10.3.2007 | 23:00
Frumvarp til samkeppnislaga og mál olíuforstjóra
Í fréttum Stöðvar 2 í kvöld var vikið að fyrirliggjandi frumvarpi til breytinga á samkeppnislögum með svofelldum hætti (tekið af visir.is):
Frumvarp til breytinga á samkeppnislögum sem nú er til meðferðar hjá efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis gæti haft bein áhrif á niðurstöðu dómstóla í málinu gegn forstjórum olíufélaganna. Sjálfstæðismenn og framsóknarmenn eru þó ekki á eitt sáttir en frumvarpið kveður á um skýrari refsiábyrgð einstaklinga í samkeppnismálum.
Samkvæmt heimildum fréttastofu vilja Sjálfstæðismenn breyta frumvarpinu þannig að refsiábyrgð verði eingöngu hjá einstaklingum ef um skýran ásetning er að ræða eða stórfellt gáleysi. Saksóknari efnahagsbrota hefur komið fyrir nefndina lýst áhyggjum sínum af þeirri breytingu en slíkt myndi auka sönnunarbyrði og gera ákæruvaldinu þar með erfiðara að sanna sök á einstaklinga í slíkum málum.
Héraðsdómur vísaði máli gegn olíuforstjórunum þremur frá fyrir skemmstu meðal annars á þeim forsendum að ekki væri hægt að sækja einstaklinga til saka í samráðsmálum. Málið er nú hjá Hæstarétti sem getur valið að vísa málinu aftur heim í hérað. Frumvarpið kveður á um að lögfest verði nýtt ákvæði um refsiábyrgð allra starfsmanna, stjórnarmanna og samtaka, sem hvetja til eða hafa með sér ólöglegt samráð.Verði það lögfest fyrir þinglok þurfa dómstólar að taka tillit til þess enda kveða hegningarlögin á um það að ef lög breytast frá því verknaður er framinn þar til dómur fellur skuli ávallt hafa nýrri lögin til hliðsjónar.
Ég hef í framhaldi af þessari frétt, og þá einkum síðasta hlutanum, verið spurður að því hvort þetta þýði að Alþingi geti nú með því að lögfesta nýtt ákvæði í samkeppnislög, sem mæli fyrir um refsiábyrgð starfsmanna fyrirtækja vegna ólögmæts verðsamráðs, haft áhrif á niðurstöðu þess máls sem gert er að umtalsefni í fréttinni.
Af þessu tilefni er mikilvægt að fram komi til nánari skýringar að í 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 segir efnislega að skylt sé að dæma eftir nýrri lögum, bæði um háttsemi og refsingu, ef refsilöggjöf hefur breyst frá því verknaður var framinn og til þess er dómur gengur. Í samræmi við stjórnskipulegt bann við afturvirkni refsilaga í 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar er þó einnig kveðið skýrt á um það í hegningarlagaákvæðinu að aldrei megi "dæma refsingu, nema heimild hafi verið til þess í lögum, þegar verk var framið, og ekki þyngri refsingu en orðið hefði eftir þeim lögum".
Ef Hæstiréttur fellst á það með héraðsdómi í umræddu máli að gildandi samkeppnislög lýsi ekki refsiverðri háttsemi starfsmanna fyrirtækis, þótt ólögmætt verðsamráð kunni að hafa átt sér stað í rekstri þess, þýðir þetta með öðrum orðum að nýtt ákvæði um það efni, sem lögfest yrði á næstu dögum eða vikum, gæti ekki haft efnisleg áhrif á niðurstöðu þess máls. Telji Hæstiréttur á hinn bóginn að núgildandi samkeppnislög séu skýr um það efni þá virðist nægjanlegt samkvæmt gildandi lögum að ákæruvaldið sanni að starfsmaður fyrirtækis hafi sýnt af sér almennt (einfalt) gáleysi til að refsiábyrgð stofnist. Í frétt Stöðvar 2 er lýst hugmyndum þingmanna Sjálfstæðisflokksins um að ákvæðið í frumvarpinu verði bundið við þau tilvik þegar starfsmaður fyrirtækis hefur sýnt ásetning í verki eða a.m.k. stórfellt gáleysi. Fréttin gengur því aðeins út á það að verði slíkt ákvæði að lögum, áður en dómur gengur í umræddu máli, þá verði dómstólar í ljósi áðurnefndrar 1. mgr. 2. gr. hegningarlaga að áskilja að ákæruvaldið sýni a.m.k. fram á stórfellt gáleysi hjá ákærðu til að skilyrði séu til sakfellingar. Ákæruvaldið kynni þá að standa frammi fyrir erfiðara viðfangsefni en leiðir af gildandi ákvæðum samkeppnislaga.
Róbert R. Spanó
Um bloggið
krummi
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- annapala
- arnih
- arnljotur
- begga
- birgitta
- bjarnihardar
- bleikaeldingin
- davidlogi
- don
- ea
- fararstjorinn
- feministi
- gattin
- geislinn
- grettir
- halldorbaldursson
- hallkri
- handsprengja
- handtoskuserian
- hannibalskvida
- herdis
- hlynurh
- hof
- hoskuldur
- hrollvekjur
- hugsadu
- hux
- ingibjorgelsa
- jonasantonsson
- kaffi
- kiddirokk
- kjarninn
- kjoneden
- kolgrima
- listasumar
- ljonas
- lostintime
- maggaelin
- magnusb
- malacai
- maple123
- nosejob
- pallvil
- ragnhildur
- reni
- ruthasdisar
- seth
- sigurgeirorri
- stebbifr
- steinibriem
- theld
- tulugaq
- vefritid
- vglilja
- vinursolons
- vitinn
- arniarna
- gisliblondal
- skak
- athena
... ... ... ... ... ... ... ... ...
Athugasemdir
Haaaaaaaaa!!!!!!!!!
Er ekki nóg að segja "Refsilög lög og íþyngjandi réttarheimildir eru aldrei afturvirk".
Þetta er meirra að segja frekar langort.
Kristján Sig. Kristjánsson (IP-tala skráð) 11.3.2007 kl. 14:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.