Aftaka Husseins

Það var skrítið að sjá sjónvarpsupptöku af því þegar Saddam Hussein var leiddur til aftöku í Írak. Fjöldi félaga minna og vina áttu ættingja sem ríkisstjórn Saddams Husseins hafði niðurlægt, pyntað og myrt. Áður en að aftöku hans kom hafði ég vonað að þannig færi. Svo þegar loksins kemur að henni þá líður manni bara illa. Því maður sér ekki fjöldamorðingja og illmenni leitt til aftöku, heldur bara gamlan og sorgmæddan mann. Manni fannst hann frekar þurfa aðhlynningu aðstaddra og aðstoð heldur en að sett væri snara um háls hans og hann myrtur. Ég minntist þess sem einn japanskur hermaður sagði í viðtali eftir seinni heimsstyrjöldina, sem var eitthvað á þessa leið: “Það fara allir í stríð með nafn ættjarðarinnar og konungsins á vörunum en þeir deyja allir kallandi á mömmu sína”. Þótt sumir illvirkjar fremji glæpaverk sín með ómanneskjulegum aðferðum þá koma þeir allir til aftöku sinnar sem menn. Ég veit ekki hvað ég held um dauðarefsingar. Þótt maður sé mótfallinn dauðarefsingum á Íslandi hef ég yfirleitt sýnt því skilning að úti í heimi hinna stærri samfélaga en svona örsamfélags einsog hér, séu dauðarefsingar skiljanlegar í sumum tilvikum – en ég er ekki viss. Ég sá aldrei illvirkjann Saddam Hussein. Ég var reyndar á réttarhöldunum yfir honum en sá hann sem gamlan og kurteisan mann. Hann var leiddur inní dómsalinn í fylgd tveggja óvopnaðra tvítugra stráklinga. Hann sýndi engan mótþróa, lét þá stoppa göngu sína þegar annar þeirra lyfti hendi, settist síðan þegar stráklingurinn leyfði honum það. Á meðan réttarhöldunum stóð var hann kurteis og bað tvisvar um orðið en dómarinn hafnaði því í bæði skiptin og hann tók því einsog kurteisum manni ber. Bróðir hans var reyndar einsog snarbrjálaður vitleysingur í réttarhöldunum en það er önnur saga. Það gerir hann svosem ekkert að betri manni að hann skuli hafa verið rólegur, kurteis og gamall. Manni skilst að hann hafi skipað fyrir sín verstu glæpaverk með ró og kurteisi. Og við önnur réttarhöld hélt hann reiðilestur yfir dómurunum og hellti sér yfir sjíana. En ég sé ekki að það geri Írak heldur að betra landi að myrða þennan gamla og kurteisa fjöldamorðingja.
mbl.is Samstarfsmenn Husseins teknir af lífi á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband