Samviskubit og rödd guðs í manninum

Fátt er hvimleiðara og ónotalegra en samviskubit. Í vikunni var samviskubiti smeygt in um lúguna hjá mér. Þannig kemur samviskubitið stundum aftan að manni. En að þessu sinni var samviskubitið saklaust, - boðskort á opnun sýningar Ragnars Kjartanssonar sem ber einmitt þessa yfirskrift.

Útleggingin á orðinu samviska er afar skáldleg í Íslenskri orðabók Máls og menningar (1992): "Siðgæðisvörður vitundarinnar; rödd guðs í manninum..."

Ég er reyndar ekki viss um að guð komi málinu mikið við, að minnsta kosti ekki þegar ég iðrast einhvers. En kannski hefur rödd guðs ómað í huga þess manns sem samdi orðskýringuna.

Það væri einna helst að Ragnar Kjartansson væri guðinn sem talaði til mín. Eða Hannes Pétursson. Hann orti áleitið kvæði sem ber yfirskriftina Samvizka:

Ég hélt til skógar
undir há hvelfd þök
langt inn í söng
og sumar.
Gekk einstig og rjóður
undir rísandi sól
unz bar mig á slóð
blóðferil manns inn í þykknið...

Nú líður á dag.
Ég hef leitað hins særða
sem á undan mér fer.
Ó fann ég of seint
sporaslóð hans?
Yrði hjálp mín til einskis?

Nú líður á dag
og ég leita þessa manns.

Þorsteinn frá Hamri setti líka upp hatt Samvizkunnar:

Að vísu lýsir oss sólin
og sálirnar hjala
í svikulu trausti um skóginn
og villast um skóginn;
dagurinn líður
unz drýpur af trjánum blóðið
við götuna inní svefninn
og gegnum svefninn.

Ég myndi iðrast þess stórum ef ég færi ekki á sýningu Ragnar Kjartanssonar; samviskan myndi ekki þola það. Fyrir þá sem fylgja sporaslóðinni í leit að honum, þá er sýningin í galleríi i8.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband