Færsluflokkur: Bloggar

Sól í Efstaleiti

Ég lét mig það litlu skipta þegar fréttamenn misnotuðu aðstöðu sína til að níðast á Alcan og beita öllum brögðum til að hjálpa Sól í Straumi og hafa áhrif á kosningarnar sem voru í Hafnarfirði. Einsog Egill Helgason sagði í Silfri Egils: "þá voru fjölmiðlarnir bullandi hlutdrægir". Ólafur Teitur rak þetta vel í pistli sínum í Viðskiptablaðinu um síðustu helgi hvað offorsið var rosalegt hjá fréttamönnum RÚV, þarsem þeir blygðunarlaust hölluðu réttu máli, töluðu aðeins við þá sem voru á móti álverinu og gerðu allt tortryggilegt sem kom frá fylgjendum álversins. Mér fannst þetta mál koma mér lítið við, því það eru fyrst og fremst Hafnfirðingar sem stórtapa á þessu.

En mér finnst áhugavert hvað svona fréttamenn eru að hugsa, menn einsog Ingimar Karl Helgason, hvort að þeir séu í eðli sínu svona óréttlætismenn, svo siðblindir að þeir sjái ekki muninn? Eða hvort þeim finnist einfaldlega málstaður sinn svo mikilvægur að það sé í lagi að beita öllum meðölum til að hann nái fram að ganga. Hvort sem er raunin, þá á svoleiðis fólk ekki að sinna fréttamennsku, í það minnsta ekki hjá ríkisútvarpinu. Þegar ég vann uppi á Rás 2, þá þurfti maður fyrst að standast íslenskupróf til að eiga möguleika á starfi þar. Ég held að það væri mun mikilvægara að láta fréttamenn gangast undir siðfræðipróf. Það er auðveldara að þola málvillur úr munni fréttamanna heldur en að þurfa að horfa á stöðugt siðleysi og misnotkun siðblindra manna í einhverju sem á að kallast fréttatími.


Eru auglýsingasálfræðingar rót hins illa?

cover_dontdoit_stopNei, það er of stór fullyrðing að kalla auglýsingasálfræðinga rót hins illa.   Ég er samt á því að þessi stétt hafi óæskilegri áhrif á samtímann en margir gera sér grein fyrir.

Sá sem heldur því fram að auglýsingar hafi ekki áhrif á mannshugan annað hvort þekkir ekki eða afneitar einföldustu sálfræðilegu lögmálum.  Þær geta sannarlega breytt huga okkar og hegðun, sem er einmitt ástæðan fyrir þeim fjármunum sem varið er í auglýsingarnar.  Því miður eru auglýsingar að mestu leyti nýttar til að auka neyslu.  Ég hef t.d. verið að vinna að málefnum skyndihjálpar undanfarin ár, í þeim geira höfum við amk ekki efni á að ráða John Cleese. 

Almennt kaupum við vörur eða þjónustu annað hvort vegna þess að við höfum þörf fyrir, eða vegna þess að búið er að læða að okkur að rétt sé að kaupa.  Starf auglýsingasálfræðinga felst einmitt í að í að kortleggja innsta eðli mannshugans, líkt og gert er t.d. hér.   Þekkingunni er síðan beitt til þess að spila á veikleikana og læða inn í undirmeðvitund okkar að við verðum að eignast viðkomandi hlut. 

Fáir viðurkenna að þeir láti auglýsingarnar hafa áhrif á sig persónulega eru þessi áhrif samt í undirmeðvitundinni þó fólk geri sér ekki grein fyrir því.  Flestir eru á því að þær bara hafi áhrif á alla hina.  Sennilega hafa þær þó áhrif á okkur öll.   

Ein af afleiðingum auglýsinga er að Íslendingi nútímans virðist finnast hann aldrei eiga nóg.  Alltaf þarf stærri og betri eignir eða neysluvörur.  Vissulega hafa margir það erfitt fjárhagslega, en ef raunverulegar þarfir eru skoðaðar snúast langanir oft um eitthvað margfalt meira.  Þannig ná auglýsingar takmarki sínu með því að gera okkur óánægð með ágætis armbandsúr sem þjónar vel tilgangi sínum og telja okkur trú um að nauðsynlegt sé að eignast úr af sérstakri tegund fyrir 300.000.  Í því felst hamingjan og fólk lætur spila með sig, vinnur yfirvinnu til að eiga fyrir óþarfanum.

Auglýsingar drífa einnig áfram hina gengdarlausu notkun náttúruauðlinda sem einkennir samfélag okkar.  Ég hvet alla til að renna yfir útdráttinn úr skýrslu WWF frá síðasta ári um ástand jarðarinnar, þar er augljóst að núverandi lifnaðarhættir okkar vesturlandarbúa stefna jörðinni í gjaldþrot á skuggalega fáum áratugum.  Hvað okkar samfélag hér á landi varðar er ekki nema lítill hluti neyslunnar drifinn áfram af brýnni neyð, líkt og hægt er líklega að segja um íbúa Íslands fyrr á öldum sem ruddu burtu öllum skóginum bara til að reyna að lifa af.  Nei, ef við virkilega værum að kaupa af þörf væri ekki nauðsynlegt beita auglýsingum til að fá okkur til að kaupa.

Því er ég almennt farinn að hallast að þeirri skoðun að heimurinn væri bara betur kominn án auglýsingasálfræðinga.  Við þurfum ekki að láta segja okkur hvað við þurfum, hættum að horfa á auglýsingar.

Um daginn velti ég fyrir mér hvort við hér á landi værum farin að færast frá lýðræði og nær auðræði, líkt og augljóslega má sjá einhver áhrif um í BNA.  Eins og svo oft áður er furðulegt að rökræða á blogginu, athugasemd við greinina barst frá Karli Pétri Jónssyni, sem síðast þegar ég vissi til hefur atvinnu af því að móta skoðanir fólks í gegnum almanntengsl og markaðsstarf.  Einhvern vegin las Karl Pétur út úr grein minni að ég væri að halda því fram að fólk væri fífl, fyrst ég héldi því fram að auglýsingar hefðu áhrif. 

Stórfurðulegt er að vera vændur um að halda því fram að fólk sé fífl, fyrst ég hélt því fram að auglýsingar hefðu áhrif, af manni sem hefur atvinnu af því að auglýsingar hafi áhrif. 

Einnig hélt almannatengillinn því fram að ég hafi sagt framsóknarflokkinn sækja fylgi sitt til auglýsinga og einskis annars.  Það er álíka og að halda því fram að ég hafi sagt okkur á hafsbotni fyrst það væri rigning.  Mér finnst líklegt að auglýsingar hafi haft áhrif og aukið fylgi framsóknar, enda etv auðveldara að hafa áhrif á hug þeirra sem geta látið sér detta í hug að kjósa framsókn. 

Fyrst ég fæ þess háttar athugasemdir við síðasta pistli, þar sem ég var þó bara að benda á hið augljósa að auglýsingar hafi áhrif á skoðanir fólks, neyslu og hegðun, hvað skyldi auglýsingafólk þá sjá úr þessum hugleiðingum um skaðsemi auglýsingasálfræðinga?

 

 


atvinnulífið þarf útlendinga

Á sunnudaginn birtist heilsíðuauglýsing í Fréttablaðinu frá Frjálslynda flokknum þarsem yfirskriftin var "Viljum við sitja uppi með sömu vandamál og aðrar þjóðir sem hafa leyft óhindraðan innflutning erlends vinnuafls?" Ekkert í textanum var hægt að tengja við kynþáttahatur en samt hefur auglýsingin vakið hörð viðbrögð í samfélaginu og fylgismenn Frjálslyndra verið sakaðir um rasisma. Ég tel rangt að bregðast svona harkalega við spurningum af þessu tagi. Svo ég vitni til orða Hildar Dungal, forstjóra Útlendingaeftirlitsins, er hún var í viðtali við Viðskiptablaðið fyrir nokkrum vikum síðan, þá gera "ásakanir um rasisma illt verra".

Það er fullt af fólki sem er hugsi yfir þeim breytingum sem hafa orðið á þjóðfélaginu og ef það er stimplað sem rasistar fyrir þær hugsanir er líklegra að öfgamenn sem eiga þann stimpil skilinn njóti óverðskuldaðrar samúðar og fái jafnvel atkvæði frá hugsandi fólki. Nær væri að mæta slíkum spurningum með rökum.

Það er ekkert sem bendir til þess að Ísland þurfi að sitja uppi með svipuð vandamál og sum nágrannaríkin hafa glímt við. Þar skiptir mestu að þótt í fyrirsögninni frá Frjálslyndum sé gefið í skyn að vandamálin hafi komið upp vegna óhindraðs innflutnings vinnuafls, þá er það ekki rétt. Orsök mestu vandræða nágrannaríkjanna hefur verið lítt heftur innflutningur á flóttamönnum.

Íslenska útlendingasamfélagið er byggt upp á allt annan hátt þarsem hingað hefur nær eingöngu komið heilbrigt fólk til að vinna. Það er einstakt og einmitt þessvegna hefur útlendingunum gengið svo vel að virka innan samfélagsins. Þá starfar Útlendingastofnun náið með sambærilegum stofnunum annars staðar á Norðurlöndunum og víðar, þannig að mistökin sem þau gerðu verða ekki gerð hér. Ekki má gleyma því að áður en opnað var fyrir aðgang Evrópuríkja að vinnumarkaðinum þá streymdu þeir hingað hvort eð er í gegnum allskonar verktaka- og þjónustusamninga sem voru undir litlu sem engu eftirliti. Það var alvarlegt mál sem var tekið á í fyrra með því að fella niður aðlögunarákvæðið. Fyrir vikið kom þetta fólk uppá yfirborðið og eftirlitið með straumnum er mun betra.

Ef litið er á þetta út frá mannúðarsjónarmiðum þá er þetta besti stuðningur við fátækari ríki sem hægt er að veita. Að gefa þeim tækifæri til að vinna og senda peninginn heim. Ef litið er á þetta út frá eiginhagsmunum þá þarf þjóðfélagið á þessu vinnuafli að halda. Atvinnulífið myndi finna leið til að fá þetta erlenda vinnuafl til landsins með einum eða öðrum hætti.

pistillinn birtist einnig í Viðskiptablaðinu í gær


Konan með svörin

Í Silfri Egils í gær var Margrét Pála Ólafsdóttir framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar, sem mér hefur lengi þótt ein snjallasta manneskja landsins. 

Það var kostulegt að sjá hversu smáar stjórnmálakonurnar Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og Kristrún Heimisdóttir urðu þegar Margrét Pála byrjaði að tala.

Margrét Pála benti á þá staðreynd að 57% íslenskra kvenna á vinnumarkaði ynnu hjá hinu opinbera, en 22% karla. Karlarnir, segir Margrét Pála, eru búnir að stofna ehf, kaupa sér gröfu eða stofna fyrirtæki um eitthvað og eru að njóta frelsisins og fjárhagslega ávinningsins sem felst í því að vinna sjálfstætt. Á meðan eru konurnar að vinna innan hins þrönga ramma opinbera rekstrarins þar sem allt er skorið við nögl og svigrúmið til framfara er sama sem ekkert.

Þarna liggja svörin. Margrét Pála er sjálf búin að prófa að brjóta sér leið út úr þessum opinbera ramma og hún veit nákvæmlega hvað það þýðir að komast út. Frelsið sem hún bjó sér til er nú frelsi 900 barna sem ganga í skóla hjá henni og ég hef ekki hitt neinn ennþá sem er ekki svífandi um í sælu yfir þjónustunni sem börn og foreldrar fá í hennar fyrirtæki.

Kristrún og Guðfríður Lilja sátu hljóðar undir orðum Margrétar Pálu. Þær buðu ekki upp á nein svör.

Það sorglega er að á meðan nánast öruggt er að annað hvort Kristrún eða Guðfríður Lilja verða við landstjórnina eftir kosningar, en jafnöruggt að Margrét Pála verður það ekki. Og kreddurnar sem þær standa fyrir verða í fyrirrúmi og konurnar, sem Margrét Pála skilgreinir sem vinnukonur opinbera geirans verða í jafn vonlausri stöðu áfram, sennilega bara enn vonlausari.

Karl Pétur Jónsson

 Einnig birt á logmalid.blog.is


góði þjóðverjinn

Fyrir alla aðdáendur The third man eða mynda Film Noir stefnunnar þá er loksins runninn upp tími almennilegrar kvikmyndagerðar. Persónulega finnst mér The Third Man ein besta mynd sem gerð hefur verið og finnst samfélagsskýringar nútíma bíómynda hreinn hryllingur. Film Noir myndirnar voru mótaðar af þýskum kvikmyndagerðarmönnum sem höfðu upplifað mannskepnuna í sinni tærustu mynd í þriðja ríki Hitlers þarsem hún undir þrýstingi verður að viðbjóði. Góðvilja nágranninn breyt9ist í óargadýr, baráttumaður réttlætisins verður að morðingja, samúðarfullur femínistinn  verður að hjartalausum drullusokk. Í myndinni The Good German er andi þessa tíma dreginn upp á nýjan leik. Myndin af mannfólkinu er sterk, bara vont fólk. Skilin sem eru á milli eru aftur á móti mikilvæg, þeir sem þykjast vera góðir og þeir sem eru að reyna að vera góðir. Það er þar sem skilur á milli. Þar er efinn. Þar er spurningin í nútíma samfélaginu einsog það var í samfélaginu þá. Hann verður bara sterkari í svona sjúklegum aðstæðum einsog þegar horror hins illa hefur riðið röftum. Kvikmyndatakan er mjög góð og leikurinn yfir meðallagi. Meira að segja hinn pólitískt barnalegi George Clooney er sannfærandi í hlutverki sínu og virkar á köflum gáfulegur. Sagan er góð og plottið kemur á óvart. Clooney lendir inní baráttu bandarískra yfirvalda við að ná til sín hæfum þýskum eldflaugasérfræðingi sem gæti hjálpað VEsturveldunum að ná hernaðarlegum yfirburðum. En hagsmunum þessa stórveldis er mætt af konu sem hefur stálvilja. Hún er hóra. Heimsveldið er stoppað af hóru. Kona sem hefði getað orðið hvað sem er í eðlilegu samfélagi, allt frá forseta Þýskalands til heimavinnandi húsmóður með þrjátíu börn, hefur vegna ömurleikans endað sem hóra með einn vilja, ná að gera það sem hún telur gott. 

Lýðræði eða auðræði

Á vesturlöndum flestum er í orði notað lýðræði til að stjórna þjóðfélögunum.  Í reglubundnum kosningum skilar almenningur inn atkvæðum sínum og aðilum eru afhent völdin fram að næstu kosningum.  Allir telja sig líklega kjósa samkvæmt sinni sannfæringu, velja þann sem þeir telji hentugastur til að stýra þjóðfélaginu.  Það þarf þó ekki endilega að vera rétt skoðun.

Fáir viðurkenna líklega að þeir kaupi vörur vegna auglýsinga.  Flestir eru á því að þeir taki sjálfstæða ákvörðun um hvað þeir vilja kaupa, en eins og allir markaðsmenn vita líklega þá spila auglýsingar með undirvitund okkar og geta fengið okkur til að gera ólíklegustu hluti.  Ætli fólk viti þetta ekki almennt, það bara horfist ekki í augu við að það gildir einnig um það sjálft, ekki bara alla hina.

Því miður hefur auglýsingamennskan haldið innreið sína í stjórnmálin sífellt meir á undanförnum árum, með hjálp auglýsingarsálfræðinga er spilað á hugi almennings.  Þegar horft er á stjórnmálin í BNA virðast þessi áhrif vera orðin svo yfirþyrmandi að maður fer að velta fyrir sér hvort hægt sé að tala um raunverulegt lýðræði lengur.  Þar virðast fjársterkir aðilar geta keypt skoðanir fólks með aðstoð markaðsmanna þannig að réttara sé að tala um auðræði. 

Hvaða skoðun sem fólk hefur á álverskosningunum í Hafnarfirði í dag er ekki hægt að horfa fram hjá því að fjármagni hefur verið beitt til að hafa áhrif á lýðræðið.  Í síðustu þingkosningum þóttust margir sjá gagnsemi gríðarlegrar auglýsingarherferðar Framsóknarflokksins í því fylgi sem kom upp úr kjörkössunum.  Það kemur ekki á óvart að í þeim fréttum sem hafa borist af samkomulagi stjórnmálaflokka til að takmarka kostnað við auglýsingar í aðdraganda þingkosninga hafi Framsóknarflokkurinn komið með hæstu töluna að samningaborðinu, 35 milljónir.

Nú þegar styttist í alþingiskosningar hér verður fróðlegt að sjá hvernig fólki gengur að sjá í gegnum lýðskrumið, brosandi andlit í kosningabæklingum og sjónvarpsauglýsingum, barmmerki og blöðrur.   Hvort sem fólk hefur stjórnmálaskoðanir til hægri, vinstri, að gráu eða grænu eða eitthvað allt annað, hljóta allir að geta verði sammála um mikilvægi þess að fólk myndi sér sjálfstæða skoðanir, óháð auglýsingaþrýstingi.


mbl.is Úrslit í Hafnarfirði gætu legið fyrir kl. 21 til 22
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

á morgun

images

Eftir að hafa hlustað á ofstækið í umhverfisverndarsinnunum í margar vikur er ég svo feginn að þessu er að ljúka. Það hefur ekki getað komið skoðanakönnun án þess að tekin séu löng viðtöl við þá þarsem þeir eru með klisjukenndar yfirlýsingar um að þeir séu undir átökum í við vonda stóra kapítalíska stórfyrirtækið.

Mér slétt sama hvort Hafnfirðingar kjósa að leyfa þessu magnaða fyrirtæki að blómstra eða hvort þeir ákveða að drepa lífæðina sína, slátra kúnni sem gefur þeim mjólkina. Það er þeirra mál. Ég ætla hvort eð er ekki að flytja inní svona bæjarfélag þarsem um helmingur bæjarbúa virðist vera orðinn svo firrtur að hann vill í alvörunni höggva undan sér fæturnar.


Hótel Jörð 2007

pollution_eurasiaAllir þekkja sígilt kvæði Tómasar um Hótel Jörð, enda líking jarðarinnar við hótel er einföld og skýr. 

Á öllum hótelum eru brunavarnarkerfi.   Eftir áralanga vinnu á vettvangi með okkar frábæra Slökkviliði Höfuðborgarsvæðisins þekki ég vel hvað gert er þegar eldboð berst frá slíkum kerfum í stórum byggingum -  ef ekki nema vaknar grunur um eld er strax brugðist harkalega við, hótelið rýmt og allt tiltækt björgunarlið kallað á vettvang.  Ef eldur finnst er hann slökktur strax.    Hótelið og íbúar þess nýtur vafans.

Ef heimfæra ætti ástand Hótel Jarðar á nútímann er ástandið orðið þannig í dag að mörg herbergi eru þegar brunnin til kaldra kola í mengun.  Nokkrar hæðir eru reykfylltar og á öllum hæðum koma brunaboð frá einhverjum reykskynjurum.  Mengun, fjöldaútrýming dýra og plöntutegunda, eyðilegging regnskóga, þurraustur á námum og gróðurhúsaáhrif, öll þessi vandamál hafa náð þvílíku umfangi að samkvæmt mælingum er mögulegt að okkar góða hótel verði rústir einar eftir nokkra áratugi - sekúndur í lífi jarðarinnar.  Keppnin um að koma sér að og krækja sér í nógu þægilegt sæti er að eyðileggja hótelið.

Samt eru þeir til sem berja höfðinu við stein.  Fólk eins og þessi, þessi og þessi halda því fram að fyrst til séu enn nemar sem ekki verða varir við reyk þá hljóti allt að vara í góðu lagi.  Ef mögulegt er að ekki berist eldboð frá einhverjum af reykskynjurunum sé bara fráleitt að raska ró hótelgesta.  Ekkert vesen, enda gæti einnig hugsanlega verið um tæknileg mistök í reykskynjara að ræða.  Iðnaðurinn á að njóta vafans.  Svona viljum við hafa það.  Þeir vilja sofa rólegir í brennandi hótelinu og vilja að við öll hin gerum það líka.

Því miður er ekki um aðra gististaði að ræða.

Á morgun gefst Hafnfirðingum einstakt tækifæri til að hafna mengandi stóriðju í sínu bæjarfélagi og hægja á þessari þróun.  Ég vona að þeir kjósi með hag jarðarinnar í huga.


mbl.is Íslenskir bankar undirbúa fjármögnun fyrirhugaðs álvers Norðuráls í Helguvík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

85% kindarleg

ReiðaJahá, nú hefur vísindamönnum tekist að "framleiða" kind sem er metin 15% mannleg, væntanlega út frá mótefnaflokkum.  Markmiðið er væntanlega að framleiða líffæri til nota sem varahluti í menn, enda alltaf skortur á líffærum til ígræðslu.

Því fylgir nokkur togstreita að reyna að mynda sér skoðun á þessu máli.  Vissulega er verið að vinna að því að geta bjargað mannslífum, en svo fylgir þessum tilraunum alltaf möguleikinn á að nýjar sýkingar á borð við HIV berist úr dýrum í menn eða að óafturkræfur skaði verði á genamengi mannsins.  Hvort tveggja gæti leitt til svo ólýsanlegra hörmunga að allt annað sem mannkynið hefur staðið frammi fyrir myndi blikna.

Eigum við að gleðjast eða hræðast þessum kindarlega áfanga?


Móðgun við MORFÍS

Miðað við þetta mál allt, og að dómari hafi endurtekið séð ástæðu til að grípa fram í fyrir ríkissaksóknara og stytta mál hans, hljómar nú eiginlega í eyrum leikmanns eins og að þessi ummæli Jakobs séu ákveðin vanvirðing við hina ágætu MORFÍS keppni.
mbl.is Segir settan ríkissaksóknara hafa beitt Morfís-brögðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband