landsins, sitið í návist þeirra, hlýtt á upplestur og spurt spjörunum úr. Í hópi Krumma eru hins vegar einnig hæfileikaskáld. Þótt undirritaður hafi verið fjarstaddur þá barst honum sú fregn til eyrna að Bjarni Bjarnason hefði sýnt einmitt það og sannað með upplestri sínum í Hegningarhúsinu um daginn.

Nú ber svo við að forseti lestrarfélagsins hefur í samstarfi við Kristinn Ingvarsson ljósmyndara sýnt í verki einstaka hæfileika sína og ritfærni með útgáfu viðtalsbókarinnar "Sköpunarsögur". Þar skrásetur hann vinnubrögð gagnmerkra höfunda með afar skemmtilegum og frumlegum hætti. Það hlýtur að vera okkur liðsmönnum forsetans mikið heiðursefni að Pétur Blöndal hafi með Sköpunarsögum sínum skráð sig með þessum hætti rækilega á spjöld íslenskrar bókmenntasögu með samverkamanni sínum Kristni Ingvarssyni, eins og meðfylgjandi ritdómar bera vitni um:
 
"Pétur nær inn að hjarta hvers og eins." 
Sigmundur Ernir / Mannamál / Stöð 2
"Þetta eru frábærlega flottar myndir hjá Kristni, mörg alveg snilldarportrett... það sem kom gleðilega á óvart er hvað viðtöl Péturs eru efnismikil og ítarlega og vel unnin... það verður til bókmenntasaga 20. aldar."
Jón Yngvi Jóhannesson / Ísland í dag / Stöð 2
"Mikið óskaplega er þetta skemmtilegt! Frábærar ljósmyndir ... Konfektkassi sem endist fram á næsta ár."
Gerður Kristný / Mannamál / Stöð 2
"Best er að játa það strax: Ég las þessa bók með áfergju eins og um spennusögu væri að ræða... það vekur strax eftirtekt hversu vel hér er vandað til verks... prýdd sérlega góðum ljósmyndum Kristins Ingvarssonar..."
Soffía Auður Birgisdóttir / Morgunblaðið

Það er einsýnt af þessu að Krummar þurfa ekki að leita langt yfir skammt að rithöfundi til að fræða okkur og skemmta við upplestur á næsta fundi lestrarfélagsins. Lengi lifi forseti vor, lengi lifi Pétur Blöndal!!

Hlustaðu á þessa bók

c_documents_and_settings_ibm_my_documents_drasl_4455Mikið er sungið á Íslandi.  Sjálfur er ég alinn upp við tónlist og hef varið um áratug syngjandi í ýmsum kórum og hélt að ég hefði kynnst þannig tónlistararfi íslendinga nokkuð vel. 

Á síðasta ári dró hins vegar okkar ástsæli formaður Krummanna mig á þorrablót sem Sigurrós hélt í samvinnu við kvæðamannafélagið Iðunn.  Við það galopnuðust augu mín fyrir því að við íslendingar eigum okkur sérstaka sönghefð í stemmum sem ég rétt svo vissi að væri til en er því miður ekki hægt að segja að sé ríkur þáttur í þjóðarsálinni árið 2007.  Flestir kannast svo sem við kvæðasöng, en fáa þekki ég sem geta kveðið með því lagi sem líklega gert hefur verið í þúsund ár hér á landi. 

Ég hef nú varið nokkrum tíma í að hlusta á ýmsar útgáfur af stemmum og rímnalögum og ber sífellt meiri virðingu fyrir þessari sérstöku menningu.  Stór hluti annarrar tónlistar sem sungin er hér á landi virðist stundum vera lítið annað en endurómun af því sem gert hefur verið í öðrum menningarsamfélögum.  Í rímnalögum eigum við okkar sérkenni.

Annars er það ákveðin áhugaverð pæling varðandi okkar hornrétta vestræna nútímasamfélag af hverju nánast öll okkar tónlist byggir á 4/4 takti - einn, tveir, þrír, fjór.  Tengingin við hornréttan kassa er augljós en í t.d. inverskri tónlist mun lagið byggjast á mun fleiri slögum og hugsunin meira sú að tónlistin byggi á hring en ekki kassa.   Í rímnalögum er lítil sem engin virðing borin fyrir reglulegum takti en þeim mun meira fyrir hrynjanda ljóðsins.  Í stað fjögurra slaga er hver staka flutt sem nánast með fjallgöngu í huga, hægur stígandi framan af og rís upp um miðbikið en fjarar síðan hægt út í langan lokatón.  Það þarf nokkra þjálfun til að geta sungið með þeim hætti án þess að festast í reglufestu venjulegs takts.

Nú hafa þau Þórarinn Eldjárn og  Sigrún Eldjárn gefið út bók sem ef til vill getur orðið mikilvægt skref í að endurvekja íslenskan kvæðasöng.  Í bókinni Gælur, fælur og þvælur eru ný barnakvæði eftir Þórarinn í anda við fyrri bækur hans.  Það nýja við þessa bók er að henni fylgir geisladiskur þar sem Bára Grímsdóttir kveður kvæðin með fornu íslensku lagi.  Bókin er frábærlega skrifuð líkt og allar fyrri ljóðabækur fyrir börn sem Þórarinn hefur gefið út, en það hefur haft dáleiðandi áhrif á dóttur mína tveggja og hálfs árs að geta hlustað á Báru kveða ljóðin. 

Af minni takmörkuðu þekkingu á stemmum að dæma hefur Bára leyst þetta verkefni með fullkomnum hætti.  Eitt af því erfiða við að geta kveðið stemmur með réttum hætti er að þær virðast ekki eiga að fylgja nema að hluta til því sem kennt er í tónlistarskólum og almennt tíðkast í söng.  Eftir að hafa prófað að kveða með öldungunum í Iðunni er augljóst að til að geta kveðið þarf að aflæra ýmsan ávana eftir þjálfun í hefðbundnum kórsöng.  Áherslur og taktur er með allt öðru lagi.  Of hámenntaður söngvari held ég því að ætti erfitt með að koma kvæðalögum rétt til skila en Bára kveður fallega og af fullkominni virðingu við rímnalagaformið.

Ef gera á kvæðasöng aftur að lifandi listformi hjá þjóðinni er líklega vænlegast að byrja á leikskólunum.  Það hefur þó aðeins slegið mig við að fara yfir þau lög sem sungin eru á leikskólum að tónlistarlega er þetta að mestu mikil flatneskja, eiginlega allt stöðluð 4/4 GCD lög.  Ef farið væri að kynna séríslenskan kvæðasöng sérstaklega á leikskólum og tóneyra barnanna vanið strax við þennan sérstæða söngstíl okkar Íslendinga væri hægt að leggja mikilvæga undirstöðu fyrir framtíðina.

Því hvet ég alla til að kaupa þessa bók og spila, lesa og syngja fyrir börnin.

Nánari upplýsingar um rímur má finna á síðu Kvæðamannafélagsins Iðunnar, www.rimur.is

 

Lifi stemmurnar! 


Titlabarn

Það vantar gott orð fyrir fyrsta barnið í hverri kynslóð fjölskyldu.  Við fæðingu slíks barns fá ekki bara foreldrarnir titlana pabbi og mamma, heldur eru einnig afar og ömmur, föðursystur og föðurbræður, móðursystur og móðurbræður, langafar og langömmur og aðrir eftir fjölskyldumynstrum.

Er einhver með fleiri tillögur en titlabarn?


Mannréttindadagurinn

Búandi í miðbænum er ekki hægt að komast hjá því að upplifa 1. maí stemmninguna.  Þessi hátíðisdagur verkalýðsins virtist nú vera orðinn einhvers konar allsherjarsamkoma undirmálshópa.  Í göngunni virðast vera samankomnir ýmsir hópar aðrir en hefðbundinn "verkalýður", enda fáir sem nota það orð um sína stétt.  Ég sá ekki betur en femínistar, friðarsinnar, stuðningsmenn Palestínu, þroskaheftir, öryrkjar og ýmsir aðrir hópar væru þarna að berjast fyrir sínum málstað. Eina hópinn sem vantaði úr hópi þeirra sem eru háværir í mannréttindabaráttu eru samkynhneigðir og ég skil ekki alveg af hverju friðarsinnar telja sig eitthvað frekar eiga samleið með verkalýðnum en samkynhneigðir.

Ég held að tímabært sé orðið að hætta að halda upp á frídag verkalýðsins á 1. maí og nota þennan dag frekar til að standa vörð um mannréttindi, enda verkalýðsbarátta orðin býsna samofin mannréttindabaráttu. 

Mannréttindadagurinn 1. maí, hljómar bara nokkuð vel.


mbl.is Baráttudagur verkamanna haldinn hátíðlegur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband