Þegar stóll varð hóll og sköpunarsagan fúga eftir Bach

jólasveinar Mér hefur leiðst ósegjanlega mikið skynsemisvæðing skáldskaparins, þar sem fóstrur og jólasveinar hafa sameinast um að breyta texta jólakvæðisins: „Upp á stól stendur mín kanna" í „upp á hól stend ég og kanna" eða jafnvel „upp á stól stend ég og kanna"!

Þess vegna gladdist ég við ágæta grein Péturs Gunnarssonar rithöfundar í Morgunblaðinu, þar sem hann benti á að í kvæðinu væri vísað til könnustóls.

Ugglaust er þetta fallega meint og til þess gert að hafa enga vitleysu fyrir blessuðum börnunum, en þá hefur leiðréttingarmönnum yfirsést að könnustóll er raunverulegt fyrirbæri og var hafður í stofum manna hér á öldum áður, einskonar frálagsborð fyrir bjórkönnur.

Raunar benti Halldór Blöndal á þetta í grein í sama blaði um jólin 2004:

Loks er rétt að hafa í huga, að könnustóll er til í gömlu máli og þýðir einfaldlega lítið borð, kollur, sem hægt var að tylla sér á í litlu lágreistu baðstofunni, ef þurfti, eða setja á könnu eða bolla ef svo bar undir.

Hjalti Már Björnsson veltir því upp á Hrafnasparki hvort við höfum verið að syngja forna drykkjuvísu fyrir börnin. Það er ekkert nýtt að vögguvísur séu ekki við hæfi barna. Það þarf ekki annað en að rifja upp dauðadjúpar sprungur kvæðisins Sofðu unga ástin mín eða andlitið sem bíður á glugga í Bíum bíum bambaló.

Þá var gott að fá innlegg Árna Björnssonar sem benti á það í Morgunblaðinu að það væri hundrað ára gamall misskilningur að vísan „Upp á stól stendur mín kanna" ætti við um jólasveina. Hún væri úr eldra danskvæði, sem til væri í afbrigðum víða á Norðulöndum, og væri ein gerðin svona:

Upp á stól, stól, stól

stendur mín kanna.

Níu nóttum fyrir jól

kemst ég til manna

og þá dansar hún Anna.

Þekkt afbrigði þess á norsku er:

Upp i lid og ned í strand

stend ei liti kanna.

Nie netter fyre jol

dansar jomfru Anna.

Árni sagði jafnframt að vísunni hefði fyrst verið skeytt saman við „Jólasveinar ganga um gólf" þegar Friðrik Bjarnason samdi lagið og birti í Nýju söngvasafni árið 1949.

Einnig telja margir að sungið sé um „gildan" staf en ekki gylltan; það bara hljóti að vera þannig. Eins og eitthvað hljóti að vera um lífshætti jólasveina. Í því samhengi skulum við horfa framhjá vangaveltum örfárra efasemdarmanna um að jólasveinar séu í raun ekki til. Gísli Sigurðsson á Árnastofnun rifjar upp í Fréttablaðinu að elsta gerð vísunnar hafi engan höfuðstaf, heldur sé önnur hendingin svohljóðandi: „hafa staf í hendi". Gyllti stafurinn sé seinni tíma bragarbót og í engum gerðum vísunnar sé gilds stafs getið. 

Svona eftiráskýringar eru stórvarasamar. Þegar ég söng Bí bí og blaka fyrir dóttur mína fannst mér allt í einu undarlegt að börnin „þömbuðu" fram á fjallakamba; hlytu þau ekki að ramba? Ég fletti upp orðinu þamba og viti menn, í þessu samhengi getur það ýmist þýtt að þau hafi sótt fast gönguna eða komið á eftir móð og másandi, - þannig er þeim farið sem elta lömb.

Eftirminnilegasta dæmi um eftiráskýringar varð efni einhverrar snjöllustu ritdeilu sem ég hef lesið, milli Þorsteins Gylfasonar heimspekings og séra Gunnars Kristjánssonar. Í fyrstu greininni, Ljósið sem hvarf, sem birt er í nýju ritgerðarsafni Þorsteins, Sál og mál, gagnrýnir Þorsteinn kenningar seinni tíma guðfræðinga; þeir líti á sköpunarsögu Biblíunnar sem einskonar dæmisögu sem sé jafnóskyld „náttúrufræði og sonnetta eftir Jónas eða fúga eftir Bach". Þorsteinn segir tvöfeldni þeirra eiga afskaplega lítið skylt við kristna trú.

Og að því marki sem hún þykist vera kristin trú er hún óheilindin uppmáluð: trúleysi í nafni trúar. Að réttu lagi er kristin kirkja ekki kjörbúð þar sem við kaupum rófur og baunir en ekki saltkjöt því okkur finnst það vont og höldum að það sé eitrað. Kristinn maður verður að trúa á allan kristin dóm: á upprisu holdsins og erfðasyndina, á himininn og helvíti og djöfulinn sjálfan og almáttugan Guð og hans einkason. Það er allt eða ekkert, fyrr og síðar.

En auðvitað er rótin að kenningum guðfræðinganna sú að á okkar dögum þykja kraftaverkin svo ótrúleg, meyfæðingin og upprisan. Best að sneiða hjá öllu slíku og líta á það sem dæmisögur. Þannig verður til nýr sannleikur. Og Guði langafa míns séra Árna Þórarinssonar er kastað í brennsluofn sögunnar og einnig samankuðluðu blaði með jólakvæðinu:

Jólasveinar ganga um gólf

með gylltan staf í hendi,

móðir þeirra sópar gólf

og flengir þá með vendi.

Upp á stól

stendur mín kanna,

níu nóttum fyrir jól

þá kem ég til manna.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér þykir hér gert fulllítið úr góðum og gildum eftiráskýringum þeirra sem fært hafa rök að því að kanna hafi staðið við hlið manns uppi á hól, trúlega himin-, himin- himinháum hól (þeim sama og hérahjónin lögðu leið sína yfir) en ekki uppi á stól. Frumgerð vísunnar

Uppi á stól
stendur mín kanna.
Níu nóttum fyrir jól
fer ég til manna.
hefur samkvæmt bestu eftiráskýringum sem tiltækar eru í fræðunum verið svona:
Uppi á hól
stend ég og kanna.
Níu nóttum fyrir jól
fer ég til manna.
Fólk sem ekki hefur innsýn í þennan fræðiheim á erfitt með að skilja hvernig lærdómsmenn geta skýrt eftirá hvernig kvæði voru fyrir mörgum öldum þótt allar heimildir séu glataðar. En vísindin láta ekki að sér hæða og með svipuðum aðferðum er hægt að endurgera vísur jafnvel þótt hvert einasta orð hafi skolast til í munnlegri geymd. Slíkar vísur eru fjölmargar. Þekktasta dæmið mun vera:
Úllen dúllen doff
kikkilani koff.
Koffilani bikkibani.
Úllen dúllen doff.
Glöggir lesendur sjá líklega í hendi sér að í þessu erindi eru öll orðin vitlaus. En sé þess gætt að vísan er greinilega ort um sumar af hagyrðingi sem kallaði sig Úlf og var að koma heim af engjum með sonardóttur sinni henni Dúllu, er hægt að átta sig á hvernig vísan hefur verið. Dúlla hefur verið ríðandi á geithafri en slíkir reiðskjótar voru töluvert notaðir á lengri leiðum eins og til dæmis kemur fram í sögunni af Hans klaufa. Dúlla hefur haldið á gúmmíöndinni sinni honum Daffa (enda gat Daffi hvorki synt né flogið frekar en aðrar gúmmíendur) og þau hafa áð á leiðinni og fengið sér kaffisopa en Dúlla hellt niður svo kaffið hefur sullast á bak hafursins. Þá kastaði Úlfur fram stökunni:
Úlfur, Dúlla og Daffi
dvöldu lengi í kaffi.
Kaffið lak á bukka bak.
Úlfur, Dúlla og Daffi.
Þessi kveðskapur hefur svo gengið mann fram af manni og brenglast í aldanna rás en nú þegar búið er að leiðrétta hann er mikilvægt að venja þjóðina af bulli og vitleysu eins og að segja „Úllen dúllen doff“.

Atli Harðarson (IP-tala skráð) 26.12.2006 kl. 23:03

2 Smámynd: Börkur Gunnarsson

Stórgóð grein og ekki síðri athugasemdirnar frá Atla.

Börkur Gunnarsson, 27.12.2006 kl. 13:42

3 Smámynd: Pétur Blöndal

Mér þætti gaman að sjá leiðréttingarsinnana fara höndum um vísur Æra Tobba, til dæmis Gjöfina:

Aglra geglru guglra stögl

og geglra rambið.

Gaglra stiglu giglru strambið

gaf hún þér ekki stærra lambið?

Var þó Æri Tobbi maður til að glíma við sálmaskáldið Hallgrím Pétursson í bundnu máli. Hallgrímur kvað við Tobba:

Þú hefur frá mér stolið streng

með strákapörum þínum.

Nú vil ég lausan láta dreng

með ljósum orðum mínum.

Tobbi svaraði:

Högtum bögtum töfratögtum

tönnum gapti.

Það lýgur þú með þínum kjafti.

Í Þjóðsögum og munnmælum Jóns Þorkelssonar segir raunar að konu Tobba hafi þá verið nóg boðið og kveðið:

Högtum bögtum krævra kvörn

kveddu ei meira Þorbjörn.

Pétur Blöndal, 28.12.2006 kl. 11:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband