Skáldskapur á torgi stjórnmálanna

Var að lesa færslu Guðmundar Magnússonar undir yfirskriftinni Saklaus fórnarlömb á ritvellinum, þar sem Guðmundur fjallar um ritdeilu Egils Helgasonar og Björns Bjarnasonar. Nokkuð skemmtileg átök það, þó að ekki séu þeir einu sinni sammála um hvort þeir séu andstæðingar. Um það snýst raunar ritdeilan.

En hitt er forvitnilegra að Björn teflir fram broti úr ljóðabálknum Hrunadansi eftir Matthías í dagbókarfærslu 9. nóvember:

Það er vegið að þeim sem vitja síns tíma með dug
eins og vandræðaskáld sem telur sjálfum sér borgið
en það er víst erfitt að komast á krassandi flug
í kastljósi frétta og venja sig sífellt við orgið
í álitsgjöfum sem hatast við annarra hug
og halda í gislingu þjóð sem ráfar um torgið
þar sem frelsið er iðkað og afskræmt eins og gengur
og enginn veðjar á frelsisgyðjuna lengur.

Egill svarar á mánudag í pistli undir yfirskriftinni Ónefni, stjórnmálaskýringar, leirburður og segir um útspil Björns: "Nú bið ég þá að rétta upp hönd sem finnst þetta góður kveðskapur. Ekki? Nei, þetta er hnoð og hugsunin flatneskja. Maður þarf ekki að bera mikið skynbragð á bókmenntir til að sjá það." 

Og skyndilega er ritdeilan farin að snúast um það hvort þetta sé góður kveðskapur hjá Matthíasi!

Af þessu hefur Guðmundur áhyggjur, skyldi öðlingurinn Matthías Johannessen vera orðinn saklaust fórnarlamb á ritvellinum. Fjandakornið. Matthíasi er sama!

Það er frekar að það skemmti honum að kveðskapur hans rati inn á torgið sem hann yrkir um. Með gagnrýni sinni er Egill því að hefja upp kveðskap Matthíasar; koma honum á "krassandi flug". Um leið botnar Egill fyrripartinn sem Matthías kastar fram.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband