Ekki sama Krónikan og Krónikan

Nú er búið að blása í lúðra og tilkynna nýtt nafn á vikublaðið Krónikuna. En Sigríður Dögg Auðunsdóttir ritstjóri virðist ekki alveg hafa unnið heimavinnuna ef marka má Mbl.is, því þar sagði hún að skólablað Fjölbrautaskólans í Ármúla hefði borið nafnið, en það hefði ekki komið út í nokkur ár. Þá sagði hún höfund nafnsins vera Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur á Stöð 2.

Friðrik Kristjánsson bregst ókvæða við á vefsíðu sinni.

Ég sit í nemendaráði í Fjölbrautaskólanum við Ármúla og sé meðal annars um útgáfu á blaðinu Fávitinn sem kemur út mánaðarlega í skólanum. Mér sárnar mjög að lesa þessa frétt, ég veit ekki hver fann nafnið upphaflega en að segja að „Höfundur nafnsins er Þóra Kristín Ásgeirsdóttir á Stöð 2" er eins langt í frá að vera rétt og mögulegt er.

Á hinn bóginn þá hefur Krónikan komið út á hverju einasta ári í mjög langan tíma, veit þó ekki hve langan. Hér fyrir framan mig hef ég Kronika, Skólablað Fjölbrautaskólans við Ármúla, 2006 útgáfu.

Og hann heldur áfram:

Skólablaðið okkar á síðasta ári taldi um 65 blaðsíður. Það er hið glæsilegasta og kemur út aftur nú fyrir sumarið.

Þá veltir hann því fyrir sér hvernig viðbrögðin hefðu verið ef á forsíðu Mbl.is hefði birst frétt um „að kona að nafni Þóra Kristín hefði fundið upp nafnið Viljinn og að einhver Sigríður Dögg væri ritstjóri þess."

Auðvitað getur margt farið úrskeiðis á síðustu metrunum þegar stofnað er til blaðaútgáfu. Þá er erillinn mikill og stundum verður mönnum á. Ég er ekki viss um að útgáfa vikublaðsins Krónikunnar muni grafa undan forvera sínum í Ármúla. Ég leyfi mér raunar að efast um það, þar sem miðlarnir eru gjörólíkir. Samt verða orð Sigríðar Daggar að teljast óheppileg og eflaust leitar hún sátta við kollega sína úr Ármúlanum.

Ég frétti fyrr í dag að samstarfsmaður minn til margra ára, Helga Kristín Einarsdóttir, sem hefur jafnan setið á næsta borði eða í næsta bás við mig, hefði ráðið sig til vikublaðsins nýja. Ég vil nota tækifærið og óska henni til hamingju með starfann. Allir lesendur Morgunblaðsins vita hvílíkur úrvals blaðamaður hún er. Og ég mun sakna hennar af ritstjórninni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lárus Blöndal

Fékk ekki Sigríður Dögg blaðamannaverðlaun fyrir rannsóknarblaðamennsku sína. Það boðar ekki gott fyrir hið nýja blað ef að rannsóknarvinna vegna hins nýja nafns, Krónikan, skilar svona niðurstöðum.

Lárus Blöndal, 30.1.2007 kl. 19:17

2 Smámynd: Kolgrima

Svo einfalt að fletta nafninu upp í Gegni og sjá, þar er Krónika síðustu ára á Landsbókasafni.

Kolgrima, 30.1.2007 kl. 20:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband