Börkur valinn beygli ársins

Hrafnasparkið er fyrst með fréttirnar.

Félagi krummi, Börkur Gunnarsson "ófriðargæsluliði", sem nú starfar í Afganistan, hefur hlotið sæmdarheitið "beygli ársins". Kvenfélagið Beyglan stendur fyrir valinu, sem Halla Gunnarsdóttir veitir forstöðu, og er nafnbótin veitt fyrir frammistöðu í hádegisbolta Morgunblaðsins.

Valið fór fram á aðalfundi Kvenfélagsins á Hlemmi, "enda er alltaf hlýtt á Hlemmi", og þar var eftirfarandi ályktun samþykkt: 

Kvenfélagið Beyglan hefur gengið til atkvæða og kosið Beygla ársins 2007. 15 manns voru tilnefndir og eftir að gerð hafði verið grein fyrir kostum og göllum hvers og eins fór fram leynileg atkvæðagreiðsla. Niðurstaðan var sú að Börkur Gunnarsson, ófriðargæsluliði, hlaut öll greidd atkvæði, þ.e. eitt.

Börkur er vel að titlinum kominn. Hann er ætíð boðinn og búinn að bjóða Beyglunni far til og frá æfingum og hlýðir í öllu fyrirmælum hennar um reykleysi í bílnum. Ekki nóg um það heldur hafa Beyglan og hinn nýi Beygli verið alveg hreint ótrúlegt teymi á vellinum á liðnu ári og skemmst að minnast síðasta tíma ársins þegar mótherjarnir sáu ekki til sólar fyrir stórsóknum og ofurvörn Beyglunnar, Beyglans og félaga þeirra. Enn eftirminnilegra er þegar ofurteymið tók með sér Hjálmar aðalhönd og dularfullan aukamann og valtaði yfir mótherjana, sem þó þóttust svo miklu betri að þeir þyrftu varla að skokka. Skoraði Börkur þá u.þ.b. 18 mörk, og mörg þeirra eftir stórglæsilegar sendingar frá Beyglunni.

Börkur mun taka við Beyglafarandvestinu af Stefáni sæti sem hlaut titilinn 2006, um leið og sá fyrrnefndi snýr til baka frá Kabúl og sá síðarnefndi lætur sjá sig í fótbolta.

"Beygli ársins!?" sagði Börkur hrærður þegar Hrafnaspark náði tali af honum í Afganistan. "Ég klökkna, en ég brosi í gegnum tárin."

Börkur segist hafa gaman af lestri góðra bóka og útivist. 

"Ég hef hugsað mér að nota árið sem ég held titilinum til þess að ferðast vítt um lönd og vinna að því að gróðursetja frið og kærleika í vinaskógum heimsins."

Að lokum sagði hann, tregablandinni röddu: "Svo afhendi ég titilinn að ári."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband