Unga stúlkan sem er augljóslega eldri kona

Krummar leggja rækt við bloggvini sína. Við erum eins og húshrafninn, tyllum okkur á mæninn, vökum yfir mannaferðum, þiggjum það ætilegt sem við komumst í, en erum almennt til lítils gagns, raunar mestu óþurftar, - ef undan er skilið krúnkið. Þótti sumir flokki það sem garg.

Okkur krummum er umhugað um bloggvini okkar. Það ber kostulegur pistill krummans Barkar Gunnarssonar í Viðskiptablaðinu með sér um Kolgrímu, sem hefst á setningunni: "Kolgríma er ein af skemmtilegum bloggurum landsins". Í pistlinum upplýsist margt um bloggvinkonuna okkar, s.s. að hún er augljóslega ung stúlka sem er eldri kona. Og vitnað er í færslu á síðunni um hvernig fólk flokkar bloggið sitt:

"Sumir virðast líta svo á að spjall um köttinn þeirra sé ljóð og að nývakinn áhugi amerískra fjöldamorðingja á framsóknarmönnum eigi best heima með öðrum litteratúr. Aðrir flokka klám með íþróttum, hóli um Jón Sigurðsson, framsóknarmann, sem tónlist og uppáhaldið mitt; svitastorkna, skoppandi punka á lifandi karlmönnum undir mat og drykk."

Annars er athyglisvert að Kolgríma gefur nú fyllri upplýsingar en fyrr um persónulega hagi sína. Það kemur nefnilega fram undir mynd af Snæfellsjökli að hún heitir Ragnhildur Halldórsdóttir og býr í Norðvesturkjördæmi.

Hinn hagmælti Már Högnason er annar bloggvinur Krumma, sem kýs að fara huldu höfði, eða hvað? Í höfundarupplýsingum kemur fram að hann hafi verið drykkfelldur og morgunsvæfur námsmaður í félagsfræði í Lundi, en gefist upp á því og farið í meinatækni, því meira hafa verið upp úr því að hafa. Hann hafi ekki lokið prófi í því heldur, en þar sem samanlagður punktafjöldi samsvari fjögurra ára námi kalli hann sig "félagsmeinafræðing".

Þá segist hann reka "hjáfræðaþjónustu", veita hugsanaráðgjöf, aðstoða við skoðanamyndun, standa fyrir skyggnilýsingum, framleiða orkusteina og gælusteina á heimili sínu, leggja hendur á fólk, ásamt því að lesa í kaffibolla, vambir, spil, ský, lófa, augnbotna og fleira. Og hann yrkir:

Samfélagsins miklu mein
merkja engir læknar
í holdi þjóðar finna flein
félagsmeinatæknar.
Hvernig skyldi þetta fólk vera í viðkynningu, Kolgríma og félagsmeinatæknirinn, sem er svona ungt og gamalt í andanum?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolgrima

Við Már eigum greinilega margt sameiginlegt

Kolgrima, 18.3.2007 kl. 19:34

2 identicon

Það eru fleiri ungir og gamlir í andanum en Kolgríma og Már...

hke (IP-tala skráð) 18.3.2007 kl. 20:30

3 identicon

Morgunsvipinn mæddan tel

 má vart spegil líta

en mér líður oftast vel

ef ég næ að skíta. 

Már Högnason (IP-tala skráð) 21.3.2007 kl. 11:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband