mögnuð viðkvæmni

En þótt það sé óskiljanlegt fyrir okkur að ríki og stjórnvöld séu svona viðkvæm í Íran og Kazahkstan þegar bíómyndir sýna þjóðir þeirra á einhverjum tímum í einhverju öðru ljósi en þær kjósa þá er hægt að skilja að einstaka fólk eða þjóðfélagshópar verði sárir. Fyrir suma skiptir fortíðin og ásýnd lands þeirra miklu máli sem allir geta tengt við. Mér finnst hálf glatað þegar Ísland er sett í ömurlegt samhengi erlendis. En að ríkisstjórn Íslands stígi fram og lýsi samsæriskenningunum sem þær hafa búið til í eigin huga er alltaf svolítið fyndið. Dýrasta mynd Tyrklands á þar síðasta ári, sú sem fékk langmesta fjármagn úr kvikmyndasjóði þess lands í sögunni og varð síðan vinsælasta mynd ársins þar, fjallaði um hugrakka múslima sem máttu ekki vamm sitt vita og síðan bandaríska hermenn í Írak sem drápu allt sem þeir sáu, réðust inní brúðkaup, nauðguðu og drápu. Ég hef hitt bandaríska hermenn sem sárnaði að þessi bandalagsþjóð þeirra skyldi framleiða svona mynd og um eitthvað sem þeim fannst vera óréttlátt sjónarhorn á ástand mála en bandarísk stjórnvöld hafa ekki minnst á þetta svo ég viti. Sjálfur gerði ég þau mistök þegar ég gerði bíómynd í Tékklandi að láta Íslendinga koma þar fram og tala um þjófótta Tékka og vera ótrúlega fordómafulla gagnvart þjóðinni sem þeir voru gestir hjá. Reyndar kom það ekki mikið að sök því það var aldrei undirtexti þegar útlendingarnir töluðu saman á útlenskunni. Sú ákvörðun var ekki tekin til að fela einhverja gagnrýni á Tékka. Heldur af því að myndin fjallaði öðrum þræði um að vera utanveltu og gott að láta tékkneska áhorfendur vera aðeins utanveltu í tékkneskri bíómynd. Svo elskaði ég líka að hlusta á tónana í tungumálunum sem ég skildi ekki, einsog finnskunni og vildi að áhorfandinn einbeitti sér að því og upplifði fegurðina í tónlistinni en einnig fjarlægðina við tungumálið og hversu heimurinn er þeim lokaður þegar þeir skilja ekki orð. Ég var sjálfur á þeim tíma mjög pirraður yfir því að það væri alltaf verið að reyna stela frá mér og oft með mjög góðum árangri. Hafði ekki kynnst því fyrr á ævinni. Í eina skiptið sem ég var spurður útí þessar samræður Íslendinganna þegar ég var að sýna myndina í Tékklandi var þegar ég sýndi hana fyrir klúbb tékkneskra fanatíkera fyrir íslenskri menningu, sem er fyndinn klúbbur aðdáenda Íslands og íslenskrar menningu. Þegar ég útskýrði hvað Íslendingarnir voru að segja í bíómyndinni urðu þeir mjög sárir og ég varð mjög leiður. Þetta var gott fólk, Tékkar eru gott fólk og algjör óþarfi að búa árum saman í góðu landi og láta síðan Íslendingana segja bara eitthvað leiðinlegt um þá. En þetta var ekki nema bara þriggja mínútna sena í myndinni þannig að vonandi fyrirgefa þeir mér þetta. Sjá þetta ekki sem formála af innrás inní landið, enda búa þeir þegar yfir kjarnorku og ég er ekki þátttakandi í alþjóðlegu samsæri til að sprengja þá aftur til steinaldar.
mbl.is Íranar gagnrýna bandaríska mynd um Persastríðin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Sturlungaöld runnin upp á ný?

Karl faðir minn benti mér á heldur óskemmtilegan samanburð um daginn. sturlungar

Á Sturlungaöld, sem er lýst sem einum ofbeldisfyllsta tíma Íslandssögunnar, voru um 350 manns vegnir á tæplega 50 ára tímabili. Þá voru Íslendingar líklega um 70.000. Það jafngildir að 1 af hverjum 10.000 Íslendingum hafi verið drepinn á hverju ári.

 Samkvæmt tölum á vef Umferðarstofu hafa 955 vegfarendur látist í umferðaslysum síðustu 40 ár, eða nærri þrefalt fleiri en á Sturlungaöld.

Í fyrra létust 28 manns í umferðaslysum. Það lætur nærri að vera 1 af hverjum 10.000 Íslendingum.

  

Erum við að upplifa einn ofbeldisfyllsta tima Íslandssögunnar á vegum úti?


Hvaða bækur eru í stofunni heima hjá þér?

Kolgríma er ein af dularfullum bloggurum Moggasamfélagsins, sem hefur helst ljóstrað því upp um sjálfa sig að hún sæki bækur til föður síns og kraftinn í jökulinn.

Hún velti því nýlega upp hverjar væru bækurnar sem lesendur síðunnar myndu taka með sér á eyðieyju. Niðurstaðan varð sú að flestir tækju með sér Birtíng Voltaires í þýðingu Halldórs Laxness. Sem er út af fyrir sig merkilegt. Ætli bók sem Kiljan þýddi á tólf dögum eigi eftir að halda nafni hans á lofti? Í næstu tíu sætum voru bækurnar:

Hús andanna (e. Allende), Brennu Njáls saga (e. konu), Svartar fjaðrir (e. Davíð Stefánsson), Kvæðabók (e. Hannes Pétursson), New York (e. Kristján Karlsson), Hundrað ára einsemd (e. Marques), Harry Potter (e. Rowling), Hringadróttinssaga (e. Tolkien), Anna Karenina (e. Tolstoj) og Sálmurinn um blómið (e. Þórberg Þórðarson). 

Það er áberandi við þennan lista að Kiljan er fjarverandi. Eins hversu atkvæðamiklir íslenskir höfundar eru, en auðvitað taka íslenskir bókaunnendur bækur þeirra með sér á eyðieyju, - höfunda sem þeir hafa alist upp við og lært um í skóla. Það á að minnsta kosti við um mig. Ég gerði það líka upp við mig að ef ég gæti ekki lifað án bókanna á eyðieyju, þá hlyti þær að vera að finna í stofunni heima hjá mér. Ég leitaði og fann:  

Ævisögur séra Árna eftir Þórberg, Í kompaníi við allífið eftir Matthías Johannessen, Sálmurinn um blómið Þórbergs Þórðarsonar, Sjálfstætt fólk eftir Kiljan, Fyrir kvölddyrum Hannesar Péturssonar, New York Kristjáns Karlssonar, Svartar fjaðrir Davíðs Stefánssonar, Grandavegur 7 eftir Vigdísi Grímsdóttur, Djöflaeyja Einars Kárasonar, og svo hlýtur Njála að vera á þessum lista.

Þessi listi er auðvitað fyrst og fremst merkilegur fyrir það hvaða bækur vantar á hann. Hvað bækur eru í stofunni heima hjá þér?  


Hvaða veislu hefðir þú síst viljað missa af?

The_FeastÁ næstunni verður efnt til skoðanakannanna á Hrafnasparki um bókmenntir síðasta árs og er byrjað á veislu ársins. Leitað er í smiðju Guðbergs Bergssonar, Sigurjóns Einarssonar, Ævars Arnar Jósepssonar og Stefáns Mána og lesendur spurðir hvaða veislu þeir vildu síst missa af. Reyndar er lýsing Stefáns Mána ekki af veislunni sjálfri, en það má ljóst vera að mikill sælkeramatur hefur verið á borðum hjá söguhetjunni.

Atkvæði eru greidd í skoðanakannanarammanum hér til hliðar á síðunni.

Úr Hryllilegri sögu Guðbergs Bergssonar:

„Karlmenn eins og ég mega ekki standa í heimboðum, sagði Jónas. Þeir kunna hvorki að standa fyrir kaffiveislum né skipuleggja gilli eða hóf nema bankahófið í janúar. Þetta var frægasta reykvíska hófið, eingöngu fyrir karlmenn en ein kona höfð með til að prýða samkomuna. Karlmenn eru félagsverur og njóta þess að vera margir saman um konu og fá úrskurð hennar um hver sé bestur."

Úr Undir Hamrastáli Sigurjóns Einarssonar:

„Á aðfangadag var ætíð elduð ketsúpa en daginn fyrir Þorláksmessu slátraði Magnús jólaánni, geldri, vel feitri kind. Síðdegis á aðfangadag skipti kvenþjóðin um föt, þvoði sér og greiddi, en Magnús, strákar hans og vinnumaðurinn lágu á rúmum sínum með húfurnar yfir andlitinu, fúlir og úrillir yfir „öllu þessu tilstandi" sem þeir nefndu svo. Ketið og ketsúpuna slöfruðu þeir í sig hver á sínu rúmi. Eftir máltíðina settust svo Gunnurnar á sín rúm, uppábúnar með sálmabókina sína milli vinnulúinna handa. Þær kveiktu á kertum og festu þau á rúmstuðulinn. Hjá þeim var hátíð í bæ."  

Úr Sá yðar sem syndlaus er Ævars Arnar Jósepssonar:  

„Þetta er ekkert fökking flókið, stákur. Tvöfaldur borgari, tvöfaldur ostur, tvöfalt beikon og ekkert helvítis gras. Franskar og kokkteilssósa. Og Pilli með. Ekki kók, ekki dæetkók og ekki kók læt. Mér er skítsama um öll helvítis tilboð. Ókei?"

Úr skipinu Stefáns Mána:

„Honum hefur alltaf þótt helvíti gott að skíta í flugvél og það er jafnvel betra að skíta um borð í skipi. Þessar þungu upp-og-niður hreyfingar hjálpa þörmunum að vinna sína vinnu og lífga auk þess upp á þessa annars tilbreytingarsnauðu iðju. Eins og skipið sjálft sé að skíta en ekki maður sjálfur.
Skipið dregur djúpt að sér andann, klifrar upp á ölduhrygg og spennir kviðvöðvana, síðan lætur það sig gossa niður, einn tveir og: Bomm, bomm, bomm ...
Rassinn á Jóni Karli þrýstist niður á setuna, endaþarmurinn opnast og næst er að losa sig við harðan drjóla á stærð við bjúga."


Jafnrétti á byrjunarreit

Mikið er rætt og rifist um hvort Gini-stuðullinn hafi hækkað á Íslandi eða ekki, og svo hvort það sé góð eða slæm þróun.

Eitt hefur þó enn ekki breyst á Íslandi, öll börn eru jöfn á byrjunarreit.  Hér á landi fæðast flest börn á sömu fæðingardeildinni og öll eru þau klædd í sömu fötin, rækilega merkt sem eign þvottahúss spítalanna.  Óháð stétt eða fjárhagsstöðu foreldra sitja öll börn við sama borð fyrsta sólarhringinn.

Svo tekur lífið við.

 


Frumvarp til samkeppnislaga og mál olíuforstjóra

Í fréttum Stöðvar 2 í kvöld var vikið að fyrirliggjandi frumvarpi til breytinga á samkeppnislögum með svofelldum hætti (tekið af visir.is):

Frumvarp til breytinga á samkeppnislögum sem nú er til meðferðar hjá efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis gæti haft bein áhrif á niðurstöðu dómstóla í málinu gegn forstjórum olíufélaganna. Sjálfstæðismenn og framsóknarmenn eru þó ekki á eitt sáttir en frumvarpið kveður á um skýrari refsiábyrgð einstaklinga í samkeppnismálum.

Samkvæmt heimildum fréttastofu vilja Sjálfstæðismenn breyta frumvarpinu þannig að refsiábyrgð verði eingöngu hjá einstaklingum ef um skýran ásetning er að ræða eða stórfellt gáleysi. Saksóknari efnahagsbrota hefur komið fyrir nefndina lýst áhyggjum sínum af þeirri breytingu en slíkt myndi auka sönnunarbyrði og gera ákæruvaldinu þar með erfiðara að sanna sök á einstaklinga í slíkum málum.

Héraðsdómur vísaði máli gegn olíuforstjórunum þremur frá fyrir skemmstu meðal annars á þeim forsendum að ekki væri hægt að sækja einstaklinga til saka í samráðsmálum. Málið er nú hjá Hæstarétti sem getur valið að vísa málinu aftur heim í hérað. Frumvarpið kveður á um að lögfest verði nýtt ákvæði um refsiábyrgð allra starfsmanna, stjórnarmanna og samtaka, sem hvetja til eða hafa með sér ólöglegt samráð.Verði það lögfest fyrir þinglok þurfa dómstólar að taka tillit til þess enda kveða hegningarlögin á um það að ef lög breytast frá því verknaður er framinn þar til dómur fellur skuli ávallt hafa nýrri lögin til hliðsjónar.

Ég hef í framhaldi af þessari frétt, og þá einkum síðasta hlutanum, verið spurður að því hvort þetta þýði að Alþingi geti nú með því að lögfesta nýtt ákvæði í samkeppnislög, sem mæli fyrir um refsiábyrgð starfsmanna fyrirtækja vegna ólögmæts verðsamráðs, haft áhrif á niðurstöðu þess máls sem gert er að umtalsefni í fréttinni. 

Af þessu tilefni er mikilvægt að fram komi til nánari skýringar að í 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 segir efnislega að skylt sé að dæma eftir nýrri lögum, bæði um háttsemi og refsingu, ef refsilöggjöf hefur breyst frá því verknaður var framinn og til þess er dómur gengur. Í samræmi við stjórnskipulegt bann við afturvirkni refsilaga í 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar er þó einnig kveðið skýrt á um það í hegningarlagaákvæðinu að aldrei megi "dæma refsingu, nema heimild hafi verið til þess í lögum, þegar verk var framið, og ekki þyngri refsingu en orðið hefði eftir þeim lögum".

Ef Hæstiréttur fellst á það með héraðsdómi í umræddu máli að gildandi samkeppnislög lýsi ekki refsiverðri háttsemi starfsmanna fyrirtækis, þótt ólögmætt verðsamráð kunni að hafa átt sér stað í rekstri þess, þýðir þetta með öðrum orðum að nýtt ákvæði um það efni, sem lögfest yrði á næstu dögum eða vikum, gæti ekki haft efnisleg áhrif á niðurstöðu þess máls. Telji Hæstiréttur á hinn bóginn að núgildandi samkeppnislög séu skýr um það efni þá virðist nægjanlegt samkvæmt gildandi lögum að ákæruvaldið sanni að starfsmaður fyrirtækis hafi sýnt af sér almennt (einfalt) gáleysi til að refsiábyrgð stofnist. Í frétt Stöðvar 2 er lýst hugmyndum þingmanna Sjálfstæðisflokksins um að ákvæðið í frumvarpinu verði bundið við þau tilvik þegar starfsmaður fyrirtækis hefur sýnt ásetning í verki eða a.m.k. stórfellt gáleysi. Fréttin gengur því aðeins út á það að verði slíkt ákvæði að lögum, áður en dómur gengur í umræddu máli, þá verði dómstólar í ljósi áðurnefndrar 1. mgr. 2. gr. hegningarlaga að áskilja að ákæruvaldið sýni a.m.k. fram á stórfellt gáleysi hjá ákærðu til að skilyrði séu til sakfellingar. Ákæruvaldið kynni þá að standa frammi fyrir erfiðara viðfangsefni en leiðir af gildandi ákvæðum samkeppnislaga. 

Róbert R. Spanó


Húðflúr og klofin tunga

Ég greip með mér ógnvekjandi skáldsögu Bjarts, Snáka og eyrnalokka, þegar ég var beðinn um að ræða bók úr neón-klúbbnum á Rás 2 í tilefni af 10 ára afmæli klúbbsins.

Ég er tiltölulega nýr áskrifandi, skráði mig á krummafundi hjá Bjarti fyrir rúmu ári, en þegar ég fór að skoða bókalistann sá ég að ég hafði lesið þó nokkrar af þeim bókum sem gefnar hafa verið út undir merkjum klúbbsins í gegnum tíðina, þar á meðal fyrstu bók Guðrúnar Evu Mínervudóttur, Þegar hann horfir á þig ertu María mey, sem er hreint dásamleg lesning eins og reyndar Albúm - skáldsaga, sem kom út síðar í sama flokki.

En ég valdi mér í þetta skipti, sem fyrr segir, Snáka og eyrnalokka. Líklega vegna lýsingarinnar á bakinu: „Lui er ung kona sem býr í Tokyo. Hún vinnur stopult en stundar drykkju, khitomiynlíf og eiturlyfjaneyslu af þeim mun meira kappi." Höfundurinn Hitomi Kanehara (sjá meðfylgjandi mynd) var jafngömul aðalsöguhetjunni, 19 ára, þegar hún skrifaði bókina. Og bókin er skrifuð af svo mikilli innlifun að ég held að ég hafi núna minnstu hugmynd um hvernig það er að fá sér húðflúr og kljúfa tunguna.

Bókin vakti sterk viðbrögð þegar hún kom út hér á landi og nokkrir neón-áskrifendur skiluðu sínu eintaki til forlagsins. Þó hreppti höfundurinn fyrir hana eftirsóttustu bókmenntaverðlaun Japans, sem kennd eru við rithöfundinn Ryunosuke Akutagawa. Margir þekkja eflaust Rashomon, kvikmynd Kurosawa, sem byggð er á tveim þekktustu skáldsögum Akutagawa, Rashomon og In a Grove. Akutagawa kemur raunar fyrir í Snákum og eyrnalokkum, þó að það sé í mýflugumynd.  

Ég hitti virðulegt skáld hjá forlaginu þegar ég valdi bókina, sem mælti með henni og sagði að þetta væri enginn skítarealismi, þar sem allir væru með buxurnar á hælunum, heldur hard core fantasía, einföld og stílhrein í framsetningu, fókusinn skýr, - svolítið í ætt við manga-teiknimyndirnar. Japanski sagnaarfurinn kemur síðan inn í söguna í gegnum tattú-meistarann. Og það minnti mig á orð Hugleiks Dagssonar í viðtali sem ég tók við hann fyrir Morgunblaðið um áramótin, en þá kvartaði hann undan skorti á hryllingi í íslenskum kvikmyndum:

Maður hefur bara áhuga á öllu ótrúlegu; ég veit ekki hvaðan það kemur. En fyrir mér er hryllingur frekar íslenskt fyrirbæri og mér finnst skrýtið að það hafi ekki verið notað meira í bókmenntum. Það er til fáránlega lítið af íslenskum hryllingsmyndum; við eigum allar þessar drauga- og skrímslasögur, heilt vættatal af skrímslum, en nei, við ákváðum að gera bara stofudrama. Hryllingurinn er vannýtt auðlind. Ég gæti hugsað mér að fara út í þennan bransa bráðum. Hvers vegna að hafa alla þessa útburði, Miklabæjar-Solveigu og Þorgeirsbola, öll þessi geðveiku skrímsli, og þetta situr bara í bókum - þjóðsagnasafni. Ef ég á að segja eins og er, þá veit ég ekki hvaðan þessi tilhneiging íslenskrar menningar er komin, að vera svolítið sænsk. Það er eins og við séum endalaust að kyssa rassinn á Ingmar Bergman, án þess ég hafi nokkuð slæmt um rassinn á honum að segja - en af hverju er ekki meira blóð?

Ég er náttúrlega mikið fyrir hryllingsmyndir og vil fá meira af slíku. Eitt dæmi um íslenskt menningarhneyksli er að við skyldum hætta að þýða Valhalla-myndasögurnar; það voru aðeins þýdd fjögur eða fimm stykki, en það hafa komið út 13 bækur í Danmörku og þær fjalla um menningararf okkar - eru teknar úr Snorra-Eddu. Hugsanlega hafa þessar myndasögur ekki selst en það er líka okkur að kenna! Það er ekkert nýtt að myndasögur flokkist sem lágmenning og að vissu leyti eru þær það - þær njóta sín vel sem lágmenning vegna þess að þær komast oft upp með meira. Lágmenning er ekki slæmt orð fyrir mér en það er eins og þær séu meiri lágmenning á Íslandi, kannski vegna þess að við erum enn svo stolt af Nóbelsverðlaununum. Við ætlum okkur að halda okkur á þeirri mottu. Að mínum dómi er blóðið í draugasögum Íslands vannýtt og þess vegna gæti ég vel hugsað mér að fara út í einhvern hrylling á myndasöguformi - og það væri gaman ef meira væri um það í bíómyndum. Japan kom af stað nýrri hryllingsmyndabylgju með sínum ógeðsmyndum sem eiga rætur sínar í japönskum þjóðsögum. Það má segja að það sé nútímaútfærsla á gömlum sögum.


Eiríkur Örn Norðdahl hreppir rauðu hrafnsfjöðrina

Ýmislegt 240Eiríkur Örn Norðdahl uppskar fyrstu bókmenntaverðlaun lestrarfélagsins Krumma, en þau voru veitt fyrir mögnuðustu kynlífslýsingu ársins 2006. Af því tilefni veitti Eiríkur Örn rauðu hrafnsfjöðrinni viðtöku á árshátíð Krumma og las kynlífslýsinguna á þróttmikinn hátt.

Dómnefndinni þótti framganga sögupersónunnar Högna einhver sú allra hetjulegasta í íslenskum bókmenntum, hvernig hann „sarð Dísu með styrk górillunnar, fimi kattarins og slægð höggormsins." Á vissan hátt þótti lýsingin vera afturhvarf í Íslendingasögurnar, þar sem karlmenn þurfa á öllu sína að halda til að verja sæmd sína, og á köflum er beitt ýkjustíl Bósasögu. Um leið verður vart ákveðinnar nostalgíu eftir hreysti karlmannsins, sem nú orðið er helst að finna á bás skrifstofunnar, „á bakvið eldavélina" eða bryðjandi viagra í svefnherbergjum eftir að ljósin hafa verið slökkt. 

Auk Eiríks Arnar Norðdahls voru tilnefndir Guðbergur Bergsson fyrir Hryllilega sögu, Sölvi Björn Sigurðsson fyrir Fljótandi heim, Stefán Máni fyrir Skipið og Ólafur Jóhann Ólafsson fyrir Aldingarðinn.

Lýsing Guðbergs Bergssonar er að mati dómnefndar listilega skrifuð, leikandi og daðurfull, án þess þó nokkurn tíma að fara yfir strikið. Sölvi Björn Sigurðsson fer nýstárlegar leiðir, svo sem í lýsingu á sinni á „saltlausn í lopa eða andnauð". Lýsing Stefáns Mána er myndræn og falleg og Ólafs Jóhanns Ólafssonar hefðbundin með sígildu myndmáli .

Verðlaunalýsingin í skáldsögunni Eitur fyrir byrjendur var 12. kafli bókarinnar, en þar segir:

Högni sarð Dísu með styrk górillunnar, fimi kattarins og slægð höggormsins. Dísa lét bara taka sig. Hún lét einfaldlega ginna sig út í raðfullnægingu eftir raðfullnægingu, stundi bara og gapti eins og hún hefði aldrei upplifað annað eins. Öruggar hendur Högna fleygðu henni til og frá, lyftu henni upp og niður, drógu hana fram og aftur, struku henni út og suður og norður og niður. Högni hélt aftur af sáðláti sínu með tantrískum tiktúrum, hann var stæltur af daglegum sundsprettum - stöku sinnum, kannski einu sinni í viku, synti Högni meira að segja í sjálfum sjónum - og þegar eiginleikinn til að halda eilífri reisn mætti stórkostlegu þreki sköpuðust aðstæður til geypilegs líkamlegs unaðar. Högni var bæði anabólískur og karnal. Hann dáðist að eigin getu án þess að grobba sig af henni, og í hvert skipti sem Dísa hóf að titra og skjálfa, þegar roðinn í kinnum hennar sortnaði og augnlokin lögðust skjálfandi aftur, þegar Högni fann vöðvakippina leika óstöðugt, kraftmikið og taktvillt upp bakið á henni, fylltist hann gífurlegri sjálfsánægju og hamraði typpinu á sér tvöfalt hraðar inn og út úr Dísu, gróf sig dýpra og dýpra í blóðhlaupin sköp hennar. Dísa gat ekki annað en æpt, öskraði af unaði, og þegar henni fannst hún ekki geta meir fann hún hvernig önnur holskefla fullnæginga skall á henni.

            Fimm mínútum eftir að Högni hafði fengið það yfir brjóstin á henni, lognaðist Dísa út af. Henni var allri lokið.

Kynlífslýsingarnar úr þeim bókum sem tilefndar voru fara hér á eftir:

Úr Fljótandi heimi eftir Sölva Björn Sigurðsson:

Ég lagði niður símtólið, gekk inn í svefnherbergið og reyndi að fara aftur að sofa en lá eirðarlaus í rúminu og bylti mér. Ferð mín í eldhúsið var jafn draumkennd og stinnur líkaminn sem skók sig við hlið mér.  Ég strauk fingrunum eftir brjóstunum og niður eftir bakinu þar til hún settist klofvega yfir andlit mitt. Rök skapahárin bærðust við munninn eins og saltlausn í lopa eða andnauð og ég hugsaði að þetta væri dauðinn - ég myndi kafna undir taktföstum mjaðmahreyfingum Konunnar í símanum ef ég vaknaði ekki af þessari martröð.

Úr Skipinu eftir Stefán Mána:

Úti er vindinn að herða úr vestri, gluggatjöldin kippast til, kertaljósin flökta og á dimmu rúðuglerinu springa stórir regndropar í takt við blauta kossa, villt hjörtu og drungalega tónlistina. Kertaljósin hvæsa, spýta vaxi og deyja, glóðin slökknar og blár reykurinn syndir eins og fiskur inn í myrkrið og hverfur ofan í djúpið.

Úr Aldingarði Ólafs Jóhanns Ólafssonar:

Lawrence fannst hann finna breytingu á henni þegar þau komu heim á hótel. Hann fann hana þegar þau voru komin upp í og hann tók utan um hana og strauk mjóan hálsinn, axlirnar og brjóstin. Þá var aftur farið að rigna.

Úr Hryllilegri sögu Guðbergs Bergssonar: 

Lórí sleit sig frá hópnum og ákvað að sýna listir sínar ein [á skautum]. Hún brunaði fram og fyrst hún var örvhent og eins á fæti, lyfti hún þeim hægri og dró með hinum stórt S á svellið sem ómaði af frostbrestum. Þá kom Sólveigur aðvífandi og hafði dregið lykkjuflúr. Hann gerir sér lítið fyrir, lyftir fætinum á henni hærra og gægist upp undir hana. Lórí varð mikið um árásina, skall næstum flöt en náði jafnvægi með því að rykkja til sín fætinum og glenna lærin sundur svo skautarnir skröpuðu svellið. Vegna þess hvað hún var að fljót að losa sig úr vanda spurði Sólveigur undarlegrar spurningar:
Hvað ertu með í buxunum?
Lórí lét engan slá sig út af laginu, ekki heldur að þessu sinni.
Hagalagð úr verðlaunakeppninni hjá Gefjuni til að halda á mér hita, svaraði hún jafn eðlilega og hún hefði verið spurð út úr Kverinu við fermingu.
Hagalagð? át Sólveigur bjánalega upp eftir henni.
Já, svaraði Lórí. Hagalagð úr ástarlaut á Þingvöllum.
Þú ert samt ekki mjög þingvallaleg á svipinn, sagði Sólveigur háðslega.
Reyndar ekki, reyndar samt, við erum öll úr þjóðgarðinum, sagði Lórí.
A-ha! sagði Sólveigur. Þú ert á þessum nótum.
A-ha, hermdi Lórí eftir honum og reyndi að vera sakleysisleg eins og barn sem tókst prýðilega vel enda var hún mikið barn í eðli sínu þrátt fyrir góðar gáfur.
Mamma segir að ég megi ekki láta mér verða kalt á kjusunni, bætti hún við með glotti. Annars gætu háræðarnar sprungið.
Nú, það er svona, sagði Sólveigur.
Þá fæ ég það sem heitir á læknamáli kalbarmar, hélt Lórí áfram.
Hvað með það? spurði Sólveigur og þóttist ekkert vita.
Þeir gera fæðingar svo kvalafullar að konur láta við manninn sinn eins og þær séu frígídur og gleymdu ekki latínunni þinni, sagði Lórí og sló fingurgómi á tunguna.
Sólveigur gat ekki annað en hlegið og dáðst að svarinu, svo hann hélt áfram.
Af hverju ertu ekki með fjaðrir eða dún úr fiðurhreinsuninni hennar mömmu þinnar? spurði hann.


Kúgaða kynið?

Eftir að hafa prófð sjálfur að vera í fæðingarorlofi hefur skoðun mín á jafnréttisbaráttunni breyst talsvert.  Hingað til hefur það verið talað um að konur hafi "þurft" að vera heima hjá börnum en karlmennirnir getað verið úti að vinna, að það sé jafnréttismál fyrir konur að karlmenn séu heimavinnandi.

Ég held það hafi verið öfugt.  Konurnar hafa lengi getað haft það gott heima í fæðingarorlofi en karlmönnum hefur verið att út að vinna.  Ætli það hafi ekki verið náðugra verkefni að vera heima að baka í hlýjunni en að berjast við náttúruöflin úti á sjó.

 

 

 


mbl.is Fæðingarorlof feðra lengist og frjósemi eykst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig talarðu um bækur sem þú hefur ekki lesið?

v_9782707319821Franskur bókmenntafræði prófessor gaf út metsölubók í fyrra sem nefnist "Comment Parler des Livers que l´on n´a pas Lus" (Hvernig þú átt að tala um bækur sem þú hefur ekki lesið). Þar skýrir hann út hvernig hann talar viturlega um bækur sem hann hefur ekki klárað, er búinn að gleyma eða hefur ekki svo mikið sem byrjað á. Hann heldur því einnig fram að það minnki ekki bókmenntalegt gildi greininga hans. Mér fannst þetta stórfyndin ósvífni en alveg með ólíkindum glæpsamleg hegðun.

Mér varð aftur á móti hugsað til þessa manns þegar mér varð litið til kommenta sem komu á útlistingar mínar á nýlegum kenningum Gunnars Heinsohnar. Fyrst varð ég hneykslaður þarsem fólk kom með komment um að kenningar þessa Gunnars væru "meira ruglið" og annar sagði þetta staðfesta það að það er hægt að gera kenningar um allt og ekkert. Samt hafði enginn þessara manna lesið bókina? Ég sem hafði þó bögglað mér í gegnum hana treysti mér samt engan veginn til dóma. Stærsti dómurinn sem ég treysti mér til að fella er að hún sé áhugaverð. Enda held ég að það sé rétt að leyfa svona bókum að vera nokkur ár í umferð þannig að aðrir fræðingar geti farið fræðilega í gegnum hana, rifið hana niður eða lofað.

En eftir að hafa komist yfir netta undrun á hversu fólk var með innihald bókarinnar á hreinu án þess að hafa lesið hana að þá hugsaði ég með mér að þetta væri líklegast afskaplega eðlilegt og mannlegt að dæma svo hratt út frá litlum sem engum upplýsingum. Ég, þeir sem komu með kommentin og allt annað fólk er alltaf að taka ákvarðanir út frá litlum sem engum upplýsingum. Allt frá því að ákveða hver sé vinur eða óvinur í frumskóginum til flókinna hluta einsog lífsskoðana eða heimssýnar. Þannig að kannski er Pierre Bayard ekki eins glæpsamlegur og mér fannst er ég heyrði hans getið fyrst. Í það minnsta ætti ég ekki að fullyrða svo fyrr en ég hef lesið bókina hans. Nema ég fylgi hans ráðum þegar hann ráðlagði fólki hvernig það á að gagnrýna bók sem það hefur aldrei lesið:

"Settu bókina fyrir framan þig, lokaðu augunum og reyndu að gera þér í hugarlund hvað þér gæti fundist áhugavert við verkið.  Skrifaðu síðan bara um sjálfan þig."


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband