24.1.2007 | 15:44
Hætti ég að verða ný-íhaldsmaður út af handbolta?
Þar sem ég er nú staddur í veröldinni hef ég helst aðgang að bandarískum sjónvarpsstöðum (sem hlýtur að henta mér, nýmunstruðum ný-íhaldsmanninum vel), og nokkrum arabískum, sem oftast eru mér lítt að gagni. Á íþróttasviðinu bjóða bandarísku sjónarpsstöðvarnar upp á endalausar heimsmeistarakeppnir í íþróttum sem ég hef enga tengingu við, amerískan fótbolta og hafnarbolta. Öll liðin sem keppa í þessum heimsmeistarakeppnum eru bandarísk. Síðasta sumar var heimsmeistarakeppni í hefðbundnum fótbolta og fór lítið fyrir honum á bandarísku stöðvunum. Útsjónarsamir vinnufélagar mínir náðu sér í gervihnattadisk, brutu kóðann held ég og ég naut úslitaleikjarins í félagsskap Ítala sem báru sigurorð af Frökkum, erkifjendunum.
Nú er önnur heimsmeistarakeppni í gangi sem bandarísku sjónvarpsstöðvarnar vita ekki af enda koma þar saman lið frá fleiru en einu landi. Heimsmeistarakeppnin í handbolta fer fram í Þýskalandi. Íslenska liðið hefur spilað í Magdeburg í fyrrum A.-Þýskalandi. Þar hefði ég komið að gagni enda bjó ég þar í grennd á síðustu öld, í Leipzig. Þarna þekki ég krárnar og kann að vera bulla. Heimavöllur minn. Ég hef fylgst vel með umfjöllun um leikina í gegnum Netið og gott að ég var fjarri löndum mínum öllum eftir leikinn móti Úkraínu. Eftir þann leik taldi ég möguleika strákanna okkar" enga vera. Ekki myndum við vinna Frakka. Ég hirti ekki um að fara út á skrifstofu seint að kvöldi til að kanna lokatölur. Niðurlæging biði morguns. Undrunin og gleðin var mikil þegar tölvan var ræst næsta dag og úrslitin könnuð. Það er undarlegt að vera einangraður í þjóðarstolti sínu, fjarri öllum löndum sínum, hafa engan til að ræða málin við. Ég vinn með Dönum og veit að þeir hafa vit á handbolta. Samt er varla hægt að monta sig við Dani, þeir hafa húmor fyrir flestu öðru en því að Íslendingur hafi þjóðarstolt og að íslenska landsliðinu, í hvaða íþrótt sem er, vegni betur en því danska.
Ég gatlas allar íþróttasíður þennan daginn. Allt var í sama stílnum, íþróttafréttamannastílnum, sem nær ekki að verða dýpri en tilefnið býður upp á, en allt var það jafn gaman. Ég leitaði meira að segja út fyrir landsteinana eftir bensíni og þessi klausa í franska dagblaðinu Le Monde (sem ég les sjálfsagt vegna þess að ég er ný-íhaldsmaður) dillaði mér mest:Visiblement, l'atmosphère était trop bonne autour de cette équipe de France", a constaté avec amertume le sélectionneur Claude Onesta. "Quand j'essaie de leur dire qu'ils ne sont pas les meilleurs du monde, j'ai parfois l'impression de prêcher dans le desert.
Franski landsliðsþjálfarinn lýsir hvernig honum leið eins og hrópandanum í eyðimörkinni" (gáfumannafrasi sem Ingibjörg Sólrún notaði árum saman og kollegar, t.d. Mörður Árnason. Þetta hlýt ég að vita af því að ég er ný-íhaldsmaður) þegar hann reyndi að segja frönsku landsliðsmönnunum, hinum bláu, að þeir væru ekki bestir í heimi. Þeir héldu það greinilega - þar til á mánudagskvöld.
Í gærkvöldi, degi eftir þennan glæsilega leik, er ég að flippa á milli stöðva á sjónvarpstækinu mínu og á einni arabísku stöðinni er handboltaleikur, Ísland 0 - 0 Frakkland. Leikurinn sýndur sólarhring of seint og ég kem inn í byrjunina! Hvílík lukka. Ég horfði í andakt á sólarhringsgamlan leikinn og sá að engu hafði verið logið í lýsingum blaðanna. Loksins komu arabísku sjónvarpsstöðvarnar að gagni. Ég hafði tekið eftir að þar var sýndur handbolti, en eingöngu ef trúbræður voru að keppa líkt og Marokkó, Egyptaland, Quatar eða Túnis. Ísland leikur við Túnis í kvöld, ég hef veika von um að sjá þann leik beint. Ég veit þó ekki hvort ég þurfi að endurskilgreina ný-íhaldsmennsku mína ef ég er farinn að sitja um sjónvarpsefni á arabískum sjónvarpsstöðvum. Góð ráð um það væru vel þegin frá reynslumiklum blaðamönnum og þjóðfélagsrýnum.
Steinar Þór Sveinsson
Um bloggið
krummi
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- annapala
- arnih
- arnljotur
- begga
- birgitta
- bjarnihardar
- bleikaeldingin
- davidlogi
- don
- ea
- fararstjorinn
- feministi
- gattin
- geislinn
- grettir
- halldorbaldursson
- hallkri
- handsprengja
- handtoskuserian
- hannibalskvida
- herdis
- hlynurh
- hof
- hoskuldur
- hrollvekjur
- hugsadu
- hux
- ingibjorgelsa
- jonasantonsson
- kaffi
- kiddirokk
- kjarninn
- kjoneden
- kolgrima
- listasumar
- ljonas
- lostintime
- maggaelin
- magnusb
- malacai
- maple123
- nosejob
- pallvil
- ragnhildur
- reni
- ruthasdisar
- seth
- sigurgeirorri
- stebbifr
- steinibriem
- theld
- tulugaq
- vefritid
- vglilja
- vinursolons
- vitinn
- arniarna
- gisliblondal
- skak
- athena
... ... ... ... ... ... ... ... ...
Athugasemdir
Sælinú félagi Steinar,
Ekki veit ég um nýhaldsemi þína, en hitt veit ég að hafirðu aðgang að netinu geturðu séð flestalla leikina á www.sportdigital.tv gegn vægu gjaldi og komist þannig hjá því að vera stimplaður pólitískt á nokkurn hátt. Sjálfur hef ég nýtt mér sportdigital til hins ýtrasta hér í Danaveldi og ekki orðið var við að það breyti pólitískum skoðunum mínum mikið.
Bestu kveðjur á vígstöðvarnar,
Breki
Breki Karlsson, 24.1.2007 kl. 22:15
Takk fyrir thad Breki, alltaf lumar thu a godu radi. Eg thekki thessa sidu en hins vegar hondlar nettengingin her ekki beinar utsendingar, reyndar ekki einu sinni obeinar. St
Steinar (IP-tala skráð) 25.1.2007 kl. 06:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.