að mynda sér skoðun

Ég veit í sjálfu sér ekki hversvegna þessi skyldurækni er svona djúp í manni að mynda sér skoðun um alla skapaða hluti en hef verið hugsað til þess í hinu flókna Bolludagsmáli. Málið er svo flókið og Hreinn Loftsson svo sannfærandi í skrifum sínum á meðan mér finnst Davíð og Illugi hafa verið það líka að manni getur fallist hendur.

Manni finnst það mikilvægt í lýðræðisríki að leggja skynsömum málum lið og andmæla óskynsömum málum þótt hagur manns tengist ekki málinu á nokkurn hátt. Svo er maður alltaf að meiða einhvern eða særa með skoðunum sínum þannig að maður er tekinn fyrir á pöbbum og stoppaður úti á götu af einhverjum aðilum sem eiga hagsmuna að gæta í málinu.

Störf mín hafa yfirleitt tengst því að hafa skoðun á hlutunum, hvort sem það hefur verið við kvikmyndaleikstjórn, bókaskrif eða blaðamennsku þannig að þetta venst. En það er eiginlega aðeins eitt starf þarsem ég hef fengið að njóta þess að hafa sterkar og skýrar skoðanir án þess að særa nokkurn mann. Það var þegar ég sá um heimsmeistarkeppnina í knattspyrnu árið 1998 fyrir Vísi.is. Ástríðufull skrif mín um boltann vöktu aðeins gleði manna, jafnvel þótt ég dæmdi óhikað suma vinsæla knattspyrnumenn sem fitubollur, litu út einsog bifvélavirkjar, væru óþarfa eyðsla á andrúmslofti, plássi og peningum. Þannig geta jafnvel ósanngjarnar og fordómafullar yfirlýsingar bara verið til gleði á meðan mennirnir sem fá dómana yfir sig eru fjarri. Annað væri uppi á teningnum ef ég hefði staðið fyrir framan þessa menn og dæmt þá með þessum hætti. Maður skilur alveg að leikari geti brugðist illa við þegar maður með ástríðufullum lýsingum segir honum hvað hann hafi staðið sig hörmulega. En maður verður að segja honum það, það er hluti af starfi manns. Aftur á móti verður maður ekki að mynda sér skoðun á Bolludagsmálinu, Brennu Njálssögu, stríðinu í Súdan eða nýjustu plötu Múm. Þá er bara að halla sér aftur á bak í sófanum og kveikja á boltanum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolgrima

Skoðun á Brennu Njálssögu? Þú hlýtur að vera að grínast!

Kolgrima, 28.2.2007 kl. 17:21

2 Smámynd: Börkur Gunnarsson

já ég er að grínast með brennunjálssögu, ég hef mjög sterkar skoðanir á henni. lengi lifi skarphéðinn rappari! og flosi var fitubolla!

Börkur Gunnarsson, 28.2.2007 kl. 21:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband