Dagur í Hvíta húsinu

Það var mikil upplifun fyrir krumma að koma í Hvíta húsið. Og þarf víst ekki að koma neinum á óvart að húsráðandi þar eigi ævaforna ameríska eðalvagna, Kadilják og Pontiac. En hitt vita færri, að heill veggur á skrifstofunni í Hvíta húsinu er málverk eftir Dag Sigurðarson.

 

Hvíta húsið sem um ræðir er nefnilega skammt utan Reykjavíkur. Degi hafði orðið tíðrætt um að sig "vantaði vegg". Ólafur Gunnarsson rithöfundur, og húsráðandi í Hvíta húsinu, lét á endanum tilleiðast og Dagur flutti inn. Til stóð að verkefnið tæki þrjár viku, en auðvitað dróst það á langinn, enda skemmtilegur og inspírerandi félagsskapur, og ílengdist Dagur í Hvíta húsinu í þrjá mánuði.

Á föstudag fluttu svo krummar inn í Hvíta húsið með mökum, einn eftirmiðdag, og tók Ólafur á móti þeim af mikilli gestrisni - eins og þeir væru ekki ófínni pappír en Dagur Sigurðarson. Þar fræddust krummar meðal annars um það, að "hvíta húsið" svonefnda í skáldsögu Einars Kárasonar, Heimskra manna ráð, er hús Ólafs. Ólafur svaraði fyrir sig í skáldsögunni Blóðakur með því að koma lækninum fyrir í íbúð Einars. "Heyrðu, þetta er í minni íbúð!" sagði Einar.

Þetta var sögulegur dagur, föstudagurinn 22. febrúar, því það er dagurinn sem Ólafur kláraði næstu skáldsögu sína. "Nú veit ég að þetta verður bók," sagði hann. Aðspurður bætti hann við að reyndar væri ekki kominn söguþráður. Hann sagði þó lítillega frá efniviðnum, sem lofar góðu, en verður ekki upplýst um hér.

Ólafur segist sofa út og hefja ritstörf úthvíldur, það þýði ekkert að byrja í svartasta skammdeginu á morgnana. Og jafnvel þótt hann sé illa upplagður, þá byrji hann að skrifa, enda geti ræst úr slíkum dögum. "Það getur allt verið svart klukkan ellefu, en svo fyllist húsið af englum klukkan þrjú!" Og aðferð Hemingways höfðar til hans, að hætta þegar hann er í stuði, til þess að byrja aftur í stuði daginn eftir.

Ef aðeins allir húsráðendur í hvítum húsum væru eins og Ólafur.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband