Doris, svigrúm og gangstétt

LessingDoris May Tayler, betur kunn sem Doris Lessing, varð í kvöld elst til að veita bókmenntaverðlaunum Nóbels viðtöku og ellefta konan á 106 árum. Tíðindin bárust henni fyrst þegar hún steig úr leigubíl fyrir utan heimili sitt í lok árs 2007, eins og sjá má hér. Hún kippti sér ekkert upp við fregnina, enda staðið til í þrjátíu ár, og bað fréttamennina um svigrúm til að komast upp á gangstéttina. Svolítið eins og heimspekingurinn sem bað keisarann að stíga til hliðar því hann skyggði á sólina.

Foreldrar Doris Lessing voru breskir en hún fæddist í Persíu, nú Íran, 22. október árið 1919 og flutti með foreldrum sínum til Suður-Ródesíu, nú Zimbabwe, árið 1925. Það skiptust á skin og skúrir í æsku. Hún fékk strangt uppeldi hjá móður sinni, var meðal annars send í klausturskóla, þar sem nunnurnar hræddu líftórurnar úr skólabörnunum með sögum af bölvun og helvíti. Eftir það gekk hún í stúlknaskóla í Salisbury til þrettán ára aldurs. Þar með lauk formlegri skólagöngu hennar. Hún er því sjálfmenntuð að miklu leyti, eins og fleiri kvenrithöfundar frá Afríku, svo sem Nadime Gordimer og Olive Schreiner.

Lessing hefur sagt að erfið æska sé oft bakgrunnur skáldsagnahöfunda; það skapi stöðuga þörf fyrir að flýja veruleikann, stuðli að bóklestri og ýti undir fjörugt ímyndunarafl. Á meðal höfunda sem hún las í æsku voru Dickens, Scott, Stevenson og Kipling. Og síðar D.H. Lawrence, Stendahl, Dostojevski og Tolstoj. Móðir hennar sagði henni líka sögur á kvöldin og sjálf hélt hún vöku fyrir bróður sínum með því að skálda sögur.

"Það var eins og líf heillar kynslóðar kvenna stöðvaðist þegar þær eignuðust börn," sagði Lessing einhverju sinni. "Sumar urðu ansi hugsjúkar og ástæðan, að ég held, var sá mikli munur á því sem þeim var kennt í skóla að byggi í þeim og hvernig rættist svo úr þeim." Lessing hefur sagst frjálsari en flestar konur sem rithöfundur.

En það hefur kostað fórnir. Hún giftist Frank Wisdom nítján ára og eignaðist með honum tvö börn, en skildi við hann nokkrum árum síðar og flutti út frá fjölskyldu sinni. Hún gekk í Left Book Club, hóp kommúnista sem "las allt, og fannst ekkert tiltökumál að lesa". Gottfried Lessing var höfuðpaurinn; skömmu eftir að hún slóst í hópinn giftust þau og eignuðust son.

Lessing varð þó smám saman fráhverf kommúnistahreyfingunni, sagði skilið við hana árið 1954, en hafði áður flutt til London með son sinn, árið 1949. Sama ár sendi hún frá sér fyrstu skáldsögu sína, The Grass is Singing, og lagði fyrir sig skriftir. Tímamótaverkið The Golden Notebook kom út árið 1962. Og hún skrifar enn, ný skáldsaga kemur út í maí.

Nokkrir dagar voru í 88. afmælisdaginn þegar hún heyrði af Nóbelnum og sagði við fréttamenn: "I've won all the prizes in Europe, every bloody one, so ... it's a royal flush."  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband