Maskulínistafélag Íslands

Ég er ekki femínisti.  Ég er fyllilega fylgjandi jafnrétti og styð heilshugar að jafna út allt misrétti gegn konum, ekki síst fyrir hönd dóttur minnar.  Mér finnst ofbeldi gegn konum vera ólíðandi, launamunur þar sem karlmönnum er borgað meira en konum fyrir sömu vinnu finnst mér vera smánarblettur á annars ágætu samfélagi okkar og ég er sannfærður um að heimurinn verði betri ef fleiri konur komast í valdastöður.  Ég vil samt ekki kalla mig femínista.

Það gleymist stundum að hvað varðar ójafnræði með kynjunum er það ekki alltaf kvenkynið sem er verr sett.  Þegar kemur t.d. að æðri menntun eru í dag að nálgast að tveir þriðju háskólanema séu konur, þar hallar á karlmenn.  Sjálfsvígstíðni er marktækt hærri meðal karla og hæst meðal einstæðra eldri karla og mun fleiri karlmenn deyja ungir í slysum.  

Ofbeldi gegn konum er mikið rætt og er sannarlega þörf á að berjast gegn.  Ég sé hins vegar einnig þó nokkuð í starfi mínu af kona hendi blómavasa í andlit karlmanns eða viðlíka ofbeldi og slíkt er minna talað um.  Í hefðbundnu kynjamynstri nútímans getur síðan verið að karlmaðurinn skammist sín fyrir að hafa verið laminn af konu og kæri ekki.  Ofbeldi kvenna gegn karlmönnum held ég því að sé meira en margir gera sér grein fyrir og ekki hef ég heyrt það vandamál rætt meðal femínista. 

Ég hef heldur ekki orðið mikið var við að femínistar séu að leggja áherslu á að auka hlutföll karlmanna í hefðbundnum kvennastöðum.  Engir ljósfeður eru starfandi á Íslandi í dag þó það hafi verið vel þekkt á Íslandi fyrr á öldum og sé ekki óalgengt í Danmörku í dag.  Væri það verðugt efni jafnréttisbaráttu að skoða þennan mun meira. 

Baráttuaðferðir femínísta finnst mér yfirleitt smekklegar og takast vel, en þó vill tónninn stundum verða óþarflega bitur.  Búandi mitt í 101 hef ég t.d. fylgst með þeim kröfugöngum sem reglulega er arkað í hér í miðbænum og á síðasta ári fannst mér sláandi að bera saman kröfugöngur kvenna og samkynhneigðra.  Á gay pride storma samkynhneigðir fram í öllu sínu litríka veldi og leggja áherslu á gleðina í sínum anga samfélagsins, að þeir séu eðlilegur hluti litrófsins og séu bara eins og þeir eru.  Hommar og lesbíur eru líklega þeir einu sem dansa á götum Reykjavíkurborgar.  Í göngunni er hvergi er að sjá heift eða andúð, jafn vel þó hörmulega hafi verið farið með samkynhneigða hér á landi líklega öldum saman líkt og gert er enn víða um heim.  Ég er sannfærður um að það sem rekur marga til að taka þátt í hinsegin dögum er einfaldlega að samkynhneigðum tekst að gera baráttu sína skemmtilega og þannig virkja þeir fólk með sínum réttlætismálstað.

Þegar ég mætti með dóttur minni á kvennafrídeginum til að sýna samstöðu með réttindabaráttu kvenna var yfirbragðið ansi hreint ólíkt stemningunni á gay pride.  Í stað gleðinnar var reiðin meira áberandi.  Í þeim ræðubútum sem ég heyrði var farið nokkuð ófögrum orðum um karlkynið og þátt þess í að kúga konur, í stað þess að lögð væri áhersla á alla dásamlegu eiginleika kvenkynsins og þá vannýttu möguleika sem búa í þessum helmingi mannkynsins.   Ég var kominn þarna með dóttur minni til að styðja við jafnrétti kynjanna, ekki til að taka við skömmum fyrir hönd kynbræðra minna.  Við feðginin gáfumst fljótlega upp.

Ég er einlægur jafnréttissinni en ekki femínisiti.   Samkvæmt orðsins hljóðan þýðir femínismi kvenmenning og að berjast fyrir hagsmunum kvenþjóðarinnar er gott og gilt, en það er ekki rétta yfirskrift jafnréttisbaráttu.  Fyrst að starfandi eru samtök femínista má færa fyrir því rök að stofna þyrfti samtök maskúlínista til að standa vörð um hagsmuni karlkynsins, amk til að skapa heilbrigt mótvægi við þau samtök sem vinna að því að standa sérstaklega vörð um hagsmuni kvenþjóðarinnar.  Svo mætti stofna kvennahóp maskúlínistafélagsins til að vinna að þeim málefnum kvenna sem þær þurfa að laga að mati karlmanna.

striphandler

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Þetta  fannst mér góður pistill. Ég er kona og ekki feminísti eins og flestar vinkonur mínar. En styð allt sem þú segir hér. Þessi reiði og bitri undirtónn er leiðinlegur. Sjáið þð ekki fyrir ykkur konur dansa á torgum úti klæddar litfögrum kjólum  og klútum..syndjandi og dansandi af gleði yfir að vera þessi frábæsri ómissandi hinn helmingur mannkyns. Konur eru bara æðislegar. Og menn eru líka æðislegir. Leynast reyndar gölluð eintök innan um á báðum stöðum. Hugarfarið er að breytast og ég efast ekki eitt augnablik um að feministar eiga alveg sinn þátt í því. Kannski bara núna tímabært að skipta um taktík og breyta  gamaldags hugarfari yfir í hamingju og jafnan rétt okkar allra.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 10.2.2007 kl. 15:00

2 Smámynd: Kristján Leósson

Takk fyrir Hjalti. Góð lesning kl. 4:30 um nótt að gefa tvíburum pela =)

Kristján Leósson, 11.2.2007 kl. 04:36

3 Smámynd: Ingibjörg Stefánsdóttir

Þú gleymir því að af ójafnrétti gagnvart einu kyninu leiðir ójafnrétti gagnvart hinu. Ef konur hafa lægri laun en karlar þá er meiri pressa á karla að standa sig í að skaffa. Ef karlar beita ofbeldi þá er það oft vegna þess að þeir hafa sjálfir verið beittir ofbeldi, kannski af öðrum körlum. Það er líka kannski vegna þess að þeir hafa ekki lært að tala um tilfinningar eða sýna þær á annan hátt en með hnefunum. Ójafnréttið setur okkur í bása, karla í eina gerð og konur í aðra. Það er ekki gott fyrir neinn. Þess vegna er feminisminn svo mikilvægur. Og veistu hvað? Það er oft mjög gaman hjá feministunum!

Ingibjörg Stefánsdóttir, 11.2.2007 kl. 15:34

4 Smámynd: Kristján Leósson

Ef básarnir eru af hinu illa, eigum við þá ekki að leggja niður femínisma og maskúlínisma og berjast saman fyrir jafnréttinu, t.d. fylgja ábendingu Hjalta og skipuleggja Equal Pride göngu niður Laugaveginn.

Kristján Leósson, 11.2.2007 kl. 17:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband