Lýðræðisæfing í Bútan

Skemmtilega einlægt er að lesa um lýðræðisþróun í Himalayaríkinu Bútan. Alráður konungurinn, sem markað hefur þá fallegu stefnu að í ríki hans skipti mestu máli að auka þjóðarhamingju frekar en þjóðarframleiðslu, hefur nú skipað þegnum sínum að stofna stjórnmálaflokka og undirbúa sig fyrir kosningar sem ráðgerðar eru á næsta ári.

Kongurinn gerir sér samt augljóslega grein fyrir að lýðræði krefst mikils af þegnum sínum og að því verður ekki komið á yfir nóttu.  Til að undirbúa þjóðina fyrir lýðræði voru því haldnar æfingakosningar um síðustu helgi, það er ekki fyrr en á næsta ári sem kosið verður um raunveruleg málefni.

Það er fróðlegt að líta til baka í söguna, þegar lýðræði var fyrst reynt í Frakklandi 1789 tók það áratug þar til Napóleón var orðinn einráður þannig að fyrsta tilraunin gekk ekki sem best.  Tíma tekur að breyta þjóðum, hvort sem það er í átt að lýðræði eins og sumar þjóðir standa frammi fyrir eða að auka umhverfisvitund.  Tvö hundruð árum eftir fyrstu lýðræðistilraunina í Frakklandi var lýðræði snögglega komið á í Rússlandi, hjá þjóð sem aldrei hafði verið frjáls.  Tæpum áratug síðar komst til valda maður sem er á góðri leið með að gerast einvaldur.  Sagan vill endurtaka sig.

Lýðræði gerir kröfur til þjóðar og stjórnmálamanna sem þurfa að læra leikreglurnar - og gleyma þeim ekki.  Miðað við sandkassaleikinn sem okkur hefur verið boðið upp á hér á landi undanfarnar vikur vona ég að Bútanbúar geri sér ekki ferð til Íslands til að reyna að læra lýðræði í framkvæmd.  Aðrar þjóðir hafa náð lengra en við í þeim efnum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband