29.12.2006 | 11:37
E.T.
Kannski vegna þess að þau eru að koma, nálgast hratt, stend ég sjálfan mig að því að velta fyrir mér möguleikanum á lífi á öðrum hnöttum. Kannski er það vegna einhvers annars, veit það ekki, þetta er eitthvað sem ég hef aldrei pælt í af alvöru. En núna, þegar ég hef hugsað um líf á öðrum hnöttum - extraterrestrials - í nokkra daga, kemur mér stöðugt oftar til hugar að þetta ágæta viðfangsefni (samsetning alheimsins) sé og verði ávallt ofar skilningi og greind mannsins.
Það er, því lengur sem ég stari út í geim og reyni að komast að einhverri rökréttri niðurstöðu, því meir líður mér eins og hundi sem situr fyrir framan sjónvarpstæki og telur sig vera að koma á raunverulegu sambandi þegar hann geltir á annað dýr á skjánum. Því lengur sem ég stari út í geim og reyni að mynda mér einhverja raunverulega skoðun á lífi á öðrum hnöttum, því meir líður mér eins og páfagauki sem reynir við sjálfan sig í spegli. Það er, því lengur sem ég stari út í geim því sterkar fæ ég á tilfinninguna að við séum á svo rangri braut í hinum svokölluðu heimsfræðum að ekki sé einu sinni hægt að byrja að tala um það. Og þótt vísindin þróist - þótt geimförin komist lengra - þá skipti það hugsanlega jafnmiklu máli í stóra samhenginu og ef hundurinn framan við sjónvarpið næði að stökkva upp og tylla loppunum á skjáinn.
Um daginn birtust tvær fréttir sem báðar tengdust heimsfræðingnum Stephen W. Hawking. Önnur var sú að Hawking hefur komist að því að mannkynið verður að nema aðrar plánetur í framtíðinni. Það muni ekki lifa af útþenslu sólarinnar. Þótt ég læsi fréttina nokkrum sinnum tókst mér ekki að skilja þessa nýju vísindaniðurstöðu Stephen W. Hawking öðruvísi en svo að hann hefði bara aldrei verið í eðlisfræði í Digranesskóla. Þar var okkur kennt í tólf ára bekk að sólin væri að þenjast út og myndi á endanum eyða jörðinni. Hin fréttin var merkilegri. Mér þótti hún reyndar svo stórmerkileg að allan þann dag gekk ég um með algerlega endurnýjaða trú á mannsandanum. Samkvæmt fréttinni átti Stephen W. Hawking í svæsnum málaferlum við eiginkonu sína vegna meints framhjáhalds. Honum hafði tekist, þrátt fyrir að vera svo illa farinn af hreyfitaugungahrörnun að hann getur ekki lengur haldið höfðinu uppréttu, að halda framhjá með ritaranum sínum. Það geta sennilega bara snilllingar. Og hvað segir þetta manni um karlmenn? Í framhaldinu velti ég fyrir mér hvort fréttirnar tvær hefðu verið slitnar úr samhengi. Hugsanlega sá greyið maðurinn ekki fram á annað - nú þegar hann var að ganga í gegnum heiftarlegan skilnað - en að þurfa að koma sér fyrir á annarri plánetu.
Stephen William Hawking; vinur minn sem hefur miklar mætur á vísindamanninum reyndi einu sinni að sannfæra mig um að hann hefði fundið Guð. Hefði hreinlega reiknað hann út. "Nú?" sagði ég. "Já," svaraði vinur minn. "Hann hefur komið auga á hreyfingar og krafta í geimnum sem hann getur ekki staðsett í neinum þekktum kerfum og ekki sett í nein þekkt samhengi og telur því að þetta óþekkta afl hljóti að vera Guð." Þótt mig byrjaði að gruna að vinur minn væri endanlega búinn að rugla þessum tveimur stóru persónum saman man ég líka að mér fannst þetta svolítið falleg hugmynd; Guð sem óskilgreindar bylgjuhreyfingar innan um alla lógík heimsins. Þessi pæling vinar míns (og Stephen W. Hawkings) rifjaðist aftur upp fyrir mér daginn sem ég las fréttina um framhjáhaldið og hugsaði ég þá með mér að líklegast væri heimsfræðingurinn svolítið mikið góður í kjaftinum.
Einhverntíma birtist Stephen W. Hawking líka í sjónvarpinu og tilkynnti okkur hinum með þessari seiðandi tölvurödd - sem ein og sér lætur allt hljóma eins og Sannleik - að tímaflakk, jájá, auðvitað væri það mögulegt, við myndum náttúrlega bara ferðast í gegnum svartholin. Tímaflakk? Svartholin? Daginn eftir var ég búinn að kaupa mér Sögu tímans og byrjaður á þessari bók sem átti að vera bæði "ljós og lifandi" samkvæmt kynningartextanum.
Úr Sögu tímans: "Þegar stjarna hrynur saman og verður að svartholi, eru hreyfingarnar miklu hraðari og orkustraumurinn frá stjörnunni öflugri. Þess vegna myndi ekki líða langur tími þangað til hún kæmist í sístætt ástand. En hvernig myndi það ástand vera? Ætla mætti að það velti á ótalmörgum atriðum í gerð stjörnunnar, ekki aðeins massa hennar og snúningshraða, heldur einnig í þéttleikanum á mismunandi stöðum í stjörnunni og hreyfingum loftkenndra efna í henni - en svo er ekki. Væru svarthol jafn fjölbreytileg og það sem hrunið hefur saman til þess að mynda þau, gæti reynst afar erfitt að spá nokkru um gerð þeirra almennt."
Ég kláraði aldrei bókina. Og kannski er það þessvegna sem ég hef fundið hjá mér þá þörf undanfarið að stara út í geim og fást við hinar ósvöruðu spurningar. En að engri niðurstöðu komist. Að sjálfsögðu. Hinsvegar hefur enn annað byrjað að leita á hugann. Hvað er Guð að gera þegar hann er að færa til þessa orku eða hvað þetta var sem Stephen Hawking kom auga á en gat ekki fundið stað í neinum kerfum? Hverju eiga þessar hreyfingar hans að koma til leiðar? Ég sé mjög eftir að hafa ekki spurt vin minn að því á sínum tíma. Er þessi geimsins stærsta vera að hreyfa sig til að forða þessum bílnum frá árekstri við hinn? Er hann að hafa áhrif á lottóið? Er hann að reyna að halda aftur af Kim Jong-Il? Er hann að hjálpa unglingsstráknum að herða sig upp og hringja bara í hana? Er hann að kalla fram rigningu á Indlandi? Er hann að stýra gengi krónunnar? Hverju eiga þessar óskýranlegu hreyfingar Guðs að ná fram? Veit það ekki, veit bara að því lengur sem ég stari út í geim, því meir hlakka ég til áramótana.
Munið eftir gleraugunum.
Huldar Breiðfjörð
Um bloggið
krummi
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 176819
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- annapala
- arnih
- arnljotur
- begga
- birgitta
- bjarnihardar
- bleikaeldingin
- davidlogi
- don
- ea
- fararstjorinn
- feministi
- gattin
- geislinn
- grettir
- halldorbaldursson
- hallkri
- handsprengja
- handtoskuserian
- hannibalskvida
- herdis
- hlynurh
- hof
- hoskuldur
- hrollvekjur
- hugsadu
- hux
- ingibjorgelsa
- jonasantonsson
- kaffi
- kiddirokk
- kjarninn
- kjoneden
- kolgrima
- listasumar
- ljonas
- lostintime
- maggaelin
- magnusb
- malacai
- maple123
- nosejob
- pallvil
- ragnhildur
- reni
- ruthasdisar
- seth
- sigurgeirorri
- stebbifr
- steinibriem
- theld
- tulugaq
- vefritid
- vglilja
- vinursolons
- vitinn
- arniarna
- gisliblondal
- skak
- athena
... ... ... ... ... ... ... ... ...
Athugasemdir
Er þetta ekki þannig; Guð er allt sem við skiljum ekki. Þá er meira af Guði í Stephen Hawking en mörgum sem ég þekki. Og er það ekki fallegast sem við komumst ekki til botns í. Svo er eins og fegurðin hverfi þegar skilningurinn eykst. Þegar við komumst nær er ekki meiri staðfesta í fegurðinni en hillingum. Davíð Stefánsson orðaði það þannig:
Þinn líkami er fagur
sem laufguð björk,
en sálin er ægileg
eyðimörk.
Pétur Blöndal, 29.12.2006 kl. 15:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.