1.1.2007 | 13:11
Skáld og forsætisráðherrar um áramót
Maður bíður alltaf eftir því með mestri óþreyju þegar nýr forsætisráðherra tekur við stjórnartaumum landsins hvaða skáldi hann tekur ástfóstri við í áramótaávörpum sínum. Og auðvitað er það þannig að skáld velja ekki forsætisráðherra heldur forsætisráðherrar skáld.
Löng hefð er fyrir því í Sjálfstæðisflokknum að vitnað sé í Hannes Hafstein skáld og fyrsta ráðherra þjóðarinnar. Það liðu varla áramót án þess að Davíð Oddsson kallaði hann til samfylgdar inn í nýtt ár.
En Geir H. Haarde mælti þjóðinni mót við nýtt skáld í gærkvöldi þegar hann sagði: Áramót boða birtu og nýjar vonir framundan. Í nýrri bók sinni túlkar Hannes Pétursson þessa tilfinningu með glæstri ljóðmynd:
Seint gleymist sólarkoma
eftir svartasta skammdegi:
gulir eldar
við efstu fjöll!
Í niðurlagi ræðu sinnar talaði Geir um skáldið Jónas Hallgrímsson: Töfrar málsins í ljóðum Jónasar snerta strengi í brjósti sérhvers Íslendings. Segja má að hvar sem lokið er upp í ljóðasafni Jónasar glitri á perlur. Margt af skáldskap hans er lifandi á vörum okkar, hvort sem við höfum lært hann í barnaskóla eða síðar á ævinni. Kvæðið alkunna, Ég bið að heilsa, er gott dæmi um þetta:
Nú andar suðrið sæla vindum þýðum,
á sjónum allar bárur smáar rísa
og flykkjast heim að fögru landi Ísa
að fósturjarðar minnar strönd og hlíðum.
Þetta fallega kvæði, sem yljað hefur mörgum um hjartarætur, tvinnar saman íslenska arfleifð og evrópska menningu. Það er óður til fósturjarðarinnar en undir erlendum bragarhætti, fyrsta sonnettan sem ort er á íslensku."
Geir er maður tónlistarinnar og þess vegna lætur hann ekki hjá líða að geta tónskáldsins: Mörgum áratugum eftir andlát Jónasar Hallgrímssonar fæddist sá maður sem átti eftir að gefa þessu kvæði annað líf, tónskáldið góða, Ingi T. Lárusson. Lag Inga T. hefur greypt kveðju Jónasar heim til Íslands í hug og hjörtu okkar Íslendinga. Þessara tveggja listamanna er gott að minnast í kvöld."
Davíð Oddsson minntist Jónasar Hallgrímssonar raunar í áramótaávarpi sínu árið 2002. Þá sagði hann að Jónas hefði ort margt og yrkisefnin verið ólík. En þegar vel er að gáð glittir í ást hans á ættjörðinni í nánast hverju kvæði. Og það er hvergi úr stíl. Það er ekki merki um þjóðrembing og mont, þótt við látum, eins og Jónas, eftir okkur að það glitti í ást okkar á landi og þjóð í nær sérhverju verki sem við tökum að okkur og hvað sem við annars höfum fyrir stafni á nýja árinu. Fyrir rúmum hundrað árum orti 18 ára gamall piltur á þessa leið til landsins síns:
Ef verð ég að manni, og veiti það sá,
sem vald hefur tíða og þjóða,
að eitthvað ég megni, sem lið má þér ljá,
þótt lítið ég hafi að bjóða,
þá legg ég að föngum mitt líf við þitt mál,
hvern ljóðstaf, hvern blóðdropa, hjarta
og sál.
Halldór Ásgrímsson gerði Einar Benediktsson að skáldi Framsóknarflokksins í sínum tveimur ávörpum. Og Matthías Jochumsson kemur við sögu í ávarpi Davíðs árið 2004: Hvað boðar nýárs blessuð sól?" spurði sr. Matthías forðum, og sama hugsun býr nú með okkur, hverju og einu.
Hún boðar náttúrunnar jól,
hún flytur líf og líknarráð,
hún ljómar heit af Drottins náð.
Þannig svaraði skáldið sjálfu sér. Matthías þurfti enga spádómsgáfu til þess að gefa þetta svar. Þetta var ekki spá, heldur vissa. Sr. Matthías hafði, þegar þarna var komið, sigrað efann sem ásótti hann stundum forðum. Hann var kominn fyrir þann vind. Honum var borgið, í öruggri vissu þess að:
Í hendi Guðs er hver ein tíð
í hendi Guðs er allt vort stríð
hið minnsta happ, hið mesta fár
hið milda djúp, hið litla tár
Í almáttugri hendi hans
er hagur þessa kalda lands,
vor vagga, braut, vor byggð og gröf,
þótt búum við hin ystu höf.
En það er ekki hægt að fjalla um áramótaávörp án þess að Hannes Hafstein fái að njóta sín í orðum Davíðs og mörg áramót sem koma til greina. Höldum áfram með árslok 2004, þar sem Matthías hefur þegar arkað fram á sviðið í upphafi ræðunnar. Síðar slæst Hannes Hafstein í för með honum, sem kom vígreifur til starfa í gamla Landshöfðingjahúsinu við Bakarabrekku:
En þegar Hannes Hafstein horfði út um gluggann sinn í hinu nýja stjórnarráði vissi hann ekki aðeins, rétt eins og við nú, að margt var ógert. Við honum blasti, hvert sem litið varð um landið, að það var nánast allt ógert. Samt ljómaði hann í sál og sinni þennan febrúarmorgun árið 1904. Af hverju? Af því að hann skynjaði að loksins var fengin forsendan fyrir framförum í því landi, sem svo lengi hafði staðið í stað. Og hver var hún forsendan sú? Frelsið. Frelsið var aflgjafinn sem svo lengi hafði vantað. Daufar vonir höfðu vissulega blundað með þjóðinni og hún átt drauma og þrár, en frumkvæðisrétturinn og framkvæmdaskyldan hvíldu ekki á réttum herðum fyrr en með heimastjórninni. Eignir þjóðarinnar voru ekki miklar og aflið virtist ekki beysið en það dró ekki móð úr fyrsta ráðherranum sem vissi í hjarta sínu að nú voru vatnaskil. Þetta skynjaði gamli skáldmæringurinn fyrir norðan líka, þar sem hann sat í Sigurhæðum. Úr bréfum hans til Hannesar Hafsteins má lesa væntingar hans - jafnvel sigurvissu, nú þegar þau lögðust á eitt, forsjónin, frelsið og hinn stórhuga skarpgreindi skáldbróðir hans, sem falið hafði verið að hlaupa fyrsta spottann í langhlaupi hennar úr örbirgð til betra lífs. Forskot annarra þjóða á Íslendinga mældist ekki í metrum, heldur í áratugum eða öldum, en það gilti einu, því nú var Ísland komið af stað og hljóp loks með kyndil sinn á eigin forsendum.
Hannes mat hvatningarbréf sr. Matthíasar mikils. Hann var ekki orðinn ráðherra Íslands er hann svarar einu bréfanna meðal annars með þessum orðum.
Við þurfum trú á mátt og megin,
á manndóm, framtíð, starfsins guð,
þurfum að hleypa hratt á veginn,
hætta við óláns víl og suð,
þurfum að minnast margra nauða,
svo móður svelli drótt af því,
þurfum að gleyma gömlum dauða,
og glæsta framtíð seilast í.
Og Davíð klykkir út með: Forystuhæfileikar Hannesar Hafsteins, óbilandi kjarkur hans og bjartsýni, sefjandi sigurvissa gagnvart hvers kyns erfiðleikum var orkugjafi þjóðarinnar í upphafi nýrrar aldar. En meira að segja slíkir eiginleikar hefðu dugað skammt ef viðspyrnan, sem frelsið gaf, hefði ekki fengist. Þess er okkur hollt að minnast á þessum tímamótum. Því baráttunni um frelsið er ekki lokið og lýkur aldrei, þótt hún hafi breyst. Og nú er vandinn við að varðveita það og efla flóknari en nokkru sinni fyrr. Því nú er ekki lengur við fjarlægan, óbilgjarnan, erlendan andstæðing að eiga sem sameinar þjóðina til átaka. Nú snýr baráttan inn á við. Nú er við okkur sjálf að eiga og það er snúnara. Við þurfum sjálf að gæta þess að sá aflvaki og þróttur sem í frelsi manna býr fái að njóta sín. En frelsið verður gagnslítið, ef það er aðeins fárra en ekki fjöldans. Ef við kunnum ekki með það að fara, misnotum það eða misbeitum, þá þrengir smám saman að því, uns svo er komið að það skiptir engu, hvort rót þess er nær eða fjær, í Kvosinni eða Kaupmannahöfn. Þá værum við komin aftur á byrjunarreit."
Flokkur: Menning og listir | Breytt s.d. kl. 17:34 | Facebook
Um bloggið
krummi
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- annapala
- arnih
- arnljotur
- begga
- birgitta
- bjarnihardar
- bleikaeldingin
- davidlogi
- don
- ea
- fararstjorinn
- feministi
- gattin
- geislinn
- grettir
- halldorbaldursson
- hallkri
- handsprengja
- handtoskuserian
- hannibalskvida
- herdis
- hlynurh
- hof
- hoskuldur
- hrollvekjur
- hugsadu
- hux
- ingibjorgelsa
- jonasantonsson
- kaffi
- kiddirokk
- kjarninn
- kjoneden
- kolgrima
- listasumar
- ljonas
- lostintime
- maggaelin
- magnusb
- malacai
- maple123
- nosejob
- pallvil
- ragnhildur
- reni
- ruthasdisar
- seth
- sigurgeirorri
- stebbifr
- steinibriem
- theld
- tulugaq
- vefritid
- vglilja
- vinursolons
- vitinn
- arniarna
- gisliblondal
- skak
- athena
... ... ... ... ... ... ... ... ...
Athugasemdir
Mér finnst nú langt gengið að halda því fram að þjóðin skilji ekki Hannes Hafstein eða Matthías Jochumsson og lesi þá ekki. Það nægir að rifja upp stöku eftir Hannes sem margir kunna og er flestum auðskiljanleg:
Taktu' ekki níðróginn nærri þjer.
Það næsta gömul er saga,
að lakasti gróðurinn ekki það er
sem ormarnir helst vilja naga.
Og það er fullbratt þykir mér að tefla fram öðrum „auðskiljanlegri skáldum". Þú átt þá líklega létt með að snara þessari hendingu Steins Steinarrs úr Tímanum og vatninu yfir á auðskiljanlegt alþýðumál:
Á hornréttum fleti
milli hringsins og keilunnar
vex hið hvíta blóm dauðans.
Flestum yrði orða vant ef þeir væru spurðir um merkingu þessa erindis eða kvæðisins í heild. Líklega yrði viðbrögðunum best lýst með orðum Steins sjálfs:
Þögnin rennur
í þreföldum hring
kringum þögn sína.
Ég held að Sigfús Daðason og Steinn Steinarr fylli seint flokk auðskiljanlegra skálda og myndu eflaust sjálfir kjósa sér annan félagsskap. Ég leyfi mér til dæmis að efast um að þeir hefðu hafnað föruneyti séra Matthíasar og Íslandsráðherrans.
Pétur Blöndal, 2.1.2007 kl. 17:42
Ég er að reyna að átta mig á því hvernig ég á að skilja samtal Björgvins og Péturs hér að ofan. Björgvin vill gjarnan að ræðumenn fari að vitna í "nýrri" skáld í ræðum en Pétur segir þá óskiljanlega og vill því að ræðumenn haldi sig við þá "gömlu". Á þá að skilja Pétur þannig að ekkert hafi gerst í ljóðlistinni (þar sem enginn skilur ljóðin) í tæpa heila öld?
Lárus Blöndal, 3.1.2007 kl. 13:23
Mér finnst einmitt besta mál að vitnað sé í "nýrri" skáld. Og mér finnst ekkert síðra að halda "gömlu" skáldunum á lofti. Ég mótmæli því aðeins að það sé einhver mælikvarði hversu "auðskiljanleg" skáld eru og eins að séra Matthías sé síður skiljanlegur en Steinn Steinarr. Ég er hæstánægður með þennan sið sem hefur skapast að vitna í skáldin í áramótaávarpinu; forsætisráðherrar þurfa þá að opna ljóðabók að minnsta kosti einu sinni á ári, - það auðgar andann og nærir sálina.
Þó að maður geti furðað sig á því að flokkarnir eigni sér tiltekin skáld, þá er það auðvitað heiður fyrir skáld að vera hampað með þeim hætti, svo lengi sem þeim eru ekki gerðar upp skoðanir. Það þótti til dæmis heiður fyrir Robert Frost að flytja ljóð þegar John F. Kennedy sór embættiseið. Og það getur verið gaman að velta fyrir sér hvaða skáld Vinstri grænir myndu velja sér eða Samfylkingin; enn hefur ekki komið reynsla á það. Líklega myndi Steingrímur Sigfússon tefla fram Jóhannesi úr Kötlum eða Andra Snæ Magnasyni, - eða hvað? Og Ingibjörg Sólrún - kannski Kristínu Ómarsdóttur?
Pétur Blöndal, 3.1.2007 kl. 15:48
Ég sé að ég hef einfaldað ALLTOF mikið samtal Björgvins og Péturs hér að ofan. Ég er sammála þér Pétur að það er furðulegt að flokkar eigni sér tiltekin skáld en um leið er þó furðulegt að stjórnmálamenn hugsa oft ekki um það hvaða skoðun eða hvaða boðskap skáld eru að reyna að koma á framfæri í ljóðum sínum. T.d. var það undarlegt þegar hægrimenn vitna í ljóða Þorsteins Erlingssonar, sem var einn af árgölum sósíalimsanns á Íslandi, og taka jafnvel hendingar úr ljóðum sem í raun voru sósíalískur boðskapur.
Skoðun flokka og stjórnmálamanna á skáldum birtist líka í því þegar R-listinn vildi ekki reisa styttu af Tómsi Guðmundssyni í Reykjavík þó svo að hann sé tengdur Reykjavík sterkum böndum.
Lárus Blöndal, 3.1.2007 kl. 16:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.